Þriðjudagur 26.05.2009 - 15:03 - 3 ummæli

Ótti, eymd og hótanir

Sannarlega eftirtektarvert að sveitarstjórar og sveitarstjórnarmenn eru ekki allir undir hælnum á LÍÚ eða útgerðareigendum í byggðarlaginu – þeir Grímur Atlason í Dölum, áður Bolungarvík, og ekki síður Ómar Már Jónsson á Súðavík eru harðorðir í Fréttablaðinu í dag (hér) eftir mikla áróðursherferð LÍÚ, Sjálfstæðisflokksins og ýmissa sveitarstjórna undanfarnar vikur gegn fyrningarleiðinni.

Ómar telur að háttalag sveitarstjórnarmanna kunni að stafa af hótunum frá útgerðarfyrirtækjunum: „Ég undrast viðbrögðin og velti því fyrir mér þegar ég heyri henni andmælt af slíku offorsi að sveitarstjórnarmenn kunni að vera undir pressu frá útgerðarmönnum um að standa vörð um þeirra hag því annars selji þeir aflaheimildirnar í burtu.“

Aðrir velta fyrir sér ályktunum frá sveitarstjórnum sem einmitt hafa þá reynslu að útgerðarfyrirtæki – á staðnum eða fjarri – selja eða flytja aflaheimildirnar í burtu. Þar á meðal er Ísafjarðarkaupstaður með bæjarstjórann og Eyjarpennann Halldór Halldórsson fremstan í flokki, greinilega búinn að steingleyma Guggunni góðu. Ætli Grímur Atlason hafi ekki einmitt haft þvílík dæmi í huga þegar hann segir lítið öryggi „að nær allt atvinnulíf eins sveitarfélags velti á geðþótta eins útgerðarmanns“.

Ótti

Þeir eru núna í fyrsta sinn í tuttugu ár hræddir – við að missa úr höndum sér „eignina“ sem þeir töldu sig hafa tryggt. Eignarhugmyndin er orðin þeim svo inngróin að í Mogganum um helgina líkti einn þeirra fyrningarleiðinni við það að smámsaman væri ráðist inn á heimili fjölskyldu og tekið af henni eitt herbergi í einu þar til ekkert yrði eftir. Hlutdeild í heildarafla – sem veitt er ókeypis en tímabundið samkvæmt lögum sem tiltaka að nytjastofnar séu sameign þjóðarinnar – er í huga sægreifans orðin einsog stofan í einbýlishúsinu.

Eymd

Skuldsetning fyrirtækja í sjávarútvegi er sögð vera þvílík að mörg fyrirtækjanna væru gjaldþrota ef að þeim væri gengið af hörku. Önnur hinsvegar ekki. Um þetta eru því miður ekki heimildir, heldur ekki um ástæður fyrir þessum miklu skuldum. Nema menn vita um þyrlu Magnúsar Vinnslustöðvarkonungs í Eyjum (sjá góða mynd hjá Teiti!), þar sem bæjarstjórinn hrópar auðvitað hvað hæst. Við þurfum að fá betri skýringar á þessari stöðu. Þar á meðal hvað hvert þeirra um sig á af ‚upprunalegum‘ kvóta. Og hverjar tekjur fyrirtækjanna hafa verið af viðskiptum við leiguliða.

Hótanir

Og nú skal verja vígið. Ráðið er að æsa til uppþota á landsbyggðinni, með óbirtum skýrslum, hálfkveðnum vísum og óbeinum hótunum – koma í uppnám taugaslökum sveitarstjórnarmönnum sem þurfa í kosningar að vori, og hræða þingmennina, sérstaklega landsbyggðarfulltrúa stjórnarflokkanna. Þó eru það einmitt landsbyggðarþorpin sem hafa þurft að líða á tímum gjafakvótans og sægreifanna. Þaðan hafa peningarnir einkum verið teknir til að stofna tuskubúðir í kringlum og smárum, breyta útgerðarhlut í hlutabréf í bönkunum, nú eða bara í sumarhús á Spáni.

Þessvegna er gott að sjá í Fréttablaðinu að sumstaðar eru menn úti á landi enn með öllum mjalla.

Og svo óvissan – í 26 ár

Hinsvegar er rétt hjá mönnum einsog Elliða Vignissyni í Eyjum að óvissa um reglur og rekstrargrunn er ekki góð fyrir neina atvinnustarfsemi. Sú óvissa hefur því miður verið fyrir hendi í sjávarútvegi allt frá því kvótakerfið varð til í frumvarpsformi árið 1983 – í rúman aldarfjórðung. Nú er loksins pólitískur möguleiki á breytingum sem lengi hafa notið meirihluta meðal þjóðarinnar. Þessvegna eiga útgerðarmenn, sjómenn, verkafólk og aðrir haghafar í sjávarútvegi – sem er sama og allt Ísland – að taka höndum saman um nýjan grundvöll sem byggist á réttlæti og skynsemi, sem tryggir mannréttindi á borð atvinnufrelsi, og sér til þess að bæði hagnist eigendur sjávarauðlindarinnar og nýtendur hennar, þjóðin og sjósóknararnir. Hinn mikli kostur fyrningarleiðarinnar – til dæmis í útgáfu Jóhanns Ársælssonar (hér) – er einmitt sá að eytt er óvissu um eignarhald kvótans og gjald fyrir hann, einhverja mikilvægustu þætti í rekstrargrundvelli sjávarútvegsfyrirtækis.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Gott hjá þér Mörður. Langflestir Vestfirðingar fagna breytingum á kvótakerfinu og að þeim ótta að „kvótaeigendur“ selji kvótan úr byggðalaginu, sé eytt.
    Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ er varla sjálfráður í skrifum sínum um kvótakerfið enda eru sumir bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins furðu lostnir vegna skrifa hans.

  • Ekki er ég á móti breytingum á kvótakerfinu,né nokkru öðru kerfi séu þær til
    batnaðar og vel getur verið að boðaðar breytingar ríkistjórnarinnar verði það þegar upp er staðið. Ég hef ekki þekkingu á málinu sem gerir mig bæran til að dæma um það.
    Hitt sýnist mér augljós barnaskapur ríkisstjórnarinnar að boða breytingar á
    jafn viðamiklu og umdeildu kerfi eins og fiskveiðistjórnunarkerfi landsins með jafn illa undirbúinni útfærslu reyndar engri og koma öllu í bál og brand
    út af einhverju sem menn hafa ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að útfæra. Svoleiðis pólitík er prump og til þess eins fallið að kynda undir óeiningu og átökum innan þings og utan. Síðan er það reglubundið sem
    þið Samfylkingarmenn geysist fram á bloggvelli til að kynda undir með
    angurgapalegum stóryrðum um menn og málefni sem sjávarútveginum
    tengjast. Ég er farinn að hallast að því að þetta sé ekki tilviljun heldur meðvituð taktik til að dreyfa athyggli frá dæmalausum aumingjaskap
    við úrlausn hinna stóru vandamála sem ríkisstjórn þessa lands er illu
    heilli að klúðra svo eftirminnilega að ég held að lengi verði í minnum haft.
    Í raun er landið rjúkandi rústir og nú gengur ekki lengur bara að tala um
    hverjum það er að kenna, það vitum við öll. En í 100 og eitthvað daga hefur
    setið hér við völd ríkisstjórn sem litlu sem engu hefur þokað til betri vegar.
    Ríkisstjórn ótta og ráðleysis, slíkar ríkisstjórnir eru ekki einu sinni færar um að leiða undanhaldið hvað þá leitt okkur til sigurs.

    Ég veit um 60 atriðin 100 daga aðgerða eitthvað og allt það. Verkin sína
    merkin og þekar sænskur krati er kominn með upp í kok þá segir það allt sem þarf

  • Bárður R. Jónsson

    Sæll, hefur alveg gleymst dómurinn sem féll fyrir dómstól Sameinuðu þjóðanna og við, andstæðingar gjafakvótans, höfum beðið eftir að yfirvöld tækju afstöðu til.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur