Fimmtudagur 28.05.2009 - 13:03 - 11 ummæli

Lásu þeir ekki tillöguna sína?

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru skráðir flutningsmenn tillögunnar um að utanríkisnefnd alþingis hugsi um ESB-málið til 31. ágúst.

Framsóknarmennirnir virðast ekki hafa lesið tillöguna. Þeir samþykktu á flokksþingi í vor að Íslendingar „hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið“. Já, já – með allskonar skilyrðum og á grundvelli „samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs“ og svo framvegis, en klárlega „hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið“.

Tillagan (hér) er hinsvegar um að undirbúa „mögulega umsókn“. Og þegar niðurstaðan liggur fyrir – sem gæti orðið 31. ágúst – þá á haustþing að ákveða „næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu“.

Möguleikarnir eftir „undirbúninginn“ eru semsé þrír samkvæmt tillögunni:

1. Að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
2. Að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
3. Að ganga ekki til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Ekki alveg kosningastefnan um að Íslendingar „hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið“ – ??

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Mörður í útúrsnúningum. Það stendur í tillögu Framsóknarflokksins að sótt skuli um aðild að Evrópusambandinu með ákveðin skilyrði um samningsmarkmiði. Samfylkingin hefur ekkert hirt um að móta samningsmarkmið og tillaga Össurar þvílík handabakavinna að það er með engu móti hægt að skrifa upp á hana.

    Það er engu líkara en að Samfylkingin leggi málið ílla undirbúið og illa unnið fram til þess að fá það fellt svo að flokkurinn hafa eitthvað mál til að hafa á stefnuskránni næstu kosningum.

    Einsmáls flokkur eins og Samfylkingin deyr jú um leið og málið þeirra er tekið af dagskrá.

  • Mörður morfísþingmaður

  • Reynið nú að tala saman og finna sameiginlegan flöt á málinu. Það hefur enginn húmor fyrir svona rugli núna. Sýnið að þið getið unnið saman um málsmeðferðina þó þið séuð ósammála um niðurstöðuna.

    Umræðan á að vera um innihaldið og ekki pakkningarnar.

  • GVald: Þú verður að fyrirgefa en ég sé engan snúa út úr nema Framsóknarflokkinn. Getur þú nákvæmlega sagt mér hvar vantar skilyrði Framsóknar inn í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar? Og um hvað snýst núverandi þingsályktunartillaga? Flokksmenn samþykktu að ganga til viðræða með ákveðnum skilyrðum en vilja núna leggja málið í enn aðra nefnd sem á aftur að skoða hvað við hugsanlegum fáum eða fáum ekki úr viðræðunum. Þetta er orðið virkilega vandræðalegt og eyðsla á tíma í ekki neitt.

  • Framsókn með hinn seinheppna formann sinn Sigmund er bara að tefja málið. Af hverju? Nú bara til að tefja málið, skiljið þið ekki ? Þvílíkir kjánar og skípi !!!!!

  • Í stefnu Framsóknar er talað um umsókn EFTIR að búið er að tryggja eignarhald og yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum með breytingum á stjórnarskrá. Þær breytingar hafa ekki verið gerðar.

  • hér er bara verið að búa til ekki neitt úr neinu. Það er ekkert að því að B og D komi með þessa tillögu. hvað svo sem megi segja um hana er hún klárlega mun betri en ómyndargagnið frá honum Össur.

  • Aumingja Mörður þetta góða framtak Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins hefur farið afar illa í krata-hlunkana á Alþingi. Allt þetta marðarkyn sem kallar sig Samfylkingu var búið að orna sér við þá hugsun að flokkurinn væri búinn að beigja VG í duftið og nú væri gatan til að framselja fullveldið til Brussel breið og án takmarkana en þá allt í einu dúkkar upp vitræn nálgun að skoðun á Evrópusambandsaðild. Vonbrigði marðarkynsins á Alþingi eru augljós.

  • Mörður Árnason

    Nei, Haraldur, það er ekki rétt. Í ályktun flokksþingsins (hér: http://www.framsokn.is/files/3948-0.pdf) er ekkert um það getið að stjórnarskrá verði að breyta fyrir umsókn. Hinsvegar er í annarri ályktun talað um auðlindakafla í stjórnarskrá, vissulega, einsog við höfum viljað og fleiri, og flutt var tillaga um á vorþinginu — en hana hindruðu einmitt meðflutningsmenn Framsóknarmanna nú.

    Og í tillögunni núna er ekkert minnst á stjórnarskrá. Hvernig ætti það annars að verða áður en umsókn er lögð fram? ,,Undirbúningur“ til 31. ágúst, ákvörðun á alþingi í september plús stjórnarskrárbreyting — og svo kosningar? Þá yrði kannski sótt um í janúar — þegar krónan er komin
    norður og niður?

    Það þarf að breyta stjórnarskránni fyrir ESB-aðild, um það eru allir sammála (þótt það sé ekki endilega lögformleg nauðsyn). Annarsvegar til að heimila deilingu fullveldis og hinsvegar vegna auðlindanna. Í því dæmi skiptir þó að mínu mati mestu að setja lög um fyrningarleiðina.

    En þetta er ekkert skilyrði umsóknarinnar, og mætti sem hægast gera eftir að aðild er samþykkt, eða jafnframt slíkri samþykkt. Tillaga Framsóknar og íhalds nú hefur nákvæmlega ekkert með þetta að gera — heldur er hún ,,af marðarkyni“ þannig að beitt sé orðalagi hins smekklega nafnleysingja HH.

  • Það er alltaf jafn magnað þegar menn fara að gaspra um að Samfylkingin sé illa undirbúin í ESB-málum og samningsmarkmiðin séu óskilgreind. Ég get mögulega fyrirgefið mönnum að vita ekkert um Samfylkinguna en að slá um sig með þeim þekkingarskorti og heimta svo að það sé Samfylkingunni að kenna hvað þeir séu illa upplýstir er auðvitað bara sorglegt.

  • Mörður við framsóknarmenn eru betur læsir á okkar ályktanir en þú og túlkun þín í raun sama handabaksvinnan og hjá Össuri. Ég skal hitta þig fara yfir þetta ef þú vilt. Vertu bara í bandi á gvald@ferli.is.

    En… ég skal samt benda á eftirfarandi

    Í ályktuninni stendur:

    Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.

    Í tillögu Össurar er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin (þ.e. utanríkisráðuneytið) leiti til óskilgreindra hagsmunaaðila um útfærslu fyrirvara í samningsumboði en við segju skýrum stöfum að það eigi að vera Alþingi sem útfæri samningsumboðið. Þetta er nú bara fyrsta setning ályktunarinnar og get ég farið nánar í aðra hluta ályktunarinnar og jafnframt kynnt þér greinargerðina sem fylgdi henni ef þú vilt.

    kv

    G. Vald

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur