Föstudagur 29.05.2009 - 09:50 - 17 ummæli

Svo sannarlega ferlegt

Já, alveg rétt hjá Tryggva Þór Herbertssyni og öðrum hrópendum: Ferlegt. Mikil hækkun á bensíni og víni og tóbaki, og kemur svo beint inn í vísitöluna og hækkar afborganir af skuldunum meðan kaupið (hjá þeim sem hafa fulla vinnu, þ.e.a.s.) aðallega rýrnar. Vont fyrir allt venjulegt fólk, og líka ákaflega gamaldags álögur: bús og bensín.

Svo er þetta bara byrjunin – það má búast við meiri skattahækkunum á haustþinginu, örugglega hækkaður fjármagnstekjuskattur og sjálfsagt einhver hækkun á venjulega tekjuskattinum, og meiri vörugjöld. Kannski virðisaukaskatturinn líka, þótt hann sé næstum hvergi hærri? Og svo útsvarið og fasteignagjöldin hjá sveitarfélögunum. Þetta er bara tekjuhliðin, svo er samdráttur í gjöldum: Sár niðurskurður útum allt í fjárlögunum.

Við hverju bjuggumst við? Og hvað leggur Tryggvi Þór Herbertsson til í staðinn? Enga nýja skatta og gjöld? Bara niðurskurð? Kannski heldur hann ennþá – einsog í Kastljósi í haust – að skuldirnar séu bara plat af því við græðum svo mikið á vöxtunum af AGS-láninu?

Því miður. Nú er bara að bíta á jaxlinn – en við gerum líka kröfur um árangur við endurreisnina. Jóhanna, Steingrímur og Gylfi eiga að skýra af hverju það gengur svona illa að hnýta slaufu á uppgjör gömlu bankanna, og hvað er eiginlega um að vera í stjórnum hinna nýju. Almenningur er reiðubúinn að hlusta á vondar fréttir – það eina sem hann vill ekki er að láta halda sér frá öllum tiltækum upplýsingum um stöðu og horfur.

Einsog sést af nýju álögunum er það nefnilega almi blessaður sem borgar að lokum fyrir öll hádegisverðarboðin í góðærinu og bankabólunni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Það eru allir meðvitaðir um að við þurfum að auka.
    Það er bara fínt að byrja á hlutum eins og tóbaki og brennivíni.
    EN það er hins vegar óskiljanlegt að gera ekki ráðstafanir til að
    þessar verðhækkanir hækki ekki vísitöluna og þar með auki skuldsetningu
    almennings. Það hefði verið hægt. Nei áfram er haldið við að nauðga
    heimilum þessa lands og 8000 miljónir held ég fluttar frá skuldugum
    fjölskyldum og fyrirtækjum til fjármagnseigenda. Þetta er nú meiri
    fjandans jafnaðarmennskan. Svo held ég að forvitnilegt væri að
    þú færir að velta fyrir þér hve langt flokkurinn þinn ætlar að ganga
    í að verja fjármagnseigendur þessa lands á kostnað almennings

  • Halldór Á

    En kæri Mörður – hvers vegna bólar ekkert á tillögum um niðurskurð í ríkisfjármálum? Við vitum jú að aðdragandi hans þarf að vera miklu lengri en aðdragandi skattahækkana, þannig að engan tíma má missa.

    Flestöll fyrirtæki landsins hafa lækkað laun starfsmanna, skert starfshlutfall, lokað á yfirvinnugreiðslur, skorið af hlunnindi eins og bílastyrki o.þ.h. Er ekki sjálfsagt og eðlilegt að ríkið fari sömu leið gagnvart sínu starfsfólki? Er ekki réttlæti fólgið í því að landsmenn deili kjörum sínum?

    Ég styð hækkun á sköttum á tóbaki og áfengi. Þessar vörur hafa ekki fylgt verðlagsþróun, þannig að tími var til komin.

  • „Einsog sést af nýju álögunum er það nefnilega almi blessaður sem borgar að lokum fyrir öll hádegisverðarboðin í góðærinu og bankabólunni.“

    Ok… ég skil núna þessa froðufrasa sem vellur upp úr ykkur núna sbr. „Skjaldborg“ og „Velferðarbrú“. Þeir útleggjast þannig: „Sorry Stína… þið verðið bara að borga þar til að blæðir út um eyrun á ykkur.“

    Einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að það eigi eingöngu að hækka alla mögulega skatta þar til að allt er komið í þrot en ekkert taka til í öllu sukkinu hjá hinu opinbera.

    Þá getið þið í eins máls flokknum Samfylkingunni trítlað inn í ESB sem þið haldið að eigi eftir að bjarga okkur… það versta er að þið verðið sennilega ein í því þar sem að allir aðrir verða löngu farnir héðan.

  • Magnús Björgvinsson

    Halldór Á! Það er kannski fyrst að benda þér á að á almennamarkaðnum voru laun yfir 300 þúsund lækkuð. Það er nú staðreynd að stórhluti ríkisstarfsmanna eru ekki með 300 þúsundi í laun heldur miklu minna.

    Þá get ég líka upplýst þig um að í öllum ríkisfyrirtækjum og stofnunum er vinna hafinn við að finna liði sem hægt er að skera niður. Og t.d. í þeirri stofnun sem ég vinn hjá er kominn hópur að finna alla þá liði sem hægt er að spara í. En hjá okkur eru byrjunarlaun starfsfólks um 175 þúsund.

    Held að fólk ætti kynna sér t.d. hvernig ár eftir ár hefur í sumum málaflokkum verið sparað og skorið niður en samt verið að reyna að halda upp góðri þjónustu. t.d. í málaflokkin þeim sem ég vinn við þ.e. þjónusta við fólk með fötlun.

  • Ehm…

    Mínusa út….

    Tónlistarhús,
    Sendiráð,
    Minni risnukostnaður,
    Listamannalaun.

    Hvað… 20-30 milljarðar???

    HALLÓ…

  • Mér finnst sárast að ekki hafi verið sett upp nein stéttargleraugu í þessum hækkunum. Það var ekki ákveðið að þessar hækkanir ættu að taka út úr vísitölureikningum og það var ákveðið að hækka flatt álögur á áfengislíterinn í stað þess að láta þá sem drekka dýrt bús borga hlutfallslega jafn mikið og þá sem drekka ódýrt brennivín t.d. með vaskhækkun á áfenga drykki. Hvaða réttlæti er í því að sumir borgi 6% meira og aðrir 11% meira?

    Að auki vil ég beina því til ykkar þingmanna að ræða við þjóðina áður en þið takið svona ákvarðanir og hættið þessu pukri og næturfundum. Hvað hefði verið svona hræðilegt við það að gefa okkur nokkra daga til að bæta þetta frumvarp áður en það varð að lögum?

    Talið við okkur og hættið að þessum leik þar sem þið teljið ykkur fullfær um að redda málunum á eigin spýtur. Ætlið þjóðinni einhvert hlutverk í endurreisninni áður en hún gerir uppreisn af frústrasjón!

  • Get ekki verið sammála Héðni hér að ofan. Hversvegna þennan flýti og þetta pukur?

    10,7 milljarðar í auknar álögur á heimilin sem skila aðeins 2,7 milljörðum í ríkissjóð er ekki líklegt til að skapa samstöðu. Hvorki á þingi eða hjá þjóðinni. Á að taka þessar hækkanir út fyrir sviga næst þegar vísitalan er reiknuð? Það væri gott fyrsta skref.

    Ef ekki væri nær að leggja gjald á greiðsluseðla sem skilar 2,7 milljörðum í ríkissjóð og hætta við allt klabbið. Þá fær ríkissjóður sitt og heimilunum blæðir ekki jafn hratt út og annars hefði verið.

  • Af hverju lærið þig ekki af heilbrigðri skynsemi. Í kreppu; auka ríkisútgjöld, lækka vexti og lækka skatta = hjólin fara að snúast. Í uppsveiflu; hækka skatta, hækka vexti, draga úr ríkisútgjöldum = dregur úr umsvifum.

    Það er bara allt í lagi að reka ríkissjóð með bullandi halla í kreppu til að fá hjól atvinnulífsins til að snúas og halda að sér höndum í uppsveiflu.
    Við gerum allt öfugt – sama hverjir eru við völd.

  • Elías Pétursson

    Ykkur gæti líka dottið í hug að koma hagkerfinu í gang, í stað þess að drepa það.

    En því miður hafa vinstrimenn eins og þú ekki nokkurn snefil af skilningi á því að við búum í keðju sem er samtengd á alla kanta.

    Eins gott að það er bara ríka „pakkið“ og kapítalistarnir sem kaupia bensín og fá sér í glas, já og skuldar vísitölutryggt…

    Það væri synd að segja að Sleifarbandalaginu gengi ekki val að slá gjaldborg um heimili, almenning og smærri fyrirtæki. Skjaldborgin er jú um fjármagnseigendur og „þjóðhagslega mikilvæg“ gjaldþrota útrásarfyrirtæki.

    Ég er eiginlega farinn að halda að það skynsamlegsta sem komið hafi frá ykkur undanfarið séu nýleg ummæli félagsmálaráðherra þar sem hann ráðlagði ungu fólki að flytja burt héðan,

    Og enn og aftur nú verðum við að reka Davíð……..

  • Það sjá það allir sem vilja sjá að hækkanir eru óumflýjanlegar. Það eru hins vegar ótal dæmi um staði sem má skattleggja og / eða skera niður á áður en ráðist er svona á almenning (eins og talið er upp hér að ofan).

    Skítt með verðið á bensíninu og búsinu – vísitalan á eftir að kála þeim sam standa illa núna. Það er því algerlega ótækt að unga fólkið með börnin og háu húsnæðislánin (vegna þess að þau eru tiltölulega nýtekin) skuli þurfa að bera hitann og þungann af þessu. Mér reiknast nefnilega til að þessi hækkun jafngildi 34.000 krónum frá hverju mannsbarni á Íslandi, nema í þessu tilviki er það þannig að þeir sem skulda og eru með fleiri á sínu framfæri borga meira. Takið vel eftir að það er einmitt hópurinn sem hefur farið verst út úr uppsögnum síðustu mánaða.

    Mér sýnist að skynsamlegasta og jafnasta leiðin (besti valmöguleikinn af aðeins slæmum kostum) út úr þessarri klemmu er að hækka tekjuskatt – FLATT – og hækka um leið persónuafslátt.

    Þannig finna þeir tekjulægstu minnst fyrir hækkunum, á meðan þeir tekjuhæstu leggja mest af mörkum.

    Þannig mynduð þið líka sleppa við að nauðga þeim (aftur) sem skulda verðtryggt – nema ykkur líki það svona vel….

    Segjum að við setjum 50% skatt, og að persónuafsláttur verði 100.000 kall (tölur settar inn til reikningshagræðis). Þá myndi sá sem er með milljón á mánuði borga 400.000 í skatt, sá með 500.000 borga 150.000 í skatt og sá með 200.000 borga ekkert í skatt ! Í leiðinni myndi innkoma vegna tekjuskatts aukast, en gallinn væri sá að skattsvik myndu margfaldast.

    Að síðustu vil ég segja að mér sýnist stjórnvöld vinni hörðum höndum að því að skapa aðra búsáhaldabyltingu – líklega óviljandi. Vanhæfið er svo algert.

  • Rómverji

    Eg borga hærri skatta og meiri afborganir af húsnæðislánum með glöðu geði. Við erum gæfusöm þjóð að eiga stjórnmálmenn eins og Jóhönnu og Steingrím (fáránlegt að taka af þeim eftirlaunaforréttindin) og flokka eins og Samfylkinguna og Vinstri græn.

    Ekki er víst að við Íslendingar hefðum náð þeim árangri sem við höfum náð án þeirra góðu stjórnmálaflokka sem við eigum (eg undanskil ekki Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn) og þess úrvalsfólks sem þeir hafa valið handa okkur til að sitja á Alþingi.

    Líka er velborgandi fyrir að hafa átt útrásarvíkinga. Menn sem vakið hafa heimsathygli fyrir stórhuga nýjungar og hugdirfsku. Þjóðin þarf síður en svo að skammast sín fyrir að ábyrgjast starfsemi þeirra í útlöndum.

    Íslenskir stjórnmálamenn og íslenskir kaupsýslumenn tóku höndum saman um að leysa þjóðlífið úr viðjum gamaldags hugsunar og hafta. Nú er það okkar – almennings – að gjalda þeim greiðann. Gerum það með glöðu geði.

  • Pétur Henry Petersen

    Getur einhver útskýrt fyrir mér afhverju hækkun á neysluvöru hefur áhrif á vexti verðtryggðra lána? Afhverju er þetta tengt saman?

    Ég get skilið að ýmislegt sem að tengist beint neysluverði flakki með því t.d. að leiga geti hækkað ef að viðhald húsa verður dýrara. En hver er tengingin á milli neysluverðs og lána? Svör óskast!?

  • Sigurður Þórðarson

    Almi er farinn að mæðast.

  • Mörður hvernig er þetta með þig komnir tveir dagar og þú ekki búinn að senda frá þér nein leiðindi ? Þurfum við nokkuð að fara að hafa áhyggjur af þér, manni sem alltaf hefur verið eins og afkatamikill mykjudreifari sem reynir að koma illu til leiðar en nú er bara allur vindur úr þér. Var það ráðningin á Einari Karli án auglýsingar sem truflar þig eða er það hverig þið kratarnir eruð að ráðast á okkur alþýðu landsins með endalauum hækkunum á nauðsynjum ? Framistaða ykkar Samfylkingarfólksins hlýtur að gleðja þig og aðra mykjudreifara mjög mikið.

  • petur henry petersen

    Veit þetta semsagt enginn 😉 ha ha ha

  • Magnús Steinar

    Þetta er gott hjá ykkur samspillingarmönnum og kaffihúsakommaliðinuu ykkur er að takast að koma öllu atvinnulífi og heimilum í landinu á hausinn,á hverja ætlið þið þá að hækka skatta og gjöld,þegar allt er farið á hausinn.

  • Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun þá eru yfir 60% landsmanna hlynntir þessari ríkisstjórn. Fólk áttar sig á að stjórnvöld eru að gera það sem hægt er í þessari rústabjörgun þjóðfélagsins. Hvað segja bloggnöldrarar um það?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur