Þriðjudagur 02.06.2009 - 09:47 - 12 ummæli

Einsleit Fréttablaðsfrétt

Mér fannst gott hjá Katrínu Jakobsdóttur að setja niður vinnunefnd um hlutverk Ríkisútvarpsins, og mér fannst líka snjallt að í henni væri fagfólk úr ýmsum áttum en ekki stjórnmálamenn eða viðskiptafræðingar.

Samkvæmt frétt frá menntamálaráðuneytinu á þessi hópur að „skoða hlutverk almannaútvarps í þjóðfélaginu“ og á að leggja niðurstöður hans til grundvallar við nýjan þjónustusamning ráðuneytisins/ríkisins við Ríkisútvarpið.

Nú er sannarlega kominn tími til að meta ohf.-breytingarnar um árið og áhrif þeirra á RÚV og á ljósvakavettvanginn heild. Og það er einmitt rétt aðferð hjá Katrínu að byrja á að athuga hvernig RÚV stendur sig sem almannaútvarp.

„Einsleit nefnd“

Og bregður þá svo við að Fréttablaðið finnur út að í nefndinni sitji ómögulegt fólk og komi aðeins „úr einni átt: Annaðhvort úr Vinstri-grænum eða Ríkisútvarpinu sjálfu nema hvort tveggja sé“ segir í frétt (hér http://vefblod.visir.is/index.php?s=3120&p=75489) með fyrirsögninni „Einsleit nefnd um RÚV“.

Fréttablaðið finnur út að af sjö nefndarmönnum séu sex fyrrverandi starfsmenn Ríkisútvarpsins, þar á meðal Sigtryggur Magnason, formaður nefndarinnar, þá væntanlega með því að eiga konu sem vissulega vinnur hjá RÚV, og Þorbjörn Broddason prófessor, væntanlega af því hann sat í fyrndinni í útvarpsráði og á auðvitað bróður sem vinnur á fréttastofunni.

Þar að auki segir Fréttablaðið okkur að „flestir“ nefndarmenn, „ef ekki allir“ tengist VG „með einum eða öðrum hætti“. Um þær tengingar er okkur hins vegar ekkert sagt. Ég veit ekkert – en finnst samt líklegt að Sigtryggur aðstoðarmaður sé í VG. En þau Þorbjörn, Laufey Guðjónsdóttir, Sigríður Árnadóttir, Ágúst Þór Árnason, Hallmar Sigurðsson og Kristín Helga Gunnarsdóttir? Eru þau í VG? Eða hver er tengingin? Eiga þau maka í VG? Eða bróður?

 „Sérstök skipan“

Kannski þarf Fréttablaðið ekki að slá rökum undir þessa fullyrðingu. Það hefur nefnilega fengið til liðs við sig mikinn stóradóm um pólitísk tengsl kringum Ríkisútvarpið, sjálfa Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. „Skipanin er sérstök,“ segir gamli menntamálaráðherrann og Rásar-tvö-stjórinn, „og maður veltir því fyrir sér hvort auka eigi pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu með skipan þessarar nefndar.“ Soldið fyndið frá einmitt henni.

Hvað Fréttablaðinu gengur til er óljóst. Eina athugasemd er vissulega hægt að gera við bakgrunn  og reynslu nefndarmanna, þá að innanhússþekking þeirra af öðrum fjölmiðlum en Ríkisútvarpinu er takmörkuð. Kannski var það meiningin hjá „jakobi“ sem fréttina skrifar samkvæmt netfangsmerkingu. En mátti ekki koma því á framfæri án þess að skrá nefndarmenn á einu bretti í VG – og búa til glæp úr því að eiga maka og bræður?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Alveg sammála um einsleita frétt

    en er ekki Sigtryggur Magnason og er ekki verið að tala um Hallmar Sigurðsson?

  • Svanhildur

    Það held ég, – hann var reyndar kallaður Hjálmar í Fréttablaðinu, þannig að það ætlar að reynast erfitt fyrir Hallmar að verða rétt nefndur.

  • Halldór Á

    Sigtryggur (Magnason) var umsjónarmaður Síðdegisútvarpsins á Rás 2 í eitt eða tvö ár, þannig að afrek hans er ekki einungis að eiga eiginkonu á stassjóninni.

    Auðvitað er í fínu lagi að gera skýrslu um hvernig ohf-unin hefur tekist hjá útvarpi allra landsmanna. Ef Þorgerður Katrín hefði enn verið við völd, þá hefði hún valið viðskiptajöfra og aðra innmúraða sjálfstæðismenn til að gera slíka skýrslu. Henni ferst að vera að fjasa eitthvað um pólitíska nefndarskipan.

    Hins vegar er það auðvitað rétt í Fréttablaðinu að slagsíðan í þessari nefndarskipan Katrínar Jakobsdóttur er mikil, þ.e. hana skipa einungis hollvinir RÚV og VG. Ókosturinn við slíka nefnd er að þar fari ekki fram krítísk umræða, heldur verði hún afar einhliða og rýri útkomuna.

  • Ekki lesa of djúpt í þetta, þarna er saurblaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson að verki. Honum þarf ekki að ganga neitt sérstakt til, skíturinn rennur náttúrulega úr munninum á honum.

    Hvernig hann hélt vinnunni á sama tíma og Auðunn Arnórsson, Svanborg Sigmarsdóttir og Guðrún Helga Sigurðardóttir fengu reisupassann fæ ég aldrei skilið.

  • Elías Jón

    Það er líka athyglisvert að fréttamaður Fréttablaðsins segi Sigríði Árnadóttur vera „fyrrverandi aðstoðarmaður Stefáns Jóns Hafstein á Rás 2“.

    Er hún ekki fyrst og fremst mjög reyndur fréttamaður, vaktstjóri á fréttastofu Útvarpsins og síðan fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar? Það er a.m.k. það sem kemur fyrst upp í minn huga þegar nafn hennar er nefnt.

  • Stefán Jónsson

    Sjálftökuflokkum er ekki sjálfrátt. Þeir eiga erfitt með að skilja vinnubrögð byggð á þekkingu, reynslu og faglegum forsendum. Megi nefndinni takast að bjarga menningarverðmætum sem liggja undir skemmdum eftir veggjatítlur í ríki sjoppunnar.

  • Sérkennilegt að sjá þig Mörður vera að gagnrýna kratablaðið þ.e. Fréttablaðið. Fréttablaðið er jú gefið út af baugi fyrirtækinu sem hefur borgað stærsta hlutann af starfsemi Samfylkingarinnar, tugmilljóna styrkir frá Jóni Ásgeiri til samfylkingarinnar kalla á greiða á móti. Fréttablaðið er reyndar svo litað pólitískt að þar er ekki að sjá að neinn annar fái vinnu en gegnheilir kratar í þrjá ættliði. En sem sagt Mörður þér er óheimilt að vera að pönkast á fréttablaðinu, stjórn Samfylkingarinnar vill það ekki enda löngu búin að selja sál ykkar allra fyrir gullpeningana frá Baugi. Baugs-Mörður gæti verið nýtt nafn á samfylkingarfólki.

  • María Kristjánsdóttir

    Það má svo líka benda á að Laufey Guðjónsdóttir var ráðin af Sjálfstæðisflokknum sem innkaupastjóri erlends dagskrárefnis hjá RÚV og síðan til Kvikmyndasjóðs af sömu ráðstjórn.
    Þarna virðast einfaldlega hafa verið valdir fulltrúar innlends dagskrársefnis, erlends dagskrársefnis, fulltrúi frétta með þekkingu bæði frá RÚV og Stöð 2 og svo tveir kunnáttumenn frá ólíkum háskólum og listamaður sem fulltrúi barna. Sem sagt yfirgripsmikil þekking. Það eina sem kannski mætti gagnrýna í þessari skipan að hér vantar góðan tæknimann úr grunnþjónustunni- svo sem Hjört Svavarsson eða einhvern annan af öllum þeim úrvals tæknimönnum sem vinna hjá RúV.

  • Þorfinnur

    Fréttin er vissulega einsleit, einsog við er að búast þegar Fréttablaðið fjallar um RÚV – það er alltaf í neikvæðum tón. Svo er það ekki til að bæta fréttina, að sjá svo margar rangfærslur á nöfnum og stöðuheitum þeirra sem koma við sögu (Mörður, þú hefðir auðvitað getað bætt um betur, en ekki bætt í nafnaruglið…)

    Hinsvegar er ekki framhjá því litið að þessi starfshópur er vissulega mjög einsleitur. Sérstaklega er varðar tengingu fulltrúa hópsins við RÚV sjálft. Það kann ekki góðri lukku að stýra í þessu tilfelli. Þannig er ólíklegt að þessi hópur muni skoða stofnunina fordómalaust utan frá og skila af sér gagnrýnni skýrslu. Í svona hópi hefði verið mun hyggilegra að fá fólk með breiðari reynslu af fjölmiðlum og þá sem allra mesta reynslu utan RÚV.

    Engu að síður er ég sammála því að erfitt er að sjá að allir í hópnum tengist endilega VG frekar en öðrum stjórnmálaöflum. Nema hvað Kristín Helga er auðvitað VG, var hún ekki í framboði á þeirra vegum? – þykir það ekki, Mörður, nógu mikil tenging við VG…?

    Hitt er svo annað mál að Þorgerður Katrín hefði vafalaust skipað jafn einsleitan hóp, en bara öðruvísi einsleitan.

  • Mörður Árnason

    Magnason. Hallmar. Leiðrétti þetta — fyrirgefið, vissi betur í báðum tilvikum. Næstum því jafnóvandað og fréttin hjá Jakobi — sem er hinn besti drengur, þótt hann sé stundum klaufi og FH-ingur úr hófi fram.

    Það má vissulega gera athugasemdir við nefndarskipanina, einsog ég reyndar geri en tek fyrst og fremst undir með Maríu. Ég hef ekki kannað framboðslistana hjá VG — en einhvernveginn duttu mér ekki stjórnmálaflokkar í hug þegar ég sá þennan lista.

  • Kristín Helga var í framboði í Kraganum fyrir VG nú í vor, og þar með væntanlega flokksbundin. Hins vegar er ég sammála Merði um að fullyrðingin um tengingu allra nefndarmanna við flokkinn er illa rökstudd og margt af þessu ágæta fólki man ég ekki til að hafi nokkurn tíma verið tengt við Vinstri Græna (eða aðra stjórnmálaflokka) með beinum hætti. Ég er eiginlega frekar sammála hinum þætti gagnrýninnar hjá Jakobi; þ.e. að þarna hefði líka mátt vera fólk sem ekki hefði sérstök tengsl við RÚV.

  • Sæll,

    Ætlaru ekkert að tala um 100 milljónirnar + styrki til einstakra frambjóðenda sem Samfylkingin fékk á árinu 2006.

    Sé að þú sást ástæðu til að tjá þig um styrkina til Sjálfstæðisflokksins í apríl.

    Hvað veldur þögninni nú ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur