Miðvikudagur 03.06.2009 - 15:36 - 12 ummæli

Áfram veginn

Man eftir þessari tilfinningu frá því í eldgamla daga, að eignast  nýtt hjól, spenna og stolt og svo örlítill kvíði – er það af réttri stærð, virka bremsur og (nú) gírar, fer það nógu hratt …

Ég var að rifja upp á leiðinni austan úr Erninum (sem einusinni var lítil búð á Spítalastígnum, stórveldið var Fálkinn við Laugaveginn) að fyrsta hjólið sem ég fékk eða man eftir allavega hét Mifa – var ekki alveg viss en mundi svo að það tengdist alltaf tónstiganum sem stimplaði sig inn á svipuðum tíma: do re mi fa …

Á Möwe gegnum lífið

Og var örugglega þýskt, austurþýskt minnir mig, og nú hef ég gúgglað það: „Mifa Fahrrad“ – og í ljós kemur að auðvitað eru Mifa-hjólin enn á fullu, heita að vísu ekki í höfuðið á nótunum heldur eru framleidd í Mitteldeutsche Fahrradwerke AG, sem virðast eiga heima í bænum Sangenhausen mitt á milli Magdeburg og Erfurt – einmitt í suðvesturhluta gamla Austur-Þýskalands. Svona man maður – þetta var rautt og ágætt og traust hjól – en samt ekki eins flott og DBS-hjólin og hvað þau nú hétu öll, og það þótti verulegur galli að hafa það austurþýskt. Ég málaði samt aldrei yfir merkið einsog Þórarinn í kvæðinu. Hjólið í kvæðinu var Möwe og ég gúgglaði það líka og þau eru núna framleidd í Osnabrück í Saxlandi og alls ekki austurþýsk einsog ég hélt. <Sjá athugasemdir!> Kannski skáldið hafi ruglast og hafi átt Mifa? Eða ég hafi ruglast og blandi saman tilfinningum hans og mínum? Allavega rennum við tveir á Möwe gegnum lífið.

Trek 3900

Þetta var annars hvorki Mifa né Möwe sem ég renndi mér á vestur með Miklubrautinni heldur amerískt Trek-hálffjallahjól, týpa 3900 sem er hærra en síðasta Trekkið og þarmeð betra og tíuþúsundkalli dýrara líka, en hjólakallarnir á Hverfisgötunni segja að þeir sem alltaf eru á hjóli eigi að vera á þokkalega góðum hjólum, og kaus að líta svo á að nú hefði forsjónin verið að verki að lyfta mér hærra í mannfélagsstiganum, sumsé úr Trek 3700 í 3900, og spara mér einsog í staðinn ljós fram í ágúst og sleppti bjöllunni … Ég viðurkenni: Í og með stafaði spandansinn af því að 3700-gerðirnar voru svo ljótar, ein skærblá og önnur svona eitthvað hipp-hopp-abstrakt, og þriðja rauð og hvít einsog Valsbúningur. Það eru takmörk fyrir því á hverju maður getur látið sjá sig, en það var ást við fyrstu sín þegar ég var leiddur að mosagræna 3900-Trekknum, látlausum en karlmannlegum glæsigrip sem sýnir að hér knýr hjólhest gáfum gæddur smekkmaður sem velur aðeins það besta.

Steluþjófar

Að forsjónin hafi staðið að þessum kaupum er kannski í það djarfasta, en hljómar að minnsta kostu betur en hinn sári sannleikur – sem er sá að gamla góða Bláni var stolið í síðustu viku. Yðar einlægur kom hjólandi á tiltekna knattspyrnukrá í Skólavörðuholtinu að horfa á úrslitin í Meistarakeppninni og þegar sá leikur var farsællega yfirstaðinn með verðskulduðum sigri minna manna frá Katalóníu og víðar – þá var gripurinn horfinn og hvorki eftir af honum tangur né tetur, ekki einusinni lásinn sem ég hef þó við svipaðar aðstæður séð skilinn eftir sundurskorinn til minja. Ekkert, hvað sem ég gáði oft. – Ferlegt að láta stela frá sér hjóli, og ennþá verra að láta eyðileggja fyrir sér þetta prýðilega skap sem sigur Börsunga hafði framkallað í bland við niðurlægingu  montrassanna frá Manchester.

Að stela reiðhjóli var á sokkabandsárum mínum einhver svakalegasti glæpur sem fremjast kunni. Lúalegt og níðangurslegt og hinir seku örugglega ógæfumenn í níunda lið. Og þetta finnst mér enn – það er ótrúlega ljótt að stela hjóli. Ég trúði því heldur varla að það hefði gerst, heldur hlyti læsingin að hafa verið biluð og einhver fengið það lánað niður Skólavörðustíginn – en það var hvergi að sjá heldur næstu daga og kom því miður ekki gangandi sjálft heim til sín.

Lög og regla

Svo tilkynnir maður þetta til löggunnar, og er sagt að skoða hjólabirgðirnar þeirra í Borgartúnsporti, en þar er auðvitað ekkert, enda komast hjólhestar því aðeins þangað að einhver borgari hafi nennt að hringja og benda löggunni á hjól sem eru orðin til ama við staur eða grindverk. Og löggan getur víst ekkert gert – nema senda tryggingunum skýrsluna – en þaðan fæst bara skitirí.

Það er víst alltaf verið að stela hjólum – en samt kannast enginn við svartamarkað með hjól, og notuð hjól eru ekki seld nema út af öruggum verkstæðum – og varla eru þjófarnir sjálfir að sporta sig sjálfir á stolnum hjólum um bæinn. Þetta er skrýtið – en þeir hjá Erninum halda að hjólunum sé stolið upp í gám og flutt til útlanda. Þá finnst manni kannski að löggan ætti að tékka á farmskýrslunum … Og er í huganum kominn í Fimm fræknu-leik við að finna steluþjófana. Örugglega aðkomumenn!

Bíta á jaxlinn

Nú – skógareldur gegnir víst mikilsverðu og merkilegu hlutverki í vistkerfinu – eyðir öllu sem á vegi verður til að nýtt líf vaxi og dafni. Sjálfsagt má jafna hjólaþjófum saman við skógareldinn. Kannski má líka jafna banka- og útrásarþjófum og svo vondum stjórnmálamönnum saman við skógareldinn. Allavega dugar ekki að steyta hnefana framan í þá sem eru stungnir af.

Heldur bíta á jaxlinn og kaupa sér Trek 3900. Mosagrænt. Með góðum lás.

Áfram veginn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Sæll, ágæti Mörður. Svolítil athugasemd – einfalt vaff og tvöfalt: Hér er ruglað saman fyrirtækinu Möwe í Osnabrück í Neðra-Saxlandi (fyrrum Vestur-Þýskalandi) sem m.a. gerir upp reiðhjól líkt og Fálkinn gerði á sínum tíma, og Möve-reiðhjólaverksmiðjunni í Mühlhausen í Þyringaríki (fyrrum Austur-Þýskalandi) …

  • Auk þess var Saxland í Austur-Þýskalandi þó að Neðra-Saxland hafi verið í Vestur-Þýskalandi. Biðst annars forláts á þessu rausi.

  • Áttu ekki mynd af hjólinu, Mörður? Eða slóð á mynd hjá Erninum í rétta litnum? Það myndi hjálpa.

  • Trek 3700 eru á meðal algengustu hjólategundunum á Íslandi.
    Maður sér þau fyrir utan nánast hvert einasta hús í verri hverfum borgarinnar.

  • Mörður Árnason

    Auvitað Hlynur. Hér greipstu fílólóginn í bólinu: v, ekki w. Möve, svo annarlega austurþýskt. Enda nánast sagt í kvæðinu. En Nieder-Sachsen tel ég nokkurnveginn það sama og Sachsen!

    Hér er merkið sem skáldið málaði yfir, og hjól skáldsins gæti verið sirka þetta næstefsta hér. Mosagræni 3900-Trekkurinn er hinsvegar hér, ágæta Lára Hanna!

  • Mörður

    Og verður þó að geta þess að hjá Þórarni (Kvæðum, 1979) heitir þetta Möwekvæði, með tvöföldu (þetta er eitthvert þýskt stafsetningarmál, merkingin er mávur í báðum útgáfum, Möwe og Möve). En skáldinu er vorkunn því tegundarheitið hvarf jú sjónum hans:

    Ég málaði þig blátt og breytti um hnakk
    og bætti síðan enn um fólskuverkið:
    Ég dró úr pússi mínu lútsterkt lakk
    og lakkaði yfir stolt þitt: vörumerkið.

  • Væntanlega hefur það komið fyrir lítið hjá Þórarinum þótt hann lakkaði yfir vörumerkið. Möve-hjólin voru auðþekkt á langleið sakir klunnaskapar og drengir í Mossvelsveitinni á uppvaxtarárum mínum sem áttu slík hjól voru vissulega fyrirlitnir. Ég sé þau (og þá) enn í anda. Sjálfur eignaðist ég uppgert og miklu fíngerðara hjól frá Fálkanum laust fyrir miðjan sjötta áratuginn. Það var ekkert sérstakt vörumerki. Nokkrum árum seinna eignaðist ég svo DBS …

  • Mörður hvað fékk Samfylkingin aftur marga tugi milljóna í styrki frá Baugi ? Hvað þurfti IGS og Samfylkingin að gera fyrir Jón Ásgeir sem endurgjald fyrir styrkina ?

  • Mörður Árnason

    Kæri HH — 1) Sjá upplýsingar á heimasíðu Samfylkingarinnar, xs.is. 2) Ekkert mér vitanlega. 3) Hvað heitirðu?

  • Sigurður Ásbjörnsson

    Orti enginn um Velamos? Ég held að þau hjól hafi verið seldi í Erninum á Spítalastíg um árið. Mikið var annars gott að komast í loftpumpuna á Spítalastígnum í den. Annars þurfti maður að puða með handpumpu þar sem bílaloftdælur bensínstöðvanna pössuðu ekki á hjólaventlana.

  • Mörður komdu með beinan hlekk á samtals styrki á árinu 2006

    Ég sé upplýsingar um fjáröflun einstakra aðildarfélaga hennar, kjördæmis- og sveitarstjórnarráða árið 2006.

    Í fljótu bragði sé ég hvergi upplýsingar um heildarstyrki hvorki á árinu 2006 né nokkru öðru ári.

  • Ef þú vilt get ég límt inn allskonar ummæli Samfylkingarmanna útaf styrkjamáli Sjálfstæðisflokksins þar sem var fullyrt fullum fetum að svona upphæðir (milljónatugir) kæmu aldrei fyrir ekki neitt.

    Þau voru látin falla fyrir kosningar þegar Samfylkingin var að draga saman sitt bókhald. Það tók nær því 2 mánuði og var á endanum birt á eftir hádegi á föstudegi fyrir þriggja daga helgi.

    Gríðarlega gott innlegg í samræðustjórnmál

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur