Föstudagur 05.06.2009 - 21:03 - 53 ummæli

IceSave: Hættuleg hystería

 

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar á þingi og nú síðast í Kastljósi við væntanlegum IceSave-samningum eru hysterísk – og hættuleg.

Löngu var ljóst að við áttum engan annan kost en að semja um þessar skuldir. Hinn kosturinn var að segja sig úr lögum við umheiminn og útiloka samfélagið um leið frá erlendu lánsfé, hefðbundnum viðskiptum og almennum áhrifum í áratugi. Sennilega hefði EES-aðild okkar meðal annars verið í hættu – og það er kannski sú fjöður sem er orðin að fimm hænum í þeirri frábæru kenningu að hér sé ríkisstjórnin að greiða einhverskonar aðgöngu-„gjald“ inn í ESB. Sem er að öðru leyti einhver hin lágkúrulegasta  í langri og leiðinlegri sögu landráðabrigsla í íslenskri pólitík.

Samningurinn virðist vera skárri en við mátti búast. Vextirnir eru erfiðir en plúsinn er auðvitað sjö ára greiðslufrestur, og á meðan eru líkur á að miklu meira náist af Landsbankaeignum uppí skuldina en flestir héldu.

Hinsvegar er þetta sannarlega svakalegt og hrikalegt og óskaplegt – og hefur verið alveg síðan í október í fyrra.

Magnandi svörun

Forvígismenn stjórnarandstöðuflokkanna – líka Borgarahreyfingarinnar því miður – virðast hafa lokast inn í stemmingu sem stundum kemur upp í alþingishúsinu og minnir á hávaðann á börum borgarinnar að kvöldi til: Tónlistin er hávær í hátölurunum,  fruss í kaffivélinni og umferðarniður fyrir utan – gestirnir verða að tala hærra til að yfirgnæfa hávaðann sem aftur þýðir að á næstu borðum þurfa menn líka að hækka róminn og fyrstu gestirnir brýna röddina og á þarnæsta borði er byrjað að æpa. Svona ferli heitir einmitt „magnandi svörun“ í loftslagsbreytingafræðum.

Hystería stjórnarandstöðunnar stafar meðal annars af magnandi hávaðasvörun – en sprettur líka af pólitískri spekúlasjón, sem er það hættulega – nú þegar einmitt þarf að hefja sig upp fyrir flokkshagsmuni.

Einar Ben: Þegar býður þjóðarsómi / þá Bretland eina sál.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (53)

  • Björg F. Elíasdóttir

    Ætlum við að láta Útrásarvíkingana stela frá okkur Kjarkinum líka??? Hvaða hugleysi er þetta? Auðvitað eigum við ekki að borga þessar fáránlegu háu skuldir enda getum við það ekki !! Bretar og ESB eru bara að falast eftir auðlindum okkar sem þeir munu krefja okkur um þegar við ekki getum lengur staðið við undirritaðan samning !! Hvernig í ósköpunum getið þið Samfylkingarfólk verið svona blind fyrir hinu augljósa?

    Hrædd við alþjóðasamfélagið hvað?? Erum við virkilega hrædd við að vera einangruð eyja … afdalaþjóð í Ballarahafi sem getur enga björg sér veitt á sama tíma og við eigum gífurlega gjöfult land með öllum þeim mannauði sem hér býr. Lifum í vestrænu upplýstu samfélagi !! Haldið þið að nágrannaþjóðir okkar, sem sagt almenningur í þeim löndum munu bara samþykkja að eyjan verði einangruð til lengdar?? Það er ekki alveg í tísku að haga sér svoleiðis í dag, vitið þið!

    Við eigum að segja NEI, Við eigum að vera kjörkuð og viti menn við munum lifa af og uppskera að lokum aðdáun fyrir.

  • Einu sinni voru það bankarán sjálfra eigendanna. En núna er það

    LANDRÁÐ í skjóli nætur!

    Og alltaf reynist þú sami duglitli FLOKKSdindillinn. Lætur sem ekkert sé. FLOKKURINN fyrst, og skítt með þjóðina.

    Það er þetta sem hefur verið böl okkar lands, að á Alþingi hefur lengi setið fólk og situr enn, sem fer eftir FLOKKSlínum en hefur enga samkennd með þjóð sinni eða sjálfstæða sannfæringu. Hvað þá kraftinn, þorið eða þekkinguna sem til þarf.

    Það er nákvæmlega fólk eins og þú, sem þjóðin vill nú sjá í gálga eða gapastokk við hlið útrásarvíkinganna. Sama þjóðin og ISG kannaðist ekkert við!

  • Hvern langar til að samþykkja Icesave? Hverjir komu bönkunum í hendur vina sinna í bróðurlegri skiptingu milli Framsóknar og Sj.fl.? Getur verið að þar sé um að ræða, svo dæmi sé tekið, þá sömu og komu bönkunum, Seðlabankanum og að lokum íslenska ríkinu á höfuðið?

    Forsprakki þessara manna er með yfirlýsingar í Mbl. síðastliðinn sunnudag og virðist fullkomlega heillum horfinn; talar um að ekki megi setja íslensku þjóðina á hausinn, en það er einmitt það sem hann og hans kónar eru búnir að gera.

    Svo er að sjá að hollendingar og bretar ætli að gefa okkur möguleika á að komast út úr þessu svínaríi með skottið á milli fótanna, en ekki framundir kvið. Þá bregður svo við að þeir sem alla tíð hafa legið hundflatir fyrir heimsvaldasinnum, eru komnir í þann ham að væna aðra, einkum þá sem eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður, um landráð.

    Ja, svei, líti þeir sér nær. Það sannast hér sem oft áður að þeim fer best falsið og fláræðið.

    Ekki er annað að sjá en íslenska þjóðin verði að bera á herðum sér afleiðingarnar af framferði tvíburaflokkanna Framsóknar- og Sjálfstæðis.. Það er ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki það síðasta á meðan lifað er eftir reglunni um að: Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

    Víst verður þingið að samþykkja ábyrgð á Icesave, þótt engan langi til þess og allir vildu í dag að fólkinu, sem steypti þjóðinni fram af hengifluginu, hefði aldrei verið trúað fyrir neinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur