Laugardagur 06.06.2009 - 18:10 - 32 ummæli

Of seint að vera svartsýnn

Þetta var mögnuð mynd í sjónvarpinu í gær og á skilið meira umtal en hún hefur fengið hér ennþá –kannski af því við Íslendingar höfum alltaf um eitthvað annað að hugsa en það að náttúran sé orðin ónáttúruleg og að framtíð mannkyns sé í hættu.Til dæmis um Ísland-Holland … ?

Magnaðast var kannski þegar maður var kominn með hausinn niðrí maga og farið að langa í bara eitthvað annað en þennan óþægilega sannleika – þá sneri sögumaður myndarinnar við blaðinu og sagði manni hinsegin til syndanna –nú þyrfti að vaka og vinna: Það er of seint að vera svartsýnn.

Of seint …

Það eru kannski ekki beinlínis helgispjöll en þó að minnsta kosti eitt mjög stórt epli annarsvegar og og litlar appelsínur hinsvegar að líkja saman loftslagsbreytingunum og IceSave-málinu. En þar gildir líka þetta, ágætu bölsýnismenn, haushengjarar, stóryrðabloggarar, svardagahetjur og landráðaákærendur: Það er of seint að vera svartsýnn.

Ef til vill kom einhverntíma til greina að fara í mál. Þótt við hefðum fundið til þess vettvang og málstað voru lyktir þó sennilega of óljósar til að taka áhættuna af að missa stuðning grannþjóða og AGS.

Ef til vill var gerlegt að borga ekki. Við hefðum sjálfsagt komist upp úr einangruninni að lokum. Kannski um miðja öldina?

Ef til vill hefði verið hægt að finna meira fé hjá „óreiðumönnunum“.  Verið að reyna núna en átti auðvitað að byrja strax í október. Það tók þrjá mánuði bara að koma upp þessu embætti sérstaks saksóknara og ekkert fór að gerast fyrren Eva Jolie kom hingað að skoða Gullfoss, Geysi og Björk.

Og ef til vill hefði verið hægt að komast hjá því að borga reikningseigendum í IceSave krónu umfram  þessar þrjár milljónir eða hvað það nú er sem tryggingasjóðurinn miðast við. Það hefði þá þurft að hugsa áður en Íslendingum var lofað að innstæður þeirra í bönkunum yrðu ekki skertar.

Ef til vill. Og þó held ég í raun og veru ekki.

Núna er hinsvegar of seint að vera svartsýnn. IceSave-ákvörðunin er í raun tekin strax í upphafi kreppunnar. Hún er staðfest í þingsályktunartillögu í desember með atkvæðum Samfylkingarmanna og þingmanna Sjálfstæðisflokksins. VG og Pétur Blöndal voru á móti en Frjálsyndir og Framsóknarmenn sátu hjá, þar á meðal hin prúðlynda Eygló Harðardóttir. Síðan var farið að semja með þessu umboði.

… að vera svartsýnn

Við áttum varla annars úrkosti – það er alveg rétt. En skoðum samninginn – því þar eru þrátt fyrir allan blótsyrðaflauminn engin landráð og ekkert skuldafangelsi. Við borgum 5,5% vexti, sem eru erfiðir, en ekki drápsvextir. Það er því miður óraunhæft að bera þá saman við skammtímavexti núna í Evrópu, hvað þá íslenska húsnæðisvexti. Við – eða réttara sagt tryggingasjóðurinn – fáum lán hjá Hollendingum og Bretum, sem ekki er sjálfsagt. Það losnar auðvitað um eigurnar  – og strax er hægt að setja upp í þetta eitthvert Landsbankafé. Það sem skiptir svo mestu máli eru afborgunarlaus sjö ár. Ekki af því greiðslurnar frestist í sjálfu sér, þótt það sé kostur fyrir skítblanka þjóð, heldur af því að á þessum árum gefst tími til að koma eignunum í betra verð en annars hefði verið hægt. Nú er talað um meiri eignir en margir bjuggust við, þessvegna er áríðandi að vinna tíma – enginn í útlöndum er að kaupa mjög mikið nákvæmlega núna.

HFF

Þetta er auðvitað helvítis fokking fokk. En það er bara of seint að vera svartsýnn. Horfum á þann ávinning sem í þessu felst og reynum að taka saman höndum um að koma okkur út úr þessu án þess að fara á límingunum. Af því að ef við förum á límingunum verður þetta aldrei annað en sífellt og eilíft helvítis fokking fokk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (32)

  • Of snemmt að vera bjartsýnn

  • Duglausir menn.

  • Hákon Jóhannesson

    Mig langar til að leggja hér inn í tilefni dagsins einstaklega vel orðaða og hnitmiðaða samantekt á veruleikanum frá ofurbloggaranum Jakóbínu:

    “Flækja hagsmuna, bræðralaga og vitneskju um misgjörðir gerir það að verkum að stjórnmálamenn, með fortíð, geta ekki tekið ákvarðanir sem vinna gegn hagsmunum þeirra sem rændu þjóðina. Þeir sem ekki hafa hreinan skjöld þurfa að standa vörð um leyndardóma fortíðarinnar og geta því ekki unnið af heilindum að velferð þjóðarinnar. Leyndardómar fortíðarinnar hindra lærdómsgetu þeirra og menga menningarkima stjórnmálanna með athöfnum sem einkennast af dómgreindarleysi.

    Stjórnmálamenn sem runnu niður í hyldýpi græðgi, siðlausrar hegðunar og virðingarleysis við meðbræður sína trúa enn á léttvægar lausnir og fix“

    (www.kreppan.blog.is; Hættulegir þjóðinni, 4. júní 2009)

    Þetta er kjarni málsins í dag og sorglegur vitnisburður um stjórnmálamenn dagsins í dag sem bregðast þeirri ábyrgð sem við borgararnir treystum þeim fyrir. Taki til sín þeir sem eiga, að sjálfsögðu.

    Kveðja.

  • Gagarýnir

    Mér finnst ástæða til að „fara á límingunum“. Hér er verið að ræna fólk sem hefur greitt til samfélagsins. Bæði fyrir sig og afkomendur sína.
    Einn endalaust reiður:
    http://duchess.blog.is/blog/duchess/entry/864894/

  • Gagarýnir

    Þessi er reiður en annar er alltaf reiður:

  • Gagnrýnir hverju er verið að ræna? Það stendur nú til að eignir dekki þetta að mestu. Það er því verð að nýta eignir Landsbankans upp í þessar skuldir. Svo hverju er verið að ræna? Eftir hugsanlega 7 ár eða fyrr eru líkur á að lítið sem ekkert verði eftir af þessum skuldum. Talað um 33 milljarða til 150 milljarða en gæti orðið minna.

  • Gagarýnir

    Það stendur til. En við erum ábyrgðarmenn. það er heila málið. Óska þér alls góðs Magnús skattgreiðandi og á inni hjá ríkinu fyrir þín gjöld.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Sagan kemur til með að dæma hverjir eru landráðamenn og hverjir ekki. Það er tæplega tímabært fyrir þig að tjá þig um slíkt. Nazistarnir sögðu gyðingunum að þeir væru einungis að fara í bað. Allt þetta er afleiðing ESB hórirís ykkar Samfylkingarmanna og útlendingasleikjuhátt og undirgefni við kvalarann. Svei ykkur.

    Hluti af skrifum Jóns Vals Jenssonar sem er sennilega einn fróðastur Íslendinga um ESB og málefni tengdum því.

    „Hvar er ábyrgð Bretanna? Fjármálaeftirlits þeirra? Endurskoðunarfyrirtækjanna sem mæltu þar eindregið með fjárfestingum sveitarfélaga, lögreglustöðva, líknarfélaga og annarra í „traustum“ Icesave-reikningum? Er hún engin? Og hvar er ábyrgð opinberra aðila þar, sem einnig mæltu með því sama? Og ef menn sjá þessa ábyrgð þeirra, hvar endurspeglast hún í þessum laumuspils-samningum?

    Sendum við algera glópa til Lundúna? Voru þetta fyrst og fremst býrókratar í stað snjallra fjármálamanna sem kunna að ná góðum samningum? Hvert er viðskiptavit Svavars Gestssonar? Hefur hann komið nálægt fyrirtækjarekstri? Var ekki Þjóðviljinn kominn í þrot, þegar þeir skildu við hann, Svavar und Kameraten?

    Og hvers vegna gerist það aftur og aftur, að ríkisstjórnin felur staðreyndir? Hvað er að því að birta eignalista Landsbankans Icesave í Bretlandi?

    Og stórathyglisverð voru orð skólasystur minnar, Álfheiðar Ingadóttur, í sama þætti, nokkurn veginn svona: „Það er alveg rétt, að Evrópusambandið beitti alvarlegum og mjög miklum þrýstingi á þetta [Icesave-mál] siðastliðinn vetur,“ – og ég fagna því, að hún ætlar að upplýsa betur um það.“

    http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/891364/

  • Það sem þú trivialíserar hér á blogsíðunni er sú staðreynd að þið ætlið að nota fleiri peninga í að ná sátt við innistæðueigendur í Bretlandi og Hollandi en t.d. heimilisskuldara á Íslandi. Ekki dugar að benda á að aðrir hafi tekið vonda ákvarðanir áður heldur verður að sýna þjóðinni að þið séuð að berjast fyrir hagsmuni hennar. Í öllum aðgerðum ykkar hafið þið varið eignarfólk og refsað skuldurum og lagt meira upp úr því að ná sátt við útlendinga en eigin þjóð. Undirskrift þessa samnings er bara síðasta skettan sem fyllir mælinn og hefur fengið stóran hluta kjósenda ykkar til að vellta fyrir sér hvort nú nokkrum vikum seinna þurfi þeir að byggja götuvígji til að ná athygli ykkar og forgang, og margir farnir að sjá ykkur sem óvin fólksins sem þarf að berjast gegn með öllum mögulegum aðferðum. Þið hafið ekki gert neitt til að halda okkur með ykkur í liði og við sjáum ykkur frekar verandi í liði fjármagnsvaldsins hérlendis og erlendis. Það fellur á ykkur að sýna að þið séuð með okkur í liði, ekki öfugt.

  • Mörður, fólki líður eins og það sé þrengt að hálsinum á því. Ég næ varla andanum af áhyggjum yfir þessu öllu saman. Eftir að mesta reiðin er gengin yfir átta ég mig á því að Steingrímur og Jóhanna hafa verið að gera það sem í þeirra valdi stendur til að bjarga málunum. En þvílíkar upphæðir, hvað varð um alla þessa peninga?Það næsta sem við heyrum hlýtur að vera að það verður gengið að eignum þeirra sem áttu Landsbankann. Er ekki Björgólfur yngri enn á lista yfir ríkustu menn ? Nú þarf að sækja þessar eignir og láta þær renna í þessa hít. Það gengur ekki að láta eins og þessir menn séu ósnertanlegir. Þjóðin mun aldrei sætta sig við það.

    Svo þurfa stjórnvöld að átta sig á því að allar upplýsingar eru ansi smáar og fólk veltir fyrir sér hvað t.d. skilanefndir séu að bauka. Allt upp á borðið TAKK !

  • Ómar Kristjánsson

    „Og ef til vill hefði verið hægt að komast hjá því að borga reikningseigendum í IceSave krónu umfram þessar þrjár milljónir eða hvað það nú er sem tryggingasjóðurinn miðast við. Það hefði þá þurft að hugsa áður en Íslendingum var lofað að innstæður þeirra í bönkunum yrðu ekki skertar.“

    En er ekki verið að því ? Þ.e. borga lágmarkið sem tryggingarsjóður á að ábyrgjast samkv. dírektívinu. ? (plús vexti auðvitað)

    „Við fall gamla Landsbanka Íslands urðu inneignir 340 þúsund sparifjáreigendur óaðgengilegir í útbúum bankans í Bretlandi og Hollandi. Heildarupphæð þessara innistæðna nam jafnvirði rúmlega 1.200 milljörðum króna. Tryggingasjóður innstæðueigenda ábyrgist 20.887 evrur á hvern reikning eða um 660 milljarða króna miðað við núverandi gengi.“
    http://eyjan.is/blog/2009/06/06/yfirlysing-rikisstjornarinnar-um-icesave/

  • Hvað hefðirðu viljað gera ef IceSave ábyrgðirnar hefðu verið sexþúsund milljarðar?

  • Jafnaðarmaður

    Æji Mörður…

    Alltaf í boltanum…..??

    Vertu ekki að dreifa málinu.

    5,5 % vextir af Icesave eru okurvextir….

    Tjáðu þig frekar um það elsku drengurinn.

  • Ómar Kristjánsson

    Þetta er “ 1,25% álagi ofan á lágmarksviðmiðunarvexti OECD sem eru 4,30%.“

  • Guðmundur Gunnarsson

    http://jonas.is/

    06.06.2009

    Innantómar fullyrðingar

    Jóhanna Sigurðardóttir lýgur ítrekað að okkur, að 75%-95% fáist upp í skuld þjóðarinnar vegna IceSave. Hefur ekkert fyrir sér í því. Alls ekkert. Það er bara ein af venjulegum fullyrðingum hennar út í loftið. Eins og fullyrðingin um, að hin og þessi mál “verði skoðuð”. Ekkert hefur verið reynt að skýra, hvernig meintar eignir IceSave skiptist. Ekki orð um endurheimtulíkurnar í hverjum útlánaflokki. Og ekki orð um, á hvaða rökum þær séu reistar. Jóhanna vill bara, að fullyrðingum sínum sé trúað. Eftir það sem áður var heyrt í innantómum fullyrðingum hennar, er ótrúlegt, að fólk vilji trúa henni núna.

    06.06.2009

    Ríkisstjórnin lýgur ítrekað

    Ríkisstjórnin hefur ítrekað logið að ykkur, að eignir IceSave slagi hátt upp í skuldir, sem hún hyggst ábyrgjast. Lengst í þessum blekkingum hefur gengið Steingrímur J. Sigfússon. Hann hefur meira að segja lofað framgöngu Svavars Gestssonar sendiherra. Markmiðið er að selja þjóðinni þá firru, að meintar eignir IceSave verði seljanlegar. Ríkisábyrgð sé bara formsatriði. Varið ykkur á Steingrími. Ítrekaðar fullyrðingar hans um, að Ísland sleppi vel frá IceSave eru fullkomlega marklausar. Steingrímur hyggst gefa út óútfylltan víxil, sem verður ykkur hundraðfalt þungbærari en ríkisstjórnin fullyrðir.

    05.06.2009

    Landráð ríkisstjórnar

    Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um frábæran árangur í viðræðum við Breta um IceSave er samningurinn reginhneyksli. Hann er mesta hneyksli í allri sögu Íslands frá upphafi. Hann felur í sér, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon veðsetja þjóðina fyrir 630 milljörðum króna. Það er gersamlega út í hött. Ekki einu sinni í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Í staðinn fyrir “frábæran árangur” hefur Svavar Gestsson sendiherra samið um tómt rugl út í loftið. Núna loks er kominn tími til að gera byltingu. Vanhæf ríkisstjórn var vond, en verri er landráða-stjórnin.

    05.06.2009

    Ekki samþykkja IceSave

    Alþingi er næstsíðasti möguleikinn á að stöðva IceSave ríkisábyrgðina. Hún er óútfylltur víxill, sem hæglega getur leitt til þjóðargjaldþrots. Í bezta tilfelli drepur hún afkomendur okkar í skuldadróma um áratugi. Upphæðin er líka langt umfram skyldu Íslands samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Ríkisábyrgð á 630 milljörðum króna felur í sér hrein landráð. Alþingi verður að stöðva þennan landráðasamning. Annars verður alþingi götunnar að koma til skjalanna. Látið ekki þennan óútfyllta víxil verða að veruleika. Nú reynir á, hvort þjóðin er endanlega sofnuð eða hefur enn einhverja meðvitund.

    05.06.2009

    Þið ábyrgist öll IceSave

    Ríkisstjórnin lýgur að ykkur með IceSave. Í stað þess að segja ykkur frá hrikalegu tjóni er kominn óútfylltur víxill. Ríkisábyrgð verður látin hvíla á allri 630 milljarða skuld IceSave. Eitthvað mun fást upp í það af eignum. Ríkisstjórnin gefur í skyn, að það verði mikið, jafnvel upp í alla skuldina. Sannleikurinn er hins vegar, að ríkisstjórnin þorir ekki að leyfa ykkur að horfast í augu við veruleikann. IceSave ruglið mun kosta núverandi og væntanlega skattgreiðendur hundruð milljarða króna. Það er hengingaról, sem hindrar endurkomu samfélagsins út í sólskinið. Enn er logið að ykkur.

  • Mörður,

    Þú styður sérhverja heimskulega ákvörðun samfylkingarráðherranna.

    Þú er aumkunnarverður

  • Elías Pétursson

    Þetta er rugl, við munum aldrei geta borgað þá 320 til 900 milljarða sem samfylkingin í ESB sýki sinni samþykkir með þessari arfavitlausu aðgerð….

    svona samning gera bara aumir stjórnmálamenn sem eru ekki að hugsa um þjóð sína né land.

  • Úff þegar við förum að hlusta á Jón Val erum við endanlega búin að tapa okkkur.

  • Stefán Benediktsson

    Þetta er búið mál. Það er Landsbamkinn sem er að gera þetta, ekki ríkissjóður. það er hægt að endurfjármagna þetta í það óendanlega. Og ef í hart fer þá eru þetta í versta falli 900 milljarðar á 8 árum sem samsvarar ca 20% verðbólgu á ári, 300 milljarðar ca 7% verðbólgu og 150 milljarðar ca 4 %. Við höfum oft séð það svartara.

  • Hrafnhildur

    Hvernig getur fólk leyft sér að líkja Icesave-málinu við útrýmingu Gyðinga – skammastu þín Guðmundur Gunnarsson eða hvað þú nú heitir

  • Steinn Magnússon

    Ég legg til að þeir sem kvarta yfir Icesave samningnum taki það mál upp við þá sem réðu löggjöfini um bankamál og seldu Bjöggunum Landsbankann á sínum tíma. Þeir sem gáfu D og B umboð sitt, ár eftir ár, og gera en geta ekki hvartað núna, frekar en þeir sem gáfu brennuvörgum eldspýtur en telja sig nú geta „farið á límingunum“ yfir störfum slökvuliðsins.

    Hræðsluáróðurin frá Valhöll er að magnast eftir því sem rannsóknarmenn hrunsins ráðast inn í fleiri fyrirtæki sem tengjast þessum ósköpum öllum. Snaran þrengist og grísirnir veina, hæst veina grísirnir á þingi sem vita að jólin eru framundan og það er hamborgarahryggur á matseðlinum.

  • Stefán Benediktsson. Vilt þú ekki bara taka þetta sjálfur? Þetta er ekkert mál, samkvæmt þer.

    900 milljarðar á 8 árum ekkert mál!!! Hvað er þá mál fyrir þér? Hvers konar léttúðartal er þetta? Svona tala unglingar og ábyrgðarlaust fólk. Veistu ekki að það þarf að vinna fyrir þessum peningum? Það þarf að þræla fyrir hverri krónu. Það þarf að halda uppi heilsugæslu og menntakerfi. Það þarf að styrkja öryrkja og aldraða.

    Viltu ekki að fólk lifi við sæmileg kjör? Hvers konar hægri bulla segir svona?

  • Jafnaðarmaður

    Ég bið stefán að gera okur betur grein fyrir að þéta sé „lítið mál“.

    Það er eins og stærð málsins sé í hlutfalli við hvaða flokk maður s´tyður.

    Samfylkingin: Ekkert mál
    VG: Erfitt mál
    Sjálfstæðisflokkurinn: Mjög erfitt
    Framsóks: Óyfirstíganlegt

    Ég treysti Framsókn best.

    Ef einhvern djók er að finna í málinu, þá er það : Svavar Gestsson.

  • Mörður Árnason

    Ja, Ómar Kristjánsson – ég skil þetta svona: Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir í október að innstæðueigendur á Íslandi héldu öllum sínum peningum, og tóku þar með ábyrgð á Tryggingarsjóði gagnvart þeim, því hann er samkvæmt lögum ekki ábyrgur nema að hluta (1,7 m.kr.miðað við evrugengi 5.1. ´99, nú 2,5 m.kr. eða 20.887 evrur, plús hlutfallslega einsog peningarnir í sjóðnum endast). Það var því eðlileg krafa Hollendinga og Breta að það sama gilti um þeirra fólk. Niðurstaðan er hinsvegar sú að það fær lágmarkið úr sjóðnum en bresk og hollensk stjórnvöld borga það sem umfram er. Sú eftirgjöf af hálfu stjórnvalda í London og Amsterdam byggist væntanlega meðal annars á því að ekki var reynd dómstólaleið heldur gengið til samninga. – Er ég að misskilja þetta eitthvað?

    Lög o.fl. um sjóðinn hér: http://www.tryggingarsjodur.is/

  • Ómar Kristjánsson

    Mörður, jú ok. Sirka svona skil ég þetta líka.

    Það er nefnilega málið að það spilar líka inní þetta að erlendir hefðu líklega getað kafist nákvæmlega sömu meðferðar og íslenskir, þe. fulla tryggingu.

    En allavega, ég skil bara ekki hvernig nokkrum datt/dettur í hug að ísland geti komist undan því að bakka upp lágmarkið með einum eða öðrum hætti – án þess að það hafi afdrifaríkar afleiðingar.

    Veit ekki, en ég trúi bara ekki að margir íslendingar taki undir upphrópunarmálflutninginn sem er dáldið áberandi hjá stjórnarandstöðu og bloggum síðustu daga.

    Í rauninni alveg fáránlegur málflutningur. Það er búið að vera vitað síðan síðasta haust að ísland mundi þurfa borga þetta og þessi niðurstaða núna er miklu betri en áður var talað um.

    Svo láta menn eins og málið sé að dúkka upp núna. Sé bara nýbúið að finna það upp. Málflutningur sumra er einfaldlega fyri allar hellur og er í rauninni áhyggjuefni út af fyrir sig.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Mörður. Það er illt að sjá að þú ert farinn að ritskoða óþægileg pólitísk innlegg eins og aðrir Samfylkingarbloggarar.

  • Mörður Árnason

    Það er einhver misskilningur, engin ritskoðun hér, en beðið um að menn séu ekki með svívirðingar um nafnkennda menn aðra en sjálfan mig. Reyndu bara aftur. // M

  • Guðmundur Gunnarsson

    Sæll, gott að vita. Tek ofan fyrir ykkur þingmönnum sem hafið opið spjallkerfið sem því miður er sjaldgæft. Hef sent 2 sinnum innlegg sem fær á sig “ Your comment is awaiting moderation.“ Fyrst um hádegið og svo um 5 leitið. Kv. GG

  • Ómar og Mörður, helstu lögspekingar okkar hafa margoft tjáð sig um þessi mál. Sérfræðingar í Evrópurétti. Þeir meta það margir svo að okkur beri ekki að greiða Icesave reikning.

    Hvað hefur þetta að gera með stjórn og stjórnarandstöðu? Þarf ég að styðja Icesave samninginn af því ég kaus stjórnarflokkana?

    Þetta eru hagsmunir af þeirri stærðargráðu að hinn minnsti efi er nógur til að staldra við.

  • Logi Jónsson

    Það er bara ein spurning varðandi þatta mál, hvað er það sem þolir ekki dónstólaleiðina í þessu máli?? Dómstólar eru til að skera úr málum sem upp koma og ágreiningur er um.
    Kveðja, Logi

  • Samfylkingin þín Mörður, er að búa til nýtt viðmið sem verður erfitt að toppa. Enn og aftur kýs Samfylkingin að bjarga fjármagnseigendum þrátt fyrir mörg mótrök þessa efnis, innalands og utan.

    Núna er búið að kasta 660 milljörðum til Bretlands og Hollands með íslenskri ríkisábyrgð, í von um aðeitthvað fáist fyrir óreiðubréf Landsbankans, einkafyrirtækis Bjöggana? Af hverju taka þeir ekki sjálfir ábyrgð á sínu klúðri?
    Samfylkingin er eitthver sá versti stjórnmálaflokkur sem búinn hefur verið til.
    Mundu, að íslensk heimili kjósa næst, líklega á næsta ári. Þau geta ekki borgað endalaust.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Mótmæli verða fyrir framan Alþingishúsið á morgun, tíminn er óákveðinn en það verður tilkynnt á morgun í fjölmiðlum og í útvarpini.! Líklegt er að mótmælin verði alla vikuna á meðan að verið er að fjalla um samninginn en allt útlit er fyrir að hann verði felldur, því að meirihluti þingmanna mun ekki samþykkja hann! Það er verða allir að leggjast á eitt og mæta, hvet fólk til að vera með spjöld,búsáhöld og allt sem þarf til að láta í sér heyra, þingmennirnir þurfa að heyra vel í okkur og finna fyrir stuðningi almennings á meðan þeir eru að berjast fyrir okkur þarna inni á þinginu!

    http://www.facebook.com/group.php?gid=113280451146

    Þetta er tilkynning frá samstarfshópi sem kallar sig : Við neitum að borga skuldir sem við berum ekki ábyrgð á! (Icesave-málið)

    Á netfanginu er hægt að gerast meðlimur samtakana.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur