Föstudagur 12.06.2009 - 13:06 - 23 ummæli

Kóað með Kristjáni

Hingað kom í síðustu viku fólk frá Greenpeace og sagði Íslendingum þær fréttir að fyrir útflutningsvöruna hvalkjöt væri enginn markaður þar sem á að selja hana, nefnilega í Japan.

Afgreiðsla fjölmiðla á þessum tíðindum var ansi mikið 2007. Fulltrúar samtakanna héldu blaðamannafund í Reykjavíkurhöfn og frá honum var auðvitað sagt víðast hvar. Flestum fréttamannnanna hugkvæmdist svo það snjallræði að tala við „hinn“ aðilann í málinu, Kristján Loftsson í Hval hf. Þeir sem í hann náðu – sumum nægði að hafa reynt – höfðu eftir honum að þetta væri bara venjuleg lygi úr Grænfriðungum, nema hvað að nú þyrfti náttúrlega að efla markaðsstarf í Japan eftir langt hlé. Einn fréttamaður (allavega, hef ekki rannsakað nákvæmlega alla miðla) tók upp símann og hringdi í japanska hvalkjötskaupandann, viðskiptafélaga Hvals hf., sem var helsti heimildarmaður Greenpeace-manna. Sá vildi ekkert tjá sig við íslenska fjölmiðla. Og þarmeð var málinu lokið.

Nú verður að taka fram að einmitt um þetta leyti bar IceSave-fréttirnar sem hæst. og kannski komst fátt annað að á ritstjórnunum. Samt voru vinnubrögðin alveg í stíl við flestar fyrri fréttir af hvalveiðiævintýrum okkar – gagnrýnisaugun lögð á hilluna, fréttaflutningur í anda Gísla Einarssonar um káta karla, kóað með Kristjáni.

IceSave, já – en hvalveiðarnar eru hættuspil sem líka varða þjóðarhag, og markaðirnir í Japan eru úrslitaatriði í málinu –  sagði ekki ég eða Árni Finnsson heldur Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra þegar hann ákvað veiðarnar í janúarlok. Hvar eru sölusamningar Hvals hf. við Japana?

Sinnuleysi fjölmiðla er hér sérlega skaðlegt vegna þess að hjá stjórnvöldum er farið með allar upplýsingar um hvali einsog hernaðarleyndarmál – sem meira að segja þingmönnum gengur afar treglega að fá að vita um. Ég spurði til dæmis á þingi í vor um ýmsa þætti hvalveiðimálanna, eftir stjórnarskipti, og fékk eins lítil svör úr sjávarútvegsráðuneytinu og hugsanlegt var. Við spurningu um það hve mikill hluti hvalsins væri nýttur, og hver væri skipting afurða í kjöt, rengi, mjöl og lýsi, voru svör ráðherrans þessi: „Ráðuneytið hefur ekki þessar upplýsingar. Bent er á að leita þeirra hjá fyrirtækinu Hval hf. eða Hrefnuveiðimönnum ehf.“ Ég hef ekki enn orðið við ábendingunni, hvað sem síðar verður – en ætli „ráðuneytið“ mundi svara svona þinglegri fyrirspurn um hákarlaveiðar eða geitaslátrun?

Tryggingafé?

Menn sem þekkja til á þessu sviði klóra sér reyndar í kollinum og skilja lítið í Kristjáni Loftssyni að ætla enn að stefna fé sínu á glæ með þessum hætti – fyrir utan öll þau hundruð milljóna sem hafa oltið í sjóinn úr almannasjóðum vegna hvalveiðanna og kynningar erlendis á hinum svokallaða málstað Íslendinga. Síðast heyrði ég þá kenningu að Kristján hefði keypt sér tryggingu við rekstrarstöðvun í hvalnum og þyrfti endilega að komast af stað til að láta stoppa sig. Og hafi hingað til haldið sér uppi með svipuðu tryggingafé. Þessa sögu sel ég sirka jafndýrt og ég keypti hana – en það er eðlilegt að menn leiti annarra skýringa en í venjulegum viðskiptahagsmunum á þessari ævintýramennsku Kristjáns, með fullu samþykki sjávarútvegsráðherra fyrri aldar og þessarar. Eða hvað, VG?

Hvalveiðiráðið

Kristján er annars seinn af stað í hvalavertíðina miklu sumarið 2009, sem átti að skapa „á þriðja hundrað störf“. Sjálfsagt er ýmis undirbúningsvandi – ekki getur núna verið skortur á vinnuafli til veiða og vinnslu? Kannski finnst honum ekkert verra að hefja á ný hagnaðarveiðar á stórhveli einmitt rétt eftir miðjan mánuð. Alþjóða-hvalveiðiráðið kemur saman á árlegan fund sinn í Madeira 22. júní (aðalfulltrúarnir, vísindamenn löngu sestir niður syðra), og upphaf veiða um það leyti mundu örugglega skemma meira fyrir málamiðlunartillögum til að koma ráðinu úr sinni frægu pattstöðu – alger hvalfriðun á miklum hluta heimshafanna en leyfa veiðar á ný á strandsvæðum til innanlandsneyslu. Það er víst ekki í samræmi við íslenska málstaðinn.

Evrópusambandið

Þá er mikið keppikefli fyrir Kristján og aðra Sanna Íslendinga að koma í veg fyrir aðildarumsókn að Evrópusamabandinu. Innganga mundi nefnilega þýða sjálfkrafa gildistöku tilskipunar ESB um búsvæði (habítat) dýra þar sem hvalir eru einfaldlega friðaðir í heild sinni í viðkomandi viðbæti.

Einsog um margar aðrar ESB-reglur gildir hér að það má reyna að semja sig á svig við þær í aðildarviðræðum. Það gengur örugglega ekki með stórhvalaveiðar, en í samningi Norðmanna 1995 var hinsvegar undanþága fyrir hrefnuveiðar á strandsvæðum, sem hugsanlegt væri að reyna að ná í samning okkar. En það er sjálfsagt heldur ekki í samræmi við íslenskan málstað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Sæll Mörður
    Það vita allir sem hafa einhver tengsl við Japan að þar er enginn markaður fyrir íslenskt hvalkjöt. Þetta hefur verið vitað í mörg ár. En að það sé hlustað á þá sem þekkja til. Það er ekki íslenska leiðin.
    Frekar var hlustað á mjög þröngan hagsmunahóp (hóp sem inniheldur líklega einn mann Kristján Loftsson)sem „því miður“ mun ekki einu sinni geta selt kjötið til útlandi eins og þeir héldu fram.

  • Mjög athyglisvert. Hvalur undir steini.

  • Ómar Kristjánsson

    Það tekur 1-2 klukkutíma (í mesta lagi) í rannsóknarvinnu á netinu, að komast að því að japanar metta auðveldlega hv.kj markaðinn þar i landi – svo málflutningur Grænfriðunga er sannfærandi.

    Afhverju ættu japanir að fara að standa í heljarveseni með innflutning kjöti alla leið frá íslandi í svo sem engum tilgangi. Óskiljanlegt.

  • Borðum hann bara sjálf, hann er ljúfengur, getum allavega ekki látið hann borða allan annan fisk í sjónum, það er ljóst!

  • Ómar Kristjánsson

    Jóhanna, í fyrsta lagi borða íslendingar ekki lengur stórhveli og í annan stað þurfa veiðar á stórhvelum að vera miklu miklu meiri til að það hafi áhrif á fiskistofna.

    Það sem talað er um nú hefur ekkert að segja varðandi fiskinn. Ekki neitt. Til að hafa einhver áhrif þar erum við að tala um stórfellda slátrun heilt yfir línuna á stórhvelum, öllum stofnum. Svo stórfellda að landsvæði íslands dyggði líklega ekki fyrir hvalakjötsfjöllin sem hrönnuðust hér upp. Mundi sökkva landinu líklega.

    Þetta er bara vitleysa þetta hvalaflipp Kristjáns.

  • Þórarinn Örn

    Grillaður hvalur er góður hvalur.
    Svo er það misskilningur að íslendingar borði ekki stórhveli, íslendingar borða eimmitt stórhveli, útlendingar gera það hinsvegar ekki.

    Afhverju ekki að skjóta hval og borðann? Norðmenn gera það í töluvert stærri stíl en við, hefur einhver heyrt um að ferðamenn forðist Noreg vegna þess? Auðvita ekki.

    Mörður eins og svo margir íslendingar er haldinn þeirri veilu að pissa í buxurnar í hvert skipti sem útlendingur hóstar. Við eigum ekki að láta einhverja útlendinga og hagsmunahópa tuska okkur til í þessu máli.

    Hér eru nokkur ókeypis rök fyrir þig Mörður næst þegar þú hittir útlending sem gagnrýnir okkur vegna hvaladrápa:
    „Við skulum hætta að drepa hval þegar þið hættið að drepa fólk“-Getur sagt þetta við bandaríkjamenn.
    „Við skulum hætta að drepa hval þegar þið hættið að framleiða vopn í stórum stíl“-Þetta má segja við svía.
    „Við skulum hætta að drepa hval þegar þið hættið að sleppa geislavirkum úrgangi í hafið“-Þetta má segja við breta.
    „Við skulum hætta að drepa hvali þegar þið hættið að geyma flóttamenn eins og skepnur í búrum“-Þetta má segja við ástrali.

    Eins og með svo margt þá er þetta bara spurning um framkomu og attitude, við ráðum okkur sjálf (á meðan við stöndum utan ESB) og þurfum ekki að spyrja neinn né biðjast afsökunar vegna þess að okkur langi til að borða hval.

  • Greenpeace er ekki treystandi, ég man vel eftir því þegar þeir birtu heilsíðu auglýsingu í stóru virtu bresku blaði með þeirri fullyrðingu að íslendingar dræpu
    1000 hvali …ég vann í hvalnum þá vertíðina, ef ég man rétt voru þeir rúmlega 100 sem veiddir voru. Hvað finnst þér Mörður þegar samtök sem berjast fyrir ákveðnum málstað beita blekkingum og lygum? Ég myndi gjarnan vilja að þú svaraðir mér, hvert er réttlætið í því?

  • Mörður Árnason

    Ja, ef okkur langar að éta hval — er þá ekki einfaldast að lýsa yfir stuðningi við málamiðlunartillögu Kana um strandveiðar til innanlandsneyslu? Eithvað heyrist mér samt að það sé ekki nóg fyrir frjálsræðishetjurnar.

  • Af hverju er Greenpeace að eyða svona miklum tíma í að hafa áhyggjur af því hvort Hvalur hf. er búinn að selja hvalaafurðirnar, mér finnst einhvernveginn það segja sig sjálft að það sé aðeins erfitt að sellja vöru sem er ekki til, eigum við ekki bara að leyfa þessum veiðum að fara fram og sjá svo til hvort kjötið selst. Ég er viss um að Kristján Loftsson er ekki svo mikill bjáni að hann sé bara að veiða hvali til að drepa þá…..ef svo væri myndi ég verða reiður, hann hlýtur að vera með trygga sölu, þetta er svona eins og með lambakjötið hér á landi, þeir sem eiga hagsmuna að gæta í því vilja náttúrulega ekki fá erlent lambakjöt á markaðinn, það gæti bæði verið ódýrara og (nú brenn ég í elvíti til eilífðar fyrir að segja þetta) kannski bara betra en íslenska lopabragðslambakjötið!!!!
    Ef svo Kristján selur kjötið getur Steingrímur alltaf hafnað þeim peningum sem við myndum fá út úr þeim viðskiptum, það er ekki eins og þjóðin sé á hausnum.

  • Við eigum ekkert að vera að veiða meira af þessum hvölum en við getum torgað. Það hlýtur að duga okkur.

  • Heimir Hermannsson

    Ég var á fiskmarkaðnum í Tokyo í síðustu mánuði. Ég talaði við fjölda kaupenda og allir sögðu þeir það sama…að það væri enginn markaður í Japan fyrir íslenskt hvalkjöt.

  • Þórarinn Örn

    Það er rétt Mörður, það er ekki nóg fyrir frjálsræðishetjurnar og alla þá sem bera hag íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti.
    Afhverju er yfirhöfuð einhver málamiðlunartillaga í gangi um hvalveiðar?
    Hvað kemur næst, málamiðlunartillaga um að fá að drepa minnk?

    Svo sé ég ekki að það sé eitthvað verra að kóa með Krisjáni en að kóa með Greenpeace.

    Allir sem eitthvað vit hafa á umhverfismálum vita svo að það er miklu umhverfisvænna að borða hvalkjöt en annað kjöt sem í boði er.

    Svo er bara að skella sér í Nóatún og kaupa hrefnu á grillið, það er aldeilis hrefnugrillveður í dag.

  • Mér finnst alltaf brilliant þegar menn eins og þú og Árni Finnson eruð að tosa viðskiptaleg sjónarmið á flot í sambandi við hvalveiðar.

    Þið eruð á móti þeim PUNKTUR þið þurfið ekkert að þykjast hafa áhyggjur af markaðshorfum fyrir hvalkjöt í Japan.

  • Þetta er nú eiginlega með eindæmum. Hvaða máli skipta markaðir með hvalkjöt í spurningunni um hvort leyfa eigi hvalveiðar eða ekki. Ágætt ef þú hafir áhyggjur af fjármálum Kristjáns Loftssonar, en hvaða máli skipta þau í þessu sambandi? Annars hljómaði þetta nú meira eins og rógburður og slúður.

    Hvalveiðar eru spurning um atvinnufrelsi og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Ef þér finnst hvalir vera mannlegri dýr en t.d. svín og kýr þá það – Það eru allavega rök.

    Það er slippery slope fallacy fólgin í þessum rökum þínum (fyrir utan það að þau eru útí hött). Hvað næst? Ætliði að banna fólki að spila pönk og hafa atvinnu af þeirri tónlist af því að það hlustar enginn á pönk og tónlistin hefur slæm áhrif á ímynd Íslands. Á ekki bara að banna plebba yfir höfuð? Alla þá sem passa ekki í hið alþjóðlega framtíðarríki ykkar kratanna?

    Annars borðaði ég þetta fína hrefnukjöt í gærkveldi.

  • Barði : Eru það ekki rökin á báðum /öllum hliðum í málinu sem skipta mestu máli, frekar en hverjir bera fram rökin ?

    Varðandi það hvort Íslendingar borða stórhveli, þá er náttúrulega átt við hvort markaðurinn sé nægilega stór hérlendis fyrir magnið sem var talað um hér í umræðunni.

  • Kristján Loftsson gæti orðið jafn dýr fyrir Íslenska Þjóð og Jónas Fr Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME sem var getulaus í sínu embætti og klappaði fyrir ICESAVE. Kristján hefur logið að Þjóðinni, Þingmönnum, fréttamönnum og Ráðherrum um að það sé markaður fyrir kjötið í Japan! þó hann muni ná að selja það það myndi það ekki ná uppí 50% af vinnslu af flutningskostnaði per kíló.

  • Morten:

    Ég held að það geti skipt máli hverjir bera fram rökin, það er ekki eins og Mörður og Árni Finnson yrðu allt í einu stuðningsmenn hvalveiða þótt að Japanir greiddu kíló af gulli gegn hverju kílói af hvalkjöti.

    Þeim þykir vænt um hvalina og taka afstöðu útfrá tilfinningarökum það er að sjálfsögðu ekkert nema gott um það að segja, en þeir séu að atast í arðsemi veiðanna er að mínu mati yfirklór – af því að ég held að Mörður gæti aldrei nefnt neina tölu í hreinan gróða sem myndi að hans mati réttlæta að veiða hval.

    Annars er spurning af hverju Samfylkingin situr hjá í þessu hvalveiðimáli. Ætli Kristján Loftsson hafi styrkt Samfylkinguna um einhverja þúsundkarla ?

  • En það er væntanlega snyrtilegra að taka aðeins fyrir þessi hagkvæmnissjónarmið sem gagnrýnin í þessari grein byggir á.

    Hvalveiðar eru stundaðar af einkaaðilum sem ætla að koma sinni vöru í verð sjálfir.

    Ef það gengur ekki upp peningalega er því veiðunum sjálfhætt.

    Að spyrja Greenpeace útí markaði fyrir hvalkjöt og er eins og að spyrja „setjið eitthvað skondið hérna inn“

    Svo eru það hræðsluáróðurinn um að allir hætti að kaupa íslenskt.
    Í fyrsta lagi það eiga allir sínar beinagrindur í skápnum (í augum Greenpeace og annarra umhverfisbattería). Hvort sem að það er dráp á dýrum með stór augu, hvölum loðfeldarækt eða verksmiðjuframleiðsa á kjöti.
    Þessi samtök finna sér alltaf eitthvað til að vera á móti – þannig viðhalda þau sjálfum sér.
    Í öðru lagi alveg sama hvað Árni Finnson ímyndar sér það mikið og segir það oft í fréttatímum þá hafa þessi samtök alls ekkert ægivald yfir fólki í heiminum.

  • anna benkovic

    Kristján er vanur að þessi þjóð (hans?) sé að „kóa“ með honum! Hann hefur oft logið að þjóð sinni!

  • Ef einhver kann þá list að rétta fingurinn uppí loft, og sjá
    hvaðan vindáttin kemur….. kóar kóar kóar svo með…
    þá er það samfylkingin.
    Hvalkjöt og ég tala nú ekki um rengi er algert lostæti.
    Get ekki beðið.

  • Þetta er svipaður áróður og hefur verið gagnvart stóriðjum og álverum.
    Allt að fara á hausin og enginn vill kaupa ál.
    Staðreyndin er sú að álverð er á bullandi uppleið eftir niðursveiflu eins og í flestum greinum nema gulli því mikið ku vera étið af því.
    Ekki nóg með að álverð hækki heldur eru hlutabréfaverð í álfabrikkum á fljúgandi ferð upp á við.
    Við skulum ekki trúa niðurrifsöflum sem aldrei hafa lagt neitt gagnlegt til samfélagsins.
    Syngjum á íslensku.

  • Mörður ….. prentaðu þetta þut og dreifðu í þingflokknum.

    http://ragnar73.blog.is/users/03/ragnar73/files/landsbanki.pdf

  • Mörður Árnason

    Takk fyrir hressilegar umræður — þér líka, Óli — en um þessar mundir er Mörður Árnason ekki í þingflokki Samfylkingarinnar, og mælir ekki fyrir munn hans, þótt vissulega sé stutt milli bæja.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur