Sunnudagur 14.06.2009 - 20:14 - 18 ummæli

Meiriháttar efnahagsráðgjöf

Í fréttum Stöðvar tvö (og á Vísi) fáum við að heyra að það sé ekkert vit að leggja á nýja skatta. Þá eigi fólk ennþá erfiðara í kjölfar kjaraskerðingar með gengisfalli og dýrtíð að ekki sé talað um skerta atvinnu – og fyrirtækin þoli auðvitað ekkert. Í staðinn á að skera niður hjá ríkinu. Þetta var í helstinu

Heimildarmaðurinn var Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður, fyrrverandi efnahagsráðgjafi og bankastjóri. Og svo er rætt við hann í fréttatímanum í garðinum heima hjá sér, og hann endurtekur það sem áður sagði. Svona hagstjórn sé einsog fyrirtæki sem hættir að selja og bregst við með því að hækka verðið á vörunni.

Meðan áheyrendur eru að melta þessa samlíkingu byrjar hagfræðingurinn að tala um niðurskurðinn og fram kemur að margt megi skera niður. Hann nefnir að vísu ekkert sem á að skera niður, en …:  „Ég held að það sé hægt að spara og skera niður á sumum stöðum en við megum alls ekki ganga nærri velferðarkerfinu það er segja mennta-, heilbrigðis- og tilfærslukerfinu.“

Ergo: Gatið er 20–25 milljarðar (40 segir TÞH). Tryggvi Þór Herbertsson vill engar nýjar tekjur í ríkissjóð heldur á að skera niður fyrir þessum milljörðum. En alls ekki með því að „ganga nærri“ menntamálum, heilbrigðisþjónustu og bótum.

Hvar þá? Meinar hann landbúnaðinn? Vegaframkvæmdir? Umhverfisrannsóknir og náttúruvernd? Fangelsin kannski? Eða er þetta hefðbundinn popúlismi um sendiráð og ferðalög ráðherra? Af hverju segir Tryggvi Þór okkur ekki bara frá því sem Sjálfstæðisflokkurinn vill núna skera niður en lét eiga sig í átján ár meðan ríkisútgjöld uxu sem aldrei fyrr?

Hér er til fróðleiks nýsmíðuð stefna Sjálfstæðisflokksins um ríkisrekstur, úr greinargerð við efnahagstillögur flokksins: Verðlaun í boði fyrir þann sem skilur hvar á að afla 20-40 milljarða með niðurskurði:

,,Ljóst er að leita þarf allra leiða til að hagræða í ríkisrekstrinum. Sú vinna verður erfið og þar hlýtur allt að vera undir. Skynsamlegt er að leita breiðrar samstöðu um forgangsröðun og það er fagnaðarefni hve ábyrgt aðilar vinnumarkaðarins nálgast þetta verkefni. Haft verði að leiðarljósi við þær aðgerðir að auka hagkvæmni þar sem því verður við komið, t.d. með sameiningu ríkisstofnana. Einnig verður nauðsynlegt að auka tekjutengingar og draga úr tilfærslum. Brýnt er að hagræðing í opinberri þjónustu verði útfærð með þeim hætti að skorið verði hlutfallslega minna niður í velferðarkerfinu og í málaflokkum sem tengjast kjarnastarfsemi hins opinbera, svo sem heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og löggæslu en meira á öðrum sviðum, t.d. í utanríkisþjónustunni.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Þið gætuð t.d. náð þessum peningum með því að ógilda afturköllun á persónulegum ábyrgðum á kúlulánum Kaupþingsmanna.

  • Priscilla

    Það er hægt að taka á ríkisfjármálum á tvenna vegu.

    – skera niður útgjöld (= minni, verri þjónusta)

    – auka tekjur (= skattheimta)

    Ætli séu ekki til nokkuð margir þjónustuliðir sem mætti eiga við á síðustu og verstu tímum?

    Að maður tali ekki um gæluverkefni.

    Ég er ekki í stuðningshópi neins stjórnmálaflokks, en veit það frá fyrstu hendi að það er ekki hægt að bjóða heimilunum í landinu upp á meiri álög en nú þegar er búið að leggja á fólk.

    Það er of seint að skera niður árið 2010.

  • Sigtryggur Jonatansson

    Afnema listamannlaun.

  • Grímur Atlason

    Mér leiðast efnahagsráð Tryggva Þórs en mig langar til að hlusta á Konu sem hann tók upp með Bubba, Komma og Tolla fyrir 25 árum. Sú sessjón var tekin rétt áður en Bubbi fór í meðferð og allt ku hafa verið nokkuð hraðar en Bubbaaðdáendur fengu að kynnast síðar – en platan vera tekin upp aftur eftir meðferðina og þá ekki með Tryggva….

  • Elías Pétursson

    Enn fellur þú í þá gryfju að leggjast í hinn heimska skotgrafahernað stjórnmálanna, en þú vilt víst vera þar.

    Tekjur ríkisins verða því miður ekki til nema með tekjum og eyðslu þegnanna þmt fyrirtækja.

    Laun og tekjur þegnanna hafa rýrnað um tugi prósenta frá hruni, á meðan hafa lán og vöruverð hækkað um tugi prósenta………á einhverju tímapunkti mun fólk telja að ekki sé þess virði að standa í þessu lengur og fara.

    Þjóðir geta orðið gjaldþrota á fleiri vegu en peningalega, td með brottflutningi fólks vegna of hárra og eða ósanngjarnra skatta, en því miður skilur þú það ekki.

    Áhyggjuefnið núna er hvenær fólk (almenningur og venjulegir atvinnurekendur) hætta að nenna því að taka þátt í ruglinu, gefast upp og fara…..

  • Varnarmálastofnun 1ma.
    Vegagerð 15ma
    Tónlistarhús ?
    Nýtt varðskip ?
    Lækknun foreldraorlofs ?
    Hætta að vera með fjölda háskólasetra og háskóla.
    – Samtals ca 25ma.
    Þetta tók mig 5 mínútur, var ekki með fjálögin við hendina og er bara rétt að byrja. Á stjórnartíma Sjálfgræðiflokksins voru ríkisútgjöld hækkuð mikið, á góðæristíma. Það á að vera vandalítið að skera nú þegar búið er að koma þjóðinni á hausinn.
    Vegagerð er frábært framfaramá – ef maður hefur efni á henni. Annars verður bara að dóla sér á gömlu vegunum.
    Það er frábært að kenna sem flestum stærðfræðigreiningu á háskólastigi. En það er nóg að gera það í einum fyrirlestrasal ef þú hefur ekki efni á núverandi lúxus.
    Samskonar rök eiga við um flesta hina liðina.
    Það er ansi hart að þegar við losum okkur við vanhæfa ríkisstjórn siðspillingarflokkanna þá séu þeir sem taka við óhæfir að takast á við vandann. Hræddir við að skera það sem þarf.
    Eru eingöngu óhæfir eistaklingar á þingi ?

  • Mörður Árnason

    Gott hjá þér, Magnús. Gallinn er sá að þegar þú skerð niður vegi og tónlistarhús ertu að auka atvinnuleysi og þarmeð útgjöld Atvinnutryggingarsjóðs, og leggja meira á velferðarþjónustuna alla. Og ´þú sparar ekki mikið á því að leggja niður nokkra rektora eða stærðfræðikennara. En það er tilraunarinnar virði að reyna, jafnvel án fjárlaga, og þú gerir að minnsta kosti betur en Tryggvi Þór, því þínar tillögur er hægt að ræða, ekki hans.

    Það hvarflar ekki að nokkrum manni að ekki sé hægt að spara, að minnsta kosti tímabundið, í kerfinu. Þeir sem segjast ætla bara að fara þá leið og leggja ekki til tekjur — einsog Tryggvi Þór — og ætla samt ekki að ,,ganga nærri“ velferðarkerfinu — ja, þeir verða einfaldlega að leggja fram lista um þann niðurskurð.

    Skattar geðjast engum. Í núverandi stöðu held ég samt að það versta séu óábyrgir stjórnmálamenn sem gefa sig út fyrir að kunna ódýrar lausnir á miklum vanda. Ég hélt satt að segja að Tryggvi Þór Herbertsson væri ekki einn af þeim — kannski einmitt vegna þess (já, Grímur!) að hann kom nokkuð óvenjulega leið inn í stjórnmál og á þing, einkum af D-listamanni að vera. Reynslan sker úr, en fyrstu skrefin lofa ekki góðu.

  • Þið kratarnir og kommarnir hefðuð nú getað sparað eitt eða annað áður en þið réðust að alþýðu landsins jafn grimmilega og nú er að verða raunin. Annað eins hefur ekki sést síðan þið voruð við stjórnvölin með forsetalufsuna í fjármálaráðuneytinu að útbítta dúsum á vini og vandamenn á meðan alþýðan svalt.

    Þið hefðuð t.d. getað sleppt því alveg að ráða Baldur Guðlaugsson aftur. Það er maður sem kostaði Landsbankann margar milljónir.

    Þið hefðuð getað haft almennilegt lið embætti sérstaks saksóknara, eins og Björn Bjarnason lagði til, en Steingrímur J. eyddi með málþófi, þá hefðu kannski nokkrir tugir milljarða af peningum sem bankabófarnir stálu skilað sér aftur í kassann.

    Þið hefðu kannski ekki átt að klappa baugi svona blítt í gegnum árin. Gjaldþrot fyrirtækja þeirra og stöðutaka þeirra gegn krónunni hefur kostað fólkið í landinu margfalt þær kjarabætur sem þeir feðgar voru búnir að koma til fólksins með lægra vörurverði.

    Þið hefðuð líka getað skorið eitthvað niður í þessu ESB dótaríi, það er verið að vinna nótt við nýtan dag í utanríkisráðuneytinu að semja alls kyns bandorma og gera klárt fyrir næsta hal í ESB viðræðum. Það liggja nokkur hundruð milljónir þar undir steini.

    Öryggisráð SÞ kveikir líka á nokkrum hundruð milljónum. Vonlaust dæmi sem Ingibjörg Sólrún og co. sólunduðu peningum almennings að því forspurðu.

    Það er eitt og annað sem Samfylking ber ábyrgð á. Setji menn það í samhengi, s.s. þá staðreynd að flokkurinn hafi bara setið við völd í um tvö ár, þá er ekki spurning að enginn flokkur í Íslandssögunni hefur sólundað álíka mikið af fjármunum almennings á svo stuttum tíma.

    Núna kemur alþýðan til með að blæða þegar Samfylkingar og VG fólk er beggja megin borðs, þ.e. innan ríkisins og verkalýðsfélaga. Þá fær alþýðan sama helvítis löðrungin og hún fékk þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra og hækkaði alla skatta á nauðsynjar í botn á meðan hann var að gefa eftir skuldir einstaklinga og fyrirtækja til ríkisins, s.s. bókaútgáfu sem mig minnir að aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi nú átt. Kannast einhver við þessa taktík á skuldaniðurfellingum síðustu daga Mörður?

  • Vegagerð er að mestu greiðsla fyrir tæki að minnihluta greiðsla til starfsmanna. Með því að færa vinnuna í viðhald opinberra bygginga væri hægt að spara marga milljarða. Ef ég man rétt eru útgjöld til nýframkvæmda vega um 25 milljarðar. Að vísu að hluta til brúargerðar sem er mannfrekari en samt – í vegagerð er hægt að sækja VERULEGAN hluta þess sem vantar. Vegir sem hafa dugað okkur hingað til duga áfram. Við þolum tafir frekar en gjaldþrot heimila, við þolum króka frekar en samdrátt í heilsugæslu. Hitt vitum við öll að mórallinn á þingi hefur verið þannig að það er eins og að slíta úr ykkur hjartað að tala um sparnað þar – öll rök með blásin up úr öllu valdi.
    Er ekki að mæla Trygga Þór bót – er meira en til í að borga meiri skatta. Hitt er ljóst að það er ekki hægt að takast á við fjálögin á þess að hafa þor í alvöru niðurskurð og þar virðist ykkar bresta kjarkinn.

  • Björn Kristinsson

    Mörður,

    Ísland er ekki eina þjóðin sem er í slæmum málum þótt við séum reyndar sér á parti. Reynum að finna ekki hjólið upp á nýtt. Það er nefnilega ekki til neitt sem heitir séríslensk hagfræði.

    Írar fara þá leið:

    1/3 auknar tekjur (aukin skattheimta)
    1/3 niðurskurður
    1/3 minni fjárfestingar

    Hugsanlega yrðu auknar skatttekjur að vega minna til að byrja með en síðan mætti auka þann þátt þegar efnahagsumhverfið breytist til hins betra.

    Ef markmiðið er að styrkja IKR er lykilatriði að fjárþörf ríkisins minnki. Þannig tekst að minnka til muna peningamagn í umferð. Þannig mun takast að lækka vexti.

    Lykilatriðið er hins vegar að ná stöðugleika í gengismálin. Án hans verða falla allar áætlanir um sjálft sig. Verðbólgan verður viðvarandi, sem aftur leiðir til þess að raungengi IKR hækkar. Þetta er leið sem við viljum ekki fara því þannig festum við varanlega gengi krónunnar í því gildi sem hún er í dag.

    Ef útflutningsfyrirtækin virða ekki skilaskylduna þá verður einfaldlega að hóta að taka upp söluskyldu á erlendum tekjum. Þá fer gjaldeyririnn að skila sér betur til landsins.

  • tannburstinn

    Aðeins 10 af 233 ríkisstofnunum skila rekstraráætlunum of seint.

    Á þessum forsendum á að hækka skatta og dæla peningum í eitthvað sem enginn veit hvað er.

    Þetta köllum við framúrskarandi ákvarðanatöku:

    a) verið að umbuna illa reknu kerfi

    b) ætt áfram án þess að hafa yfirlit yfir staðreyndir og áætlanir

    Undir svona kringumstæðum á ríkið engan rétt á því að hækka skatta. Það virðist allt vera í óreiðu hjá stofnunum þess.

  • Sammála, Björn. Engin billeg leið til. En það verður líka að vera eitthvað framundan: evra, önnur sýn í atvinnumálum, og ekki síst samstaða um nýjan gildisgrunn — sem við erum ekki að tala nógu mikið um.

  • Er örugglega hægt að skera niður í Utanríkísráðaneytinnu og lækka laun toppanna hjá ríkinnu.

  • Jói, finnst þér nú ekki sennilegt að Baldur hangi í starfi af einhverjum öðrum ástæðum en þeim að það sé svo mikill áhugi á hans framlagi? Nú eða Bolli kallinn. Svo ertu nú eitthvað aðeins að rugla með Öryggisráðið þar sem ISG tók við því bjálfa verkefni manstu. Það er nú kannski rétt að benda þér á að BB minnkaði framlög til efnahagsbrotadeildar en jók þau til sérsveitarinnar. Gaman að svona köllum í Camó og allt, næstum eins og að vera með her.

  • Ýmislegt má vafalaust gott segja um Tryggva Þór. Mér finnst hann samt vera hálf marklaus vitleysingur eftir að hann lét frá sér skýrsluna alræmdu.

    Hefur það einhvers staðar komið fram hvað hann fékk mikið borgað fyrir hana?

  • Jæja, byrjar þá söngurinn um Björn Bjarnason, hvernig hann og Davíð Oddsson skemmdu allt með því að setja sig upp á mönnunum sem stýrðu útrásarhelförinni. Björn sem var alltaf að gera eitthvað mál úr Baugi og Davíð sem var að taka peningana sína út þegar Sigurður Einars og co. fóru að skammta sér fyrstu en ekki síðustu ofurlaunin. Man nú ekki mikið eftir viðbrögðum úr ranni samfylkingar þá, og er ég þó frekar minnugur á viðbrögð fólks þegar slíkur þjófnaður um hábjartan dag á sér stað.

    Ég hélt satt að segja að þegar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon væru komin við stjórnvölin, þá væru dagar manna á borð við Baldur senn taldir í ríkisapparatinu. Það sýnir bara hversu aumt þetta lið er að hann skuli lafa þarna enn. Maðurinn braut af sér, það vita allir. Fyrir það á að refsa honum.

    Rosalega hefði maður verið til í að hafa einhvern að kaliberi Vilmundar heitins Gylfasonar í dag. Þá hefðu þessir andskotans bandíttar fengið, ekki bara að heyra það, heldur að dúsa bak við lás og slá.

    hvernig stendur eiginlega á því að ekkert hefur gerst? Danir voru sex mánuði að dæma danska fjárglæframanninn Bagger í sjö ára fangelsi. Þessir náungar sem hafa hagað sér svipað hérlendis ganga allir enn lausir? Hvernig er það hægt? Hvað þarf til svo eitthvað fari að gerast í þessum málum?

    Að lokum held ég að menn á borð við Mörð Árnason ættu að einbeita sér að því að vera í stjórn og koma með lausnir að þessum vandræðum sem við erum í, en ekki stunda þennan skæru-stjórnarandstöðu hernað. Menn verða að vita hvert sitt hlutverk er. Núna er Mörður í stjórn, þá á hann að koma með lausnir, en ekki eyða sínu púðri í að gagnrýna þá sem eru í minnihluta. það kemur ekkert út úr því. Á meðan slík vinnubrögð eru stunduð flýtur landið enn nær feygðarósi.

  • Mörður

    Mig langar að spyrja þig, hvað hefur þinn flokkur lagt til, annað en EBS og skattahækkanir, til að leysa vandamál hagkerfissins?

    Nú er þér búið að vera hafnað tvisvar í kostningum, þurfum við nokkuð að hafa áhyggjur að þú reynir í þriðja skipti?

  • Elías Pétursson

    Hvað vinna margir íslendingar við tónlistarhúsið?

    Hve stór hluti þeirrar gæluframkvæmdar eru innlend vorukaup og hve stór hluti erlend vörukaup?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur