Mánudagur 15.06.2009 - 10:39 - 22 ummæli

Hjáseta um landráðin?

Eftir hin stóru orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um IceSave-málið er niðurstaða miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins í Keflavík einungis sú að styðja ekki samninginn. Upphafsorð samþykktarinnar benda til þess að hluti þingflokks Framsóknar hyggist sitja hjá í atkvæðagreiðslu um IceSave-málið á þinginu:

„Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins, haldinn í Keflavík 13. júní 2009, skorar á þingmenn flokksins að greiða ekki atkvæði með samningi um uppgjör vegna ICESAVE-skuldbindinga Landsbankans, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.“

Miðstjórnarfundurinn sættir sig þar með við að þingmenn flokksins sitji hjá um samninginn, þótt

allt [bendi] til að [samningurinn] muni leiða til stöðnunar eða hnignunar næstu árin og svo verði skuldirnar óviðráðanlegar þegar þar að kemur (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í fréttum RÚV 13. júní),

þótt

með samkomulagi íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda um Icesave-innlánsreikningana sé verið að taka vonina af fólkinu í landinu. Stórauknar skuldir veiki gengi krónunnar og hætt sé við stórauknum fólksfjölda úr landi (pressan.is, haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundinum 13. júní),

þótt

Nú [ætli] íslenska ríkið … og skuldsetja sig verulega nema hvað í stað innistæðueigenda er verið að skuldsetja alla Íslendinga og setja efnahagslega framtíð þjóðarinnar í hættu (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í Eyjubloggi 8. júní, undir fyrirsögninni „Fávísi og blekkingar“),

og þótt

með samkomulagi sem undirritað var í nótt um Icesave skuldbindingarnar svokölluðu … sé verið … að selja Íslendinga í ánauð (visir.is, haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarfloksins, 7. júní).

Stöðnun, hnignun, óviðráðanlegar skuldir, fólksflótti úr landi og Íslendingar í ánauð með samningi sem „jaðrar við landráð“ (Eygló Harðardóttir) – og svo á bara að sitja hjá?

??

???

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Miðstjórn Framsóknarflokksins segir þingflokknum ekki fyrir verkum. Veit ekki hvernig þetta virkar í Samfylkingunni, en þannig virkar þetta ekki í Framsókn.

    Væntanlega er ályktunin samin á þennan hátt til að ekki sé verið að stilla mönnum upp við vegg. Veit ekki hvernig þetta virkar í Samfylkingunni, en það er ekki gert í Framsókn.

    Veit ekki betur en Sigmundur og Eygló standi við orð sín. Geri fastlega ráð fyrir að þau fylgi eftir sannfæringu sinni við atkvæðagreiðslu á Alþingi. Veit ekki hvernig þetta virkar í Samfylkingunni, en þannig virkar þetta í Framsókn.

    Hvar hefur komið fram að þingmenn ætli að sitja hjá? Er það ekki bara hugarburður þinn?

  • Hvernig væri að birta samninginn?

  • Hundalógík Mörður. Eins og Sigðurður segir i athugasemd hér að ofan er það sannfæring þingmanna sem ræður för en ekki miðstjórn flokksins.

    Þannig virkar ný Framsókn og þannig á „Nýja Ísland“ að vera, en ekki þannig að þingmenn framselji sannfæringu sína til þriðja aðila eins og þingmenn Samfylkingarinnar virðast reiðubúnir til.

    Þingmenn verða að sjá öll gögn málsins til að geta tekið afstöðu. Þingmenn flokksins voru á miðstjórnarfundinum og greiddu atkvæði með ályktuninni eins og hún er.

    Lestu hana nú aftur vitandi það.

  • Þetta er sem sagt landráðasamningur? Og það er þín skoðun Mörður? Svo má altént marka fyrirsögnina.

  • Jóhannes Þ.

    Mörður þér væri nær að ræða við félaga þína í samfylkingunni og spyrja þá hvers vegna þeir ætli sér að samþykkja möglunarlaust samning sem þeir fá ekki að sjá?

    Samning sem inniheldur enga fyrirvara um lækkun krónunnar, lækkun lánshæfismats, stöðu neyðarlaganna gagnvart dómstólum eða nokkuð annað sem borið gæti út af forsendum samninganefndar Íslands.

    Ef eitthvað af þessum atriðum klikkar þá hækkar þessi skuld stjarnfræðilega. T.d. má nefna það að ef neyðarlögin halda ekki steypast yfir okkur um 400 milljarðar af kröfum í viðbót við þennan samning án þess að við getum hreyft fingri gegn því.

    Innan þingflokks og grasrótar Vinstri-grænna heyrast vafaraddir sem vilja fá allar upplýsingar á borðið áður en þessi samningur fær afgreiðslu. Innan þingflokks Samfylkingarinnar virðast menn vera blindir og heyrnarlausir drónar sem gera aðeins það sem forystan segir þeim að gera. Er það þannig? Eða eru þingmenn samfylkingarinnar bundnir af sannfæringu sinni einni? Það verða þeir að gera upp við sig, því að þetta mál er samviskumál fyrir hvern og einn þingmann.

    Þér væri hollara að athuga hvað er í gangi innan þins eigin flokks en að skjóta á það sem aðrir flokkar eru þó að gera af viti.

  • Ég trúi ekki öðru en að Framsóknar þingmennirnir muni greiða atkvæði gegn samningnum. Það verður ekki á þeirra samvisku að semja land sitt inn í gjaldþrot. Einnig á ég eftir að sjá þann þingmann VG sem lætur bjóða sér svona nauðungarsamning. Verði þessi samningur samþykktur verður það gert í gegnum tvíburaflokkana Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk.

  • María Kristjánsdóttir

    Það er merkilegt með Sigmund Davíð að því oftar sem hann kveður sér hljóðs þeim mun verr heyri ég það sem hann segir.

  • Mörður Árnason

    Ja, Héðinn, það getur vel verið. Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins hefur hinsvegar skorað á þingmenn flokksins að greiða atkvæði á ákveðinn veg (og þar með sagt honum fyrir verkum!) — annaðhvort að greiða atkvæði gegn samningnum (þ.e. gegn ríkisábyrgð á láninu til Tryggingarsjóðsins) eða sitja hjá. Viðhorf miðstjórnarinnar er greinilega að frekari rannsókn gagna geti ekki leitt til þess að þingmennirnir segi já — en þrátt fyrir ánauðarspár og landráðabrigsl telur þingflokkurinn að það geti verið í lagi að þingmennirnir sitji hjá. Skrýtið.

  • jitterbug

    Er þetta ekki bara lenska framsóknar? Hluti þingflokksins sat t.d. hjá þegar Ísland gekk í Nató 1949. Þótti málið greinilega ekki það merkilegt að þyrfti að taka afstöðu til þess.

  • Mörður er eitthvað að íslenskukunnáttu þinni í dag, eða er Samfylkingin öll ólæs þegar kemur að IceSave málinu?

    Í ályktun miðstjórnar stendur:
    „Miðstjórn Framsóknarflokksins skorar á þingmenn flokksins að greiða ekki atkvæði með samningi um uppgjör vegna ICESAVE skuldbindinga Landsbankans á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.“

    Áskroun eru ekki fyrirmæli þetta átt þú að vita. Ég tel engar líkur á að þingmenn Framsóknarflokksins greiði götu ríkisábyrgðar á eitthvað sem ekki má segja frá með hjásetu. Það er í raun absúrd að reikna með að einhver þingmaður sitji hjá eða greiði atkvæði með samningi sem hann fær ekki að sjá.

    Það getur örugglega ekki gerst nema hjá Samfylkingu og einstaka sauðtryggum vinstri grænum sem lítur á Steingrím Hraðlýginn sem leiðtoga lífsins.

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Mörður ætti að verða sér úti um orðabók og fletta upp orðinu „áskorun“ 🙂

  • Mörður Árnason

    GVald — meinarðu að ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og landráðabrigsl Eyglóar Harðardóttur alþingismanns Framsóknarflokksins miðist bara við ,,fyrirliggjandi upplýsingar“ og kunni að verða tekin aftur þegar málið liggur betur fyrir? Þá horfir málið auðvitað öðruvísi við 😉 — en þetta þyrfti kannski að skýra fyrir almenningi — og mótmælendum?

  • Já þingmenn eiga að tala út frá fyrirlyggjandi upplýsingum en ekki sögusögnum og getgátum. Miðað við þá staðreynd að þingmenn fá ekki að sjá samninginn og enginn vilji virðist til staðar að meta forsendur hans og leggja fram heilstætt mat eru þessi ummæli fullkomlega eðilileg.

    Ég gef mér að þú sem þingmaður hefðir aldrei látið þér til hugar koma að greiða atkvæði um svona stórt mál án þess að allar upplýsingar lægju fyrir.

    Orð Steingríms J Sigfússonar um að gögnin sem enginn má sjá réttlæti það að samþykkja ábyrgðina geta ekki dugað þingmönnum sem unnið hafa eið að stjórnarskránni til að greiða atkvæði með 700 milljarða ríkisábyrgð.

    Ef þeir gera það rjúfa þeir eiðinn og það er ekkert annað en landráð. Það er ekkert til sem heitir að bera við þekkingarskorti eftir á. Upplýsingarnar verða allar að koma upp á borðið.

  • skattmann

    Morgunblaðið gerði veikburða tilraun til að réttlæta IceSave, sem auðvelt er að hrekja:

    1. “Áætlanir gera ráð fyrir að eignirnar geti staðið undir 75-95% af skuldinni. Fyrir því höfum við hins vegar enga vissu”

    Samningurinn er óásættanlegur því að ábyrgð Íslands er ekki með neitt þak. Í versta falli geta þessar 660 milljarðar + háir vextir i 7 ár þ.e. tæplega 1200 milljarðar lent á okkur. Þetta getur síðan orðið ennþá verra ef að krónan veikist. Miklar erlendar skuldir hafa þau áhrif að krónan veikist.

    2. Það er enginn að segja að Ísland ætli að neyta að borga. Við eigum að krefjast þess að fara með málið fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag. Ef að umsemjendur okkar þora ekki að fara dómstólaleiðina, þá gengur ekki að við tökum á okkur algert tap í málinu, meira tap en við gætum nokkurn tíman verið dæmd í af dómstólum.

    3. “Vitnað er til þess að reglurnar um gagnkvæma innistæðutryggingu á Evrópska efnahagssvæðinu hafi verið gallaðar.”
    Gallinn er að ekki er gert ráð fyrir því að allt bankakerfi lands geti hrunið á sama tíma. Þá stendur beinlínis í ESB lagatextanum að bankarnir eigi sjálfir að standa straum af kostnaði við Tryggingasjóð innistæðna og að ríkin eigi ekki að ganga í ábyrgð þar.

    4. “ákvörðun um að einangra Ísland frá alþjóðasamfélaginu”.
    Það að skrifa uppá meiri skuldir en við ráðum við er örugg leið til einangrunar í mjög langan tíma. Vandamál eins og IceSave koma og fara og enginn nennir eða tímir að erfa slíkt áratugum saman. Gríðarlegar skuldir sem við ráðum ekki við fara ekki neitt. Skuldir þjóðar eru ekki felldar niður. Ef eftir 7 ár við getum ekki borgað, þá erum við með bakið algjörlega uppvið vegg, erum í engri samningsaðstöðu og verðum að taka öllum tillögum sem Bretar og Hollendingar koma með um greiðslu þá löglegrar skuldarinnar. Við vitum hvað það þýðir.

    5. “Snúum dæminu við”
    Fjárfesting hvort sem um er að ræða að taka hæstu mögulegu innlánsvöxtum eða annað er allataf áhætta. Það er einfaldlega ekkert náttúrulögmál að hægt sé að velja hæstu mögulegu ávöxtun og ætlast til þess að áhættan sé alls ekki nein. Við myndum ekki setja peninga í breskan banka nema að mat okkar væri að vextirnir væru góðir að teknu tilliti til áhætturnnar sem væri tekin.
    Þá hafa innistæðueigendur fengið sitt frá Bretlandi og Hollandi. Bresk og hollensk stjórnvöld völdu að í stað þess að þegnar þeirra myndu fara dómstólaleiðina og fara framá að fá fé sitt til baka, þá vildu þau frekar borga innistæðurnar og handrukka Ísland.

    Það stóð alveg skýrt á heimasíðu Innistæðutrygginarsjóðs að íslenska ríkið yrði ekki að veita lán til sjóðsins.

    http://www.tryggingarsjodur.is/modules/files/file_group_26/log/log-98-1999-isl.pdf

    10. grein

    “Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.”

    “heimilt” þýðir ekki að ríkið verði að gera neitt.

    Eflaust er þetta líka þýtt á ensku og aðgengilegt.

    Þetta gátu Bretar og Hollendingar lesið áður en þeir ákváðu að setja pening í IceSave.

    6.” veita erlendum ríkjum aðgang að markaði okkar, en þau ættu ekki að axla ábyrgð þegar á reyndi?”
    Einkafyrirtæki er ekki ríki. Þá kemur skýrt fram í lögum ESB um innistæðutrygginarsjóði að bankageirinn á sjálfur að fjármagna sjóðina og að ríkið á ekki að koma þar að máli.

    7. “Er umheimurinn á móti okkur? Af hverju ætti hann að vera það?”
    Vandi fjármálakerfisins í Evrópu er ekki víst vegna óheppilegra tengsla stjórnmála og fjármálamanna. Fjármálamenn greiða dýra kosningarbaráttu og prófkjör og stjórnmálamenn geta haft áhrif á leikreglur á fjármálamarkaði og endurlaunað greiðann.
    Stilla má IceSave upp sem baráttu á milli stjórnmála og bankamanna annars vegar og almennings hins vegar. Almenningur skilur mjög vel sjónarmið íslensks almennings.

    8. “eiga vondan málstað að verja”
    Það hefur komið fram m.a. í þessari ritstjóragrein í Morgunblaðinu að þeir sem samþykkja vilja þennan IceSave samning telja sér ekki fært að ræða þetta mál án þess að fara ítrekað rangt með og beita hreinum ósannindum og blekkingum. Hver hefur vondan málstað að verja?

    9. “Það, sem er umfram 20.887 evra trygginguna” skv. ESB reglunum var bara þessi upphæð tryggð. Það neyddi enginn viðkomandi til að fjárfesta meira í innlánsreikningi.

    10. “mun betri kjör en þau sem um samdist í bráðabirgðasamkomulaginu við Hollendinga”
    Árni Matthíssen fór til fundar við Hollendinga. Hann er vafalaust ekki okkar besti viðsemjandi og hafði í raun engan vegin nauðsynlegan bakgrunn og forsendur fyrir því að standa sig í erfiðum samningaviðræðum. Það hefur komið fram í máli Árna að um minnisblað var að ræða, ekki skuldbindandi samning. Án þess að verja slæma frammistöðu Árna, þá bendi ég á lið nr. 8. að eiga vondan málstað að verja og athugasemd mína varðandi ítrekaðar rangfærslur.

    11. “Landsbankamenn bera ábyrgðina”
    Sammála því að þeir bera mikla ábyrgð.
    “Reiði almennings ætti með réttu að beinast að þeim, ekki síður og kannski frekar en að stjórnvöldum”

    Bæði Landsbankamenn og þeir sem að héldu um stjórnartaumana hafa ekki sýnt neina iðrun eða beðið þjóðina að fyrirgefa mistök sín. Þvert á móti hafa þeir allir sem einn haldið fram eigin sakleysi og bent á aðra. Mikilvægt er að fara dómstólaleiðina fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag m.a. út af prinsipp ástæðu sem er að það verði ljóst nákvæmlega hver gerði hvað rangt. Annars munu viðkomandi bara kjafta sig frá þessu. Sbr. lið 7 á það ekki að vera hægt að að hluta til sömu stjórnmálamenn og eru sekir geti samið um að dómstólar dæmi ekki í málinu.

    12. “Stærðargráða skuldbindinganna, sem fjallað er um í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sýnir fyrst og fremst hversu örvæntingarfullir ráðamenn í bankanum voru orðnir þegar kom fram á árið 2008″

    Alveg sammála þessu. Landsbankinn var kominn á bjargbrúnina þegar IceSave var opnað. Ef að Landsbankinn hefði ekki farið í þrot, þá hefði IceSave verið opnað í mun fleiri Evrópulöndum. Hefðu íslenskir skattgreiðendur næstu þúsundir ára átt að borga það?

    13. “Hvort íslenzkar eftirlitsstofnanir hefðu getað gert meira til að stöðva þá, er álitamál sem hugsanlega verður varpað ljósi á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.”

    Samt á íslenska þjóðin að verða gjaldþrota útaf þessu máli.

    14. “Ísland stefnir í að verða gífurlega skuldsett land”

    Eftir undirskrift þessa IceSave samnings er Íslands gjaldþrota eftir 7 ár.

    15. “Það væri þó ekki raunsönn framsetning, vegna þess að eignir munu koma á móti Icesave-skuldbindingunum”

    að framan stóð:

    “Áætlanir gera ráð fyrir að eignirnar geti staðið undir 75-95% af skuldinni. Fyrir því höfum við hins vegar enga vissu”

    Nú verður ritstjóri Morgunblaðsins að ákveða sig, ætlar hann að halda því fram að eignirnar muni koma á móti IceSave eða ekki?

    Talandi um lið nr. 7 vondan málstað og rangar fullyrðingar!

    Aðrir kröfuhafar bankanna munu fara framá að fá sjálfir eignir útibús Landsbankans í Bretlandi. Ef að þeir vinna það mál og IceSave er undirskrifað, þá situr íslenskur almenningur uppi með yfir 1200 milljarða lagalega óvéfengjanlega skuld eftir 7 ár.
    Þá eru aðrir óvissuþættir s.s. hvort að ábyrgðirnar fyrir lánunum rýrna, en spáð er heimskreppu og að neytendur haldi að sér höndum næstu 7 ár. Eru ábyrðgin í formi skuldsettra yfirtakna á smásöluverslunum áreiðanlegar í slíku árferði?
    Mun krónan halda sjó gagnvart pundi og Evru?

    Fyrir ritstjóra Morgunblaðið er greinilega nóg “fyrir því höfum við enga vissu”, hann vill samt samþykkja IceSave. Er íslenskur almenningur sammála því?

    16. ” vextir hækki vegna þess að lánveitendur hafi áhyggjur af greiðslugetu ríkissjóða, geti myndin orðið enn dekkri”

    Einmitt. Það að skrifa undir erlendar skuldir sem við ráðum ekki við án dóms og laga þýðir að krónan veikist verulega og lánshæfismat ríkisstjóðs versnar. Hver heldur þú að vilji lána okkur ef að vitað er að við getum ekki borgað eftir 7 ár?
    Ef að þak væri á IceSave samningnum og ekki bara að samið verði að nýju þegar við erum gjaldþrota og í vonlausri samningsaðstöðu eftir 7 ár. Það er nauðsynlegt að hafa a.m.k. skýr ákvæði um að þá myndum við t.d. greiða ákveðið hlutfall sem við ráðum vel við af þjóðarframleiðslu. Annars verður um nauðasamninga að ræða þar sem Bretar og Hollendingar geta sett þær kröfur sem þeir vilja og við getum ekki sagt nei.

    17. “Bjartsýna“ spáin fyrir einstök ríki er ennþá svartari” Við eigum að taka yfir lánasafn, sem vafi leikur á að við getum nýtt í þetta, en skuldbinda okkur lagalega til að greiða í beinhörðum peningum fyrir eitthvað sem lögin segja ekki fyrir um að við þurfum að borga, gjaldeyri, í þessu árferði?

    18. “Michael Gros, framkvæmdastjóri Center for European Studies í Brussel, tók sennilega heldur djúpt í árinni þegar hann sagði hér í blaðinu sl. þriðjudag að hann sæi ekki nokkurt land í heiminum með eins miklar erlendar skuldir og Ísland eftir Icesave-samningana.”

    Aftur er nóg fyrir ritstjóra Morgunblaðsins, að sennilega séum við ekki skuldugasta leið í heimi eftir að þessi IceSave samningur hefur verið undirritaður. Er ekki rétt að láta á IceSave reyna fyrir dómstólum?

    Að lokum bendi ég á lið nr. 7, að hafa vondan málstað að verja.
    Þeir sem reyna það verða að beita fyrir sig fjölbreyttum rangfærslum og hálfsannleik. Eða þá bara skrifa að sennilega hafi allir sérfræðingar rangt fyrir sér og sennilega verðum við ekki meira gjaldþrota en einhver önnur þjóð.

    IceSave fyrir Alþjóðadómstólinn i Haag!

    Lýðræði = DÓMSVALD, framkvæmdavald og löggjafavald.
    Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða.

  • Elías Pétursson

    Ekki láta svona við Mörð, hann þekkir bara vinnueðferðir vinstrimanna í vinstriflokkum, þar er ekki mælst til einhvers þar er skipað fyrir 🙂

    Miðað við þær upplýsingar sem nú lyggja fyrir og eru úr viðtölum við Jóhönnu og Steingrím þá gæti þetta litið ca svona út……

    Við greiðum á „gjaldfrjálsa“ tímabilinu ca 543,7 milljarða sem eru 83% af upphaflegu upphæðinni, eftirstöðvar eru 362,9 milljarðar sem dreifast á átta ár að viðbættum vöxtum. Greiðslur eftirstöðva eru því ca 57 milljarðar á ári til ársins 2024, allt reiknað á gengi dagsins í dag. Heildargreiðslan þegar allt er búið verður miðað við þessar forsendur 997,2 milljarðar, Þetta eru allar tekjur ríkissjóðs í tvö og hálft ár miðað við stöðuna núna. þar af vextir ca 376,9 milljarðar. Það sem fellur á ríkið þe. okkur eru 453,5 milljarðar.

    453 milljarðar 2016, er einhver sem telur okkur geta staðið skil á því??

    Samkvæmt peningamálum Seðlabankans í apríl þá gera áætlanir ráð fyrir því að erlendar skuldir Íslendinga verði komnar yfir 3.000 milljarða (hið opinbera 2.200) um næstu áramót, hvernig borgar örhagkerfi með engan fyrirsjáanlegan tekjuafgang skuldir upp á alla þessa þúsundir milljarða á næstu tugum ára?

    ? Er verið að dæma okkur til vesældar og fátæktar til þess að halda andliti við þær hinar sömu „vinaþjóðir“ og virðast riðlast á okkur nú?
    ? Er verið að halda einhverri stöðu vegna umsóknar samfylkingarinnar um ESB aðild, EVRAN virðist allavega vera utan seilingar í örugglega 30 ár….sama hvað Jóhanna segir.
    ? Hefur verið gerð úttekt á hugsanlegum bótakröfum þeirra kröfuhafa sem eru settir út í kuldann með þessari aðgerð og neyðarlögunum?
    ? Getur verið að Alþingi hafi í raun ekki heimild til þess að skuldbinda okkur svo langt umfram greiðslugetu sem hér er gert, hvað þá að samþykkja samninginn án þess að hafa fengið að sjá hann og bakgögn hans?
    ? Getur verið að vegna ICESLAVE samningsins verði lánshæfismat ríkisins lækkað?, og í framhaldi verði lán td Landsvirkjunar og Orkuveitu gjaldfelld og við töpum þessum fyrirtækjum?
    ? Eru ráðherrar og alþingismenn að ganga svo langt umfram valdsvið sitt til skuldsetningar ríkis og þjóðar að möguleiki opnist á málsókn gegn þeim persónulega?

    Ef einhverjum spurningum væri svarað þá gætu menn þó rætt þetta ömurlega mál upplýst og opið.

    En þess í stað ákveður samfylkingin að svara með „af því bara“.

    Við verðum að átta okkur á því að nú fara 25% tekna hallarekins ríkissjóðs í vexti af erlendum lánum, tekjur minnka og útgjöld vaxa mjög. Halli er á viðskiptum við útlönd og svo framvegis…..já og 659 milljarða innlendar skuldir ríkisins eru ekki inn í þessu frekar en td 1.246,6 milljarða ábyrgð ríkisins vegna Íbúðalánasjóðs og Landsvirkjunar.

  • Sannfæring þingmanna á alls ekki við í þessu máli frekar en
    svo oft áður… það er búið að leggja línurnar í bakherbergjunum, og
    Sigmundur, Bjarni, og allir hinir í andstöðu sitja hjá……
    Þeir hafa ekki kjark til að segja NEI….
    en veit einhver lifandi maður HVENÆR ATKVÆÐAGREIÐSLA UM
    ICESLAVE FER FRAM ??????

  • Mörður,

    Hvað segja má um Sigmund, þá hafið þið í Samfylkingunni ekki skýrt út afhverju þið eruð tilbúin að skrifa undir samning með RÍKISÁBYRGÐ. Það eru sömu vinnubrögð og aðstandendur Icesave gerðu!

    AUÐVITAÐ á að skila þýfinu, en afhverju er það þá ekki sótt til þeirra sem stálu því?

    Er hægt með neyðarlögum að komast yfir eignir mannanna sem stálu fénu; t.d. Verne holding, Actavis, True North, Nova, CCP, o.s.frv………..

    Afhverju að leggja þetta á okkur hin sem ALDREI komum nálægt þessari svikamyllu. Hvað segir þú um það Mörður?

  • Af hverju eigum við að borga fyrir tap einkafyrirtækis erlendis? Bretar eða Hollendingar sem telja að við eigum að borga verða bara að sanna það. Látum þá sækja málið fyrir dómstólum EES eða einhvers annars og SANNA það að við eigum að borga Icesave. Af hverju ættum við að þurfa að sýna fram á við eigum að EKKI borga þetta? Er það ekki dálítið öfugsnúið? Þetta eru nú einu sinni deilur milli réttarríkja. Ég held nefnilega að þeir óttist útkomuna.
    En í guðanna bænum ekki samþykkja þessa ríkisábyrgð! Reynum allt annað fyrst! Við getum aldrei lent í verri málum en þessi samningur kemur okkur í!

  • Fjármálaauðvaldið skal varið fram yfir líf þjóðarinnar og þegar kemur að því að rökstyðja mál sitt er bara gripið til Framsóknar og bent á hvað það sé ömurlegur félagsskapur. Ekki er að sjá á röksemdafærslu þinni að þú hafir notið nám í hugvísindum.

  • Signy Hafsteinsdóttir

    Mörður,hvers vegna á ég að borga skuldir annarra, ég átti ekki krónu í Landsbankanum, ég vann þar ekki heldur, hvers vegna vilt þú og þinn flokkur skuldsetja mig enn frekar, ég tapaði miklu á gengisfallinu, þar sem ég var með lán í erlendri mynt, sem ég þurfti síðan að greiða upp á versta tíma, enginn bætir mér þann skaða, og ég fer ekki fram á það. Íbúðalánin mín hækka og hækka útaf verðtryggingunni, enginn bætir mér þann skaða, hvarsvegna á ég þá að bæta erlendum innistæðueigendum sinn skaða, þeir tóku áhættu rétt eins og ég með myntkörfulánin,þeir verða þá bara að taka því eins og menn, enn nei, þú og þinn flokkur ætlið að koma fram eins og höfðingjar þarna í útlöndum, allt í lagi við borgum, og reikningurinn lendir hjá mér, semsagt hjá íslenskum almenningi, þú ættir að íhuga vel hvað þú ert að fara að undirrita, og fyrir hvern þú situr á þingi, þú situr fyrir íslenska þjóð, ekki fyrir Breta eða ESB, mundu það, þetta ICESAVE mál er mjög einfalt.

  • Kæri þingheimur

    Ef IceSave samningurinn verður samþykktur á Alþingi, þýðir það hreint og klárt fullveldisafsal yfir auðlindum okkar – alveg sama hvernig þau ykkar sem reynið að spinna annað í kring um það segið. Slíkt varðar við 40. og 41.gr. laga nr. 33/1944 og 3.mgr. 91.gr. laga nr. 19/1940. Í raun, þar sem búið er að skrifa undir þetta fullveldisafsal, eru þessi lagaákvæði nú þegar í fullu gildi.

    16.3. Waiver of Sovereign Immunity
    Each of the Guarantee Fund and Iceland consents generally to the issue of any process in connection with Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its property or assets (regardless of its or their use of intended use) of any order or judgment. If either the Guarantee Fund or Iceland or any of their respective property or assets is or are entitled in any jurisdiction to any immunity from service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this is irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction. Each of the Guarantee Fund and Iceland also irrevocably agree not to claim any such immunity for themselves or their respective property to assets.
    Hver sá þingmaður, sem greiðir þessum samningi atkvæði sitt, mun því, skv. lögum, gerast landráðamaður og sekur um að hafa selt börnin okkar og barnabörn í ánauð. Ætlið þið VIRKILEGA að samþykkja þetta plagg, sem þið megið ekki sjá – að sögn Ríkisstjórnarinnar?

    Í samtalinu kom fram að það hefur aldrei verið sett fram skilyrði af hálfu Hollendinga og Breta að ekki mætti birta samninginn. „Á nú að fara að kenna okkur um það líka, sagði viðkomandi.“ Það kom líka skýrt fram að hvorki samninganefnd Hollendinga né Breta vissi hverjar eignirnar væru sem kæmu á móti og viðkomandi efaðist stórlega um að íslenska samninganefndin vissi það heldur.
    Þór Saari – Þinghúsbréf 13

    Ég treysti orðum Þórs og Birgittu mun meira en einum staf frá þeim Jóhönnu og Steingrími, sem eru alls ekki með hreina samvisku í þessu máli.

    Standið með fullveldinu og fellið þennan samning. Það er á ykkar ábyrgð, að standa með þjóðinni – gegn slíkri kúgun sem þessari.

    Íslandi allt!
    Ólafur Skorrdal
    skáld

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur