Þriðjudagur 16.06.2009 - 12:43 - 13 ummæli

Og nú vinna á mér smádjöflarnir

Gunnar I. Birgisson hættur sem bæjarstjóri í Kópavogi, og þá væntanlega í pólitík fyrir fullt og allt. Það held ég sé rökrétt – en lýsir ekki mikilli staðfestu hjá félögum hans í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem hafa horft uppá aðfarir hans allan tímann, tekið þátt í leiknum og dáðst að stjórnunarstíl Gunnars og vinnubrögðum. Nú er sá gamli fyrir, þetta er orðið óþægilegt, hann skemmir fyrir flokknum. Þá sameinast litlir karlar gegn meistara sínum: Og nú vinna smádjöflar á mér, sagði Sturla Sighvatsson á Örlygsstöðum.

Doktor Gunni, einsog sumir samflokksmannanna kalla hann í spaugi – en þó með virðingu, því doktor er hann vissulega! – er auðvitað íslenskur höfðingi allra alda: Einráð frekjudolla sem myndar um sig net með ríkidæmi, greiðum, skömmtun og skömmum, ryðst áfram þangað sem hann ætlar sér án tillits til nokkurs í nágrenninu, lítur á lýðræðið sem æfingu í liðsafnaði og auglýsingatækni á fjögurra ára fresti, telur hagsmuni sína og vina sinna (og fjölskyldu!) jafngilda almannahag, nennir ekki veseni með bókhald og stjórnsýslulög og siðareglur.

Já, hann byggði upp Kópavog í góðærinu, með þeim afleiðingum að húsin í nýju hverfunum standa hvert ofan í öðru, alltaf þriðjungi fleiri en í áætluninni frá skipulaginu og tveimur hæðum hærri en á fyrstu teikningunni. Iðnaðarhöfn komin við Skerjafjörð en með almennri uppreisn tókst að stöðva þungaflutninga í íbúðarhverfunum á Kársnesinu. Skuldastaðan eftir kreppuna með því versta á svæðinu. Ætli þar liggi ekki einhverstaðar hinar raunverulegu ástæður fyrir brottför bæjarstjórans. Það er að minnsta kosti holur hljómur í siðferðilegum skyndipredikunum Framsóknarforkólfanna. Hver er aftur bæjarritari þarna?

Ég kynntist Gunnari á þinginu, vann í menntamálanefnd þegar hann var þar formaður – og það var svo sannarlega engin skemmtiferð: Nefndarformaðurinn leit svo á að hér værum við í léni sínu og skyldum sitja og standa samkvæmt sérstökum samningum við hann og því sem væri búið að ákveða inni í Flokknum, og þetta nefndarstarf breyttist smám saman í skærustyrjöld þar sem ýmsum veitti betur. Deilur úr menntamálanefnd bárust iðulega inn í þingsalinn og út í fjölmiðlana, og þar féllu stór orð. Mig minnir að eftir einhverjar skammir úr ræðustól hafi Gunnar Birgisson lagt til að það yrði borgað undir Mörð Árnason á námskeið í mannasiðum – sem ég féllst á fúslega með því skilyrði að doktorinn yrði notaður til sýnikennslu. Skelfilegur maður að vinna með. Rusti. Dóni. Valdakall. Gam-al-dags íhald.

En svo tilheyrði líka að þegar loksins náðist samkomulag eða skilningur, þá hélt það einsog hægt var. Einsog í Sturlungu – eða á Sikiley.

Og eftir allt saman var erfitt að láta sér líka verulega illa við karlinn – hann hefur þennan undarlega hlýja sjarma gegnum líkamsskapnað sinn og hyldjúpan bassann: Maður trúir því nokkrar sekúndur að þrátt fyrir allt hljóti að vera gott að búa í Kópavogi. Að minnsta kosti þurfi að vera til einhverskonar verndar- og varðveislusvæði fyrir þvílíkt exemplar af mannskepnunni – kannski í nánd við skógarbjörninn og nashyrninginn.

2007 er búið og mikill öldungur að velli lagður handan lækjar. Þá skulum við svo sannarlega vona að atlögunni að Gunnari Birgissyni fylgi raunverulegur ásetningur í bæjarstjórnarmeirihlutanum í Kópavogi um siðlega stjórnsýslu og lýðræðisleg vinnubrögð.

Annars standa bara eftir smádjöflarnir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Ekki má yfir miklu hlakka, þeir fundir sem farið hafa fram í Kópavogi síðustu 2 daga, staðfesta að Gunnar er stjórinn. Gunnsteinn stakk uppá sér í bæjarstjórann, það var kolfellt. Ármann kemur ekki til greina. Jón Gunnarsson kemur ekki til greina því að hann gæti velt Gunnari úr oddvitasætinu í næstu kosningum. Sennilega endar þetta með því að Björn í Kraftvélum verði látinn dekka stolinn fyrir Gunnar fram að næstu kosningum. Ójá. Gunnar verður í framboði aftur og verður kosinn

  • Mörður býrðu í Kópavogi?
    Nei ég hélt ekki. Ég bý þar hins vegar og hef búið þar í 12 ár og alið upp dóttur mína þar. Mér hefur alltaf fundist gott að búa í Kópavogi.
    Gunnar hefur gert mikið fyrir bæinn þó svo hann hafi hvimleiðan fylgifisk sem er spillingin sem alltaf hefur fylgt honum.
    En ég held að þú þurfir ekki að láta þig dreyma um að hann sé að hverfa úr pólitík.
    Líklegast hefur Toggi hér fyrir ofan rétt fyrir sér. Nema ef framsóknarmaðurinn verði dubbaður upp og notaður fram að kosningum. Hann getur þá orðið Sigurður Geirdal númer 2.

  • Mikið fjári ertu góður penni, Mörður. Fágæt ánægja að lesa þennan pistil.

  • Jon B G Jonsson

    Tad er ekki ad spyrja ad illgirninni. Ef tid samspillingar(baugs)menn hefdud einhvern af sama kaliberi og Gunnar Birgisson vaeri kannski von ad kommunistastjornin gerdi eitthvad af viti. fyrir land og tjod. Tad hafid tid ekki audvitad. En samspillingin er god i einu og tad er undirrodurstarfsemin og nidid.

  • já já hann var rosalega duglegur að byggja upp bæinn. Húsin risu upp hvert af öðru og alltaf var fyrirtækið Klæðning að vinna í Kópavogi.
    Ætli „dugnaður“ Gunnars í því að byggja hafi tengst eign hans í fyrirtækinu Klæðningu ? og síðar leynihlut sem geymdur var í Lúxemburg…

    Já það er gott að búa í Kópavogi … en betra fyrir suma.

    þvílíkur barnaskapur í Margréti hér fyrir ofan …

  • Og hvað hefur þessi „dugnaður“ karlsins kostað Kópavogsbúa??
    Good riddance segi ég nú bara – þó fyrr hefði nú aldeilis verið!

  • Jón B G Jónsson hittir naglann á höfuðið með samspillinguna, sem er samkrull Framsóknar og Íhalds, hvar sem það er að finna. Nema hann hefur einhver endaskipti á sannleikanum, því það hentar honum, en það er ekki leiðum að líkjast að gera eins og þeir sem gjammað er fyrir.

  • god grein …..en eg hef sagt annars stadar= hann er buinn ad heilathvo ibuana og hann fer aftur i frambod og their (kopavogsbuar) kjosa hann bara aftur vegna tess ad eftir stuttan tima hafa menn bara gleimt ollu um hvad hann hefur gert en muna bara etir tvi > goda< sem hann hefur gert … vegna vinveittra fjolmydla er tetta haegt

  • Jóhann Björn Ævarsson

    Það er ekki á hverjum degi að maður rekst á grein sem er jafn málefnaleg og svona djöfull vel skrifuð líka. Takk Mörður !

  • Gunnari skal þakkaður Salurinn (þó nafnið sé reigingslegt reyndar), öðru góðu man ég ekki eftir frá þeirri hlið.

  • Hvaða gaspur er þetta í þér Einar. Klæðning fékk lítinn hluta verkefna bæjarins miðað við umfangið sem var í gangi. En það hefur þú væntanega ekki kynnt þér. Og hverjir eru þessir „sumir“ sem þú nefnir?
    Margrét hin, segðu mér hvað dugnaður karlsins hefur kostað Kópavogsbúa.

  • Þetta eru hárbeittar lýsingar, sniðnar að atburðum líðandi stundar
    í Kópavogi..og samskipti manna og mikilmenna……ég er Kóngurinn.
    Eftir Gunnar liggja margir góðir hlutir, og líka umdeildir…auðvitað,
    það var nákvæmlega einmitt eins í tíð R-Listans sáluga, þegar einræðisherrann Ingibjörg Sólrún stjórnaði, og margir góðir og
    gegnir vinir og ættingjar þáðu bita af kökunni..og þá var nú gaman
    að lifa, eins og búið er einmitt að vera í Kópavogi undanfarin ár….
    En auðvitað væri hræsni að vera að rifja það eitthvað sérstaklega upp….

  • Góður og vel skrifaður pistill Mörður!

    Allir gallagripir hafa sjarma og leysa oft á tíðum meðvirkni hjá fólki þegar þeir taka óvænt upp á því að sýna mannlega eiginleika 🙂

    En þetta er samt allt gert á forsendum þess sem ræður og með valdið fer og það er Gunnar B. eða enginn.

    Gunnar B. er með mörg mál í pípunum og tengsl hans við Gunnar og Gylfa í Bygg eiga enn eftir að koma betur í ljós.

    Það sama má segja um Klæðningu og mál tengd því fyrirtæki en menn halda því blákalt fram að hann eigi leynihlutinn í Lúx.

    Þetta og fleira mun poppa upp þó síðar verði.

    Gunnar fer ekki úr pólitík eftir þá reynslu að pólitík sé Big Business ef „rétt“ sé staðið að málum og maður vinur vina sinna.

    Gunnari varð ekkert ágengt í business (fór tvisvar með fyrirtæki í þrot) fyrr en hann fór í pólitík og komst í áhrifastöðu varðandi lífæð fólks og fyrirtækja.

    Það er staðreynd.

    Sjálfstæðisflokkurinn þarf virkilega á því að halda að losna undan svona Sophrano´s körlum og kerlingum ef hann á að ná aftur trúverðugleika.

    Þetta vita menn og Gunnar B. er búinn að vera hvað varðar trúnaðarstörf fyrir flokkinn og hann mun ekki ná efsta sæti á nýjan leik hvað sem hann reynir.

    Sporin hræða…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur