Laugardagur 20.06.2009 - 09:45 - 10 ummæli

Jónmundur, forysta og von

„Fólk kallar eftir forystu og vill fara að sjá vonarglætu, einhver ljós fyrir endanum á göngunum,“ segir Jónmundur Guðmarsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Klemens Ólaf Þrastarson í Fréttablaðinu í dag. Jónmundur telur að þetta hafi núverandi ríkisstjórn hafi ekki megnað að veita fólki.

Ræða í alla enda

Klemens Ólafur tekur Jónmund á orðinu og spyr hann um ESB og evru, sem sumir segi að sé eina vonarglæta ríkisstjórnarinnar. Þá kemur þessi stefnumótun:

„Ég hef sögulega séð verið andvígur aðild. Ég held að við höfum verið vel sett í þessu tvíhliða fyrirkomulagi, EES. Við gátum stundað verslun og viðskipti án þess að fórna fullveldi eða auðlindum. Þetta taldi ég mjög góða skipun mála. Nú getur verið að umhverfið hafi breyst, nú finnst mér ekkert að því að menn ræði þetta í alla enda. En það verður að gera á grundvelli hagsmunamats og af yfirvegun og skynsemi. Ekki vera heittrúa með eða á móti. Við þurfum að setjast yfir þessa hagsmuni og skoða hvað tapast og hvað vinnst með aðild.“

Ekki á stuttum tíma

En þið hafið ekki gert það, segir blaðamaðurinn, og Jónmundur samsinnir:

„Það var auðvitað mikil umræða á landsfundinum og í aðdraganda hans, og með ákveðinni niðurstöðu. Þannig að það má vel segja að við höfum allavega tekið eitthvert skref fram á við. En þetta eru hlutir sem verða ekki afgreiddir á stuttum tíma.“

Spurning sem þarf að svara

Klemens Ólafur heldur áfram og spyr nú um samfylgd flokksins við atvinnurekendur í ESB-málinu: Allt atvinnulífið nema sjávarútvegurinn talar um aðild. Það hlýtur að vera erfitt fyrir flokkinn að vita að hann framfylgir annarri stefnu en atvinnulífið vill. Er ekki brýnasta verkefnið að komast að skýrri niðurstöðu?

Og Jónmundur leggur fram sín viðhorf til þessa úrlausnarefnis:

„Jú, þetta er náttúrlega spurning sem þarf að svara.“

Kemur til álita sem möguleiki

Sérðu annað svar en ESB? spyr Fréttablaðið, og nú horfir hinn nýi framkvæmdastjóri vítt og of vítt um veröld hverja:

„Hitt svarið er náttúrlega að við göngum ekki inn. En atvinnulífið og samfélagið er í mikilli gerjun og við munum ekki finna neina skjóta lausn á þessu máli. ESB hlýtur að koma til álita sem möguleiki, en menn verða líka að gera sér grein fyrir því að það kunna að vera aðrir möguleikar, sem koma sér betur þegar til lengdar lætur.“

Halda áfram, en kannski ekki

Og þá er komið að boðskap framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins um stöðu peningamála eftir dýpstu kreppu í Íslandssögu síðustu alda:

„Auðvitað er það líka möguleiki að halda áfram eins og við höfum gert óbreytt. Við græddum ekkert sérstaklega mikið á því að skipta um mynt í dag. Við getum notað krónuna, í það minnsta fram að þeim tímapunkti að við sjáum að það sé hyggilegt að taka upp annan gjaldmiðil, eins og evruna.“

Segir ekkert sjálfur

Og hinn farsæli bæjarstjóri á Seltjarnarnesi telur rétt að fara varlega þegar kemur að tengslum þessa ágæta gjaldmiðils við aðild að Evrópusambandinu:

„Menn hafa svo deilt um hvort upptaka hennar þýddi að við þyrftum að fara í aðildarviðræður en ég skal ekkert segja um það sjálfur.“

Forysta og von

Fróðlegt viðtal, því Jónmundur er ráðinn sem pólitískur framkvæmdastjóri en ekki ,tæknilegur’ og á að stika út leiðina fram á við fyrir flokk og þjóð ásamt félögum sínum þremur í fylkingarbrjóstinu, Bjarna, Illuga og Sigurði Kára. Það er ánægjulegt að sjá að þar er svo sannarlega boðið upp á bæði von og forystu þegar kemur að helstu viðfangsefnum íslenskra stjórnmála og samfélags á okkar tímum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Sjitt hvað þetta er vandræðalegt viðtal.

  • Hlynur Þór Magnússon

    Óborganlegt!

  • Ibba Sig.

    Aumingja blaðamaðurinn að þurfa skrifa þetta rugl. Hefði getað sleppt viðtalinu og skrifað bla bla bla bla bla bla á alla síðuna og fengið þannig meira innihald og ákveðnari stefnumótun og skýrari framtíðarsýn.

  • Vottar fyrir Framsoknarmanni tharna.

  • hahaha, ekki græt ég vandræðagang á þessum bæ. Takk fyrir að draga þetta saman fyrir okkur…

  • Hér fljótum við appelsínurnar sögðu ……

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Jónmundur svarar hinum Evrópusambandssinnaða blaðamanni vel. Það er augljóst að blaðamaðurinn reynir ítrekað að reyna að fá Jónmund til þess að svara eins og hann vill með leiðandi spurningum. Sama reyndi sami blaðamaður í tilfelli Ögmundar Jónassonar fyrir ekki alls löngu. Þetta viðtal segir þannig miklu meira um blaðamanninn en nokkurn tímann viðmælandann.

  • Mörður Árnason

    Blaðamaðurinn er snjall — einsog hann á kyn til — en svör Jónmundar Guðmarssonar verða ekki skrifuð á neinn annan en Jónmund Guðmarsson!

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Mörður, þú átt auðvitað rétt á þínum persónulega orðaforða. En ef orðinu „snjall“ er flett upp í íslenzku orðabókinni þinni er mér til mikils efs að upp komi skilgreiningin „hlutdrægur“.

    Svörin eru að sjálfsögðu Jónmundar, ég veit ekki til þess að neinn sé að halda öðru fram, en svör standa sjaldnast ein heldur eru viðbrögð við þeim spurningum sem settar eru fram.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur