Þriðjudagur 23.06.2009 - 18:08 - 24 ummæli

Sjálfsagðir hlutir frá Jakobi Möller

Ice-save, Ice-slave, Æs-seif: Mér finnst sjálfsagt að menn æsi sig yfir Icesave og ennþá sjálfsagðara að fara nákvæmlega í alla sauma á samningnum – þetta eru örugglega mesta skuldabréf Íslandssögunnar, og við eigum öll eftir að finna vel fyrir þessu í buddunni og í skertri almannaþjónustu jafnvel þótt hinar bjartsýnni spár rætist.

Einmitt þessvegna er mikilvægt að víkja frá allskyns misskilningi og ýkjum sem geta spillt samræðu um svona alvarlegt mál – og þessvegna er ný álitsgerð Jakobs R. Möllers um Icesave-samningana einkar kærkomið.

Þótt Jakob sé landsliðsmaður í lögum getur hann auðvitað ekkert upplýst um eitt helsta álitamálið – hvað þarf að borga mikið. það skiptir öllu að geta lækkað höfuðstólinn sem fyrst til að minnka vaxtabyrði, segir hann bara, því það er ekki hans að meta eignasafn Landsbankans. Góð yfirlýsing annars hjá Helga Hjörvar sem formanni viðkomandi þingnefndar að aðrir en skilanefndin  meti eigur Landsbankans. En mat á mat ofan gefur okkur þó enga vissu um niðurstöðuna.

Hefðbundin ákvæði

Jakob fjallar hinsvegar um þau lögfræðiatriði sem menn hafa rekið hornin í undanfarna daga – og meðal annars talið ógna sjálfu fullveldi þjóðarinnar. Niðurstaða hans er sú að þau séu flest í hefðbundnum dúr í lánasamningi af þessu tagi – en gagnrýnir einstök ákvæði sem hefðu mátt vera okkur hagfelldari.

Ýmsir hafa talað langt mál um ábyrgðirnar sem Íslendingar setja að veði með ákvæðinu þar sem ríkið afsalar sér „friðhelgi“ (eða „griðhelgi“ í þýðingu Magnúsar Thoroddsens) – og spurt hvort þá verði gengið að sendiráðunum, vegakerfinu eða Alþingishúsinu. Svar Jakobs er að ekki sé hætta á þessu, hér sé ekki átt við þær eignir ríkisins erlendis eða heima sem því eru svo að segja nauðsynlegar til að gegna hlutverki sínu sem ríki (Vínarsamningur og Lúganósamningur). Venjulegar eignir sem meta megi til fjár og ekki varða hlutverk ríkisins, svo sem fatabúð í Regent Street, kynnu hinsvegar að vera í hættu ef illa fer.

Jakob bendir líka á að Seðlabankaeigur ytra séu undanþegnar þessu afsali samkvæmt breskum lögum. Hann segir „óþægilegt“ að hafa þetta afsal í samningunum og að betra hefði verið „að komast hjá því“ – en það sé hinsvegar „gjörsamlega ábyrgðarlaust að láta sem í því felist sérstök skerðing fullveldis“.

„Afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins“

Í ræðu á Austurvelli á laugardag (hér) mótmælti Jóhannes Þ. Skúlason meðal annars þessari grein fyrir hönd Indefence-hópsins. Hér væri um að ræða „afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins“ sem hljómar hérumbil einsog þarmeð hætti íslenska ríkið frá 1918 eða 1874 að vera til. Þetta er auðvitað ekki svona. Hinsvegar er það ekki satt nokkuð algengt í lánaviðskiptum að lántakinn þurfi að setja eignir sínar að veði fyrir skilvísri greiðslu. Það má líka vera nokkuð til í því að skuldir, einkum miklar skuldir, skerði með ýmsum hætti fullveldi manna og félaga sem þeir stofna til. Það má líka orða það þannig að maður bindist lánardrottni sínum heldur óljúfum böndum. Þessvegna var það draumur flestra í gamla íslenska bændasamfélaginu að skulda engum neitt – kannski einmitt af því þá voru allir uppfyrir haus í langvinnum skuldum.
Veð í eigum íslenska ríkisins reyna Hollendingar og Bretar ekki að sækja fyrr en í stútfulla hnefana. Það yrði harla óskemmtilegt fyrir þá að ganga að okkur með þeim hætti, bandalagsþjóð með ýmsum hætti og vinaþjóð. Hinsvegar yrði enn óskemmtilegra fyrir Íslendinga að lenda í slíkum hremmingum, eða þurfa á fjóra fætur til að komast undan þeim. Þessvegna liggur veð Hollendinga og Breta ekki fyrst og fremst í þessum eignum, sem engar eru tilteknar, heldur fyrst og fremst í orðpori Íslendinga og heiðri Íslands. Sem ætti að vera nokkurs virði hjá varðveislumönnum Eddukvæða: Deyr fé.

Jakob kippir sér heldur ekki upp við það samningsákvæði í bæði breska og hollenska samningnum að mál sem kunna að rísa skuli háð á grunni breskra laga, og segir það alvanalegt um slíka samninga – meðal annars íslenska lánasamninga „um áratuga skeið“. Það sé líka fráleitt að það skerði fullveldi Íslendinga að erlendur dómstóll hafi lögsögu. Hann hefði þó talið heppilegra að fá til þess alþjóðlegan gerðardóm, einsog samninganefnd okkar muni hafa reynt en ekki náð fram.

Ákvæði um jafna meðferð kröfuhafa eru hefðbundin, segir Jakob, og einnig vanefndarákvæði um að allt lánið falli í gjalddaga við alvarleg vanskil. Mönnum bregður við að lesa þetta í samningunum um svona mikið fé – en við ættum kannski að bera þetta saman við smáa letrið í húsnæðis- og heimilislánunum okkar? Rétturinn er í þessum tilvikum einkum hjá lánardrottninum, samkvæmt eðli máls. Það er hlutskipti skuldarans.
Þá telur lögmaðurinn telur vextina sem við höfum barmað okkur yfir „ekki tiltakanlega háa miðað við lánasamning til 15 ára“.

Endurskoðunarákvæðin: Engin dæmi

Kosti við samningana telur Jakob Möller hinsvegar tvenna þegar borið er saman við svipuð lán: Heimild til innágreiðslu án aukakostnaðar, og ákvæðin um hugsanlega endurskoðun.

Heimild til innágreiðslu „er mjög mikilvæg“ og „mun hagkvæmari lántaka en almennt gerist í lánasamningum“. Þessi heimild er auðvitað eitt af helstu grundvallaratriðum samninganna af því hún gefur færi á að lækka vaxtabyrðina feikilega ef vel gengur.

Um endurskoðunarákvæðið – sem margir hafa gagnrýnt fyrir að þar vanti nákvæmar tölur eða hlutfallsmark einhverskonar af landsframleiðslu eða fjárlögum – segir svo þetta í greinargerð Jakobs R. Möllers: „Ég þekki engin dæmi þess að í lánasamningum (andstætt viðskiptasamningum) séu ákvæði um endurskoðun vegna þess að aðstæður hafi breytzt lántaka verulega í óhag“.

Í ræðu Jóhannesar Indefence-manns á Austurvelli var talið að í Icesave-samningnum sæi engan stað hinna frægu „viðmiða“ sem stundum eru kennd við Brussel. Með þeim hétu íslensk stjórnvöld (ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) að semja um Icesave, og láta „dómstólaleiðina“ eiga sig, gegn því að sérstakt tillit yrði tekið til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“.

Í Icesave-samningunum – eins mikið hundsbit og þeir auðvitað eru – koma viðmiðin frægu einmitt fram í þeim ákvæðum sem Jakob einkum hrósar: Í hagstæðara endurskoðunarákvæði en hinn reyndi lögmaður þekkir dæmi um, í heimild til kostnaðarlausrar innágreiðslu hvenær sem er, og í þriðja lagi sem Jakob nefnir ekki af því að snertir ekki lagahliðina, í lánstímanum, þessum sjö árum sem gefast til að koma eignunum í betra verð.

Hvað hélt Jóhannes Þ. Skúlason – og hinn ágæti Indefence-hópur sem stóð sig svo vel í haust þegar ráðamenn voru í tómu tjóni hér í haust – eiginlega að viðmiðin hafi falið í sér? Að skuldin yrði felld niður?

Kóngar allir hreint

Það verður ekkert sérlega auðvelt að vera „kóngar allir hreint“ hér á landi næstu ár og kannski áratugi. Bætum ekki á með þrasi um sjálfsagða hluti. Og marga þeirra skýrir Jakob Möller einkar vel.

Icesave-samningarnir snúast sýnist mér fyrst og fremst um þetta:

Treystum við okkur til að klára dæmið svona? Með þeirri óvissu sem vissulega sveipar eigurnar – 75% 83% 89% 95% eða eitthvað allt annað eftir langvarandi kreppu – en í því trausti að pólitísk og siðferðileg staða okkar verði betri eftir 5–7 ár ef allt fer á verri veg.

Eða viljum við sparka þessari taflstöðu í loft upp og byrja upp á nýtt? – sem Jóhannes í Indefence viðurkennir að mundi hafa „erfiðar afleiðingar fyrir Ísland í skammtímanum“.

Þeir sem hallast að því viðhorfi þurfa þá að lýsa því fyrir okkur hversu erfiðar þær afleiðingar yrðu. Hvernig skárstar? Hvernig verstar?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Skýrt og skilmerkilega mælt. Þetta er ekki einfalt mál og sjálfsagt að vísa líka í skoðun fleiri lögfræðinga, s.s. Sigurð Líndal: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/23/icesave_malid_fari_fyrir_dom/

  • Guðmundur Gunnarsson

    Segir þetta ekki allt sem þarf um „hlutleysi“ og „fagmennsku“ Jakobs Möller?

    “Þó er afleitt að skamma þá sem reyna að afstýra vanda sem aðrir hafa valdið og láta þá sem freista að afstýra sitja á sakamannabekk.”

    Og hverja á Jakob þarna við? Samfylkinguna og verkkaupandann Össur sem vilja ekki kannast að hafa verið í hrunstjórninni og hvað þá að ICSESAVE bankamálaráðherrann Björgvin G. Sigurðsson að sinna ráðherraskyldum sínum sem varði sukkið og svínaríið allt fram að hruninu?

    Er hægt að taka jafn pólitísk vinnubrögð sem þessi alvarlega?

  • Sigurður #1

    Tek undir með Guðmundi Gunnarssyni hér að ofan.

    Bara nafnið á lögmanninum, og stofan sem hann er frá gera skjalið strax ótrúverðugt.

    Grunurinn er svo staðfestur með þessari yfirlýsingu, sem hefur nákvæmlega ekkert með lögfræðilegt mat að gera, hér tekur hann pólitíska afstöðu í málinu og gerir þar með að engu hlutleysi sitt sem fræðimanns (sem stóð tæpt fyrir.)

    Það er leitun að vanhæfari stofu til að vinna fyrir samfylkinguna, en þessi klausa tekur af allan vafa um hlutleysi.

  • Sigurður #1

    …..fyrir svo utan þá staðreynd að engin lagaleg rök hafa enn fundist fyrir að okkur beri að gera þennan „samning“ yfir höfuð, þ.e. að ríkisvæða skuldirnar hans Björgólfs.

    Ekki einusinni baugslögmaðurinn ykkar rökstyður það.

    Þessvegna er það í mínum huga algert aukaatriði hvort samningurinn sé slæmur, eða góður.

    Það á ekki að gera neinn samning fyrr en við höfum verið dæmd, fyrir óhlutdrægum dómi til þess.

    Ríkinu hefur enn ekki verið stefnt fyrir neinn dóm, afhverju ætli það sé?

  • Ég ætla ekki að gera lítið úr lögspeki Jakobs, en fjölmargir virtir
    lögfræðingar eru annarar skoðunnar. Ein samviskuspurning Mörður.
    Hvað hefði stjórnarandstöðuþingmaðurinn Mörður Árnason kallað svona
    gjörning í þá daga? Landráð ,svik eða aumingjaskap ? Þú tókst nú ansi oft
    stórt uppí þig. Ekki trúi ég að stjórnaraðild Samfylkingarinnar trufli
    dómgreind þína

  • Steinar Guðlaugsson

    Sæll Mörður.

    Ég er mjög óánægður með að hafa ekki fengið neitt aðgengilegt og traustvekjandi yfirlit um skuldbindingar okkar og greiðslur ásamt viðeigandi greiningu og áhættumati. Ég hef reynt að skilja það sem fram kemur í umræðunni en gengur ekki vel. Tölur eru vægast sagt mjög á reiki. Ég skora á þig gangast fyrir því að svona yfirlit verði birt á blogginu þínu svo málið skýrist og umræður geti farið fram. Ekki segja að þú sért ekki fjármálasérfræðingur og ekki vísa á fyrirspurnaleiðina á island.is, þaðan koma engin svör.

    Þetta er alvarlegt mál og fólk veit ekki hverju það á að trúa.

  • Mörður Árnason

    Já, Reynir, það er góð samviskuspurning. En ég held í alvöru ég hefði stutt svona samning frá annarri ríkisstjórn, eftir margar spurningar, sem ég hef líka spurt núna. Og ég tók oft upp i mig — og tek. Landráð hef ég samt aldrei sakað um nokkurn pólitískan andstæðing, og aðeins einusinni á þingi notaði ég orðið svik (reyndar svikarar), og baðst svo afsökunar á því. Það var um olíuforstjórana, sem ekki voru svikarar við eitt eða neitt, en hinsvegar svindlarar. Stend við það. En þetta skiptir ekki máli núna.

    Vitrir lögspekingar, það eru þá Magnús Thoroddsen um frið-/griðhelgina, og svo það álit Jóns Steinars og Sigurðar að gott hefði verið að fara fyrir dómstóla?

    Ég hef reyndar miklar efasemdir um að íslensk stjórnvöld hafi nokkurn tíma haft efni til að fara fyrir dómstóla, en það þurfti þá að gerast fyrir hrun, því í upphafi þess eru gefnar yfirlýsingar og sett lög sem tiltaka að ríkið taki ábyrgð á Tryggingarsjóðnum. Hefði verið gott að fá álit Jóns Steinars í októberbyrjun — en ætli geti verið að þá hafi ekki verið nógu vondir stjórnmálamenn í ríkisstjórn?

  • Mörður Árnason

    Tek undir þetta, Steinar, og þetta talaði Helgi Hjörvar líka um og ætlar að fá nýtt mat á eignunum. Sé hinsvegar ekki fyrirfram ástæðu til að efast um ,,varfærna“ 75%-matið og hef ekki séð neinar rökstuddar efasemdir um það. En þetta veit einfaldlega enginn fyrir víst. Þessvegna m.a. koma hin óhefðbundnu endurskoðunarákvæði.

  • skattmann

    Ég hef mjög lítið álit á þessu lögfræðiáliti.
    Ástæðan fyrir því að um er að ræða „cherrypicking“ þ.e. bara ákveðnar greinar eru teknar fyrir og meira að segja bara ákveðnir liðir einstakra greina.
    Það er mjög langt frá því að samningurinn allur sé tekinn fyrir s.s. hinar 11 greinar um gjaldfellingu IceSlave.
    Þá er það bresk réttarregla að taka ekkert tillit til þess að samningsaðili hafi samið af sér. Ekkert af því sem að Jakob Möller, hvorki varðandi það að tillit eigi að taka til efnahagslegrar stöðu Íslands né hvað varðar aðfararhæfi Íslands kemur fram í IceSlave. Hins vegar eru ótal greinar í hverjum einasta lið þar sem tryggja eiga sem best réttindi Breta og Hollendinga.

    1. „“Af hálfu íslenzka ríkisins var ítrekað sagt, að Ísland mundi standa við skuldbindingar sínar án þess að tiltekið væri nákvæmlega hverjar þessar skuldbindingar væru“

    Íslenska ríkisstjórnin getur ekki sett ríkisábyrgð á neitt án samþykkis Alþingis.

    Þá er nauðsynlegt samkvæmt stjórnarskránni að slík skuldbinding eigi sér lagastoð. Ef ekki fæst skorið úr um IceSlave fyrir dómstólum, þá er erfitt að sjá lagastoð fyrir IceSlave.

    2. „Ég mun ekki fjalla um fjárhagsleg eða efnahagsleg atriði samninganna“

    Staðreynin er sú að Ísland mun aldrei getað borgað þetta!
    Þetta er beint afsal á fisknum og orkunni!

    3. „Þó verður hér að benda á, að á reikningi Landsbanka Íslands hf. í Stóra-Bretlandi munu vera tvöhundruð miljónir sterlingspunda, sem get runnið til greiðslu upp í skuldbindinguna.“

    Þetta er rangt. Það á eftir að úrskurða um það hvort og þá hve mikið af þessum peningum og öðrum gætu runnið uppí IceSlave.

    4. „Án slíkrar greiðslu inn á höfuðstól í upphafi mundu þær fjárhæðir sem þessir vextir næmu, vera um það bil 36 miljarðar króna á fyrsta árinu auk vaxtavaxta“

    Skv. fréttum innheimtist stærsti hluti lánasafnsins eftir tæplega 7 ár. Því erum við ekki að tala um fyrsta árið hér, heldur mun lengri tíma. Í raun ca. 300 milljarða.
    Þetta fellur allt saman á íslenskan almenning. Bara þetta er meira en við ráðum við að borga!
    Og þá er allt hitt eftir!

    5. „Samningarnir báðir við Stóra Bretland og Holland koma mér að mestu fyrir sjónir sem keimlíkir alþjóðlegum lánasamningum með jafngildi sjálfskuldaábyrgðar“

    Er ekki betra að fá reyna alþjóðlega lögfræðistofu til að skoða þetta, en Jakob Möller?

    6. „en þó get ég sagt að af almennri þekkingu megi ráða að vaxtafóturinn 5,5% sé ekki tiltakanlega hár miðað við lánasamning til 15 ára.“

    Það er ekki hægt að bjóða almenningi það að einhver íslenskur lögfræðingur sem hefur greinilega ekkert vit á þessu sé sá eini sem að ríkisstjórnin finnur til að reyna að bera blak af handrukkuninni.

    5,5% vextir, vaxtavextir og yfirdráttarvextir eru gríðarlega háir vextir á 100% öruggu láni með 100% öruggum veðum.

    7. Fjallar ekki um allan samninginn. Er hægt að bjóða almenningi að lögfræðiálit til stuðnings IceSlave velji bara sumar greinar samningsins?

    8. Gr. 7
    Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að Jakob Möller þýðir bara sumt í enska textanum og sleppir öðru. Það stendur í enska textanum að ef að trygginarsjóðurinn EÐA ÍSLAND taki lán með betri kjörum til að standa straum af kostnaði vegna innistæðutrygginga t.d. ef að hollenskir innistæðueigendur vinna málaferli á hendur ríkinu þá verði að uppfæra IceSlave lánin uppí þessi betri kjör.

    Í þessu samhengi er mikilvægt að muna að Bretar og Hollendingar geta í raun meira og minna einhliða ákveðið hvernig túlka ber allar greinar samningsins.

    9. Gr 12
    Hér er bara ein grein tekin fram af 11 greinum sem eru mjög víðtækar í öllum skilningi þess orðs. Ef að Bretar og eða Hollendingar meta það svo að einhver af þessum 11 greinum hafi verið brotin, þá er lánið gjaldfellt undir eins. Það getur gerst strax á fyrsta ári samningsins.

    Meðal greina er að ef að eitthvað skjal sem er tengt skjali sem tengt er þessum fjármálagjörningi er að mati Breta eða Hollendinga á einhvern hátt misvísandi, þá geta þeir gjaldfellt lánið!
    Jakob Möller kýs að sleppa því að fjalla um þetta ákváði og öll önnur nema eitt.

    Jakob Möller kýs að túlka endurskoðunarákvæðið mjög Íslandi í hag. Ef að allt sem að hann skrifar um það stæði í samningnum, þá liti það mun betur út en raunin er.

    Bretar eru eitt örfárra ríkja sem hafa fastafulltrúa í AGS. Þeir hafa umtalsverð völd þar. AGS er ekki hlutlaus úrskurðunaraðili. AGS getur eins og nýleg dæmi eru um krafist þess að skera t.d. 50% niður í heilbrigðisþjónustu til að nægur peningur sé til í að borga IceSlave. Að öðrum kosti gæti AGS hafnað því að meta stöðuna sem svo að íslenskur almenningur gæti ekki borgað. Þá yrði lánið gjaldfellt og vaxtavextir tæku að tifa ásamt því að Bretar og Hollendingar myndu að vild taka fiskinn og orkuna. Þá á Ísland samkvæmt samningnum að borga allan kostnað Breta og Hollendinga og skulu fjármunir uppí IceSlave fyrst fara í að borga það áður en vaxtaberandi skuld lækkar.

    10. „ákvæðin að auki hagfelldari en gengur og gerist í viðskiptasamningum“
    Þetta þarf að rökstyðja. Það að samningsaðilar tali saman 100% án allra skuldbindinga er varla svo gríðarlega hagfellt?

    „The Lender agrees that, if this paragraph 16 applies and lceland so requests, it will meet with
    lceland to discuss the situation and consider whether, and, if so, how, this Agreement should
    be amended to reflect the relevant change in circumstances.“

    Sem sé Bretar og Hollendingar eru þeir sem að ákveða það hvort og þá hvernig samningnum er breytt. Ísland hefur nákvæmlega engan rétt hér. Ef að það sem að Jakob Möller heldur fram væri rétt, þá stæði hérna tilvitnun í að taka skyldi tillit til stöðu Íslands. Það stendur í lögfræðiáliti Jakobs Möller. Það stendur hins vegar ekki í samningnum. Breskir dómstólar geta ekki tekið neitt tillit til þess að menn semji af sér og að greinar sem væru til hagsbóta sé bara að finna í lögfræðiáliti, en ekki í samningnum sjálfum.

    17.1
    Ekki var talið sigurvænlegt að stefna Bretum fyrir breska dómstóla vegna hryðjuverkalaganna vegna þess að breskir dómstólar dæma ekki Bretum í óhag í þess konar málum. Þá mega Hollendingar velja einhvern annan dómstól að eigin vali kjósi þeir svo. Íslendingar hafa ekkert um það að segja hvaða dómstóll er valinn.

    Aftur fjallar Jakob Möller bara um eitt atriði í lögunum, en „gleymir“ að fjalla um öll hin!

    Það er munur á mannréttindamálum þar sem málsaðilar eru breska ríkið annars vegar og breskir þegnar hins vegar og máli þar sem hinn aðilinn er annað ríki. Dómstólar nýlenduveldisins taka ekki mildum höndum á slíkum málum.

    „dómstólnum væri sjálfsagt rétt að gæta að án kröfu, ex officio.“

    Það stendur nákvæmlega ekkert í IceSlave um að dómstól skuli rétt að gæta að neinu af þessu.

    Samkvæmt IceSlave mega íslensk lög ekki standa á neinn hátt í vegi fyrir aðför. Þá er ekki hægt að vernda einstaka eignir með lagabreytingum.

    Orka og fiskur sambærilegar eignir við samskonar eignir einkaaðila sem sagt.

  • skattmann

    Það stendur ekkert um að taka beri tillit til erfiðra aðstæðna Íslands í samningnum.
    Breskir dómstólar mega ekki taka tillit til þess að annar samningsaðila hafi samið af sér.

    „dómstólaleiðina“ eiga sig, gegn því að sérstakt tillit yrði tekið til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“

    Mörður skrifar:
    „í lánstímanum, þessum sjö árum sem gefast til að koma eignunum í betra verð.“
    Það er spáð kreppu næstu 7 ár.

    Mörður skrifar:
    „Treystum við okkur til að klára dæmið svona? Með þeirri óvissu sem vissulega sveipar eigurnar – 75% 83% 89% 95% eða eitthvað allt annað eftir langvarandi kreppu – en í því trausti að pólitísk og siðferðileg staða okkar verði betri eftir 5–7 ár ef allt fer á verri veg.“

    Það stendur í IceSlave að ekkert tillit skuli tekið til þess ef að ekki er hægt að nota neinar eignir Landsbankans uppí skuldina.

    Ef að skuldabréfaeigendur Landsbankans vinna málaferli, þá er Ísland komið lóðbeint á hausinn um leið.
    Það er ekki einn einasta fyrirvari í IceSlave um það!

    Þá eru forsendur matsins meira en lítið vafasamar. Er raunhæft að ætla að öll útlán innheimtist uppí topp og að gott verð fáist fyrir allar eignir þegar heimskreppu er spáð næstu 7 árin?
    Er nokkuð skrýtið að mat sem byggist á svona skýjaborga forsendum skuli hafa „skekkst“ um 100 miljarða á örskömmum tíma?

  • Sigurður #1

    Mörður Árnason?

    Hættu þessari helv…þvælu að það sé engin ástæða til að efast um að 75% náist af eignunum.

    Að enginn hafi getað rökstutt það.

    Veðurspáin er öruggari en þetta mat.

    Verðmatið hefur þegar fallið um fjórðung síðan í maí.

    Það getur enginn spáð fyrir um verðmæti þessara eigna, þú getur allt eins valið nafn í símaskránni og spurt þar.

    Þetta er spámennska, það veit enginn hvað er framundan í efnahagslífi breta, en þó ljóst að smásala hefur dregist verulega saman og fyrirtæki eiga enn eftir að fara í þrot þar.

    Hættu þessari þvælu að það sé engin rökstudd ástæða til að efast um matið.

    Fyrst sagði foringinn þinn að eignir gætu dekkað allt saman, svo nánast allt og svo hefur afgangurinn aukist dag frá degi.

    Nú síðast kemur í ljós að vextirnir voru ekki inni í þessum tölum, sem gætu orðið 300 miljarðark (bara vextirnir einir og sér)
    Sem þýðir að gangi bjartsýnustu spár eftir, standa 500miljarðar eftir.
    Það er talsverður munur á engu, og 500 miljörðum.
    Og þetta er bara Icesafe.

  • Kristján Sveinsson

    Jæja Mörður sæll.
    Ég get nú verið þér sammála um það að samningurinn um Icesave uppgjörið sem lagður verður fyrir Alþingi sé sennilega illskársta lendingin í afleitri stöðu. Er þó samningurinn vondur, en þarna virðist ekki völ á neinu góðu.
    Lagamenn og dómarar, sem sakna dómsorða í málinu, mættu minnast þess að yfirleitt eru sættir og samningar reyndir í deilumálum áður en mál koma fyrir dóm. Þótt dómsorð um Icesave kynni að verða áhugvert frá sjónarhóli lögspekinga er allt óvíst um hagstæðari niðurstöðu fyrir Ísland af þeim vettvangi en fyrir liggur í margnefndum samningi.

    En verum heldur ekki bláeyg og barnaleg Mörður. Grannþjóðir okkar, Bretar og Hollendingar, létu sig ekki muna neitt um það að kúga undir sig fjarlægar þjóðir til að auðgast á því sjálfir. Það er ljót saga um skeytingarlausa auðhyggju og hún er ekki svo ýkja langt undan. Þegar fé og völd eru annars vegar er á öllu von. Tal og skrif um „vinaþjóðir“ í Icesave-samhengi á þar illa heima og það hygg ég að þú getir sjálfur sannfærst um með dálítilli umhugsun. Hér er um beinharða hagsmuni að tefla og í þeim reipadrætti sem á sér stað um Icesave verður alltaf og öllum stundum að hafa það hugfast.

  • Mörður Árnason

    Já, Kristján, beinharða hagsmuni. Þar koma þó við sögu samskiptareglur sem bandamenn og ,,vinir“ hafa komið sér upp — þó ekki væri nema til að eiga sér sjálfur vörn í slíkum reglum þegar á bjátar. Ekki ofsóknaræði og heldur engan barnaskap — en ég met það einfaldlega þannig að Bretar og Hollendingar ættu erfitt með fautaskap gagnvart okkur hafi Íslendingar gert sitt. Það eru fleiri í þessu kompaníi, Noðurlandamenn, Þjóðverjar, Frakkar, og staða okkar verður betri þegar frá líður.

  • Mörður

    Hvað finnst þér um nýjasta lagaálit Magnúsar Thoroddsen sem hann viðraði á ÍNN í dag?

    „Þetta er hænufet frá landráði“

  • Ef við höfnum samningnum, munu við uppskera virðingu flestra þjóða heims, fyrir að standa í fæturna. Krónan mun styrkjast og lánshæfismat batna. Bretar og Hollendingar munu ekki nenna að sækja þessa peninga, enda búnir að borga. Fyrir þeim eru þetta smáaurar, rétt einsog einhver skuldaði okkur 300 milljónir.

  • skattmann

    „Undir það er ritað að versni staða okkar frá því sem hún var metin vera í nóvember sl. og/eða að greiðslurnar verði þannig íþyngjandi fyrir okkur að við ráðum illa við þær, ég tala nú ekki um alls ekki, verður málið tekið upp á nýjan leik. Enda dettur auðvitað engum í hug og það þjónar engum góðum tilgangi að ofgera greiðslugetu íslenska þjóðarbúsins með þessu máli.“

    Ákvæðið hljóðar uppá að ef að AGS gefur grænt ljós á að Ísland geti ekki borgað, væntanlega þrátt fyrir 50% niðurskurð á helstu póstum. Þá tala Bretar og Hollendingar við okkur!
    Þeim ber nákvæmlega engin skylda til þess að breyta einu eða neinu!

    Afhverju eru okkar stjórnmálamenn svona vissir um að Bretar og Hollendingar ekki að hafa áhuga á því að eignast fiskinn og orkuna fyrir slikk?

  • Þar sem örlítið er minnst á mig í þessum pistli vil ég leggja eftirfarandi orð í belg hér:

    1. Það er þægilegt að geta valið sér lögfræðiálit til að vera sammála. Ég hef heyrt í lögmönnum í dag, sízt minni lögspekingum en Jakob Möller er, sem eru fráleitt sammála áliti Jakobs, t.d. varðandi hvaða eignir eru aðfararhæfar. Álit Jakobs Möller er því enginn stóri dómur varðandi þennan samning og ég hvet Mörð til að kynna sér öndverð sjónarmið einnig með opnum hug, rétt eins og ég kynnti mér álit Jakobs.

    2. Varðandi ræðu mína þá þætti mér vænt um að rétt sé vitnað til texta innan gæsalappa. Það sem ég sagði var: „… í þessum samningi gefur íslenska ríkið frá sér allar varnir gegn því að vera dregið fyrir dómstóla vegna þessa samnings. Það er skýrt afsal á fullveldisrétti Íslenska ríkisins.“ Ekki stór villa svosem, en ef við gefum frá okkur grunnreglur um tilvitnun texta þá endum við öll eins og Hannes Hólmsteinn. Það sem ég átti við var að grein 16.3 felur í sér skýrt afsal á ákveðnum hluta fullveldisréttar íslenska ríkisins, friðhelgi fullveldis. Á engan hátt var ég að ýja að því að „þarmeð hætti íslenska ríkið frá 1918 eða 1874 að vera til“. Það virðist hins vegar henta Merði Árnasyni að setja fram slíka staðhæfingu til að draga úr gildi orða minna eða gera þau fáránleg í augum lesenda sinna. Kjósi hann að stunda slíka rökræðu þá hann um það.

    3. Mörður telur upp þrjú atriði sem hann telur að sjái til þess að samningurinn uppfylli kröfur viðmiða Alþingis (Brüssel viðmiðin) og spyr því næst hvort InDefence hafi haldið að skuldin félli niður vegna viðmiðana? Nei. En Mörður „gleymir“ algerlega að telja upp öll atriðin sem sýna fram á að hann stenst EKKI þessi ágætu viðmið. Þar má t.d. nefna að Ísland fær ekki nema um 53% af andvirði eigna Landsbankans (hitt rennur til annarra forgangskröfuhafa), öll áhætta af samningnum fellur á Ísland, ekki hafa verið birtir útreikningar á greiðsluþoli ríkisins sem sýnir svart á hvítu að Ísland geti greitt skv samningnum eða sú efnahagsspá til 15 ára sem þó hlýtur að hafa legið honum til grundvallar, ekki hefur verið sýnt fram á hvernig Íslendingar eiga að standa skil á 36 milljörðum í erlendum gjaldeyri árlega til að eiga fyrir vaxtagreiðslum, ekki hefur verið sýnt fram á hvernig Íslendingar eiga að fara að því að greiða þetta lán ef neyðarlögin standast ekki umfjöllun dómstóla (enginn fyrirvari er í samningnum um þetta) og svo framvegis og svo framvegis. Samningur sem gæfi Íslendingum efnahagslegar forsendur til að greiða lánið væri ásættanlegur samningur. Það gerir þessi samningur ekki, og það er aðal atriðið varðandi það hvort viðmið Alþingis hafa verið virt eða ekki. Ekki lögfræðilegt álit Jakobs Möller á þremur greinum samningsins.

    4. Ég viðurkenni vissulega að höfnun ríkisábyrgðar á þessum samningi mun valda erfiðleikum í skammtímanum. Það er hins vegar ekki Bretum og Hollendingum í hag að leggja efnahagskerfi Íslands í rjúkandi rústir með hefndaraðgerðum. Því hlýtur annað af tvennu að gerast eftir að Bretar og Hollendingar komast að því að Íslendingar munu ekki gefa sig undir afarkosti: Annað hvort fara þeir dómstólaleiðina ellegar endursemja. Hvorugt getur talist óhagstætt fyrir Ísland. Ég legg áherslu á að InDefence er ekki að sleppa því að borga, heldur að endursemja.

    5. Ég er sannarlega tilbúinn að hlusta gaumgæfilega á rök fyrir því að þessi samningur sé góður samningur, og hef gert það þegar þau gefast. Gallinn er að engin þeirra raka sem ég hef heyrt hingað til hafa staðist nánari skoðun. Engin þeirra hafa sýnt fram á að Ísland hafi forsendur til að greiða þetta lán samkvæmt þessum samningi. Hafi Mörður Árnason rök fram að færa í þá átt hvet ég hann til að gera skýra grein fyrir þeim.

  • Hvernig í ósköpunum heldur þú að fólk taki mark á keyptu áliti Baugslögfræðings. með vaxtakostnaði, ovissu um gildi neyðarlagana og þessum að minnsta kosti 150 milljörðum sem er núna útséð að muni falla á okkur skattgreiðendur.

    Þetta er orðið að tölu núna frá 300 milljörðum og uppí 700 milljarða ef neyðalögin halda ekki, sem mun alveg örugglega reyna á. Ef þú samþykkir þetta þá ertu að fara gegn vilja meira 90% þjóðarinnar! Ef þið gerið þetta þá eigið þið aldrei séns í politík aftur, því þið kallið yfir þjóðina hengingaról með 300-700 milljarða á herðum sér næstu áratugina. Þú ert heimskur ef þú áttar þig ekki á því að þið munið orsaka mikinn landflótta. Þú ert þjóðnýðingur ef þú kýst þetta yfir okkur og þér mun hefnast fyrir það, því get ég lofað. Þið ætlið að eyðileggja ísland!

  • Mörður Árnason

    Takk, Jóhannes. Svar kemur síðar — bara eitt smátt núna, um tilvitnanir:

    Eiginlega var ég að vitna í fyrri staðinn í ræðunni: ,,Mikið hefur verið rætt um 16. grein samningsins, sem fjallar um afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins. Lögfræðingar Indefence, sem hafa mjög víðtæka reynslu af því að fjalla um þjóðréttarsamninga, eru sammála um að þetta ákvæði feli í sér víðtækt afsal friðhelgisréttinda sem leiðir til þess að mun auðveldara verður að ganga að eignum íslenska ríkisins. Þegar ákvæðið er lesið kemur ekki fram nein takmörkun á hugtakinu ,,eign“.“

    Hér kemur vissulega ekki fram að ríkið frá 1944 eða 1874 sé búið að vera, en án fyrirvara hljómar þetta einsog nú sé hægt að ráðast að öllum eigum okkar — sem Jakob sýnir ágætlega að er ekki málið — en þá væri lítið eftir af ríkinu og fullveldi þess. Kannski átti ég að orða þetta varlegar, og Indefence-hópurinn á fullkominn rétt á röklegri umræðu. En stundum hættir mönnum til að slá í merina, bæði á útifundum og umræðugreinum. Eigi víkja!

  • Kristján Erlingsson

    Mikil er umræðan búin að vera um hvort veita eigi ríkisábyrgð eða ekki vegna greiðslu innlána einkabankanna sem féllu síðastliðið haust. Hér hef ég lesið enn einu umræðunu eftir að Mörður mærir lögman LOGOS með öllu sem hann á til og vitum við öll sem til hans ferils þekkjum að hann á mikið til í skjóðu sinni. Vil ég koma með innlegg.

    1. Ef Mörður svarar ekki með hald góðum rökum lið fyrir lið rökum Jóhannesar hér að ofan þá er Mörður enn sami Mörður og labbaði reglulega niður Laugarveg með blóðlitan fána og öskraði hátt og ekkert mark var/er takandi á.

    2. Einu rökin sem komið hafa gegn því að krefjast dómleiðar og skrifa ekki undir samninginn er að þá verðum við ekki þjóð meðal þjóða. Hvað eru Rússar þá eftir sitt default 1998?, Argentína sem tvisvar hefur defaultað? Svíar sem fundu upp good bank, bad bank? Að við verðum að hugsa um Evrópu og bjarga þeim frá meingölluðum reglum sínum, samanber DV viðtal við pandóru boxið, sem við tókum upp í gegnum EES og sem var síðar beitt á íslensk stjórnvöld svo að þau afnámu bindiskyldu bankanna vegna jafnræðishugmynda EU!

    3. Hvernig getið þið varið væntanlegar gerðir ykkar vitandi að þið munuð brjóta stjórnarskra Íslands svo og hegningarlöggjöfina, svokallað landráð, þar sem þig munuð ekki hafa fulla vitneskju um það hversu há skuldbinding ríkisins verður? Svokallað known unknown ef maður vitnar í
    hin fróma mann Mr Rumsfelt. Þette er neflilega ekki unknow unknow, því þið vitið að þið vitið það ekki hversu mikið við sem þjóð munum þurfa að borga.
    4. Eftir að hafa framið þetta landráð hvað ætlið þið, Mörður, að gera við skuldir íslensk sjávarútvegs, taka annað kúlulán uppá á 600 miljarða? Selja aðganginn? eða skiftir ekkert af þessu nokkru máli því að ykkur mun líða vel í litlu prógómi í EU, eins og Róma fólkið eða Sígunar og veifið bláum fánum með gyltum stjörnum með bros á vör því ykkar verki er lokið og þið fenguð klapp á bakið, fullveldi Íslands er lokið!
    Svo að það fara ekki milli mála, þá er ég svokallaður efnahagslegur flóttamaður, skv minni eigin skilgreiningu. Ég flúði í burt 1997 eftir að íslenskum sjávarútvegi var skipt upp á milli nokkurra aðila og hef búið erlendis síðan og hef fylgst agndofa með keðjubréfa kaupum og sölum landsmanna síðan.

  • Rómverji

    Verða ekki Ingibjörg S. Gísladóttir, Geir H. Haarde, Árni Mathiesen, Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Baldur Guðlaugsson, Jónas Fr. Jónsson, Jón Sigurðsson ekki örugglega lögsótt vegna hrunsins? Rétt eins og „einkavinir“ úr röðum íslensks „viðskiptalífs“?

  • Rómverji

    „úr íslensku viðskiptalífi“ vildi eg sagt hafa.

  • skattmann

    Það er smám saman að leka út hver raunveruleg ástæða IceSlave er.
    Íslenskir stjórnmálamenn vilja ekki að óhreini þvotturinn þeirra verði skoðaður af dómstólum.

    Er það í lagi að „bjarga“ stjórnmálamönnum frá því að gerðir þeirra verði teknar til rækilegrar skoðunar af dómstólum, en setja heila þjóð í gjaldþrot í staðinn?

    Þessu verða þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna að svara?
    Ætla þeir að greiða atkvæði sitt með yfirhylmingu kollega sinna, en gegn íslensku þjóðinni?

    http://eyjan.is/blog/2008/11/13/deilur-icesave-atti-ad-leysa-med-gerdardomi-embaettismenn-esb-breyttu-forsendunum-einhlida/

    Það á allt að vera uppi á borðinu þegar gerðardómur tekur IceSlave fyrir.

    Spurningarnar sem þarf að svara eru:

    1. Hver er ábyrgð íslensks almennings?
    Hefur íslenskur almenningur gert eitthvað sem að verðskuldar að hann borgi IceSlave?

    2. Hver er ábyrgð íslenskra stjórnmálamann?
    Hafa einstaka íslenskir stjórnmálamenn gert eitthvað sem að verðskuldar að þeir sæti ábyrgð?

    3. Hver er ábyrgð breskra stjórnmálamann?
    Hafa breskir stjórnmálamenn gert eitthvað sem að verðskuldar að þeir sæti ábyrgð?

    4. Hver er ábyrgð íslenskra bankamanna?
    Er hægt að dæma íslenska bankamenn?

    5. Var beitning hryðjuverkalaganna lögleg?

    6. Var beiting neyðarlaganna hnökralaus?

    7. Hver er ábyrgð íslenska fjármálaeftirlitsins

    8. Hver er ábyrgð breska fjármálaeftirlitnis og seðlabanka?

    9. Hver er ábyrgð hollenska fjármálaeftirlitsins og seðlabanka?

    10. Hver er ábyrgð IceSave innistæðueigenda?
    Hefðu þeir átt að átta sig á því að hæstu ávöxtun markaðarins fylgir alltaf líka mesta áhættan?

    Enginn sem að einhvern hátt kom að málum á að vera í neinu vari.
    Neyðarlögin eiga að vera uppi á borðinu tvímælalaust, en líka allt annað s.s. beiting hryðjuverkalaganna.

    Ég tel að það hafi verið mikil mistök að segja sig úr gerðardóminum eftir 2 daga í stað þess að þrýsta á að þessir 10 liðir myndu hljóta umfjöllun.

  • Ég þakka ágæta skýringu Mörður, og vissulega þarf stundum að slá í til að koma punktinum frá sér.

    Hins vegar snýst málið að hluta um að lögfróðir menn eru öldungis ósammála um það hversu víðtækt aðgengi að eignum íslenska ríkisins þetta ákvæði veitir UK og HOL. Jakob Möller færir vissulega rök fyrir því að aðgengið sé miklum takmörkunum háð.

    Á hinn bóginn hef ég fengið skýringar á þessu ákvæði sem benda í þveröfuga átt, einmitt þannig að túlkað eftir orðanna hljóðan, sem er grunnatriði í túlkun slíkra samninga, gefi ákvæðið engar takmarkanir á þessu. Aðeins er talað um eignir Íslands og tryggingasjóðs. Þetta eru tvö lögfæðiálit sem stangast á og brýt að fá skýra umræðu um það hvort þeirra stenst nánari skoðun. Til dæmis væri áhugavert að fá álit breskra og Hollenskra lögmanna á þessu atriði, til að taka af allan vafa um skilning samningsaðila okkar á þessu ákvæði. Eins og ég benti á áður er álit Jakobs Möller ekki „skýrslan“ sem allir verða að taka mark á umfram önnur álit. Það virðist hins vegar vera skilningur allt of margra.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur