Miðvikudagur 24.06.2009 - 10:42 - 12 ummæli

Álfyrirtækin skili svindlgróðanum

Fréttablaðið segir frá því að meðal spekúlanta með íslensku krónuna síðan gjaldeyrishöftin voru sett séu fyrirtækin Alcoa Fjarðaál og Alcan á Íslandi. Þau kaupa krónur erlendis þar sem þær eru ódýrar í staðinn fyrir að nota gengi Seðlabankans – og stuðla með þessu að sífelldri lækkun krónunnar sem torveldar endurreisn viðskipta- og atvinnulífs á Íslandi.

Seðlabankinn virðist loksins hafa gripið álfyrirtækin tvö (Norðurál er saklaust) með buxurnar niðrum sig, og svarið var að þau hafi mátt þetta – hafi haft undanþágu til gjaldeyrisviðskipta erlendis. En ekki til að hagnast!, segir Sveinn Seðlabankastjóri – það var ekki ætlast til að álfyrirtækin notuðu undanþágu vegna stærðar og umsvifa til að vinna gegn anda laganna og klárum þjóðarhagsmunum.

Gróði fyrirtækjanna af þessum viðskiptum hefur ekki verið „gefinn upp“ – en Fréttablaðið telur hann um það bil 1,65 milljarða miðað við heilt ár. Það gæti með lauslegum reikningi verið rúmur milljarður miðað við átta mánuði frá neyðarlögum.

Alcan á Íslandi – Straumsvíkurverið – hefur nú lofað bót og betrun og ætlar að hætta braskinu. Enn heyrist ekkert í forráðamönnum Alcoa á Reyðarfirði um framhald gjaldeyrisviðskipta á erlendri grund, hvorki forstjóranum Tómasi Má Sigurðssyni né Ernu Indriðadóttur, framkvæmdastjóra samfélags- og upplýsingamála.

Löglegt – svo? Auðvitað eiga stjórnvöld að heimta að fyrirtækin tvö greiði þennan milljarð aftur til baka með afsökunarbeiðni til þjóðarinnar. Einmitt núna meðan blóðugur niðurskurður og skattheimta stendur sem hæst. Gætum kannski notað milljarðinn til að létta aðeins á vaxtabyrðinni vegna Icesave?

Gaman að því annars hjá Alcoa að bæði forstjórinn og framkvæmdastjórinn tengjast stjórnmálum og stjórnvöldum náið og eiga því að hafa haft allar forsendur til að gera sér grein fyrir siðferðilegri ábyrgð sinni við spekúlasjónirnar: Tómas Már er kvæntur alþingismanninum Ólöfu Nordal, Sjálfstæðisflokki, en Erna var frambjóðandi í 10. sæti Samfylkingarinnar á Norðausturlandi við síðustu kosningar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Finnst ótrúlegt að hafi verið með undanþágu „in the first place“ en eins og þú segir þó hafi verið löglegt þá ekki siðlegt og öll fyrirtæki með „manndóm“ vilja starfa siðsamlega, en ekki bara löglega.

    Svo tek heilshugar undir með þér og hvet þau eindregið til að skila þessum gróða til þjóðarinnar.

  • Nýi Dexter

    Hefurðu séð myndirnar hans Ómars frá Hálslóni?

  • skattmann

    alveg 100% sammála.

    Það má bæta því við að ég skil ekki hvernig stjórnmálamenn gátu samið lög sem að gerðu þetta athæfi löglegt.

  • Þorgr´ímur Gestsson

    Var eitthvað ofsagt um fyrirtækið Alcoa og samfélagslegan sóðaskap þess þar sem það hefur starfsemi? Og hvað varðar upplýsingafulltrúann hef ég ekki kynnst annarri eins sálarsölu fyrrverandi blaða- og fréttamanns. Sækja verður þetta fé til beggja fyrirtækjanna.

  • Alcan í Straumsvík er nú Rio Tinto, one of the most rutal companies in the world!

    Kemur ykkur þetta á óvart? Ekki mér.

  • Halldóra

    brutal átti það að vera

  • Þorsteinn

    Voru ekki ein rökin fyrir álvers-dótinu að þau myndu fjármagna hér velferð framtíðarinnar. Maður trúir því nú varla að fyrirtæki með svona göfugt hlutverk séu að braska með gjaldeyri og græða bæði á viðskiptunum og á lækkun gengisins samfara þeim. Við hljótum að vilja a.m.k. tvö til viðbótar til að gulltryggja velferð þjóðarinnar næstu áratugina.

    Hins vegar veltir maður því nú fyrir sér hvort þessi fyrirtæki séu ósnertanleg ef það á bara að „biðja“ þá um að hætta þessu.

  • Byrjum á að láta Bjögga Thor og Jón Ásgeir skila „góssinu“
    Síðan má herja á álverin, er það ekki svona rökrétt miðað
    við umfangið ? og hver segir að álverin séu að svindla ?
    er búið að rannsaka það betur en þjófnað útrásarhyskisins
    á þúsundum milljörðunum ?? og bara dómur fallinn ??
    Mörður, hvalur á grillið og súrt rengi, þá lagast allt 🙂

  • Við hverju búist þið eiginlega? Hafa ekki ALLIR samningar við þessi fyrirtæki verið leynilegir? Hvernig er hægt að fylgjast með eða veita aðhald þegar engin veit neitt um þessi mál?
    Nei gott fólk – það eru enn og aftur þessir flokkar og ríkisstjórnir hér á landi sem eru stofnaðar til að verja hagsmuni örfárra og eru ekki, frekar nú en áður, landi og þjóð til heilla.
    Við þurfum að fá útlendinga til að stjórna hérna – „skilum“ okkur aftur til Dana. Hér er ekki til heiðarlegur, hugsandi stjórnmálamaður og hefur ekki verið síðan við fengum sjálfstæði.
    Nú er búið að eyðileggja allt – auðvitað eigum við heimsmet í að fara á hausinn eins og allt anna´ð.
    Hverjum er það að kenna? Jú þegar öllu er á botnin hvolft eru það stjórnmálamenn – ríkisstjórnir sem „leyfa“ svona hlutum að gerast því þeir hugsa meir um penngamennina en þjóð sína og setja engar reglur.
    Betra að vera „inn“ í laxveiðinni og koktailboðinu en setja lög og reglur.

    Jú fyrirgefið þið – Árni Páll VAR bara rétt í þessu að setja reglugerð um niðurfellingu skatta á niðurfelldum skuldum???!!!!!

    Skildum við, sauðsvartur almúginn fá svona meðferð? Þurfa ekki einu sinni AÐ BIÐJA UM NIÐURFELLINGU – bara gert með einu pennastriki
    FYRIR RÉTTA FÓLKIÐ – EINS OG ALLTAF.

    Næstu lög verða sennilega; Bannað verður að ganga að fólki sem telst til mafíu Íslands. Það skal halda störfum sínum, eftirlaunum, inneignum, þotum, snekkjum, húsum og þjónum. Einnig skal gefa þeim bankana að nýju, sem og allan vatnsrétt Íslands, ásamt orkunni!
    Bíð á meðan ég æli gott fólk.

  • Þorgrímur; hafi Erna Indriða selt sálu sína þá hefur bróðurparturinn af blaðamannastéttinni sem þykjast vera almannatenglar líka gert það.

    Dísa; Held að þú ættir að lesa meira og betur um Rio Tinto en ruglið í Andra Snæ. Heimild hans er í meira lagi vafasöm. Ástralar segja Rio Tinto besta fyrirtæki Ástralíu, frumkvöðla í umhverfisvernd og starfsmannahaldi !!

  • Guðmundur Guðmundsson

    Blár: Ekki gleyma ruglinu í norska fjárfestingasjóðnum sem hefur ekki enn gert sé grein fyrir frumkvöðlastarfi Rio Tinto á sviði umhverfisverndar.

  • Sigurður #1

    Samfylkingin skili mútunum.
    (með vöxtum og verðbótum)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur