Mánudagur 29.06.2009 - 15:59 - 3 ummæli

Gjástykki: Virkja hvernig?

Nýkominn úr helgarferð með Landvernd á jarðhita- og eldfjallaslóðir Þingeyinga – fengum úrvalsveður, einkum fyrri daginn, sól og aðeins andvara, og nyrðra er maður einsog kominn annað: Allt er gróið á þingeysku heiðunum, meiraðsegja lú-pínan verður fögur, og margvísleg fogl dvelja ferðalang: Þrestir tístandi, andaskari kvakandi, svanir svífandi, himbrimar íbyggnir horfandi og hugsandi, jaðrakön uppfljúgandi, spóar við tjaldskörina hoppandi og vellandi, hálfísaðir rjúpnakarrar ropandi, máríátlur úr hreiðrinu ámannfljúgandi.

Við fórum annarsvegar á Þeistareyki og hinsvegar kringum eldana frá því fyrir þrem-fjórum áratugum norðan Mývatns, yngstu hraun aldarfjórðungsgömul – og ég hafði ekki komið þetta áður nema rétt að Kröfluvirkjun í mýflugumynd. Þarna er sannarlega stórkostlegt og spillti ekki fyrir gott samferðarfólk og frábærir leiðsögumenn, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og sjálfur Ómar Ragnarsson auk heimamanna, þar á meðal Sigfúsar Illugasonar, eins Hlíðunga, og Hjördísar Finnbogadóttur bónda við Sandvatn sem reyndar taldist ferðalangur að forminu til.

Þeistareykir – kurteisi áskilin

Ég ætla að geyma ferðasöguna – enda yrði hún löng! – en af því þetta var öðrum þræði pólitískt ferðalag er niðurstaðan þessi:

Svæðið kringum Þeistareyki – að því leyti sem hægt er að greina þetta í sundur – er meiriháttar með hverum sínum, útsýni mikilli, fallegum gróðri, jarðfræðiminjum og ferðamöguleikum, þar á meðal í Vítin í dyngjunni Þeistareykjabungu sem við komumst ekki í þetta sinn fyrir sköflum. Þar eru nú blásandi rannsóknarholur, tvær afar háværar, og virkjun á leiðinni, þótt enn eigi eftir að bíta úr nálinni með sameiginlegt umhverfismat. Bakki verður sjálfsagt aldrei að álveri en vera má að smærri og „sætari“ stóriðja uppvekist til að nýta feikilega orku á Þeistareykjasvæðinu. Þá skiptir öllu að fara smekklega að og huga að víðtækari hagsmunum en megavöttunum. Það er til dæmis skrýtið að sjá hvernig hinum frægu framkvæmdaraðilum hefur dottið í hug að éta sig beint inn í Bæjarfjallið á einum stað rétt við veginn. Fyrirhugað stöðvarhús er þó langt frá sjálfu hverasvæðinu, og nú eru verkfræðingar og arkitektar farnir að vanda sig með pípulagnir og frágang mannvirkja (sjá t.d. áætlanir OR um Hverahlíð).

Mannvist undir Bæjarfjalli verður með nokkuð öðrum hætti nú en fyrrum þegar búið var á Þeistareykjum, fram á 18. öld, en við skulum vona að virkjunin heppnist vel og nýtist Þingeyingum og Íslendingum. Enda sé farið fram af fullri kurteisi við landið og eftirkomendurna. Og við týsfjólurnar í túnunum milli jarðhitalitanna við sjóðandi og spýjandi hveri.

Gjástykki – ekki meir!

Áætlanir um virkjunarframkvæmdir í og við Gjástykki eru hinsvegar sérkennileg uppáfynding á 21. öld. Annað getur maður ekki hugsað við kolsvartan hraunjaðarinn – hvort sem hann lítur út einsog hárbeitt víggirðing með eggjagrjóti eða útflatt grjótdeig undan tröllahöndum – þar rifjar Sigmundur einmitt upp þá lýsingu í útlöndum frá 12. öld að íslensk hraun geti verið einsog steinlagt stræti. Við fórum næstum því hringinn um nýju hraunin, sáum yfir þau í heild vestan og austan, við norðurhluta hraunanna og frá Leirhnúki þar sem er kominn mikill ævintýrastígur fyrir ferðamenn – og Ómar sýndi okkur bæði staðinn þar sem fram fer „sköpun Íslands“ – leyndarmál sem við látum snillinginn sjálfan um að upplýsa – og eyðisvæði austan hraunanna sem hann kennir við ferðina til Mars! Sigmundur jarðfræðingur benti okkur svo á hvernig svæðið allt segir söguna frá Þingvöllum með nýjum og sérstæðum hætti – víðáttumikil askja myndast fyrir 20 þúsund árum í mikilli sprengingu og byrjar svo að gliðna sundur í landrekinu – en upp koma stöðugt ný hraun og fylla upp í gjána. Ferðamönnum sem vilja ímynda sér virkjunarframkvæmdir er hægur leikur að skoða Kröfluvirkjun og flytja hana í huganum norður á við – þangað sem hún er reyndar þegar byrjuð að teygja sig með ryðguðum blástursháfum fyrir ofan Víti.

Þeir eru reyndar byrjaðir – tvær holur við veginn í hrauninu norðanverðu – en nú þarf umhverfismat til frekari framkvæmda, þökk sé meðal annars Össuri Skarphéðinssyni fyrrverandi iðnaðarráðherra.

Ómar Ragnarsson spyr reyndar ekki hvort það eigi að virkja í Gjástykki, heldur hvernig eigi að virkja. Því hér háttar svo til að ein auðlind liggur ofan á annarri auðlind, einsog félagi Dofri segir stundum, og ekki er hægt að virkja þær báðar. Mér sýnist að þessari spurningu þurfi ekki að svara. Hraunasvæðið norðan Mývatns er fjársjóður, fyrir okkur, fyrir börnin okkur og fyrir heiminn, og honum á ekki að vera falur fyrir baunadisk.
Sjálfsagt mál er hinsvegar að hafa atvinnu af verndun þessa dýrmætis, kynningu og beina allskyns – græða  og ekki seinna vænna að ríkið, heimamenn og fjársterk fyrirtæki, innlend sem erlend, taki sig saman um Eldfjallaþjóðgarð Þingeyinga.

Ekki fleiri jarðýtur í Gjástykki, takk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Jóhann Ísak Pétursson

    Eftir því sem ég best veit þá er ekki augljóst hvort hægt er að virkja jarðhitann í Gjástykki. Svæðið virðist vera grunnt og borað var í gegnum jarðhitann. Landsvirkjun gerði hins vegar þá vitleysu að bora þar 18 tommu vinnsluholur í staðinn fyrir grannar tilraunaholur eins og þeir höfðu leyfi fyrir. Þessar hollur kostuðu yfir milljarð en verða til einskis gagns.

  • signy hafsteinsdóttir

    er enginn lækning við þessari virkjanaveiki, sprengigleði, og boranaáráttu,, sem virðist hrjá svo ósköp marga hér á landi.

  • Sé þetta fyrst nú og þakka Merði og öðrum ferðafélögum fyrir að hafa farið þessa ferð og skoðað þetta svæði.

    Fyrirætlanir um jarðvarmavirkjanir á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðinu byggjast nefnilega sem fyrr á því að því verði haldið kyrfilega frá fólki hverju verði fórnað af þeim verðmætum sem geta falist í því sem ég vil kalla nýting náttúruverðmæta og sjá má vel erlendis, svo sem í Yellowstone þjóðgarðinum.

    Þeir sem fóru þessa ferð eru kannski ekki margir en vonandi fylgja fleiri á eftir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur