Mánudagur 29.06.2009 - 23:09 - 15 ummæli

Kaupfriður

Fór heim af borgarafundinum um Icesave í Iðnó um tíuleytið – þar kom ekki mikið fram nýtt, og deilan er eiginlega komin í sjálfheldu. Nokkuð hefur dregið úr hugmyndunum um „að borga ekki“ eða fara „dómstólaleiðina“ – en þeir í Indefence vilja í staðinn semja upp á nýtt.

Jamm. Og svo aftur upp á nýtt ef þeir samningar eru heldur ekki nógu góðir? Og ef við fengjum nú að skulda þetta í íslenskum krónum – þá gætum við kannski samið upp á nýtt ef gengið verður óhagstætt? – – Já, þetta er útúrsnúningur, en í samningnum eru einmitt ákvæði – afar óvenjuleg – um nýja samninga ef illa gengur!

Indefence-hópurinn hefur staðið sig vel – vel menntaður, klár og hugmyndaríkur „stráka“-hópur tekur sig til og heldur uppi orðstír Íslendinga þegar ráðamenn ráða ekki neitt við neitt – og á síðan sinn þátt í því að stjórnvöld leggja fram öll gögn til að þjóðin geti lagst yfir þau. En þegar staðreyndir eru fram komnar verður líka að taka mark á staðreyndum.

Svo hélt Einar Már Guðmundsson góða ræðu, sem hafði að vísu þann ókost að hún var ekki um Icesave-málið sem fundurinn var um. Einar Már er eiginlega orðinn soldið einsog sóknarprestur úti á landi. Það tilheyrir að hann sé hafður til að segja eitthvað þegar eru viðburðir, skólaslit, nýr vegur, félagsheimilið eignast píanó — hópurinn hlustar í andakt, og síðan fara menn að gera það sem til stóð að gera.

Víkverjar og Gautar

Það stendur ekki hvað Víkverjar – í héraðinu við Óslóarfjörð utanverðan – keyptu af íbúum handan Elfar þar sem nú stendur Gautaborg, en Snorri segir frá því að í skærum Ólafs konungs Haraldssonar við nafna sinn og starfsbróður í Uppsölum hafi sá hinn digri maður bannað allan flutning úr Víkinni upp á Gautland, „bæði síld og salt“.

Seinna hittir Ólafur svo Rögnvald höfðingja í Vestra-Gautlandi og jarl Svíakonungs, og þeir ræða með sér þessa deilu, og voru sammála um að „hvorumtveggjum, Víkverjum og Gautum, var hin mesta landsauðn í því að eigi skyldi vera kaupfriður milli landa“.

Að lokum kemst á friður milli konunganna. Og rofnar síðan aftur, enda þurfti hinn digri sitt píslarvætti til að verða dýrlingur Noregs og ármaður vestnorrænna Kristsmanna við Guðshirð. Og er samstundis úr þessari sögu.

Kaupfriður. Er það ekki einmitt málið sem Icesave-samningurinn snýst um í okkar erfiðu stöðu – til að forðast landsauðn ?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Jæja Mörður núna á íslenskur almenningur að borga fyrir gróðaævintýri útrásarvíkinganna í Bretlandi og Hollandi.

    Af hverju er ekkert talað um að taka eignir þeirra sem stóðu að þessari peningavél upp í skuldirnar.

    Gæti verið að þeir hafi keypt sér frið frá stjórnmálaflokkunum ?

    100 milljónir á x-S og aðrar hundrað x-D og eitthvað svipað væntanlega á x-B

  • Komdu sæll.

    Takk fyrir að tala í hálfgerðum hæðnistón til okkar sem höfum áhyggjur af ástandinu.

    Þú segir að staðreyndir séu komnar fram, og það beri að taka mark á þeim.
    Þú orðar það hins vegar þannig að vissa mín um það að ALLAR staðreyndir séu ekki komnar fram eykst.

    Af hverju komu upplýsingar ekki strax fram?
    Af hverju vilja forsvarsmenn stjórnarinnar ekki segja, svo að við skiljum, en ekki í hálfgerðum véfréttastíl, hver raunverulega ástæðan sé fyrir því að þau umsnérust svona í afstöðu sinni til að allt ætti að vera uppi á borðum?
    Og af hverju hefur þú efni á að gera grín á kostnað Einars Más í þessum pistli?

    Æ, ég reikna svo sem ekki með almennilegum svörum hér frekar en á flestum stöðum öðrum í stjórnsýslunni.

    Megir þú lifa sem batnandi maður,
    Kristján G. Kristjánsson

  • Svolítið ódýr afgreiðsla á Einari Má.
    Icesave snertir hjörtu Íslendinga og Einar skilur hjartslátt þjóðarinnar á þann hátt sem stjórnmálamenn skilja kannski fæstir. Honum tekst að færa í orð og segja svo margt sem við hin eigum kannski erfitt með að orða.
    Mér fannst þessi fundur mjög góður og gagnlegur. Athyglisverðast var innlegg Elviru Mendes sem m.a. benti Steingrími á það að sjálfsagt væru allir Íslendingar sem eitthvað vit hefðu á samningagerð og lögum til í að aðstoða og jafnvel gefa vinnu sína stjórnvöldum ef eftir væri leitað. En þroskinn er ekki meiri en það að það er „við á móti þeim“ mórall sem ríkir líka hjá núverandi stjórn.
    InDefence herrarnir eru í þessum sporum, standa fyrir utan og hrópa: Plís megum við hjálpa en stjórnin segir: Allt undir kontról hér, við félagarnir reddum þessu að góðum og gömlum Haarde sið.
    Auðvitað hefur dregið úr róttækustu hugmyndunum, menn vilja tala sig saman að niðurstöðu, niðurstöðu sem þjóðin getur sætt sig við því það er ekki á bætandi að þessir samningar kljúfi þjóðina og verði tilefni langvarandi deilna og illinda.
    Mikið væri það nú gott ef málin væru afgreidd í dag eins og í gamla daga, höfðingjarnir möndla þetta sín í milli án afskipta almúgans, einfaldara og skilvirkara..
    Annars er ég ennþá hlynnt dómstólaleiðinni og er sannfærð um það að þessi mál verða öll krufin fyrir dómstólum fyrr eða síðar.

  • Ég hef enn ekki séð einn einasta mann sem talar fyrir þessum samningi sýna fram á að við getum með nokkru móti staðið við hann. Kannski er það vegna stórkostlegrar vanhæfni í almannasamskiptum, frekar en vegna þess að útreikningarnir séu ekki til. Hvort sem er stórhættulegt fyrir íslenska þjóð á barmi taugaáfalls og gjaldþrots.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Ég var á borgarafundinum í kvöld og sá að Indriði Þorláksson virtist lítið vita hvernig eignasafn gamla Landsbankans væri samsett.

    Hann sagði að einungis um 200 miljarðar af eignasafninu væru í íslenskum krónum og væri það hluturinn sem NBI greiðir til þrotabús gamla Landsbankans.

    Þetta er alrangt hjá Indriða. 53 % af heildareignasafni gamla Landsbankans er í íslenskum krónum eða rúmlega 550 miljarðar af 1100. Inni í þeirri tölu eru þessir 200 miljarðar sem NBI greiðir til gamla bankans.

    Hægt er að sjá efnahagsreikning gamla bankans hér á bls 24 þar sem þetta kemur skýrt fram.

    http://lbi.is/Uploads/document/Landsbanki-OCM-presentation-is-200209.pdf

    Ekki lýst mér vel á framhaldið ef aðrir samningamenn í IceSave samningsnefndinni hafa verið jafn utan við sig og Indriði.

  • Hér er ekki verið að koma á kaupfriði til að forðast landsauðn, heldur kaupa sér frið við afarverði, sem kosta mun landsauðn.

  • Þú minnist ekki á doktorinn sem mælir með því að Ísland semji beint við Evrópusambandið um lausn málsins?

  • Sérkennilegur málflutningur hjá þér. Þetta er auðvitað ný staða hjá ykkur í Samfylkingunni að verjast því nú er ábygrðin öll ykkar – allt frá því þið fóruð í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Geir og Ingibjörg töluðu Icesave reikningana og ísl. banka upp – bæði hér á Íslandi og erlendis. Ég get ekki trúað því að ykkur líði öllum vel enda sérkennilegt að sjá þingmenn og fólk úr forystuliði Samfylkingar standa út undir vegg eða í ganginum í Iðnó. Auðvitað er þetta ekki góður samningur þar sem alls ekkert er vitað um eignirnar sem eiga að nýtast til greiðslu, þróun gjaldeyrismála og ekki séð hvernig ríkið nær að safna erlendum gjaldeyri til að greiða vexti og afborganir nema þá með öðru láni! Hver verður þá samningsstaða okkar? Væntanlega ekki betri en á Kúbu. Er verið að reikna með olíunni sem VG vill hugsanlega ekki nýta? Eða er það enn og aftur EB sem öllu á að bjarga?

  • Þetta er merkileg afstaða. Þú talar um staðreyndir og fólk verði að beygja sig undir þær. Það er nú reyndar svo að staðreyndirnar liggja einmitt ekki upp á borði. Stjórnarbróðir þinn, Steingrímur, hefur sagt að á næstu dögum komi í ljós frekari gögn (væntanlega staðreyndir) sem kasta muni frekari ljósi á málið og auka þannig fylgi við samninginn. Það er búið að fjalla um þennan samning í marga mánuði og enn eru ekki gögn málsins komin í ljós svo við getum tekið upplýsta ákvörðun. Þið stjórnarliðar eru greinilega með þessi gögn því þið hafið nú þegar tekið „upplýsta“ ákvörðun. Samt hundskammið þið XD fyrir að ætla leggjast gegn samningnum. Hef ekki heyrt slíkar skammir um XB eða Borgarahreyfinguna. En málið er að þau skipta ekki máli hér, þau eru stjórnarandstaðan og XS og VG hafa meirihluta á Alþingi. Þið þurfið ekki á hinu liðinu að halda Mörður. Þið eruð saman í stjórn og með meirihluta, þið einfaldlega kjósið já og það dugar…eða er það ekki, er ekki meirihluti fyrir þessu meðal stjórnarhlutans. Tekur þú undir orð Steingríms að fólk eins og Ögmundur, Guðríður o.fl. eigi rétt á að kjósa samkvæmt sinni sannfæringu og ekkert sé við það að athuga með þingmenn XD eru nánast sagðir landráðamenn kjósi þeir nei.

  • skattmann

    Ég var að ræða við evrópskan bankamann í dag.
    Hann sagði að ef að bankakerfið myndi hrynja í einhverju Evrópulandi s.s. Bretlandi, Frakklandi eða Þýskalandi, þá myndu sparisjáreigendur einfaldlega tapa peningunum sínum. Tryggingarsjóðir Innlána í viðkomandi löndum myndu duga skammt til að draga úr skaða fólks sem ætti peninga inná bankareikningum.

    Ég skora á þá sem að trúa þessu ekki að hringja eða senda tölvupóst til banka í þessum löndum og spyrja einfaldlega að því hvað gerist með innlánin ef að bankakerfi viðkomandi lands hrynur.
    Ég ábyrgist það að þau munu öll svara að þá séu peningarnir einfaldlega tapaðir.

    Það er umhugsunarefni að svo virðist að hægt sé að setja okkur í þrot vegna innlánatrygginga, en stóru löndin í Evrópu myndu ekki borga neitt.
    Þau eru meira að segja ekki feimin við að viðurkenna það.

  • Nýi Dexter

    Lygin er lævís og lipur

  • Já sæll…. er Hroki á útsölu núna eða?

    Nei ah, þetta er samfylkingarpési….

  • Mörður Árnason

    Ja, ágæti Skattmann, það var einmitt kostur fyrir íslensk stjórnvöld í byrjun október, að allir töpuðu — bæði sparifjáreigendur í íslenskum útibúum og sparifjáreigendur í útibúum ytra, í Hollandi og Bretlandi. Þá hefðu þeir peningar sem til voru í Tryggingarsjóðnum skipst milli allra sem áttu reikning og hver um sig fengið eina sveskju og þrjár rúsínur.

    Þetta var einmitt ekki gert heldur gengust ríkisstjórn og alþingi í ábyrgð fyrir innstæðum á Íslandi. Þar með voru úrslit Icesave-málsins í raun ráðin.

  • Það er nú akkurat vandamálið kæri Mörður, að þið eruð of upptekin við að réttlæta eigið klúður með því að benda á að hinir (lesist G.Haarde Ingibjörg Sólrún og Doddson) hafi nú bara klúðrað meira… Og því gerist ekki neitt sem hægt er að líkja við kjarkmiklar aðgerðir.
    Á meðan blæðir þjóðinni… og líklega bráðum út… af því að þið flokkspotarar eruð því miður flest í sama kassanum búandi, þröngt sjáandi með eigin hag dinglandi í derinu á kasketi embættisins…

    Íslendingar !
    Vaknið !
    Þetta er ekki eðlilegt ástand !

  • Þarf ekki að safna yfirlit um öll rök og mótrök varðandi Icesave á einum stað ? Það ætti að standa að þessu með formerkjum að sagt sé frá rökum og rökstuðningum í þriðja persónu, innblásið af hvernig reynt er að ritstýra Wikipediu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur