Þriðjudagur 30.06.2009 - 17:50 - 30 ummæli

Halló! Náum okkur niður …

Þá er komið frumvarpið um Icesave og með því greinargerð sem hlýtur að vera ein af hinum ítarlegri í þingsögunni, næstum fjörutíu síður plús samningarnir á íslensku. Og ekki nema von.

Bíð enn eftir leyndarskjölunum en mesta athygli í geinargerðinni sjálfri vekur kaflinn um skuldina og greiðslur ríkissjóðs fram til 2023. Þvert á það sem haldið hefur verið fram verður greiðslubyrði ríkissjóðs nokkuð jöfn öll þessi ár af því að við byrjum að borga af Icesave um þær mundir sem aðrar skuldir fara að léttast. Sjálf Icesave-skuldin er svo ekki nema fjórðungur heildarskulda. Þetta verður ekki skemmtilegt – en er ekki hérmeð rétt að hætta að tala um að einhver sé að „selja Íslendinga í ánauð“ (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson).

Í greinargerðinni er Icesave-skuldin nú metin 705 milljarðar ef 75% fást úr þrotabúinu (varfærna matið). Eftir sjö ár, þegar fyrst á að borga, verður skuldin 415 milljarðar. Vextir hafa bæst við en búið að greiða niður höfuðstólinn með eignasölu frá þrotabúinu. Ice-sleivið nemur svo í átta ár frá tæpum 4 prósentum af landframleiðslu (VLF*) niðrí tæp 3.

13% í sjö ár – 8% eftir það

Greiðslur næstu sjö ár af skuldum öðrum en Icesave (erlendar skuldir mínus AGS-tengd lán plús vextir af innlendum skuldum) nema sennilega um 13% af VLF, misjafnt núna eftir árum og hrikalega mikið 2011 sem er skynsamlegt að jafna út. Eftir sjö ár er reiknað með að það hafi grynnkað verulega á þessum skuldum.

Þarnæstu átta ár, á Icesave-tímanum, fara greiðslur af öðrum skuldum fyrst niðrí 8% af VLF og enda 2023 í 2,6%.

Með Icesave-afborgunum eru heildargreiðslurnar þessi átta ár því mun minni en á fyrra tímabilinu, byrja 2016 í 11,6% af VLF, eru eftir sex ár komnar í 8% og enda 2023 í 5,3% – eru að meðaltali rúm 8 prósent á móti 13 sjö árin á undan.

Þetta sést miklu betur í töflum og myndum í greinargerðinni – en meginmálið er: Við getum þetta ef ekki verða sérstök slys – og kannski verður þetta ekki mikið verra en það sem við þekkjum sem komumst til vits fyrir frjálshyggju, Davíð og tíma hins eilífa góðæris. Einkum ef það tekst að ná einhverjum peningum í viðbót af fjárglæframönnum.

Engar gleðifréttir. Staðan verður einsog og í gamla daga, verulegur hluti hverrar skattkrónu fer í að borga skuldir, sífelldir erfiðleikar að ná saman fjárlögum, hærri skattar – og við eigum lengi eftir að minnast októberhrunsins 2008, óreiðumanna, útrásarævintýra og glapsýnna stjórnmálaforingja. Munum svo líka að við höfum tækifæri á tækifæri ofan í nýsköpun og framþróun í atvinnumálum á nýjum grænum tímum. Getum minnkað sveiflur og bætt kjör með ESB og evru. Engar árar í bát!

Billegt

Það greiðsluþol sem Indefence-menn óskuðu meðal annarra eftir er komið í geinargerðinni – og gefur nokkuð aðrar niðurstöður en Helgi frændi Áss Grétarsson gerði ráð fyrir í Iðnó í gærkvöldi. Drápsklyfjar má mín vegna kalla þennan ferlega skuldapakka allan saman sem frjálshyggjan og hrunið skilja eftir sig – en halló, kæru landar! Náum okkur niður. Það er of billegt að Jóhanna, Steingrímur og Gylfi séu ‚að selja okkur í ánauð‘ með hinu óhjákvæmilega samkomulagi um Icesave.

*) Hvaða VLF? Þurfti aðeins að hafa fyrir að finna það út: Efnahagsspá Seðlabankans í maíhefti Peningamála (hér, sjá viðauka 1); spáin fyrir 2011 framreiknuð fyrir hvert ár til og með 2023 miðað við 2,2% hagvöxt á ári og líklega fjölgun íbúa. Skilst að svona sé þetta gert í ámóta framtíðarspám – en hér getur auðvitað allt farið af stað, bæði upp og niður. Enn er óvissan veruleg, einsog segir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Það er erfitt að spá, einkum um framtíðina.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Við „nennum“ nú ekki að fara að setja okkur inn í þetta er það? Svo ég noti nú þín eigin orð og enn frægari orð félaga Svavars.
    Þessi blaðamannafundur var bara húmbúkk og allir þessir pappírar sem fylgja eru saman settir til að sannfæra fólk um afstöðu ríkisstjórnar. Hef enga trú á því að þetta séu hlutlausar skýrslur.

  • Gott að fá gögnin og nú getur hin raunverulega um Icesave farið að hefjast. Sorglegt að við skulum hafa tapað mánuði í pukur og rugl í stjórnarráðinu áður en hin upplýsta umræða gat hafist.

  • Getum ekki – viljum ekki – megum ekki – og nennum ekki.

    Mantra þessarar ríkisstjórnar. Óþolandi við sem kusum þetta yfir okkur í þeirri trú og vegna þeirra loforða um IceSave, gagnsæi og skjaldborgina.

    Hvað hefur verið staðið við Mörður? EKKERT – AKKÚRAT EKKERT.

  • Margrét, gerðu mér nú þann greiða og staðfestu það sem þú ert að segja með sönnunum.

    T.d. með því að benda á hvað ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu varðandi IceSave fyrir kosningar og hvað þeir eru að svíkja í þeim efnum.

  • Framsóknardraugurinn dafnar í neyðinni
    Dómsdag og gjaldþrotin boðar í leiðinni
    Þrútið er fésið
    Skelfur allt hesið
    Svo skröltir í silfurskeiðinni

  • Sigurður #1

    Jón Sigurður.

    Steingrímur J kallaði Icesafe samningana landráð, og þáverandi ríkisstjórn gungur að gangast við þessu.

    Ætli kjósendur hans hafi átt von á þessum viðsnúningi?

    Þessir flokkar lofuðu líka að leyndarhulunni sem hvílir yfir öllum aðgerðum yrði svipt af.

    Enn er leynd yfir öllu, bókstaflega öllu.

    Það var meira að segja ætlun Steingríms og Jóhönnu að kjósa um samninginn á þingi án þess að sína hann.

    fannst ekki ástæða til þess, þingmenn áttu bara að trúa orðum annarra að samningurinn væri „glæsilegur árangur“ eins og einn orðaði það.

    Hvar er skjaldborgin?

    Var skjaldborgin fólgin í því að lengja í lánunum í 70ár?
    Hvað hefur þessi ríkisstjórn beinlínis hækkað lánin okkar mikið??

    Það eru einvherjir tuigr miljarðar eftir því sem ég best veit.

    Hvað hefur breyst frá S+D?

    Getur þú nefnt eihvherjar breytingar Jón Sigurður?

  • skattmann

    Þskj. 204 — 136. mál.

    Athugasemdir

    1. Í lögum um innistæðutryggingarsjóð stendur:
    „Sjóðnum er heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum hrökkvi eignir sjóðsins ekki til.“

    Það er alveg skýrt að ríkinu ber engin skylda að lána Innistæðutrygginarsjóðnum. Sama skilning hafa öll ESB ríki nú. Ég talaði persónulega við banka í ESB í dag og fékk að vita að það væri af og frá að viðkomandi ríki bæri ábyrgð á innistæðum ef að bankakerfið myndi hrynja. Innistæður væru í því tilviki einfaldlega tapaðar.

    Það ber vott um mikinn áhuga á að sýna fram á sem verstu eigin réttarstöðu að draga fram ummæli þáverandi viðskiptaráðherra. Án þess að bera á nokkurn hátt blak á hendur honum þá bendi ég á að ummæli ráðherra eru ekki lög! Lögin eru skýr: ríkið þarf ekki að veita neitt lán!

    2.

    „Innan EES gildir síðan að útibú er rekið að meginstefnu til undir eftirliti stjórnvalda í heimaríki“

    seinna stendur:

    „Þessir reikningar hlóðu á sig miklum fjárhæðum og allt var þetta með starfsleyfum og undir eftirliti frá FME og Seðlabankanum í ákveðnu samstarfi þó við stjórnvöld í gistiríkjunum.“

    Aftur er reynt að túlka lögin á sem óhagstæðastan hátt fyrir Ísland. Að tala um ákveðið samstarf er vægast sagt „understatement“. Það kemur skýrt fram í lögum um útibú erlendra banka að landið þar sem að bankinn starfar hefur ríkar heimildir til eftirlits. Samsvarandi lög fyrir banka sem opna útibú á Íslandi er að finna hér:

    http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/308-1994

    Þar stendur m.a.

    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur með höndum eftirlit með útibúum sem starfa samkvæmt þessari reglugerð í samræmi við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands, laga um viðskiptabanka og sparisjóði og eftir atvikum annarra starfsheimilda sinna.

    Á sama hátt áttu breski og hollenski Seðlabankinn að hafa eftirlit með útibúum Landsbankans í þessum löndum.

    Það kemur fram í lið 3.4 að breski og hollenski seðlabankinn vissu nákvæmlega hver staða Landsbankans var, enda var þeim skilt skv. lögum að hafa eftirlit með útibúunum með íslenska fjármálaeftirlitinu.

    Það vekur furðu að þessi staðreynd stendur hvergi skýrum stöfum í þessu lagafrumvarpi!

    „þar sem sparifjáreigendum var lofað hárri ávöxtun – mun hærri en gerðist hjá öðrum þarlendum innlánsstofnunum.“

    Þetta er rétt. Það er af og frá að þeir sem fjárfestu svona og völdu hæstu mögulegu ávöxtun geti sagt að þeir hafi talið að áhættan væri engin og að þeir eigi rétt á ríkisábyrgð.

  • skattmann

    4. Bankahrunið. Vert er að geta þess hvað breskir innistæðueigendur á Mön skrifa um bankahrunið:

    „on 8 October (as quoted above) Alistair Darling and Gordon Brown held a joint press conference later the same day in which they declared Iceland to be a bankrupt country and in default. This story went around the world in minutes and effectively finished off the Icelandic economy.“

    Þessa er ekki heldur getið í lagafrumvarpinu.

    5. „Hollensk yfirvöld (Seðlabanki Hollands, DNB) greiddu innstæðueigendum út innstæður upp að 100.000 evrum og bera þeir kostnað vegna þessa að því marki sem það er umfram lágmarkstrygginguna og fæst ekki úr þrotabúi Landsbankans. Alls áttu 469 innstæðueigendur innstæður umfram 100.000 evrur, samanlagt nemur sú upphæð 40 milljónum evra. Þessir innstæðueigendur eiga forgangskröfu í bú Landsbankans, en verða að bíða skiptaloka til að sjá hvert tap þeirra verður.“

    og

    „Vegna þessara útgreiðslna á breska ríkið kröfu á þrotabú Landsbankans, en mun sjálft bera þann hluta sem ekki fæst úr búinu.“

    Eins og Jón Daníelsson bendir á, þá er óeðlilegt að IceSlave kröfur skuli ekki njóta forgangs m.v. aðrar kröfur sem eru langumfram allar tryggingar, sjá:

    http://lugan.eyjan.is/2009/06/30/icesave-samninginn-verdur-ad-fella/

  • skattmann

    6. Liður 4.2.
    Sem betur fer þarf mun meira skv. íslenskum lögum og stjórnarskránni en yfirlýsingar misvitra ráðherra til að skapa ríkisábyrgð.

    „samkvæmt ákvæðum laga nr. 44/2009 skal umreikna kröfur í erlendum gjaldmiðli í kröfuskrá í íslenskar krónur eftir opinberlega skráðu sölugengi 22. apríl 2009. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að útgreiðsla úr búi Landsbankans verði í erlendri mynt“

    Þetta er væntanlega einn óvissuþátturinn í viðbót.

    7. Ágreiningur um inntak skuldbindinga Íslands samkvæmt tilskipun 94/19/EB.
    „Þessari lagatúlkun hefur hins vegar verið alfarið hafnað, ekki einungis af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli heldur öllum ESB-ríkjunum og Noregi að auki.“

    Eins og Jón Daníelsson bendir á:

    http://lugan.eyjan.is/2009/06/30/icesave-samninginn-verdur-ad-fella/

    og skv. minni eigin athugun í dag, þá hefur þetta breyst mikið. Ég fékk það staðfest að evrópskum bankamönnum að ef að bankakerfi einhvers Evrópuríkis hryndi í dag með þeim afleiðingum að innistæðutrygginarsjóðir ættu ekki fyrir skuldbindingum sínum, þá myndu innistæður einfaldlega tapast og viðkomandi ríki engan vegin hlaupa undir bagga hvorki tilneidd né af fúsum og frjálsum vilja.
    Það þarf að kanna hug annarra þjóða hvað þetta varðar með formlegum hætti aftur.

  • skattmann

    8. „Staðreyndin er þó sú að allar leiðir til þess að leggja málið í dóm eða gerð mundu krefjast samþykkis allra málsaðila í samræmi við óumdeilda meginreglu þjóðaréttar.“

    Þetta er ekki rétt. Við eigum að samþykkja lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag ekki seinna en undir eins. Eftir það getum við strax farið í mál við Hollendinga án þess að spyrja þá sérstaklega leyfis. Bretar eru því miður með fyrirvara við lögsögu dómstólsins sem gerir það að verkum að við þyrftum að vera aðilar að dómstólnum í a.m.k. ár áður en til lögsóknar á hendur Bretum gæti komið. Það er mjög miður, sérstaklega þar sem að við erum með betra mál á hendur Bretum m.a. vegna hryðjuverkalaganna en Hollendingum.

    „Rök þeirra voru samhljóða á þá leið að takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða væri fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt væri til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja.“

    bendi aftur á:

    grein Jóns Daníelssonar:

    http://lugan.eyjan.is/2009/06/30/icesave-samninginn-verdur-ad-fella/

    Það hefur komið fram að ESB er sammála því að lögin eru meingölluð. Þau hafa nú verið löguð mikið og því ekki nein hætta á því að eitthvað breytist þó að Íslands vinni málaferla og þurfi bara að borga það sem er nú Trygginarsjóði Innistæðueigenda. Skv. nýju lögunum er alveg skýrt að ríki myndi ekki þurfa að borga neitt ef það væri í þeirri stöðu sem Ísland er í nú.

    „…en hún talar sínu máli.“

    Aftur er reynt að gera samningsstöðu Íslands sem versta. Það þarf mun meira en ákvörðun eins ráðherra til að gera svona bindandi samning eins og réttilega kemur fram í þingskjalinu. Þá hefur það komið fram að umræddur ráðherra Árni Mathiesen gafst uppá því að eiga við embættismenn ESB eftir 2 daga rimmu um það hvaða atriði ætti að bera fyrir dóminn. Ísland samþykkti ekki þessa tilhagan. Því hefur hún enga lagalega þýðingu.

  • skattmann

    „2. EFTA dómstóllinn.
    Hugsanlegt er að Eftirlitsstofnun EFTA höfðaði mál gegn Íslandi vegna brota á EES samningnum fyrir dómstóli EFTA. Dómur í slíku máli myndi aðeins slá því föstu hvort viðkomandi ríki hafi brotið skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum (þ.e. kveða upp viðurkenningardóm) en hvorki kveða á um skaðabótaskyldu né fjárhæð hugsanlegra bóta. Auk þess væru hvorki Bretar né Hollendingar bundnir við niðurstöðu í slíku máli. Verður því að efast um að slík meðferð komi að nokkru gagni við lausn þess vandamáls sem hér er til meðferðar.“

    Því er haldið fram að málið sé pólitískt. Úrskurður í EFTA dómstólnum Íslandi í hag myndi vafalaust styrkja okkar stöðu og sýna kjósendum mótherja okkar svart á hvítu að við höfum lögin okkar megin.

    „Einnig kemur til álita að nota fasta alþjóðlega dómstóla eins og Alþjóðadómstólinn í Haag. Grundvöllur þess er einnig samkomulag milli aðila.“

    Þetta fæ ég ekki skilið sbr.

    „Each State which has recognized the compulsory jurisdiction of the Court has in principle the right to bring any one or more other State which has accepted the same obligation before the Court by filing an application instituting proceedings with the Court“

    sjá:
    http://www.icj-cij.org/jurisdiction/index.php?p1=5&p2=1&p3=3

    Það er ekki talað um að hitt ríkið verði að samþykkja málaferlana.

    Ísland er því miður ekki aðili að Alþjóðadómstólnum í Haag, en það eru náttúrlega gríðarleg mistök að hafa ekki gengist undir hann um leið og Bandaríkjamenn fóru sem þarf að leiðrétta ekki seinna en strax.

  • Ómar Kristjánsson

    Sigurður, ástandið núna er afleiðing stjónarfars sem sjallar bera megin ábyrgð á ásamt framsóknargemlingunum.

    Það sem er verið að gera núna eru aðgerðir í nauðvörn eftir að sjallar voru búnir að rústa landinu. Rústa því.

    Þegar allt er í rúst – þá eru ekki miklar líkur á að smjör drjúpi af hverju strái. Reynda engar líkur á því.

    Í síðustu kosningum voru sjallar settir í skammarkrókinn af kjósendum og augljóslega vildu hinir sömu kjósendur að fólk sem almennt er talið frekar vinstra megin við miðju stjórnaði rústarbjörguninni.

    Í sjálfu sér breyttir samt ekki miklu hvaða fólk væri við stjórnvöl. Flest sem er gert eru þvingaðar aðgerðir. Nauðvarnaraðgerðir til að bjarga því sem bjargað verður eftir nýfrjálshyggjufyllerí sjalla og framsóknargemlinganna. Það þarf engann Einstein til að fatta að Róm var ekki bygð á einum degi þó gemsar eins og sigmundur davíð haldi það. Það tekur fleiri fleiri ár að vinna síg útúr nýfrjálshyggjuóhroðanum.

    Rétt á meðan staðið er í bráðaaðgerðum ættu sjallar og framgemlingarnir að hafa vit á að þegja og réttast væri reydar að senda þá bara heim og svipta þá þinglaunum í sparnaðarskyni í staðinn fyrir að láta þá apakattast þarna á þinginu á kosnað almennings.

  • Ómar Kristjánsson

    Nuú ! Skatti kominn með spammið sitt. Það á ekki að hlífa manni. Dísus.

  • skattmann

    Ómar Kristjánsson:

    Þú mátt eiga það að þú ert samkvæmur sjálfum þér þ.e. alltaf jafn málaefnalegur!

  • skattmann

    Mörður:

    75% er langt frá því að vera varfærið mat .
    Þvert á móti er það bjartsýni.
    Eins og hefur komið fram hjá eru þær tölur sem menn hafa haft í flimtingum algjörlega óraunhæfar:

    http://fridjon.eyjan.is/2009/06/24/icesave-samantekt-peturs-richters/

  • Steinar Guðlaugsson

    Sæll Mörður. Þú ert dáldið á bjartsýnis- og réttlætingarnótum í þessum pistli en ég er mjög hugsi m.a. yfir þessu tvennu:

    1) Þú talar fyrir afstöðu sem er ekki ósvipuð afstöðu banka og svefndrukkins fjármálaeftirlits fyrir hrun sem var að ekki væri nauðsynlegt að kanna rækilega afleiðingarnar þess að allt færi á versta veg. Er ekki óábyrgt að skrifa upp á eitthvað sem hugsanlega getur komið okkiur á kné?

    2) Það hefur þurft að draga allar upplýsingar í þessu máli út úr
    stjórnvöldum með töngum. Menn ætluðu að fara gömlu leiðina og stilla þingi og þjóð upp við vegg.

    PS. Það væri traustvekjandi að heyra þig tala fyrir fyrningarleiðinni og láta ekki Jóhönnu þurfa að standa vaktina eina í því svikalogni sem nú virðist skollið á í því máli. Og hvað finnst þér um forgangsröðun Kritjáns Möller í samgöngumálum?

  • skattmann

    Það er bara horft á einn lið í IceSlave.
    Það eru fjölmargir aðrir liðir svo sem veiðileyfi með málaferli sbr.

    http://lugan.eyjan.is/2009/06/27/varnadarord-um-icesave/

    Ótakmarkaður lögfræði og annar kostnaður Breta og Hollendinga í nútíð, fortíð og framtíð sem Ísland á að greiða og fleira og fleira.

    Mörður skrifar:

    „Við getum þetta ef…“

    Það er bara ekki nóg að hafa eitthvað ef þegar um gjaldþrot þjóðarinnar er að tefla!

    Það er búið að breyta lögunum og alveg kristalskýrt að í dag taka ESB lögin af allan vafa um það að ríki sem lengdir í svipaðri stöðu og Ísland ætti EKKI AÐ BORGA!!

    Það þarf að taka málið upp aftur á vettvangi ESB í ljósi þess að dómur okkur í hag mun ekki breyta neinu fyrir innistæðutrygginarkerfi í Evrópu því að lögunum um það hefur þegar verið breytt.

    „Hvaða VLF?“

    Það er glapræði að miða við núverandi VLF. Það þarf að vera skýrt þak á ábyrgðum sem að miðast við raunverulega VLF sem er þá! 1% raunverulegt VLF í 7 ár er eitthvað sem hægt er að sætta sig við þó að best væri að vinna einfaldlega málaferli og láta þá hafa það sem er í Trygginarsjóði Innistæðueigenda. Það er að sem aðrar þjóðir m.a. Bretar sjálfir myndu gera ef þeir væru í okkar stöðu!

    Það er framundan kreppa í heiminum. Það er viðbúið að VLF muni dragast saman.
    Ef menn vilja lifa í óraunverulegum draumaheimi og gefa sér slíkar forsendur, þá geta menn reiknað hvað sem er út.

    Raunveruleikinn er hins vegar annar!

  • Guðmundur Gunnarsson

    Ómar Kristjánsson. Þú ert fastur í fáránlegum drulluslag og hjólförum fortíðarinnar. IceRape á ekki að hafa neitt með flokkapólitík að gera, enda er rúmlega 80% þjóðarinnar hart á móti landráðstilrauninni, og vonandi hafa Sjálfstæðismenn og Framsókn ekki aukið svona hrikalega við fylgi sitt. Hér er þá um þverpólitísk mál að ræða og því fyrr sem þú og þínir líkir áttið ykkur á því, því minna gæti tjónið orðið.

    Nei, – það er ekki verið að ausa bátinn af núverandi valdhöfum, heldur eru stjórnvöld á fullu við að bora ný og stærri göt og ausa ekki rassg….. Landi og þjóð verður ekki bjargða af löskuðum þingmönnum eða óhæfum embættismönnum sem eru jafn týndir og allir hinir. Fólki sem þiggur miðlungs laun og getur þess vegna svarað með sinni góðu savisku eins og stúdentinn Svavar að hann nennti þessu ekki lengur. Steingrímur er mennskur, ofvirkur vindhani, og leyfir sér að halda áfram raðlygunum um að IceRape andstæðingar „ÆTLI EKKI AÐ BORGA SKULDIRNAR“. Önnur eins fáránleg ósvífni. Er þetta pólitík eins og hún á að vera og gerist best hjá stjórnarliðinu? Það er orðið vel ljóst að orðatiltækið „Það bylur hæst í tómri tunnu“ er sennilega samið með hann í huga, og ég segi „Étt´ann sjálfur“ Steingrímur.

    Við verðum að virkja utanaðkomandi ópólitískt atvinnufólk í hverja stöðu björgunarsveitarinnar. Það er ekkert pláss fyrir áhugamenn og vonabís á egótrippi, sem kunna ekki að skammast sín. Þau eru búin að fremja pólitískt sjálfsmorð sem á að leyna eins og innihaldi IceRape samningsins.

  • Nýi Dexter

    Guðir munu reiðast. Hraun mun renna og jörð skjálfa.

  • Elías Pétursson

    Ekki borgum við skuldina með vergri landsframleiðslu……….er það???

    VFL er einungis samanburðar tala til þess að bara saman við önnur lönd.

  • skattmann

    11.

    “Rétt er að minna aftur á að íslensk stjórnvöld höfðu með ítrekuðum yfirlýsingum

    þegar skuldbundið sig til þess að styðja við Tryggingarsjóð innstæðueigenda við

    að fullnægja skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 98/1999 sem innleiddu tilskipun

    94/19/EB um lágmarkstryggingar. Heildarfjárhæð skuldbindinganna var því ekki

    samningsatriði heldur var verkefnið að semja um sem hagstæðasta skilmála.”

    Engar lagalegar skuldbindingar voru fyrir hendi. Eins og kemur fram í

    frumvarpinu þá var ítrekuð sú leið valin af þeim sem að áttu að gæta réttar

    Íslands að gera þann rétt sem minnstan og minni en lög kveða á um.

    síðar kemur:

    “Í þriðja lagi að regluverk Evrópuríkja um innstæðutryggingar hefði verið gallað

    og vegna þess hefði sú þróun getað átt sér stað sem endaði með því að Ísland sat

    uppi með þær skuldbindingar sem raunin varð. Evrópuríkin bæru sameiginlega

    ábyrgð á þessu regluverki og að sanngjarnt væri að byrðin af því að það hefði

    brugðist yrði borin sameiginlega.”

    Samt var fyrsta “samningsmarkmið” að borga allt uppí topp?

    “greiðsluferill afborgana og vaxta sé ákveðinn með hliðsjón af greiðsluferli og

    greiðsluþoli vegna annarra skulda ríkisins og þjóðarbúsins.”

    Þetta er greinilega ekki uppfyllt af IceSlave.

    “þess vegna ætti að nota eignir hans [Landsbankans] áður en nokkuð yrði greitt

    af landsmönnum sjálfum.”

    Þetta uppfyllir IceSlave ekki. IceSlave er engin sérstök forgangskrafa umfram

    t.d. það sem Bretar og Hollendingar ákveða sjálfir að greiða í þrotabú

    Landsbankans.

    “telur niðurstöður samninganna til marks um að á þau hafi vegið þungt”

    Þetta er ótrúleg fullyrðing og bendir eindregið til þess að samninganefndin

    skilji ekki IceSlave!

    “Með vaxtakjörum, sem eru langt undir því sem íslenska ríkið gæti fengið annars staðar og til muna lægri en áður hafði verið dregist á er í raun fallist á þessi rök um ákveðna ábyrgð viðsemjendanna.”

    Trúir þetta fólk sem að skrifar þetta þessu virkilega sjálft?
    Að með vaxtakjörum (allt á að falla á Íslands) sem hafa það í för með sér að Bretland og Holland græða á því að lána Íslandi og það þrátt fyrir algjöran rétt á því að ganga að auðlyndum eftir 7 ár sé “fallist á ábyrgð viðsemjenda”???

    “tryggja að áfram verði tekið tillit til hinnar fordæmalausu stöðu Íslands og knýjandi nauðsynjar á að gera Íslandi kleift að endurreisa efnahagslíf sitt”

    Endurskoðunarákvæðið er ekki bindandi á neinn hátt öfugt við öll ákvæðin og fyrirvarana sem eru Bretum og Hollendingum í hag.

    Þá má deila um það hvort að 50% niðurskurður á ríkisútgjöldum, en það er það sem AGS telur eðlilegt að sé gert t.d. í Lettlandi til að hægt sé að borga lán til baka sé liður í endurreisn efnahagslífs þjóðar.

    “Af hálfu þeirra var lýst yfir áhuga á að veita slíka aðstoð”

    Þetta ber að sama brunni. Engin skuldbinding öfugt við ótrúleg liði IceSlave sem eru Bretum og Hollendingum í hag og kveða ekki á um neinn áhuga heldur hard og konkrete afleiðingar við því að þeir túlki ýmsa hluti hjá Íslandi á einhvern veg og réttindi sem þeir fá.

    “samningunum framselda kröfu hollensku og bresku tryggingarsjóðanna í þrotabú Landsbankans”

    Trygginarsjóðurinn þarf að sæta því að vera með sama forgang og Bretar og Hollendingar hafa fyrir því sem þeir ákváðu sjálfir að greiða innistæðueigendum, sem er mjög slæmt sbr.

    http://lugan.eyjan.is/2009/06/30/icesave-samninginn-verdur-ad-fella/

  • Ef til vill er það að hluta til rétt að full mikillar bölsýni gæti hjá einhverjum
    varðandi þessa margumtöluðu samninga.Hitt er jafn ljóst að í þeim felst mikil áhætta og það er barnaskapur að tala eins og þú gerir Mörður, vitandi
    af þeim breytilegu forsendum sem samningurinn byggir á.
    Þar á ofan er hálf hlálegt að heyra Samfylkingarfólk tala eins og það komi
    hvergi nærri í þeim hrunadansi sem við höfum farið í gegnum, hafandi sent fyrrum formann sinn um heiminn þveran til að telja þjóðum trú um ágæti
    bankanna okkar. Hafandi átt viðskiptaráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokki
    og hafandi stutt einkavæðinguna eins og allir nema VG.
    Þjóðin á kröfu á stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa að þeir hætti
    sjónhverfingum ,leynimakki og hinu gamla drullumalli sem einkenndi
    fyrirhrunspólitíkina.
    Liður í þeim nauðsynlegu breytingum er að geta tekið rökræðuna án
    þess að falla í gamla farið

  • skattmann

    Eitt atriði í viðbót sem íslenskir stjórnmála og embættismenn

    “vona” að muni ekki gerast, en sömdu ekki “konkrete” um að myndi ekki gerast:

    http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item287964/

  • skattmann

    þvert á móti er þessi leið opnuð uppá gátt og mun betur en var með IceSlave:

    http://lugan.eyjan.is/2009/06/27/varnadarord-um-icesave/

  • Mörður er að grínast.

    70 milljarðar hér, 700 milljarðar þar. Við erum í góðum gír.

    Jóhanna vill þetta. Hún er heiðarleg. Þá hlýtur þetta að vera í lagi. Hún sá jú fyrir kreppuna ekki satt. Einsog Björgvin. Og Solla. Og Össur. Og Kristján. Og allir hinir. Og þau eru enn í stjórn. Með sömu góðu dómgreindina.

  • Ég ætla ekki að borga krónu fyrir þessa glæpajúða….
    sem jú enn ganga lausir, enginn á að greiða fyrir svik
    þeirra nema þeir sjálfir og ef einhver dugur væri í þessari
    Ríkisstjórn…. þá væri búið að loka þetta lið allt inni og frysta
    allar eigur þeirra, ( líka stolnu hundruðu milljarðana á tortóla og cayman)
    En þessi ríksstjórn er náttúrulaus, og er skíthrædd við að láta loka
    nokkurn mann inni, því skyldi það vera ?? of náin tengsl við gagnsterana,
    þmt don jón ásgeir og hannes ??
    En meðan ég man, eru ekki allir búnir að kaupa bækurnar um hafskipsmálið, það komu 2 út í fyrra….. voru þetta ekki metsölubækur og kemur ekki berlega í ljós að bjórúlfur var snilli í útgerð og það voru vondu
    kallarnir í sjálfstæðisflokknum sem settu hafskip á hausinn ?? svona eins
    og þeir sem keyrðu eimskip á hvolf 2007-2009 ? og er það ekki jafn víst að
    það má rekja afhroð eimskips til alþýðubandalagsins og Ólafs Ragnars útrásardindils á baugsstöðum … nei bara spyr í tilefni dagsins.

  • Sigurður #1

    Það máttu vera viss um (lyga)mörður, að það mun aldrei renna ein einasta króna frá mínu heimili í skuldir BJörgólfs.

    Aldrei, og ég endurtek aldrei.

    Fái þetta kosningu á alþingi mun ég samstundis byrja að pakka, og koma mér úr landi.

    Ég veit um fleiri í sömu stöðu.

    Og ég mun aldrei koma aftur, á meðan glæpamennirnir sitja enn á þingi og enginn tekur ábyrgð á neinu.
    (nema þá kannski skattgreiðendur)

  • Guðmundur Gunnarsson

    Sama flóttaáætlunin í gangi á mínu heimili. Góðvinur ákvað að bíða ekki og er farinn með fjölskylduna. Ef við verðum svo heppin að aðeins sama hlutfall flýi land og gerðist í kreppusýnishorninu í Færeyjum, þá flýja 70.000 manns á besta aldri. Færeyjar eru langt frá því búnar að endurheimta og eða jafna sig á þeirra hörmungum.

  • Mörður

    Vinsamlegast bloggaðu um félaga þinn og núverandi Samgönguráðherra Kristján Möller.

    Þetta eru stórmistök og gefa engin fyrirheit um bætt vinnubrögð og siðbót. Afar slæmt fordæmi og spillingar- og kjördæmafnykurinn er allt að kæfa.

    þú er ekki alvöru nema þú látir þig þetta mál varða því mjór er mikils vísir og þetta er stórmál upp á framhaldið að gera og trúverðugleika Samfylkingarinnar.

    Vinsamlegast taktu þetta mál og Kristján fyrir í bloggfærslu því maðurinn svarar engu, hvorki e-mail né almennri gangrýni, enda hefur hann engin málefnaleg rök fyrir ákvörðun sinni.

    Koma svo…

  • Mörður Árnason

    Skal gert, Sigga!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur