Miðvikudagur 01.07.2009 - 09:08 - 15 ummæli

Samgöngubætur, ekki samgöngumiðstöð

Kristján L. Möller samgönguráðherra hlýtur að endurskoða ákvörðun sína um forgangsröð í samgöngumálum.

Verkefnin Vaðlaheiðargöng og samgöngumiðstöð í Vatnsmýri eru einfaldlega ekki brýnustu framkvæmdir í samgöngumálum á þessari stundu, og það sér öll þjóðin þótt yfirlýsingar af þessu tagi kunni að þykja karlmennska í einhverjum kjördæmum.

Þessi hugmynd um nýja samgöngumiðstöð hefur alltaf verið skrýtin – bæði í ráðuneytinu og í borgarapparatinu í Reykjavík. Framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni er enn í járnum og einkennileg ráðstöfun að byrja að byggja áður en það mál er afgreitt. Enda augljóst að einlægur áhugi landsbyggðarþingmanna og landsbyggðarráðherra á þessari miðstöð sprettur af ást þeirra á flugvellinum: Byggja samgöngumiðstöð til hægt sé að benda á fjárfestinguna þar sem röksemd fyrir flugvöllinn. Áhuga borgarfulltrúa í Reykjavík á þessu fyrirbrigði er mér hinsvegar óskiljanlegur.

Hvernig sem menn hugsuðu þetta í fyrra og hittifyrra eru núna aðrir tímar, einsog félagi Möller hlýtur að vera búinn að átta sig á. Nú er ekki lengur hægt að kasta peningum yfir hvern vandann af öðrum heldur verður að hugsa út hverja krónu með vísindalegri nákvæmni til að litlir peningar nýtist sem allra best.

Ég skal ekkert um Vaðlaheiðargöngin segja. Hér á höfuðborgarsvæðinu vitum við hinsvegar að núna er árið 2009, ekki 2007, og gamla Umferðarmiðstöðin endist enn nokkur ár. Flugstöðin líka. Vegakerfið á svæðinu hefur hinsvegar ekki fylgt þróuninni síðustu áratugi, vegna þess að landsbyggðin svokallaða hefur þurft að fá sitt – og samt er það núna þannig að samgöngumál kringum höfuðborgina ættu að vera aðaláherslan í fimm kjördæmum af sex: Í Reykjavík norður og suður og kraga, Norðvesturkjördæminu hinumegin við Hvalfjarðargöngin og í stóra Suðurkjördæminu þar sem fjórir fimmtu búa í skreppifjarlægð frá höfuðborginni.

Ágæti Kristján – við viljum raunverulegar samgöngubætur, ekki þessa bjánalegu samgöngumiðstöð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Mæl þú manna heilastur.

  • Nýi Dexter

    Nú má kristján danski fara að vare sig!

  • Kristinn

    Er ekki núna ákkurat tíminn til að loka Reykjavíkurflugvelli og flytja innanlandsflugið til Keflavíkur? Þannig mætti örugglega spara nokkur hundruð milljónir 😉

  • Ég er í raun sammála bæði því sem kemur fram hér hjá þér og hjá Ólínu, flokkssystur þinni að vestan. Suðvesturhornið hefur of lengi verið svikið um brýnar samgöngubætur á Vesturlands- og Suðurlandsvegum, já og Sundabrautina. Það þarf að vera í algjörum forgangi að byggja upp þessar leiðir þannig að þær anni álagi nútímans og öryggið sé í fyrirrúmi. En svo eru ennþá til byggðir á Íslandi sem ekki búa við svo lélegt grunnkerfi að það má alveg eins námunda það að núlli og líta á að það sé ekki til staðar. Þar er ég að tala um sunnanverða Vestfirði og tenginguna á milli norður- og suðursvæða Vestfjarða. Hvort sem að það hefur verið kreppa eða góðæri þá hafa stjórnvöld alltaf vikið sér hjá því að byggja upp lágmarksgrunnkerfi á þessu svæði með ýmsum afsökunum. Í þessum tilfellum er ekki hægt að beita bara köldum excel-arðbærnis rökum heldur verður að viðurkenna að á öllum stöðum þar sem Íslendingar búa verður að vera allavega eitthvað lágmarks grunnkerfi.

    Vaðlaheiðargöng snúast hinsvegar hvorki um brýna nauðsyn eða öryggi heldur snúast þau um að stytta leið um 15 kílómetra sem nú þegar liggur eftir fullnægjandi, tvíbreiðum, malbikuðum vegi sem lokast í nokkrar klukkustundir á ári vegna ófærðar. Samfélagsáhrif Vaðlaheiðarganga yrðu örugglega af jákvæð en þegar upp er staðið snýst málið bara um þægindi. Þau mega bíða. Flugstöðin á Reykjavíkurvelli er fúinn skúr, en hún dugar ennþá og endurbætur þar mega líka bíða.

    Ég legg til eftirfarandi forgangsröð:

    Forgangur I: Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Reykjavík og austur fyrir Selfoss.
    Forgangur II: 1. áfangi Sundabrautar & tvöföldun Vesturlandsvegar um Kjalarnes & Vestfjarðavegur (nr. 60) á milli Bjarkarlundar og Flókalundar.
    Forgangur III: 2. áfangi Sundabrautar.
    Forgangur IV: Tvöföldun vesturlandsvegar norðan Hvalfj. að Borgarnesi & tenging suður- og norðursvæða Vestfjarða (heilsársvegur yfir Dynjandisheiði og göng milli Dýra- og Arnarfjarðar.

    Þangað til þetta er allt klárt ætti ekki að ráðast í nein önnur stórverkefni.

  • Gumdmundur

    Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort allir sitji við sama borð, ég þarf til dæmis að keyra 100 kílómetra á malarvegi til þes að komast til Reykjavíkur eða Akureyrar.

    Þar hafa orðið slys, mörg slys á þessari leið. En ekkert gert.

  • Sæll. Er nauðsynlegt að skipta alltaf umræðum um samgöngubætur í landsbyggð vs. Reykjavík eins og þú kýst að gera sjálfur í þessum pistli? Það er einfaldlega búið að leggja niður sjóflutninga, og allir flutningar í landinu fara um vegakerfið, matur og vistir út á land og fiskur og útflutningsvara til baka. Eigum við að samþykkja það að þurfa að keyra útaf ef við mætum flutningabíl með tengivagn t.d. í sunnanverðum Fáskrúðsfirði eða á Vestfjörðum ? Að sjálfsögðu á að ráðast í breikkun suðurlandsvegar strax, en það er alveg hægt að bæta ástandið úti á landi á meðan, þannig að vegirnir detti ekki undan okkur.

  • Svo er það furðulegt, að flughlöð og önnur opin svæði við bygginguna þurfa að vera nærri 10Ha að stærð og að ekkert, ég meina ekkert hugað að tengingum við aðrar umferðaæðar í Rvík, né algerlega breytta sýn á umferðaþunga með tilkomu HR og þeirri kærkomnu starfsemi sem þar mun fara fram.

    Hinsvegar er rétt, nú þegar landið er sem rústir eftir stórstyrjöld, að skoða alla þætti til uppbyggingar Raungreinakennslu og samvinnu Háskólastofnana í þeim efnum. Því væri nær, að loka flugvellinum, laga umferð um nesið (frá Fossvogi og vesturúr) þannig að bið og tafir, eldsneytis eyðsla á ljósum og tími borgarana sparist .

    Fyrir ekki alls löngu var reiknuð út hagkvæmi þess, að geta komið þessum breytingum á og var niðurstaðan eitthvað á 6. milljarð á ári.

    Þar fyrir utan var not af svæðinu til mannvirkja og þéttingar á áhrifasvæði Háskóla (með þeim greinum sem ætlað var pláss þarna –þá var HR ekki í myndinni)

  • Sæll Mörður,

    Mig langar að nota hér tækifærið til að koma öðru máli að. Nú er verið eða búið að samþykkja ný lög þar sem felldur verði niður tekjuskattur á skuldir sem hafa verið afskrifaðar. Með skýringu í fjölmiðlum er látið fylgja að þetta sé gert til að einfalda og auðvelda afskriftir banka gagnvart einstaklingum í greiðsluvanda. Ég fæ ekki séð með nokkru móti hvað þetta auðveldi banka í sjálfu sér að afskrifa skuld. Honum er væntanlega slétt sama þó viðkomandi skuldari hafi þurft að greiða tekjuskatt af skuldinni eða ekki. Eins sé ég ekki að það sé mikill vilji meðal bankakerfisins yfirhöfuð að afskrifa á almúgann.
    Það sem eftir stendur hinsvegar í þessu er að nú geta innherjar bankana sem fengu sín stóru lán afskrifuð sem þeir tóku vegna hlutabréfakaupa um fjrálst höfuð strokið. Eftir stóð nefnilega að þeir þyrftu að greiða tekjuskattinn vegna niðurfellingar. Nú er búið að leysa það mál fyrir þá. Skuldin er afskrifuð (án þess að nafn þeirra fari á svokallaða afskriftarbók hjá bankanum sem þýðir yfirleitt að viðkomandi fær ekki lán aftur hjá þeim banka) og nú er búið að fella skattinn niður. Allt þetta fólk getur nú gengið glatt út í sólina í dag á meðan við hin þurfum enn að glíma við óbilgjarna bankastarfssemi.
    Er þetta boðlegt?

  • Mörg vegagerð reiknast hagkvæm til LENGRI tíma. Núna eru við í skammtímavanda (vonandi). Þessi misserin eru peningarnir okkar betur komnir annars staðar en í vegagerð.
    – Fátæk heimili í forgang fyrir Vaðlaheiðagöngum.
    – Fatlað fólk í forgang breikkun Suðurlandsvegar.
    – Það er betra að hanga í biðröð á Vesturlandsvegi á sunnudagseftirmiðdegi en að unglingurinn manns komist ekki í framhaldsskóla.

    Þau rök að vegagerð sé atvinnuskapandi eru ekki sannfærandi. Örfáir menn að vinna á rándýrum tækjum. Tækjum sem auðvelt er að selja úr landi fyrir góðan pening.

  • Bendi á eftirfarandi samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar:

    Bætt nýting fjárframlags til þjóðvega
    Umbætur á þjóðvegum og þjóðvegum í þéttbýli á Suðvesturhorni landsins frá Borgarfirði að Þjórsá eru mjög brýnar. Á þessum vegum eru um 70% af dauðaslysum og meiriháttar slysum í umferðinni hér á landi og þangað ætti að beina miklum meirihluta vegafjár framvegis, það er arðsamast fyrir þjóðarbúið og sanngjarnast á allan hátt.
    Kópavogi 29. mars 2009

    http://www.samfylkingin.is/LinkClick.aspx?fileticket=Zy3rJtnVQso%3d&tabid=166

  • Þorfinnur Ómarsson

    Heyr, heyr!

    Samgöngumiðstöð er næstversta hugmyndin í þessari umræðu. Fullkomlega óþörf, sérstaklega þegar enginn hefur efni á að borga. Umferðarmiðstöðin er bara flott einsog hún er og við getum alveg gert okkur litlu flugstöðina að góðu í bili.

    Verst er þó hugmyndin um að tvöfalda Hvalfjarðargöngin. Hún er svo mikið 2007 að hún var jafnvel vond þá líka.

  • Sigurður Pálsson

    Þessi ákvörðun Kristjáns sýnir að engin hugarfars breytng ætlar að verða hjá stjórnmálamönnum heldur skal áfram haldið að kjördæmapota sínum málum. Skítt með hvað er nauðsynlegt og hvað er hagkvæmt.

  • Það má setja þessari samgöngumiðstöð á bið…. 5-7 ár
    en það mætti kanski henda 150-200 milj í að stækka
    og gera þessa hallaærislegu flugstöð á Reykjavíkurflugvelli
    mannhelda….. og aðgengilega fólki og flugvélum…..
    fæ alltaf bjánahroll þegar maður þarf að fljúga frá
    þessum 50 ára spýtnakofa…..

  • Eyjólfur

    Ef það á að vera niðurstaðan að forgangsverkefni í vegamálum sé gerð Vaðlaheiðarganga og bygging samgöngumiðstöðvar í Reykjavík, er full ástæða til að Kristján Möller verði settur til hliðar og við taki einstaklingur, sem ekki er blindaður af kjördæmapoti og geti tekið ákvarðanir á faglegum forsendum. Bygging samgöngumiðstöðvar í Reykjavík er tímaskekkja, þar sem það liggur ekki fyrir að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni og það liggur heldur ekki fyrir að þetta sé besta staðsetningin fyrir aðra umferð en flugið. Því miður virðast hvíla álög á þessu ráðuneyti, því í þar virðast oft álpast inn mestu kjördæmapotarar landsins.

  • Sæll félagi Mörður,

    í guðanna bænum komdu vitinu fyrir samgönguráðherra. Þetta er enn einn sveitalubbinn sem ætlar að hunsa bráðnauðsynlegar samgöngubætur hér suðvestanlands þar sem 70% þjóðarinnar búa. Það verða ófá hundruð atkvæða sem flokkurinn tapar ef þessi þvæla verður ekki endurskoðuð.

    Ef í harðbakkann slær og kallinn sér ekki að sér, legg ég til að þingið felli tillögur samgönguráðherra og láti hann smíða nýjar og aðeins vitrænni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur