Fimmtudagur 02.07.2009 - 14:18 - 21 ummæli

Landsliðið í verkfall?

Alveg rétt, Jón Baldvin, að reiði almennings er réttlát. Af hverju eigum við að borga fyrir ævintýri auðkýfinga og fjárglæframanna? Kapítalistarnir eiga að höndla með sína eigin peninga (að svo miklu leyti sem þau auðæfi eru annað en þjófnaður, takk Proudhon) en ekki setja þjóðskrána í pant (takk Einar Már). Allt verður að reyna til að ná illa fengnu fé aftur til þjóðarinnar, Ragna Árnadóttir og Eva Joly. Víkingasveit til Tortólu með nýju TF-Sif?

Það er líka rétt hjá Kristni H. Gunnarssyni í Speglinum í gær að þingmenn geta einfaldlega ekki tekið þá áhættu að fella Icesave-samningana. Það má sífellt deila um einstök ákvæði en ákaflega fátt bendir til að samningarnir fengjust teknir upp og enn færra bendir til að nokkuð annað kæmi út úr því fyrir okkur en óvinsældir og orðalagsbreytingar. Ekki má svo gleyma því að Hollendingar og Bretar kynnu þá að vilja endurskoða samninginn sér í vil. „Það gæti allt eins farið svo að við fengjum verri samning,“ sagði Sleggjan.

Flotann á Ermarsund?

Nú kemur það auðvitað fyrir að menn hafna samningum sem forystumenn hafa skrifað undir. Það hefur oft gerst í kjaraátökum – og þá er farið aftur í viðræður að reyna að ná fram endurbótum, annaðhvort sömu forystumenn eða einhverjir sem félagarnir treysta betur.

Þegar kjarasamningur er felldur í félögum verkalýðshreyfingarinnar eru menn líka alveg klárir á hvað það kostar. Það verður að setja afl á bakvið samningamennina, með samstöðu inn á við, áróðri gagnvart almenningi og traustum tengslum við bandamenn. Og félagarnir verða að vera reiðubúnir til átaka, sem að lokum geta leitt til verkfalls, þar sem hver og einn er klár á því að þegar verkfallssjóðinn þrýtur getur komið að því að menn þurfa sjálfir að herða ólina. Baráttan getur líka bitnað á fjölskyldunni. En menn láta sig hafa það ef málstaðurinn er góður.

Þeir sem nú berjast fyrir því innanþings og utan að Icesave-samningarnir verði felldir þurfa ekki aðeins að segja okkur hvað þá tæki við í samskiptunum við útlönd, heldur líka hvaða afl þeir ætlast til að við setjum bakvið nýjar kröfur.

Förum við í verkfall? Hættum við að selja Hollendingum og Bretum fisk? Stöðvum við álviðskipti við hollensk og bresk fyrirtæki? Neitum við fólki af þessu þjóðerni að ferðast um landið? Eða setjum við þessar þjóðir í almennt samskiptabann? Engar íslenskar myndir í hollenskum bíóum? Landsliðið í fótbolta ekki í Amsterdam eða á Wembley? Látum kannski flota Landhelgisgæslunnar lóna í Ermarsundinu?

Eða telja menn vænlegt að hefja nú áróðursherferð meðal almennings í Hollandi og Bretlandi til styrktar málstað okkar? Eða reyna aftur að leita bandamanna meðal stjórnvalda í ríkjunum á Efnahagssvæði Evrópu? Ég vil ekki draga úr neinum kjark, en sýnist að þessar leiðir séu því miður ekki færar.

Pólitískir samningar

Veikleiki samninganna er fyrst og fremst einn, og alveg augljós: Enginn veit hvers virði eignasafn Landsbankans er í raun og veru. Úr því verður ekki skorið fyrr en það selst. Menn geta látið sig dreyma um að einhverjir aðrir hefðu tekið þessa áhættu, en það varð ekki og gat aldrei orðið.

Gegn þessum veikleika kemur endurskoðunarákvæðið – ef við getum ekki borgað verður samið aftur við Hollendinga og Breta eftir fimm til sjö ár. Þvert á ýmsar mannvitsbrekkur sýnist mér betra í þessu endurskoðunarmáli að nota viðmiðun við stöðuna í nóvember, einsog gert er í samningunum, en að festa niður einhverja prósentu af landsframleiðslu eða annarri hagstærð. Slíkum skilmálum hefði væntanlega fylgt lánslenging eða krafa um ákveðin veð.

Samningarnir eru pólitískir. Ef afborganirnar verða okkur ofviða hefur það pólitískar afleiðingar. Og staða okkar verður örugglega betri og svigrúmið meira eftir fimm ár en nú.

Svipaða sögu má segja um veðin sem menn hafa mikið um rifist. Það er betra að gefa tryggingar í hæfilega óljósum eignum íslenska ríkisins (erlendis mínus sendiráð, ekki hér nema eftir úrskurð íslensks dómstóls) en að nefna til ákveðnar eignir, fasteignir, bankareikninga eða hlutabréf, einstök fyrirtæki. Það yrði sérstök pólitísk ákvörðun með pólitískum afleiðingum ef bresk eða hollensk stjórnvöld ætluðu að notfæra sé veðákvæðin. Ef eitthvað handfast væri sett að veði – þá væri hinsvegar tiltölulega einfalt að leggja á það eign sína.

Að æpa upp fylgið

Í dag eru hróp og köll frá Alþingishúsinu. Skoðanakönnun gærdagsins hefur aukið Bjarna og Sigmundi sjálfstraust, og Icesave, eitt mesta alvörumál síðari áratuga, er að lenda í hefðbundnum skotgröfum stjórnar og stjórnarandstöðu. Afar íslenskt – og nú ætla tapararnir í síðustu og næstsíðustu kosningum, fulltrúar ríkisstjórnanna 1995 til 2007, að æpa upp fylgið.

Í því skyni segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins að samningarnir séu einsog eftir tapað dómsmál. En hver skyldi hafa sagt þetta um „dómstólaleiðina“ á alþingi 28. nóvember síðastliðinn?:

„Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna. Þeir sem tala fyrir því að þá leið hefði átt að velja eru auðvitað tilbúnir til að gera það eftir á vegna þess að þeir geta gefið sér það í umræðunni að við hefðum sigrað þá lagaþrætu. Það er fínt að gera það í dag vegna þess að það liggur fyrir að sú leið verður ekki farin, en eru þeir hinir sömu þá tilbúnir til að fallast á að við mundum taka herkostnaðinn af þeirri ákvörðun ef niðurstaðan yrði okkur í óhag? Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt. … Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.“

Svarið er hér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Ómar Kristjánsson

    Jú jú, það klikkaði eitt hjá Svavari í samningunum.

    Það upplýstu frammarar í Kastljósi í gær.

    Það er auðvelt að redda þessu. Fella samninginn og svo ætlar Eygló og Sigmundur (líkl. ásamt Bjarna og Saari) að fara í nýjar viðræður þar sem samningurinn verður beisikallí alveg eins nema að uk og hollandi verður GREITT Í ÍSLENSKUM RÓNUM.

  • Ómar Kristjánsson

    KRÓNUM

  • Erlendar skuldir þjóðarinnar eru 6-faldar gjaldeyristekjur hennar, sem svarar til að við séum að borga um 35% af gjaldeyristekjum okkar í vexti og 10% í afborganir. Það þíðir að til að verða ekki gjaldþrota þurfum við að auka vöru- og þjónustujöfnuð samfélagsins upp í 45% af gjaldeyristekjum okkar, en í dag á fyrsta ársfjórðung þessa árs var hann um 1,5 %. Heldur þú í alvörunni að þetta sé mögulegt eða sérð þú taktíska ástæðu til að fresta gjaldþroti okkar um 1-2 ár?

  • Við skulum endilega borga í rónum. Flytjum út 300 þúsund íslenska óreiðumenn og látum kröfuhöfum eftir landið 😛

  • Ómar Kristjánsson

    Haha. Já, góð hugmynd 🙂

  • Sigurður #1

    Þú ert ótrúlegur, það er greinilega allt til sölu hjá þér.

    Þið viljið fá að vita fyrir víst hvað gerist ef samningurinn fellur.

    Þið viljið að þeir sem berjast gegn samningnum, lýsi því hvað taki við ef hann fellur.

    Samt vitið þið ekkert sjálf hvað tekur við ef hann stendur.
    Það er ekkert endurskoðunarákvæði, ekkert.
    Það er hægt að biðja um endurskoðun, en það er allt og sumt.

    Til þess þarf ástandið að verða það slæmt að við ráðum ekki við að borga, þá má biðja um endurupptöku.
    En bara bðja um hana, bretar þurfa ekkert að hlusta á það frekar en þeir vilja.
    Þeir hafa undirritað plagg í höndunum, og ábyrgðir.
    Þeir geta gengið strax að öllum okkar eigum.
    Þið hafið ekki minnstu hugmynd um hver skuldin verður, en hikið ekki við að setja land og þjóð að veði, í orðsins fyllstu merkingu.

    Þið hikið ekki eitt augnablik, án þess að hafa minnstu hugmynd um hver skuldin verður.

    Og enn síður getið þið sýnt fram á hvernig á að borga þetta, hvar á að finna gjaldeyrinn?

    Enda ekki hægt.

    Hverju er að tapa?

    Hverju er að tapa þó þetta verði fellt?

    Hvað getur versnað?

    Það skiptir engu máli hvort við erum rukkuð um 500 miljarða, eða 5þúsund miljarða.

    Það verður hvorugt greitt, þegar kassinn er tómur.

    Þessvegna er engu að tapa, að fella þennan og reyna að fá raunhæfari samning, eða bara engann, og láta þá stefna okkur.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Mörður. Nú er ég nokkuð viss um að þú gangir á öllum, öfugt við svo marga starfsfélaga þína, þá ætla ég að biðja þig að koma því til skila til þeirra sem stefna að og verja landráðssamninginn „glæsilega“ IceRape, að það er ómerkilegasti og lágkúrulegasti málfluttningur ættaður úr dýpstu holræsiskerfum að reyna að ljúga því til að almenningi að þeir sem vilja endurskoða samninginn að það er alls ekki gert „TIL AÐ BORGA EKKI!“ Heldur að tryggt verði að við borgum það sem okkur ber að borga og án þess að fara á hausinn fyrir og eftir að fullnaðargreiðslur hafa farið fram. Ef að landráðið verður samþykkt, þá borgum við ekki af því að við komum ekki til með að geta það. Rétt skal vera rétt. Svo einfallt er það.

    Vil endilega benda þér á þá staðreynd, sem ekkert hefur verið rætt sem er óhjákvæmur fólksflóttinn sem er löngu hafinn, og afleiðing þess að missa allan þann fjölda af ungu fólki sem þá koma ekki til með að taka þátt í að endurbyggja rústirnar.

    Ef við miðum við reynslu Færeyinga í þeirra keppu, sem telst lítil miðað við þessa, þá munu flytjast 70 þúsund manns héðan. 70 þúsund manns hlýtur að vera varlega áætlað miðað við að okkar kreppa er mun stærri og alvarlegri. Færeyingar eru ennþá í miklum sárum vegna þessa og langt því frá hafað endurheimt sína flóttamenn, eða sárindinn gróið vegna atburðanna sem voru valdir að þeirra hörmungum.

    Nokkar spurningar um störf stjórnar, þings og samningarnefndar stjórnvalda í landráðssamningagerð IceRapes?

    Til hvers er þessi farsi, umræðurnar á þingi í kringum „glæsilega“ IceRape landráðið núna þegar flokksfélagi þinn og ráðherrann Árni Páll Árnason fullyrðir að „minnisblað“ í haust hafi verið undirritaður samningur?

    Gengur maðurinn á öllum, eða er hann og stjórnvöld að gefa skít í þjóðina með lygum?

    Til hvers þarf þingið að samþykkja „glæsilega“ IceRape landráðið þegar búið er að samþykkja hann í „minnisblaðinu“ að sögn ráðherrans Árna Páls Árnasonar?

    Gengur maðurinn á öllum, eða er hann og stjórnvöld að gefa skít í þjóðina með lygum?

    Til hvers þóttist ríkisstjórnin þurfa að samþykkja „glæsilega“ IceRape landráðið þegar ráðherrann Árni Páll Árnason fullyrðir að búið hafi verið að samþykkja landráðið með undirritun „minnisblaðsins“ í haust?

    Gengur maðurinn á öllum, eða er hann og stjórnvöld að gefa skít í þjóðina með lygum?

    Með fyrirfram þökkum og kveðju.

  • Mörður Árnason

    Ágæti Guðmundur — 1) Minnisblaðið frá í haust var ógilt með samningunum um daginn. 2) Orðið ,,landráð“ er fleirtöluorð, og ber að brúka afar varlega. 3) Já, fólksflótti er mikið áhyggjuefni. Fólk flýr kröpp kjör, en ekki síður óvissu og ráðleysi. Þessvegna eigum við að ljúka rústabjörgun sem fyrst, þar á meðal hinum óhjákvæmilegu Icesave-samningum, og byrja að byggja upp.

  • Sigurður #1

    Mörður,

    Hvar ætlið þið að fá gjaldeyri til að borga lánið?

    svar óskast.

    Ekki fleiri frasa takk.

  • „Þeir sem nú berjast fyrir því innanþings og utan að Icesave-samningarnir verði felldir þurfa ekki aðeins að segja okkur hvað þá tæki við í samskiptunum við útlönd, heldur líka hvaða afl þeir ætlast til að við setjum bakvið nýjar kröfur.“

    Ertu ekki að ruglast? Það eru ekki við Íslendingar sem erum að gera kröfur. Það eru Bretar og Hollendingar sem eru að gera kröfur.

    Af hverju ættu íslensk útgerðarfyrirtæki að hætta að selja hollenskum fiskkaupmönnum fisk, þótt hollensk stjórnvöld séu að gera kröfur á íslensk stjórnvöld?

  • Guðmundur Gunnarsson

    Takk Mörður.

    En hvernig í ósköpum geta þá sumir stjórnarliðar sagt að samningurinn hafi þá verið undirritaður með þessum blessaða „minnismiða“ síðan í haust, um leið og þeir ganga til samninga um einhvern annan núna og með öllum þessa farsa þykjast vera að gefa einhvern möguleika fyrir þingið að hafa einhver áhrif? Það er þá vel skiljanlegt að Jóhanna hafi ekkert Plan – B, ef það er sama hvað kemur út úr þá þessari tímaeyðslu ef málið er og var frágengið í haust á „minnisblaði“ þótt að ég og margir aðrir og jafnvel sérfróðir segja að „minnisblað“ er og verður bara minnisblað og ekkert annað.

    Mér sýnist að „landráð“ verði það sem mun festast við samninginn og þá sem hann samþykkja ekki endilega eitthvað ósvipað, hvernig sem fer og hvort mönnum líkar betur eða verr, og það sem almenningur, landsmenn andvígir samningnum virðast vilja nota og etv. kannski skiljanlegt. Þetta er jú vonandi stærsta mál allra tíma sem þjóðin þarf að taka á saman.

    Sé hvergi að í útreikningum stjórnvalda er reiknað með að neinn flýi land þótt fjöldi er þegar farinn. Er nokkuð klár á að sú staðreynd komi til með að breyta verulega útkomur allra afkomuspáa, og eitthvað mikið þarf að gerast til batnaðar til að ekki fari mjög illa fyrir landi og þjóð.

    Með kærri kveðju.

  • Ragnar Eiríksson

    Síðast þegar ég vissi var 250% meira en 240 % sem AGS sagði í haust eða vetur að væri hærra hlutfall skulda af þjóðarframleiðslu en þjóðin stæði undir. Nú eru skuldirnar amk. 250 % af þjóðarframleiðslunni. Í 16. grein samningsdraganna stendur eitthvað um að ef augljóst sé að við stöndum ekki undir byrðunum þá verði að ræða um endurskoðun samningsins! Því í ósköpunum er ekki reynt að ræða málin við málsaðilana í stað þess að fara af stað með þetta djöf…… karp á þingi – samhangandi rugl ( ég að vísu hlustaði bara á 10 mín. kafla(2xPétur Blöndal+2xSigmundur Davíð) – þá kom Árni Jónsen og ég fór!!!!!).
    Þingheimur hefur engan rétt til að fella samninginn og hleypa öllu í bál og brand – Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn hljóta að geta bent á góða menn í nýja samninganefnd – nóg eru þeir búnir að tuða um vanhæfi Svavars og hans manna!!

    Ragnar Eiríksson

  • Guðmundur Gunnarsson

    Til að auka á efasemdir.

    Í nýjasta Economist fjallar leiðarinn um breytingar á reglum fjármálastarfsemi í Evrópu. Íslensku bankarnir eru nefndir sem dæmi um misheppnað regluverk Evrópusambandsins.

    Úr leiðaranum:

    “Here the EU has identified a genuine problem-the system for supervising cross-border banks. But the result is a fudge. The failure of the Icelandic banks in the autumn highlighted the dangers to host countries of relying on the quality of foreign banks’ home regulators”

    Þegar Economist leggur svona út frá málum þá er það á hreinu að “alþjóðasamfélagið” (hræðilega) er sammála fullyrðingum okkar andstæðingum IceRape – samningsins, – að regluverkið er handónýtt. Sem þýðir bara eitt, að Íslendingar eiga ekki að bera einir ábyrgðina á öllu klúðrinu.

    http://www.economist.com/opinion/displaystory.cfm?story_id=13944730

  • Núna ertu búinn að sleppa því fimlega í mánuð að fjalla um styrkjamál Samfylkingarinnar.

    Spurning hvað þögnin endist lengi

  • Ég vildi að ég gæti trúað því að hér verði allt annað og miklu betra ástand eftir 5 -7 ár. Eru það þínir eigin útreikningar eða hvaðan koma þær upplýsingar eiginlega?

    Samningurinn og forsendur hans eru svo óljósar að við vitum ekkert frekar hvað gerist eftir samþykkt hans eða synjun. Hvernig þróast gengið, lánshæfismatið, viðskiptajöfnuðurinn, veit það einhver?

    Hvað ef bankabjarganir Evrópu og USA ganga ekki upp? Sumir segja að bankabólan verði stærri og verri en fasteignabólan. Þá dýpkar og lengist kreppan og brúnin þyngist þá væntanlega á viðsemjendum okkar.

    Stjórnvöld þurfa að undirbúa viðbrögð bæði við samþykkt og synjun. Verði samningurinn felldur þarf að koma strax fram í heimspressunni hvers konar ok verið var að reyna að leggja á almenning á Íslandi. Verði hann samþykktur förum við flest að huga að brottför innan 7 ára hvort eð er.

  • Mörður Árnason

    Hvað viltu, ágæti Tom, að ég segi um styrkjamál Samfylkingarinnar? Ég er ekki stoltur af þessum styrkjum en tel þó ekki að þeir hafi haft áhrif á stefnu flokksins eða afstöðu einstakra forystumanna, og alveg örugglega ekki mína. Ég get sagt þetta í löngu máli eða stuttu, og gengst fúslega við ábyrgð minni sem þingmaður 2003–2007, en kom ekki nálægt þessum styrkjamálum, það var á hendi formanns, stjórnar flokksins, framkvæmdastjóra og forystumanna í sveitarfélögum. Held því til haga að það er grundvallarmunur á styrkjum S og D (enn er lítið vitað um B) — en það mikilvægasta er auðvitað núna að fjármál flokkanna eru núna loksins í öðrum farvegi.

    Voru þessi nánu tengsl stjórnmálaflokkanna (einkum Sjálfstæðisflokksins en hér er enginn saklaus) og stórfyrirtækjanna æskileg fyrir lýðræðið? Nei. Það höfum við í Samfylkingunni — og öðrum jafnaðarflokkum fyrr og síðar — margsagt, ekki síst Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi formaður.

    Áttu þessi tengsl þátt í hruninu? Sennilega. Þau voru partur af elítuhugsunarhætti stjórnmála-,,stéttarinnar“ sem endurspeglaðist í andvaraleysi hennar og að lokum samsekt.

    Á að rannsaka þau betur? Já, endilega, í öllum flokkum. Eins langt aftur og hægt er. Flokkarnir ættu að opna bókhald sitt og fjárhagsgögn öll. Ef til vill taka sameiginlega upp samstarf við viðurkennda fræðimenn á vegum virtra stofnana um slíka rannsókn sem lengst aftur í tímann.

    Hefur Samfylkingin skýrt nægilega vel út fjáröflun sína 2006? Nei. Ég skil tregðuna meðan flest er óljóst hjá öðrum flokkum en tel fulla ástæðu til að þeir forystumenn sem falin voru fjármál og -öflun á þessum tíma skýri betur út þessa styrki, ástæðurnar fyrir þeim og hvernig þeirra var aflað. Flokkurinn hefur hinsvegar skýrt frá þeim öllum, bæði þeim sem flokkurinn fékk á landsvísu og þeim sem einstök flokksfélög eða kjördæmisráð herjuðu út. Það hafa hinir ekki gert, að minnsta kosti ekki B og D.

    Eiga stjórnmálamenn að gera grein fyrir eigin fjáröflun í prófkjörum? Já, til þess er full ástæða, að minnsta kosti fyrir þá sem sækja endurkjörs eða ætla aftur í framboð. Hef sjálfur gert það fyrir minn hatt, hér: http://blog.eyjan.is/mordur/2009/05/09/jatningar-hins-utstrikada-og-fleira/

    Eitthvað fleira, Tómas?

  • Nú hefur sú stjórnmálayfirstétt, sem þú ert hluti af, lagt í rúsir fjárhagslegt
    sjálfstæði Íslands. Þetta sjálfstæði sem tók fyrri kynslóðir mikla vinnu og
    útsjónarsemi að ná. Heldur þú að sú stjórnmálayfirstétt, sem þú ert hluti
    af nái því að færa landhelgina inn til að þjóðir Evrópu hafi sama rétt að
    veiða hér og Íslendingar? Heldur þú að su stjórnmálayfirstétt, sem þú ert
    hluti af nái því hafa af íslenzkum almenningi þeim ávinningi að hér er hefur verið hægt virkja jarðhita og vatnsföll? Heldur þú að sú stjórnmálayfirstétt
    sem þú ert hluti af takist að ná af íslenzkum almenningi rétti til að drekka
    ódýrt vatn úr krönum sínum og jafnvel ná fram banni að almenningi sé bannað að sleikja út um í rigningu? Auðvitað svarar þú þessum spurningum
    neitandi, annað væri ekki skynsamlegt. En ég held að margir hafi það á
    tilfinningunni að sú stjórnmálayfirstétt, sem þú ert hluti af sé að bralla sitthvað bak við tjöldin. Þessi stjórnmálayfirstétt, sem þú ert hluti af, og alltaf er að hrósa sjálfri sér í ræðu og riti fyrir snilli og gáfur, heldur hún
    fái lof og prís hjá þeim sem eiga eftir að byggja þetta land?

  • Mörður Árnason

    Og amma þín líka, ágæti Ágúst.

  • Þakka góð svör. Þó ég ætli ekki að blanda öfum þínum í málið, þá ætla
    ég að spyrja þig. Heldur þú ekki að næsta alþingi sem verður kosið felli
    ekki stjórnmálayfirstéttina, sem þú ert hluti af, undir lögin um eyðingu refa
    og minka eða lögin um eyðingu meindýra?

  • Takk fyrir svarið Mörður, ég býst að svara þér efnislega á morgun.

  • Guðrun Margrét

    Mörður „plís“ taktu skynsama ákvörðun ekki pólitíska.

    Ekki hleypa ICEsave samningnum í gegn í óbreyttri mynd.

    Vertu Íslendingur og berjumst fyrir því sem við eigum rétt á, verum stolt þjóð ekki kúguð.
    Vissulega borgum við okkar skuldir en við berum ekki ein ábyrgð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur