Föstudagur 03.07.2009 - 13:06 - 21 ummæli

Hver er hlynntur Icesave?

Hef í sjálfu sér engar efasemdir um að könnun Gallups um Icesave (hér bráðum) endurspegli afstöðuna í samfélaginu til Icesave-málsins en er samt efins um niðurstöðuna. Ég tel – eins þeir vita sem hafa fylgst með þessum pistlum undanfarið – að það sé ekkert annað í stöðunni en að samþykkja Icesave-samningana. En er ekki þarmeð „hlynntur“ Icesave. Heiðarlegasta svarið við svona spurningu væri kannski að svara henni ekki.

Þessvegna efast ég um að í skoðanakönnun um Icesave sé hægt að greina á milli annarsvegar andstöðu við sjálfa samningana sem sendinefnd Svavars Gestssonar náði við Breta og Hollendinga, og hinsvegar andúðar fólks á Icesave-hneykslinu almennt og eðlilegri óbeit svarenda á því að þurfa að borga þessar skuldir sem fjárglæframenn stofnuðu til en lélegir embættismenn og vondir pólitíkusar gáðu ekki að.

„Ertu hlynntur eða andvígur samkomulaginu?“ var spurt í könnun Gallups/Capacents, og í sjálfu sér er ekki hægt að gera stórkostlega athugasemd við orðalagið. Kannski hefði þó verið nær að setja svarendur í spor alþingismanna: Já, nei eða hjáseta við frumvarpinu um ríkisábyrgðina? Með því hefði verið kallað nákvæmar eftir afstöðu til málsins einsog það blasir við okkur núna, og niðurstöður hefðu líklega orðið aðrar.

Held að málið liggi nokkurnveginn þannig hjá þjóðinni að 99,9% hafi afstöðuna „Helvítis fokking fokk“ en 0,01% sé flúinn úr landi undan DV-forsíðum, illu auga og rauðri málningu.

Þegar þessi afstaða er greind nánar kemur í ljós að um 2/3 til 3/4 telja óumflýjanlegt að samþykkja samningana. Tæpur fjórðungur er á móti og vill bara eitthvað annað. Og nokkur hundruð manns í trúnaðarstöðum hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki vona umfram allt að þeim takist að fella ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Djöfull er þetta vísindalega reiknað hjá þér… vá… og þú fannst þetta út bara sjálfur ….vá…

    Þvílíkir snillingar er við höfum á hinu háa alþingi…

  • Einar Jón

    0.01% eru reyndar ekki nema um 30 manns. Það eru eflaust hundraðfalt fleiri flúnir, að maður tali nú ekki um þessa 6-8000 útlendinga sem eru farnir heim.

  • Ómar Kristjánsson

    Hver er ekki á móti vondu veðri.

  • Hvað er þá að frétta af þeim 0,09% sem upp á vantar?

    Annars ágætur pistill.

  • Rómverji

    Hvernig væri að lofa þjóðinni að ákveða hvernig hún axlar byrðarnar?

    http://www.kjosa.is

    Óttast Samfylkingin almenning? Er almenningur of heimskur til að tjá hug sinn í atkvæðagreiðslu um málið? Er almenningur heimskari en Svavar? Eru íslenskir stjórnmálamenn svona klárir? Hefur það sýnt sig?

    Er Samfyllkingin hrædd við almenning?

  • Sigurður #1

    Sorglegt hvað margir láta mata sig á lygunum í ykkur og taka orðum ykkar sem sannleik.

    Þið farið um víðann völl á degi hverjum, með gegndarlausann lygavefinn og berjið á honum allan daginn fram á kvöld.

    Þetta virðist virka.

    En nöfn ykkar verða skráð í sögubækurnar, þér og þínum til ævarandi skammar um ókomna tíð.

    Ísland missir stjórn á öllum auðlindum sínum innan 7 ára.

    Landið er dæmt til fátæktar og fært 50-100 ár aftur í tímann með landráðum ykkar.

    Hafðu skömm fyrir að taka þátt í þessu til að félagar þínir haldi stólunum n okkrum vikum lengur.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Stjórnvöld og þingmenn sem samþykkja samninginn eru einfaldlega í sömu stöðu og þeir færu saman upp í flugvél í nokkur þúsund fetin og hoppuðu út án fallhlýfar í trausti þess að þeir hitti einhverja á leiðinni sem getað lánað þeim ef þeir hafa aukalega með sér?

  • Hver skyldi vera „sannfæring“ Björgvins G Sigurðssonar í þessu máli?

  • Það sem vantar í þessa umræðu Mörður – eru tölur.

    Gylfi Magnússon sagði á alþingi í gær að stilla þyrfti innflutning m.v árið 2002 en halda útflutningi á fullu og þá gengi dæmið vel upp. Hann var nokkuð sannfærandi og bjartsýnn – sem var uppörvandi.

    En þetta dugar ekki þegar skuldastaða ríkisins og þjóðarbúsins gagnvart útlöndum er enn öll á floti og fólk er að kasta milli sín allskonar tölum. Það verður að fá botn í þetta og síðan óvissumat.

    Eins og ég skil umræðuna eru flestir svo andvígir icesave því að þeir trúa því ekki að dæmið gangi upp. Ef málið snýr öðruvísi þá hlýtur ríkisstjórnin að einhenda sér í að útrýma þeim misskilningi – þannig að skiljist.

  • Hjáseta í þessu stóra máli kemur ekki til greina.

    Þeir þingmenn sem sitja hjá verða þar með búnir að lýsa því yfir að þeir eigi ekkert erindi á þingi þjóðarinnar.

    Geti menn ekki tekið afstöðu í þessu stóra máli eiga þeir að finna sér annað erindi.

  • Mjög hlynntur.Vá þetta er eins og að vera hlynntur Auswitch.Fólk á Íslandi er ekki að setja sig í spor þeirra sem settu sparifé sitt í hítina í Evrópu við getum ekki alveg hunsað ábyrgð á því erum þess vegna samábyrg.Það er engin i sjálfum sér hlynntur þessum Icesave bakreikningum.Ég væri ekki hlynntur að borga slysabætur vegna tjóns sem einhver annar í minni fjölskyldu hefði valdið einhverjum manni út í bæ.

  • Hörður, er ekki Evrópa samábyrg í þessu máli? Er ekki Evrópa samfélag sem hægt er að stóla á, út frá mannúðarsjónarmiðum og siðferðisjónarmiðum? Eða gengur þetta bara út á að vernda auðvaldsþjóðfélagið, með hjálp Jóns og Gunnu í Krummahólunum?

  • Ég get ekki að því gert Mörður, en mér finnst orðræða Samfylkingarfólks
    og þar með talið þín bísna kokhreystisleg um þessa árans samninga.
    Það er að koma betur og betur í ljós hverjir biluðu í aðdraganda þessara
    hörmunga, þar er hlutur Fjármálaeftirlitsins stór og í ljósi upplýsing frá
    Hollensku samninganefndinni um tilraunir þarlendra til að koma í veg
    fyrir ruglið, þá var það beinlínis bakkað upp af Fjármálaeftirlitinu.
    Undir hvern heyrði það nú aftur. Ekki gera ykkur þann óleik að reyna
    sífellt að breiða yfir aðkomu Samfylkingarinnar að hruninu. Var ekki
    Samfylkingin hlynnt einkavæðingu? Það er ekki trúverðugt að kenna
    sífellt öðrum um ,þegar ratað er í ógöngur. Sér í lagi á það nú við ef
    maður hefur verið einn af fararstjórunum

  • Sigursteinn Másson

    Þetta er rétt ábending Mörður. Spurningin er dálítið eins og að spyrja hvort maður sé fylgjandi eða andvígur norðanáttinni í janúar. Nei, maður vill heldur að það gusti að sunnan en norðanáttin kemur engu að síður.

    IceSave fer ekkert frá Íslandi sama hvað hver segir. Þetta er mál sem verður að klára á sómasamlegan hátt vilji Íslendíngar eiga möguleika á eðlilegum samskiptum við önnur ríki. Sem betur fer sýnist mér að fleiri og fleiri séu nú að átta sig á þessu.

  • Þórarinn Einarsson

    Mörður, með þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave hefur þjóðin val um tvær leiðir: Að samþykkja eða hafna Icesave. Auðvitað yrði það ekki spurning um hvort fólk sé sátt við að samþykkja samninginn, heldur mun þjóðin ráða örlögum sínum er hljótast af afstöðu hennar til málsins.

    Mér þykir lágkúrulegt að beita veðri og vindum sem rökum gegn þjóðaratkvæði, ákaflega lítilsvirðandi gagnvart þjóðinni.

    Ekkert mál er of flókið fyrir þjóðina, en auk þess er mikilvægt að hún taki afstöðu til mikilvægra mála. Hættið þið stjórnarliðar að hafa vit fyrir þjóðinni og segja henni hvað sé hægt og hvað ekki.

    Ef þjóðin hafnar og stjórnin treystir sér ekki til þess lengur að stýra þjóðarskútunni, þá segir hún af sér og við fáum t.d. utanþingsstjórn.

    Setjum þetta í þjóðaratkvæði og látum þjóðina bera ábyrgðina á því sem hún ákveður í þeim.

  • skattmann

    1. Við höfum engan vegin efni á því að greiða IceSlave

    2. Það er augljóst að gróflega var samið af okkur í IceSlave samningaviðræðunum. Mesti veikleiki samninganefndarinnar var síðan nýttur af mótherjum okkar þegar þeir útkljáðu málið maður á mann með helsta samningamann Breta á móti Svavari okkar Gestssyni. Útkomuna sjáum við í IceSlave.

    3. Það er ekkert endurskoðunarákvæði sem stendur undir nafni í IceSlave. Þetta ákvæði er eina ákvæði IceSlave sem að kveður uppá nákvæmlega ekkert sem fast er í hendi!

    Það ber vott um snilli okkar manns að hafa eina ákvæðið sem á að vera okkur í hag svona algjörlega bindandi fyrir Breta og Hollendinga!

    Skv. AGS erum við á bjargbrúninni ef að skuldir ná 240% af þjóðarframleiðslu. Við erum þar núna!

    Það er vægast sagt ótrúlegur málflutningur að:

    a) við séum þegar búin að skuldbinda okkur til að borga IceSlave. Þetta er einfaldlega lögum samkvæmt ekki rétt!

    b) að tekið hafi verið tillit ábyrgðar ESB á gölluðum lögum og því við erum á gjaldþrotsbrúninni með þvi að hafa vextina þannig að Bretar og Hollendingar græði ekki eins mikið á okkur og þeirra ítrustu kröfur hljóðu!

    Síðast en ekki síst eiga stjórnmálamenn að hætta að ljúga að okkur!
    Við erum búin að heyra stjórnmálamenn fara „frjálslega með staðreyndir“ með það að markmiði að vinna máli sínu stuðnings einum of oft!

    Það er eins og stjórnmálamenn ríkisstjórnarinnar átti sig ekki á þessu!

    Tal um að spurningin hafi verið vitlaust orðuð er alvarlegum raunveruleikaflótti!

  • Guðmundur Gunnarsson

    Er ekki kominn tími til að velta upp lagalegri ábyrgð þeirra sem samþykkja ÍsRáns samninginn ef að beint er hægt að rekja að stórkostleg vanræksla og mistök hafi verið gerð við samþykkt hans og allt fer á versta veg eins og stærsti hluti þjóðarinnar heldur fram að gerist?

  • Ég tek undir með þér Mörður ,en er þó oftast á móti skoðunum þínum.
    Mér sem öðrum finnst þetta blóðugt að þurfa að hirða upp skítin eftir útrásarvíkinga og spillta stjórnmálamenn og tel að það þurfi að velta hverjum steini og kíkja undir hverja þúfu og draga þetta lið til ábyrgðar og koma í veg fyrir að það nái að koma undann illa fengnu fé.
    En Icesave samningana verðum við nauðug að’ skrifa undir og fara að byggja grunn undir framtíð okkar og barna okkar,en það á engann hátt þýðir að við ættum að fyrirgefa,það er einfaldlega ekki hægt.
    Færeyingar gengu gegnum svipaða kreppu og komu sterkari út úr henni,þeim var líkt og okkur þvert um geð að greiða skuldir óreiðumanna en gerðu það samt,sín vegna og sinna.

  • Rómverji

    Þórarinn Einarsson.

    Heyr heyr!

    http://www.kjosa.is

  • Hvernig er hægt að samþykkja samning sem vitað er að við getum ekki staðið við, Icesave er einungis partur af heildar dæminu og við höfum ekki glóru um hvað er verið að semja þar sem eignir Landsbankans eru vonarglæta en ekki veruleiki. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Það verður að semja um veruleikann, hvað getum við borgað raunverulega?
    Icesave setur okkur ekki á hliðina vegna hinnar einföldu staðreyndar að við erum njörvuð í botninn. Vinnandi fólki fer fækkandi og má búast við enn frekari fólksflótta í haust. Það verður að semja í % af nettó þjóðartekjum , annars höfum við enga von um sæmilegt líf á Íslandi.

  • skattmann

    sammála því að eignir Landsbankans eru í besta falli mjög óörugg stærð sem fer hratt lækkandi við hvert mat (síðast um litla 100 milljarða).

    Það er nauðsynlegt að hafa þak á þessu. Annars getur bara lögfræðikostnaðurinn sem þeir rukka okkur um verið uppá einhverja miljarða. Það er ekkert þak á honum frekar en öðru. Við eigum bara að borga. Þetta plagg er skyldara Versalasamningnum en neinu öðru.

    Í frumvarpinu og í máli Gylfa viðskiptaráðherra kemur fram að miðað er við þjóðarframleiðslu og gjaldeyrissköpun þegar uppgangur var á Íslandi. Munu þessar summur skila sér í kassann mitt í heimskreppu þegar ungt fólk á besta starfsaldri flytur í burtu?

    Þetta er erfitt mál.
    Því miður er þó IceSlave einfaldlega of miklir afarkostir sem að setur okkur úr öskunni í eldinn. Það er ekki hægt að bæta honum, með afsölun réttinda eins og þjóðarréttar og skýrum heimildum til að ganga að eignum okkar við þau vandamál sem að við þegar höfum og taka á okkur svona skýra aðfararheimild þegar við erum veik fyrir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur