Mánudagur 06.07.2009 - 11:08 - 12 ummæli

Lilja á Signubökkum

Lilja Mósesdóttir var í Vikulokaspjalli á laugardaginn og lagði þar til að við höfnuðum Icesave-samkomulaginu og færum síðan að tala við Parísarklúbbinn um skuldastuðning. Lilja er einn af þeim alþingismönnum VG sem hafa lýst verulegum efasemdum um Icesave-samkomulagið – en fleiri efasemdarmenn hafa að undanförnu ímyndað sér Parísarklúbbinn sem einhverskonar lausn undan Icesave og AGS. Paris, c’est une blonde / qui plaît à tout le monde.

Í Parísarklúbbnum koma saman fulltrúar 19 auðugustu ríkja veraldar undir forsæti fjármálaráðherra Frakka og ráða ráðum sínum um afdrif hinna skuldugustu. Það eru eðli málsins samkvæmt þriðjaheimsþjóðir, og það lýsir kannski vel skelfingunni eftir hrunið að menn skuli nú feimnislaust setja Íslendinga í þennan flokk.

Í Parísarklúbbnum er hvert tilvik metið fyrir sig en þó eru í megindráttum farnar fimm leiðir. Ein er kennd við Napólíborg og er ætluð ríkjum úr hópi hinna allra snauðustu, önnur kennd við Köln og ætluð ríkjum sem bæði teljast langsnauð og þungskuldug, en hin þriðja sem samið hefur verið um í Alpabænum Evian á við ríki sem eru svo illa stödd að hvorki Napólí- né Kölnarleiðin duga. Enn er svo til hólf fyrir ríki sem hafa lent í náttúruhamförum, langvinnri borgarstyrjöld eða álíka hörmungum. Þrátt fyrir allt á Ísland varla heima í þessum hópi. Það yrði minnsta kosti upplit í París ef við bæðum um að fara þessar leiðir, þjóð þar sem 40 þúsund manns skulda 115 milljarða í gjaldeyri fyrir 70 þúsund bílum.

En þetta eru undantekningarleiðirnar. Lilja og félagar eru væntanlega að hugsa um hefðbundna aðstoð við ríki sem leita til Parísarklúbbsins. Hún felst í nýskipan lána, lánalengingu og góðum vaxtakjörum og miðast við að skulduga ríkið greiði skuldir sínar að lokum. Tilbrigði við þetta (Houston-leiðin) er að ríkið greiði skuldirnar í sjóð sem er nýttur til uppbyggingar í ríkinu eða að lánardrottnar stofni með skuldagreiðslunum fyrirtæki sem standi fyrir einhverskonar þjóðþrifum í skulduga ríkinu en greiði eigendunum arð.

Það er athyglisvert fyrir Íslendinga að skilyrði fyrir því að fá slíka aðstoð hjá Parísarklúbbnum er að skulduga ríkið sé í samstarfi við … Alþjóða-gjaldeyrissjóðinn, sem votti um vandann og vilja þjóðarinnar til að losna úr honum.

Tíðindi eru það þó varla fyrir Lilju Mósesdóttur hagfræðing að meðal hinna nítján fulltrúa á fundum Parísarklúbbsins eru fjármálaráðherrar … Hollands og Stóra-Bretlands. En ákvarðanir í klúbbnum verða ekki teknar nema einum rómi. Og þannig fór um þá sjóferð sem Lilja ætlaði að fara með okkur eftir að hafa hafnað Icesave-samkomulaginu. Ça c’est Paris!

Tökum svo líka eftir því hvernig Parísarklúbburinn hjálpar – nema í algeru neyðarástandi á þriðjaheimskvarða: Með lánum á sæmilegum kjörum til langs tíma. Sem við erum að fá frá AGS, Norðurlandaríkjum og svo framvegis, þar á meðal Hollendingum og Bretum út af Icesave. Eða með því að stofna með skuldunum sjóð eða fyrirtæki í ríkinu sjálfu, en þá Houston-leið hafa menn verið að reyna hér með því að kröfuhafar ytra verði hluthafar í nýju bönkunum.

Hvað vill þá Lilja? Hafna Icesave og fara til Parísar að ræða áfram við Hollendinga og Breta? Um sömu aðstoð hjá Parísarklúbbnum og við höfum samið um við AGS og grannþjóðir – með sömu skilyrðum og á sömu forsendum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Mæli með Samfylkingarleiðinni: Þykjast að allt sé í lagi. Hún hefur reynst okkur vel undanfarin 3 ár.

  • Já… Sammála… Samfylkingarleiðin er best…

  • Rómverji

    Þetta er Samfylkingarleiðin:

    „Þann 14. ágúst lýsir viðskiptaráðuneytið íslenska því svo yfir í tölvupósti til breska fjármálaráðuneytisins, að „það væri alveg skýrt að [Tryggingarsjóði innstæðueigenda] ber að greiða út kröfur allt að 20.887 evrum og því mundi stjórnin ávallt leita eftir láni til þess að sjóðurinn greiði út það lágmark“. Með þessari yfirlýsingu er kirfilega búið svo um hnútana að íslensk stjórnvöld ábyrgist að nægilegt fé verði í Tryggingasjóði innstæðueigenda til að fullnægja evróputilskipuninni. Í framhaldi af þessu á breski fjármálaráðherrann, Alistair Darling, svo fund með íslenska viðskiptaráðherranum, Björgvin G. Sigurðssyni, í Lundúnum þann 2. september 2008. En þrátt fyrir yfirlýsinguna frá 14. ágúst er Darling órótt og „óskin um færslu Icesave í dótturfélag var orðin að hreinni kröfu.“ Og enn er áhyggjum og óskum Breta í engu sinnt.“

    http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1290673

    Ekki að undra þótt Samfylkingin vilji að almenningur axli byrðarnar strax, koma málinu „út úr heiminum. Strax!“.

    Almenningur þarf að taka málið í eigin hendur:

    http://www.kjosa.is

  • Samfylkingin hefur aldrei skilið merkingu skýjabakka og ekki þekkt þrútið loft. Samkvæmt þeirra bókum hlýtur allt að fara vel að lokum, ef ekkert er að gert.

    Málflutningur Samfylkingar um að Icesave hafi verið á ábyrgð stjórnvalda, vekur upp spurninguna: Með hvaða hætti þurfa stjórnvöld að svara til saka?

  • Ómar Kristjánsson

    Já, alveg rétt hjá Merði. Parísarklúbbur hvað.

    En almennt um málið, þá er eitt nokkuð mikilvægt atriði sem margir feila alveg á og ef menn hafi það ekki á hreinu, þá ruglar það alla umræðuna. Ísland bar ábyrgð á lágmarkinu. Það er algjörlega klárt. Ef sjóður getur ekki borgað umrætt lágmark sem tilskipunin kveður á um = Ríkið ábyrgt. Það er bara þannig. Það var, er og verður engin leið framhjá því.

    Þessvegna er samningurinn núna skynsamlegur. Gefur visst svigrúm til endurskipulagningar og enduruppbyggingar. Skynsamlegasta og eina leiðin í stöðunni. Eina leiðin.

    Það má vel vera að á næstu árum komi upp sú staða að ísland geti ekki greitt af lánum sínum og lýsi yfir gjaldþroti eða greiðsluþroti og skuldir verði endurskipulagðar og annað slíkt. Það má vel vera.

    En allt tal um slíkt núna er einfaldlega dellutal og þvæla.

    Það er bara ekki eðlilegt hvað hvað sumum dettur í hug. Alveg ótrúlegt.

  • Ef þetta Icesave mál yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu þá myndi ég ekki taka þátt í henni. Ég vil ekki borga Icesave en held samt að það sé ekkert annað í boði því miður. Það er nýlega búið að kjósa til alþingis og þar kaus ég fólk til að sjá um þessi mál fyrir mig. Ég held að þorri almennings á Íslandi hugsi svipað. Flestir hafa ekki lesið Icesave samkomulagið og hafa hvorki forsendur né þekkingu til að átta sig á þessu máli.

    Við verðum að treysta því að fólkið sem við kusum til þessara starfa leysi þetta mál eins vel og hægt er fyrir íslenska þjóð. Annað er eiginlega ekki í boði.

  • Rómverji

    GG.

    Þjóðaratkvæðagreiðsla snýst ekki eingöngu um það sem þér finnst eða þú vilt. Það var líka nýlega búið að kjósa til Alþingis þegar hér hrundi allt til grunna fyrir stórkostlega vanrækslu fólksins sem þú kaust „til að láta sjá um þessi mál fyrir þig.“

    Ef eitthvað er hægt að læra af þessu hruni, þá er það að við eigum ekki að hugsa um það eitt að „græða á daginn og grilla á kvöldin“ og láta „menn eins og Davíð sjá um stjórnmálin fyrir okkur.“

    Gagnstætt því sem þú heldur, þá hafa flestir forsendur til að afla sér þekkingar á málinu. Afleiðingum þess að samþykkja og afleiðingum þess að hafna ríkisábyrgðinni. Hvorki þú né þjóðn er ver gefin en t.d. Svavar Geststsson eða Jóhanna Sigurðardóttir eða Mörður Árnason.

    http://www.kjosa.is

  • Ómar, það er alveg sama hvað maður endurtekur hlutinn oft. Hann verður ekki réttari fyrir það. Þannig er það og hana nú og það er eina leiðin og annað er ekki í boði og allt annað er dellutal og þvæla. Skynsamlegasta lausnin og ef menn hafa „það ekki á hreinu, þá ruglar það alla umræðuna.“ Og svo framvegis og svo framvegis.

    Ég held þú hafir rangt fyrir þér í öllum meginatriðum. Einsog Mörður. Menn sitja í einhverjum bönker og tala við sömu menn aftur og aftur. Enginn er að tala við útlönd eða heyra tónana. Það eru margar lausnir í stöðunni fyrir þá sem vilja sjá þær og trúa á framtíðina.

  • Jæja Mörður.
    Ekki átti ég von á að þú myndir taka þátt í botnlausum hræðsluáróðrinum fyrir ICESAVE. Þetta með Parísar-klúbbinn er dapurlegt dæmi um hvernig Samfylking og hluti VG (t.d. þú og Huginn) hafa búið til s.k. „Strámann“ til notkunar sem áróðurstæki með því að segja að allir sem séu á móti ICESAVE samningnum vilji ganga í hinn s.k. Parísarklúbb.
    ICESAVE málið er einfaldlega þannig vaxið að það hefur ekkert með umræddan Parísar-klúbb að gera og hugsanleg niðurfelling skulda þjóðarbúsins eru slíkir smáaurar í buddum nágrannalandanna að þeim fyndist örugglega ekki taka því að gera úr því mikið mál.
    Hins vegar hafa Bretar og Hollendingar nýtt sér til hins ýtrasta þennan áhuga ríkisstjórnarinnar á að ganga í ESB og nota það að sjálfsögðu sem skiptimynt til að ná sér niður á Íslendingum, sem jú, með dyggum stuðningi ríkisstjórnar sem einmitt Samfylkingin átti aðild að, svindluðu rækilega á Breskum og Hollenskum sparifjáreigendum.

    Með bestu kveðju.
    Þór Saari

  • Sigursteinn Másson

    Getur Þór Saari útskýrt fyrir mér og öðrum í stuttu máli hvernig hann sér heildarhagsmunum Íslands best borgið með því að hafna IceSave samningnum og fresta afgreiðslu á umsókn um aðild að ESB?

    Telur hann virkilega samningsstöðu Íslands þá vera vænlega?

  • Þór Saari = Lýðskrum af næst verstu gerð. Sigmundur Davíð slær hann út. Þeir virðast vera álíka. Er Borgarahreyfingin bara uppgjafa Framsóknarmenn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur