Þriðjudagur 07.07.2009 - 11:52 - 22 ummæli

Þór Saari og botnlaus hræðsluáróður

 

 

Ein athugasemdanna sem bárust við síðasta pistil, um Parísarklúbbinn og Lilju Mósesdóttur, var frá Þór Saari alþingismanni sem einmitt velti fyrir sér fréttum vikunnar hjá Halla Thorst á laugardaginn. Þór finnst pistill minn vera hluti af „botnlausum hræðsluáróðri … fyrir ICESAVE“ en nýjasta nýtt í þeirri herferð sé að „Samfylking og hluti VG“ (til dæmis ég og Huginn Freyr Þorsteinsson, líklega hér) noti Parísarklúbbinn sem áróðurstæki „með því að segja að allir sem séu á móti ICESAVE samningnum vilji ganga í hinn s.k. Parísarklúbb“. Icesave-málið hafi ekkert með Parísarklúbbinn að gera, „og hugsanleg niðurfelling skulda þjóðarbúsins eru slíkir smáaurar í buddum nágrannalandanna að þeim fyndist örugglega ekki taka því að gera úr því mikið mál“.

 

Skýring Þórs á Icesave-samkomulaginu er síðan þessi: „Hins vegar hafa Bretar og Hollendingar nýtt sér til hins ýtrasta þennan áhuga ríkisstjórnarinnar á að ganga í ESB og nota það að sjálfsögðu sem skiptimynt til að ná sér niður á Íslendingum, sem jú, með dyggum stuðningi ríkisstjórnar sem einmitt Samfylkingin átti aðild að, svindluðu rækilega á breskum og hollenskum sparifjáreigendum.“

 

Það er að segja groddakenningin um Icesave sem „aðgöngumiða“ Samfylkingarinnar inn í Evrópusambandið. Þú líka, Borgarahreyfing?

 

Lilja og Parísarklúbburinn, taka tvö

 

Ég var nú eiginlega búinn að setja sjálfan mig í frí frá Icesave-málinu – frumvarpið er komið í þingnefnd og í bili búið að segja nokkurnveginn allt sem hægt er um það að segja – en:

 

Parísarklúbburinn er ekki mættur í umræðuna af mínum völdum eða Hugins Freys Þorsteinssonar heldur af því Lilja Mósesdóttir og fleiri kynntu hann til sögu, meðal annars í Vikulokaþættinum á laugardaginn. Ég er sammála Þór Saari um það að Icesave kemur Parísarklúbbnum lítið við – og í Morgunblaðsgrein í gær tekur Lilja á vissan hátt undir þau viðhorf.

 

Þar leiðréttir hún líka ummæli sín frá því á laugardag, vill ekki lengur tala við Parísarklúbbinn, að minnsta kosti ekki strax, heldur setjast niður með kröfuhöfum – ef í ljós kemur að í nánd sé „greiðsluþrot þjóðarbúsins“. Í Morgunblaðsgreininni virðist Lilja raunar komin að þeirri niðurstöðu að samþykkja Icesave-samninginn ef hann leiðir ekki til „greiðsluþrots þjóðarbúsins“. Það er önnur afstaða en á laugardaginn, og ég tek undir með Lilju: Ef Icesave leiðir til „greiðsluþrots þjóðarbúsins“ er langbest að hætta þrasi og gefa sig strax fram við kröfuhafa, Parísarklúbb eða hverja þá aðra í heiminum sem kynnu að vilja hjálpa okkur með það sem jafngildir nauðasamningum eða greiðsluaðlögun hjá fyrirtækjum og heimilum. Ég sé hinsvegar enga leið til að komast sérstaklega undan Icesave-málinu – og auglýsi enn eftir því að Lilja – eða Þór – skýri hvernig þau ætla að sleppa við þær kröfur, og hvernig kröfuhafar, Parísarklúbbur eða aðrir eiga að líta framhjá þeim í einhverskonar þjóðréttarlegri syndaaflausn.

 

Getum við borgað?

 

Nú er það svo að forystumenn í ríkisstjórn, þar á meðal forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðherrar, bankastjóri Seðlabankans, leiðtogar í atvinnulífi báðumegin borðs og margir helstu fræðimenn telja ekki hættu á greiðsluþroti, að Icesave-skuldum meðtöldum. En til þess er meðal annars umfjöllunin í þingnefndunum þremur um Icesave-málið að ganga úr skugga um þetta.

 

Fólk sem ég heyri í hristir hausinn yfir prósentutali Lilju og miklu fleiri úr AGS-skýrslum, 150 eða 250%. Þumalputtareglur séu sjálfsagðar í þessum fræðum einsog öðrum en sjálf greiðslugetan skeri úr, ekki skuldarfjárhæðin þótt ógnarleg sé. Þar standi Íslendingar þokkalega vel að vígi, einsog sýnt er í greinargerðinni með ríkisábyrgðarfrumvarpinu (pistill hér).

 

Verði niðurstaðan sú að þjóðarbúsgreiðsluþrot sé ekki yfirvofandi – þá höfum við engu að síður endurskoðunarákvæðið sem miðast við stöðumat AGS frá í nóvember, og það er ekki fráleit hugmynd hjá Eiríki Bergmann að alþingi setji að auki einhverskonar almennan fyrirvara (hér), væntanlega í nefndaráliti, sem styrki stöðu stjórnvalda hér ef allt fer á versta veg.

 

Þór Saari – af fingrum fram?

 

Lilja hefur skýrt sína afstöðu, nú eða færst til í afstöðu. Afstöðu Þórs er erfiðara að skilja. Hann sagði í þættinum á laugardaginn að það ætti að fresta Icesave-málinu, og líka fresta ESB-málinu, þótt hann vildi reyndar sækja um aðild að ESB. Við hefðum fullar hendur þótt ekki bættist þetta við. Þar á meðal væri sá vandi að krónan er ónýt, sagði Þór, – en samt eigum við sumsé ekki að ræða að við ESB og Seðlabanka Evrópu.

 

Í athugasemdinni til mín kemur svo að auki að „hugsanleg niðurfelling skulda þjóðarbúsins“ sé „smáaurar í buddum nágrannalandanna“ sem þau mundu ekki „gera úr … mikið mál“. Þannig að við eigum að fara fram á niðurfellingu skuldanna – en fresta Icesave og gera hvorki okkur né umheiminum neina grein fyrir því hvert við stefnum í gjaldmiðilsmálum? Og af hverju ætti umheimurinn að fallast á það? Af því við erum svo sérstök og einstæð og sæt? Og svo mikil undantekning?

 

Annaðhvort eru þetta draumórar, eða þá Þór Saari félagi minn og þúsundanna af Austurvelli er farinn að tala af fingrum fram – orðinn venjulegur óábyrgur stjórnmálamaður að hlaupa þangað sem hann heldur að fylgið sé að finna.

 

Hlusta á Elvíru

 

Borgarahreyfingin hefur þó hingað til gert sitt til að málið félli ekki í hinar venjulegu íslensku skotgrafir stjórnar og stjórnarandstöðu. Hreyfingin hefur meðal annars kallað til umræðunnar Evrópuréttarfræðinginn Elviru Méndez Pinedo, kennara við HÍ, sem skilaði um daginn merkri skýrslu um Icesave frá sjónarhóli ESB-réttar. Úr niðurstöðum hennar má lesa að Icesave-samningarnir væru líklega aðrir ef Íslendingar væru Evrópusambandsþjóð og hefðu getað nýtt sér ýmis atriði ESB-réttarins. Fyrir alþingismann sem vill fresta ESB-umsókn meðan verið sé að leysa málin er tólfti niðurstöðupunktur Elvíru einkar fróðlegur:

 

„Þá er ljóst að Ísland hefði sem umsóknarríki um aðild að ESB sterkari stöðu til að sækja um fjárhagsaðstoð og lán frá Evrópusambandinu. Viðræður við ESB um fjárhagsaðstoð yrðu eðli málsins samkvæmt talsvert auðveldari ef íslensk stjórnvöld sýndu vilja til að ganga til samstarfs við sambandið hver svo sem úrslitin yrðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 

Það sé einmitt snjallræði fyrir Íslendinga að sækja um. En hitt er auðvitað rétt hjá Þór Saari ef honum líst ekki á ESB-aðild – að Ísland kemst hvorki þangað né nokkuð annað ef stefnan er núna strax tekin á að gefast upp og reyna við „hugsanlega niðurfellingu skulda þjóðarbúsins“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Samfylkingarleiðin enn í góðum gír…

    „þetta er í fínu lagi“-girnum…

    Á hvaða landi búið þið?

    … æji já… Evrópu, sorry…

  • Ef einhver hefur ollið mér vonbrigðum í pólitíkinni þá er það Þór Saari. Þessi maður kom fram eins og sprengja og gaf frat í skotgrafahernað pólitíkusanna og að umræðan félli alltaf í sama farið. En bíðiði við, Adam var ekki lengi í Paradís, Þór Saari tók upp úreltan hugsunargang eldri pólitíkusa og hermir nú betur eftir þeim en flestir af nýju þingmönnunum 27. Ömurlegur kandidat búsáhaldabyltingarinnar.

  • Ómar Kristjánsson

    Já, sá þetta komment. Varð hissa.

    Verð að segja það.

  • Halldór

    „Eins ótrúlegt og það hljómar, þá liggja engir útreikningar á skuldaþoli þjóðarbúsins Icesave-samningnum til grundvallar,“ segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG.

    Þegar venjulegt fólk kaupir fasteign fer það í greiðslumat.

    Mörður, er ekki eðlilegt að íslenska ríkið fari líka í greiðslumat? Og afhverju er það ekki löngu komið?

  • Nei nei… Evri og Evra búnir að kommenta hjá Evró….

    Talandi um úreltan hugsunargang…

    En sammála Halldóri…hvar liggur þetta fyrir?

  • Það er ein ljósglæta í þessu icesave máli. Hún er sú að þetta mál verður sennilega til þess að ESB aðild verður kolfelld i þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það verður gaman að sjá svipinn á Quslingunum í Samfylkingunni þegar það gerist.

  • Nýi Dexter

    Ekki bindandi kosning!

  • Sæl,

    Takk fyrir þetta, ég er dósent við HÍ.

    B.kv.

  • Mörður Árnason

    Við HÍ, auðvitað, fyrirgefið, breyti því snöggvast.

  • Ætlar þú, Mörður, sem sagt að halda því blákalt fram að ESB draumur Samfylkingarinnar hafi engin áhrif á afstöðu ykkar til fyrirliggjandi samkomulags um ríkisábyrgð á Icesafe?

    Vertu nú heiðarlegur

  • Guð Blessi Evrópusambandið

  • Mörður Árnason

    Heiða — nei, einmitt ekki. Ég tel að þótt Evrópusambandið sé ekki ,,lausnin“ á vanda okkar sé ekki til nein lausn án Evrópusambandsins. Þar skipta gjaldmiðilsmálin mestu. Það sem er undir í Icesave-málinu sýnist mér hinsvegar geta verið miklu meira en Evrópusambandsaðild, nefnilega orðstír okkar, lánstraust, viðskiptasambönd og heiður í marga áratugi — fyrir utan feikileg vandræði næstu mánuði og misseri.

    Halldór — það er erfitt að spá um greiðsluþol einstaklinga og ekki síður ríkis eða þjóðarbús, en er reynt í greinargerð með Icesave-frumvarpinu einsog ég get um í greininni. Ég átta mig ekki á því sem Lilja er að tala um, því að hagstofnanir, svosem Seðlabankinn, neita að segja fyrir með þokkalegu öryggi um slíka hluti nema nokkur ár, nú til 2011.

  • Og að hvaða leiti er þetta sem þú segir minni hræðsluáróður en það sem Þór Saari sagði við hina færsluna þína?

    Ef til vill er það bara svo að heiður okkar og æra liggur í því að samþykkja ekki þennan samning.
    Hver ber virðingu fyrir þjóð sem lætur traðka á sér og neyða sig til óhagstæðra samninga?
    Og ástandið hérna á næstu mánuðum og misserum verður ömurlegt…. hvað sem verður um ríkisábyrgð á Icesafe

  • Hræðilegt að fylgjast með Æseifista sökkva í kviksyndi óheiðarleikans. Það er úr ranni AGS sem Lilja hefur sínar upplýsingar og það er ríkisstjórnin sem megnar ekki að skila neinum tölum sem byggjandi er á. Nú er skýrsla frá Mischas de Roya, bresku lögfræðifyrirtæki birt. Átti að vera trúnaðarskjal af því að hún hentar ekki málstað Æseifista. Hennar er samt getið í greinargerð með frumvarpinu. Össur þykist ekki hafa heyrt um hana, en hún er merkt honum. Svavar minnist á hana og Steingrímur segir að hún hafi verið gerð til að meta eignir Landsbankans.

    Menn muna ekki hverju þeir ætluðu að ljúga.

  • Rómverji

    „Það sem er undir í Icesave-málinu sýnist mér hinsvegar geta verið miklu meira en Evrópusambandsaðild, nefnilega orðstír okkar, lánstraust, viðskiptasambönd og heiður í marga áratugi — fyrir utan feikileg vandræði næstu mánuði og misseri.“ Segir Mörður Árnason.

    Þetta er allt þegar komið fram fyrir tilstilli glámskyggnra stjórnmálamanna og einkavina þeirra úr hópi fjárglæframanna. „orðstír okkar“ merkir hér orðstír íslenskra stjórnmálamanna. Engin stjórnvöld á meginlandi Evrópu treysta þeim fyrir húshorn. Ekki frekar en almenningur á Íslandi. Auðvitað ekki.

    Ef til vill er hægt að færa rök fyrir „lýðræðislegri ábyrgð“ almennngs, en það er lágmarkskrafa að almenningur sé þá spurður hvernig og með hvaða skilmálum hann vilji leggja á sig að reisa við orðstír glataðrar stjórnmálastéttar.

    http://www.kjosa.is

  • Þór Saari er hugsandi stjórnmálamaður, sem veltir fyrir sér málum. Þegar
    koma upp nýjir fletir á viðfangsefna athugar hann hvort hann eigi að breyta
    afstöðu sinni. Afstaða Marðar Árnasonar er meira í ætt trúfíflana sem Dagur Sigurðarson orti um:

    Ó þið sem hafið lokast inni
    í sjálfbyggðu völundarhúsi
    þrælhugsaðrar vitleysu
    reglubundinnar óreglu
    ástsjúks haturs
    saurugra bakþáknka
    heilagra hleypidóma
    hví leitið þið útgaungu þarnamegin?

    Eruð þið ekki lángþreytt
    á að rekast aftur og aftur
    á sama vegginn?

    Snúið ykkur við
    Sjá dyrnar eru hérnamegin
    Úti er hábjartur dagur

  • Það er ekki meirhluti fyrir Icesave ábyrgðinni. Það er ekki samstaða meðal þjóðarinnar. Vei þeim ábyrgðarlausu, sem leitast ekki við að finna samstöðuna.

  • Signy Hafsteinsdóttir

    Mörður, þú ættir að hlusta betur á það sem stjórnarandstaðan er að segja ykkur, stjórnarandstaðan hefur nefnilega í þessu ICESAVE máli lög að mæla, ríkisstjórnin hefur brugðist á öllum sviðum.

  • Telemakkos

    Menn verða að gera sér grein fyrir því að það er algerlega ríkjandi skoðun á Alþingi að við verðum að borga Icesave.

    Stjórnarandstaðan, nema líklega Borgarahreyfingin, vill líka borga Icesave.

    Hún vill hins vegar stöðva ríkisábyrgðina núna og reyna að leita nýrra og betri samninga.

    Sem er auðvitað eins líklegt til að enda með verri samningi en þeim sem þó er núna í hendi.

  • Á fólk semsagt ekki að hafna algjörlega óásættanlegum samningi af því að hægt væri að hugsa sér enn verri samning???

    En í alvöru talað, Ísland hefur tilheyrt EES í 15 ár og hefur fullan rétt á að leita ásjár hjá Evrópusambandinu þegar svo illa er fyrir okkur komið. ESB styrkir margar þjóðir í þrengingum, sumar hverjar langt utan sambandsins. Almenningur hér er líka fórnarlamb í þessu máli líkt og Icesave innistæðueigendur í Bretlandi og Hollandi og á ekki að þurfa bera drápsklyfjar af þeim sökum. Það verður að krefjast þess að ESB viðurkenni galla á löggjöfinni sem við gengumst undir að innleiða og reyna að fá Evrópudómstólinn til að álykta um málið.

    Við þurfum hins vegar að viðurkenna að við höfðum ónýtar eftirlitsstofnanir og vanhæfa embættismenn á okkar vegum og sýna að við ætlum að taka okkur tak með því að gera kröfur um að fá hæfasta fólkið til starfa frekar en útsendara fjórflokksins.

  • Oft þykir mér galli á annars fróðlegum skrifum þínum Mörður, að þú velur þér heimilidir sem henta. Það var mér kennt að væru léleg fræði. Hér gerir þú þér mat úr tólfta niðurstöðupunkti Elviru, en ekki fellur orð um alla hina niðurstöðupunktana í skýrslunni. Það læðist að manni sá grunur að það sé vegna þess að þeir henti ekki fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. Er það svo? Mér þykir þessi aðferð til rökræðu leiður ávani hér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur