Miðvikudagur 08.07.2009 - 12:38 - 20 ummæli

Nær ekki nokkurri átt

Það nær ekki nokkurri átt að fallast á tilboð Björgúlfanna um að borga tæpan helming af skuld sinni við Kaupþing. Mælir ekki með stjórnendum Kaupþings að hafa látið sér detta þetta í hug – nema þá ekki séu öll kurl komin til grafar. Rétt að það gerist þá ekki seinna en í gær, því hér virðist allt á hreinu, fyrrverandi bankaeigendurnir sjálfir á ábyrgðum, ef ekki næst fé hjá öðrum má fara í hinn. Og lánið fengið í einum banka til að kaupa annan – sem við hin héldum að hefði fengist fyrir bjórgróða í Austurvegi!

Vissulega þurfa bankarnir frelsi til athafna og allir eru sammála um að reyna að halda uppi fullri fagmennsku þótt fulltrúar eigenda – almennings – séu kosnir í bankaráðin á alþingi.

Þetta er ekki svoleiðis mál. Nú eiga stjórnmálaflokkarnir allir og stjórnarflokkarnir sérstaklega að gera bankaráðsmönnum og bankastjóra grein fyrir því að nýi bankinn verður að innheimta alla þessa skuld – eða segja af sér ella.

Ef ég þekki Jóhönnu rétt er hún búin að þessu fyrir sitt leyti.

Enda nær þetta sumsé ekki nokkurri átt – og meira að segja á undanförnum ólgutímum er leitun að frétt sem hefur jafn-illilega ofboðið réttlætiskennd almennings.

 

Viðauki um fjögurleytið:

Bankinn sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sagt er að engar ákvarðanir hafi verið teknar. Þar segir líka þetta:

,,Í máli sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hafa engar ákvarðanir um afskriftir verið teknar. Bankinn ítrekar að í hverju máli er unnið eftir ítarlegum verklagsreglum og að lögð er mikil áhersla á sanngjarna málsmeðferð öllum til handa.“

Stjórnendur Kaupþings verða að skilja að hér er ekki um að ræða neinskonar almenna viðskiptavini Kaupþings sem við eigi hinar ýtarlegu verklagsreglur þar sem áhersla er lögð á ,,sanngjarna málsmeðferð“. Sú ,,sanngjarna málsmeðferð“ sem bankastjórnin er að velta fyrir sér er einmitt ekki sanngjörn þegar litið er yfir sögu hruns og útrásar og tekið tillit til hins mikla fjölda sem nú á um sárt að binda vegna glæfra og mistaka fjármála-, embættis- og stjórnmálamanna.

Útaf athugasemdum er rétt að taka fram að ég legg enga fæð á Björgólfsfeðga. Frekar öfugt – er ágætlega málkunnugur þeim eldri, fyrrverandi aðaleiganda bókaforlagsins Eddu, og heilsa hinum á götu. Pabbinn á sér merkilega sögu og hefur menningarlegan metnað, við erum víst frændur af Snæfellsnesinu, og þetta eru þar að auki KR-ingar. En hér er ekki um að ræða persónulega vild eða óvild. Þeir eiga bara að borga skuldir sínar. Einkum og sér í lagi þessa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Margrét

    Vilhjálmur Bjarnason vill meina að ef þetta gangi eftir þá verði alvöru borgarastyrjöld á Íslandi.

  • Margrét

    Fyrirgefðu – Jóhanna? hver er það? er það þesi sem við kusum sem forsætisráðherra hér í vor en hefur varla sést síðan? Er það hún sem situr sveitt á ESB fundum útum allan bæ meðan ísland brennur?

    Ef þú átt við þá frú þá efast ég um að hún hafi svo mikið sem heyrt af þessu máli hvað þá að hún geti komið sér í vinnuna sem hún tók að sér.
    Manni er svo ofboðið hvernig þessi ríkisstjórn hefur svikið ALLT nánast sem lofað var fyrir kosningar að mann langar að æla.

  • Ef þetta verður afskrifað verður styrjöld á Íslandi.

  • Delerium Tremens

    á rannsóknarnefnd þingsins ekki alveg örugglega að skoða bankana
    og starfsemi þeirra allt aftur til þess tíma sem þeir voru í ríkiseigu?

    Eða er það borin von?

    Hr. Davíð Oddsson
    forsætisráðherra
    Stjórnarráðshúsinu

    10. september 2002

    Í framhaldi af þeirri ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu að
    ganga til viðræðna við Samson ehf. um kaup á umtalsverðum hlut í
    Landsbanka Íslands hf. hef ég ákveðið að segja mig úr framkvæmdanefnd
    um einkavæðingu. Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í
    aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir
    áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir
    ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég hef setið sem fulltrúi
    fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá 1991 og
    aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Þar sem ég er bundinn trúnaði
    um einstaka þætti þessa máls treysti ég því að óhlutdrægur aðili verði
    fenginn til að fara ofan í saumana á þeim vinnubrögðum sem eru orsök
    afsagnar minnar.

    Virðingarfyllst,

    Steingrímur Ari Arason

  • Mörður Árna ætlar semsagt að ákveða hvenær bankastjórnir eigi að lúta vilja „almennings“. Þetta lofar góðu…

  • Ég vil biðja þig um að koma þessum skilaboðum alla leið, enda Jóhanna upptekin kona sem getur misst af hlutum sökum anna og þetta má ekki gleymast í dagsins önn. Ég held nefnilega að við séum nokkuð mörg sem séum tilbúin að slíta friðinn í þessu landi ef þetta verður niðurstaðan og stjórnvöld, bankastjórnir og önnur yfirvöld skulu aldrei gleyma að þau sitja aðeins meðan við erum tilbúin að sætta okkur við það.

  • Steini M

    Og Það nær ekki nokkurri átt að fallast á þetta icesave samkomulag.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Sammála því að það eigi ekki að gefa krónu eftir. Hitt er. Hvaða lýkur eru á feðgarnir eru menn orða sinna sama hver upphæðin verður, og að þjóðin fái yfirleitt einhverja peninga frá þeim til baka? Er þetta ekki einfaldlega aðferð til að létta aðeins pressunni af sér og sínum? Kaupa sér frest… ofaná frest … ofaná næsta frest…… os.frv.

  • Hörður Tómasson

    Þetta er alveg rétt hjá þér Mörður, það nær ekki nokkurri átt að Bjöggarnir fái afslátt af skuldunum. En bíddu nú við hvað um Jón Ásgeir og baugsmenn? Hvenær á að rukka þá? Æi sorrý, ég gleymdi því, þú ert í samfylkingunni. My bad.

  • Alveg sammála þessari greiningu hjá þér. Verði ein króna afskrifuð af skuld þessara manna-Björgólfanna- þá verður sundur slitinn friður í landinu.
    Þessi menn eru orðnir að tákngefingum hrunsins einkum með ICESAVE gjörðum sínum. Allavega annar þeirra hefur næga fjármuni til greiðslu-en saman eru þeir ábyrgir…

  • Arnar Helgi

    Hvað ertu að derra þig ? Handónýti Alþingismaður.

  • Vona að Kaupþing samþykki niðurfellinguna hjá Björgólfunum.

    Þá kannski drullumst við til að gera eitthvað.

    Hættum þessu væli og grípum til aðgerða.

  • Linda Vilhjálmsdóttir

    Ég legg það til að bloggarar landsins taki sig saman um að eyða öllum ummælum af síðum sínum sem ekki eru skráð undir fullu nafni.
    Ummæli á Feisbúkk eru sjaldnast jafn ómálefnaleg og ruddaleg og þau sem birtast á bloggsíðum – og eru þar því miður gjarnan í meirihluta. Sem helgast líklega af því að meirihluti þeirra sem nota feisbúkk skrá sig þar inn undir fullu nafni og með mynd að auki – og þurfa þar af leiðandi að taka ábyrgð á orðum sínum og skoðunum. Það er lágmark að þeir sem telja sig þess umkomna setja út á skrif og framgöngu annarra gefi upp eigið nafn.

  • Jón Gunnar Geirdal

    Ég heiti t.d. ekki Jón Gunnar Geirdal..

    Sniðugt..

  • Linda Vilhjálmsdóttir

    Verð að bæta því við að þeir sem ekki taka ábyrgð á eigin skrifum eiga ekkert með það að krefjast eins né neins af öðrum. Tel að útrýming nafnlausa bloggsins gæti orðið fyrsta skerfið að bættu siðferði í samfélaginu – þeir sem stjórna verða nefnilega aldrei betri en við.

  • Sigurður #1

    Hvað hét aftur starfsmaður Toyota sem skrifaði um það á fésbókina sína að á sama tíma og laun starfsmanna voru lækkuð (vegna kreppunar) var keyptur nýr landkrúser jeppi af sverustu gerð undir rassinn á forstjóranum.

    Starfsmanninum fannst skrítið að það væri hægt, á sama tíma og ekki var hægt að halda óbreyttum launum almennra starfsmanna.

    hann skrifaði undir fullu nafni.

    Og var rekinn daginn eftir.

  • Man einhver eftir því þegar fjölmiðlafrumvarpið kom fyrst fram í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar? Þá var það ekki bara um of mikil völd yfir fjölmiðlum í upphafi, heldur innihélt það varnir gegn of miklum krosseignatengslum í öðrum atvinnugreinum, það hefði t.a.m. átt við bankana hefði það verið samþykkt óbreytt.

    Davíð og Halldór voru hraktir til breytinga sem aldrei skyldi verið hafa eftir á að hyggja. Það má leiða að því sterk rök að bankarnir og tengd fyrirtæki hefðu aldrei þróast í það sem varð ef upphaflega frumvarpið hefði verið samþykkt og þá sennilegast ekkert bankahrun orðið á Íslandi.

    Samfylkingin gekk harðast fram í því að úthrópa frumvarpið sem svo endaði með því að Ólafur Ragnar hafnaði lögunum eins og allir þekkja. Ástæða þess að ég bendi á þetta er að Samfylkingin er alltaf í einhverjum aulalegu loddaraleik alla daga og þykist enga ábyrgð bera.

    Núna mánuðum saman eru þeir í því að benda í sífellu aftur fyrir sig á ríkisstjórn Geirs H Harde með Framsókn, allt þeim að kenna segir Samfylkingin. Síðan vilja þeir í SF helst ekkert kannast við eigin ábyrgð frá kosningum í Maí ´07, þó þeir hafi sjálfir setið við stýrið löngu fyrir hrun.

    Samfylkingin hefur lagðist flöt eins og portkerling fyrir Baugi og öðrum útrásarvíkingum og bauð í heimsókn, það sannaðist rækilega í fjölmiðlamálinu.

    Síðan hefur þessi portkerling verið gerð út af þessum útrásarvíkingum eins og sannast á þeim peningaframlögum sem þaðan hafa komið allar götur síðan. Nú ætlar þessi portkerling að selja landið í þrældóm með Icesave samningnum og inngöngu í ESB eins og um eigið klof sé að ræða.

    Ég er alveg hættur að fatta mína menn í VG, að þeir skuli hafa lyst á þessu klofi, enda fá þeir ekki mitt atkvæði aftur ef af verður.

  • Sigursteinn Másson

    Það er rétt að hér er ekki um almenna viðskiptavini Kaupþings banka að ræða hvorki þess gamla né nýja nú né forvera þeirra Búnaðarbankans. Það er sumsé komið í ljós að Landsbankinn var ekki keyptur fyrir „söluna“ á Bravó í Sankti Pétursborg sem nú heitir Bravosolutions sbr. http://www.bravosolutions.com, heldur fyrir lánsfé úr hinum helmingaskipta bankanum. Almenningur var sem sagt blekktur en hvað með stjórnvöldin? Hvað voru þau að hugsa ef þá nokkuð yfirleitt?

    Það má kannski til sanns vegar færa út frá þröngu sjónarhorni tiltekinna einstaklinga að viðskiptin með Landsbankann hafi verið sannkölluð „Bravosolutions“, ekki satt? Og kannski hæst sé hlegið í Sánkti Pétursborg þessa dagana.

    Það er ekki lengur um það að villast að einkavæðing bankanna var pólitísk fyrirgreiðsla og valdatrygging og ekkert annað. Var þá Búnaðarbankinn seldur S hópnum fyrir lánsfé úr Landsbankanum? Það er rétt að rifja upp afsagnarbréf Steingríms Ara úr einkavæðinganefndinni eins og gert er hér að ofan. Það er ástæða til að flagga því sem hæst og víðast. Ég segi nú bara eins og amma mín blessunin; Það ber ekki allt upp á sama daginn!

  • Linda, er þá ekki rétt að kjörseðlarnir verði gerðir opinberir? Til hvers heldurðu að kosningar séu leynilegar? Það er til að tryggja lýðræði.

    Það má ekki gleyma því að allir sem skrifa undir höfundanafni eru manneskjur af holdi og hjarta.

  • Legg til að Linda V eða hver sem hún er …..hætti
    þessu röfli og fari að skrifa undir fullu dulnefni….
    Hver er annars ástæðan fyrir þessu kjaftæði?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur