Föstudagur 10.07.2009 - 09:22 - 27 ummæli

Þeirra eigin orð

Góður félagi sendi mér þessar tilvitnanir um Evrópusambandsaðild eftir nokkrum Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum í tilefni dagsins:

 

FRAMSÓKNARFLOKKUR

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:

„Afstaðan er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru.“ (Á Viðskiptaþingi. Frétt í Fréttablaðinu 14. mars 2009)

Sigmundur Davíð sagðist sjá fyrir sér að það yrði verkefni nýrrar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. (Á flokksfundi. Frétt í Fréttablaðinu 19. mars 2009.)

Birkir Jón Jónsson:

„Ég er hlynntur því að það verði farið í viðræður við Evrópusambandið, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, líkt og landsfundur okkar hefur samþykkt.“ (Fréttaviðtal, visir.is, 5. maí 2009.)

Siv Friðleifsdóttir:

„Ég er Evrópusinni og ég tel eðlilegt að þjóðin kveði upp úr um það hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki.“ (Fréttaviðtal, visir.is 4. nóvember 2008.)

Guðmundur Steingrímsson:

„Það verður að hlusta á kall tímans. … Við hlustuðum ekki. Og nú gerir núið kröfu um ákvarðanir, um stefnu, upplýsingar og síðast en ekki síst: Að stærsta hagsmunamál þjóðarinnar – framtíðargjaldmiðillinn og aðild að ESB – sé sett upp á borðið og um það kosið.“ (Grein í Fréttablaðinu 15. nóvember 2008.)

Eygló Harðardóttir:

„Hefja þarf undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið til að fá niðurstöðu um hvort  hagsmunum Íslendinga sé best borgið þar.“ (Pistill á heimasíðu Eyglóar, hér, 22. janúar 2009.)

 

SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR

Bjarni Benediktsson:

„… ég tel að í gjaldmiðilsmálum sé enginn kostur jafn sterkur og evran með ESB-aðild í stað krónunnar. … Ég er talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 21. mars 2009.)

„Margir segja að við fáum betri samninga í viðræðum við Evrópusambandið en mín sannfæring segir til um. Mitt svar við því er að ég er tilbúinn að láta á það reyna því ég óttast ekkert í þessu ferli.“ (Viðtal í Viðskiptablaðinu 21. mars 2009.)
 
„Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna [við ESB] ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Ræður þar úrslitum að halda ber á hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt og samstaða takist um niðurstöðuna.“ (Grein eftir Bjarna og Illuga Gunnarsson í Fréttablaðinu 13. desember 2008.)

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir:

„Við verðum að halda áfram að tala um Evrópumálin hvort sem það er evruaðild með tvíhliðasamningum við Evrópusambandið eða Evrópusambandsaðild.“ (Hádegisfréttum Stöðvar 2, 24. september 2008.)

„Þetta gerist alltaf þegar umræðan um ESB tekur á loft. Þá er bent á aðrar lausnir. Auðvitað er sjálfsagt að skoða þær en ég held að ef við ætlum að hverfa frá þeirri peningamálastefnu sem nú er þá sé það eðlilegt að við leitum inn í Evrópusambandið.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 1. nóvember 2008.)

„Mér finnst ekkert ólíklegt að við ákveðum að fara í aðildarviðræður með ákveðnum forsendum og þá náttúrulega fyrst og fremst með hagsmuni okkar í sjávarútvegi og landbúnaði að leiðarljósi.“ – Fréttamaður: Er það það sem þú vilt? Þorgerður Katrín: „Já. Ég verð nú að segja það að miðað við það sem maður er að viða að sér frekari upplýsingum um, að þá bendir allt til þess, og ég tel það vera rétta skrefið, að fara í aðildarviðræður undir þessum formerkjum.“ (Viðtal í kvöldfréttum RÚV-Útvarps 16. desember 2008.)

… Nú væru aðstæður allt aðrar og mikilvægt væri að flokksmenn veittu nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins umboð á næsta landsfundi til aðildarviðræðna við ESB. „Við verðum að fá skýr svör,“ sagði Þorgerður. Hún sagði að tvíþætt vandamál myndi leysast með aðild að ESB: „Peningamálastefnan og gjaldmiðillinn og ekki síður orðspor okkar og viðskiptavildin. Getum við verið ein eða er betra fyrir okkur að vera í samstarfi við aðrar þjóðir?“ (Á Viðskiptaþingi. Frétt í Morgunblaðinu 12. mars 2009.)

Ólöf Nordal:

„Ísland getur ekki verið útí vindinum, svona eitt … EES-samningurinn er ekki nægjanlegt skjól. … Ísland hefur verið að einangrast og sagan sýnir okkur að Íslandi hefur ekki vegnað vel þegar það er einangrað.“ (Viðtal í Markaðnum, Fréttablaðinu 20. desember 2008.)

„Það dettur engum í hug að útiloka aðild að sambandinu til langs tíma og satt að segja held ég að það sé frekar tímaspursmál en hitt hvenær við stöndum frammi fyrir þessari ákvörðun.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 28. mars 2009.)

Einar K. Guðfinnsson:

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setur sig ekki upp á móti því að gengið verði til viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Á málþingi sem Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, stóð fyrir í dag sagði Einar að hann myndi ekki útiloka þennan kost. Einar hefur verið andsnúinn aðild að Evrópusambandinu en sagði í dag að bankahrunið setti málið í nýtt ljós. (Á Heimssýnarfundi. Frétt í RÚV-Útvarpi 11. janúar 2009.)

Ragnheiður Ríkharðsdóttir:

Enginn þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem DV talaði við í gær tók eins afdráttarlausa afstöðu með aðildarumsókn og þjóðaratkvæðagreiðslu og Ragnheiður Ríkharðsdóttir: „Annað er ekki í stöðunni eins og ástatt er.“ (Evrópuúttekt í DV 15. desember 2008.)

„Ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið, að kannaðir verði kostir og gallar þess sambands fyrir íslenska þjóð. Það verði síðan lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að þjóðin geti sjálf tekið ákvarðanir um örlög sín. Það er það sem skiptir máli. Ég get líka upplýst hér og nú svo að það fari ekki á milli mála að ég er sjálf fylgjandi aðild að ESB, það er ekkert flókið. Það er enginn holur hljómur í þeirri skoðun og það er ekki holur hljómur í þeim sem segja svo í Sjálfstæðisflokknum. Við sem viljum þessa leið segjum það upphátt og erum ekki að fela eitt eða neitt í þeim efnum.“ (Í umræðum á alþingi 17. desember 2008.)

Illugi Gunnarsson:

„Ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun að þjóðin þarf að taka afstöðu í þessu máli og ég stend við hana. Það er engin leið fram hjá því og það verður ekki gert öðruvísi en með aðildarumsókn.” (Á fundi Alþjóðamálastofnunar HÍ 30. apríl 2009.)

„Ef mönnum finnst betra að fá sérstakt umboð til að fara í viðræðurnar [með þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn] þá geri ég engar athugasemdir við það, en í sjálfu sér held ég að það sé engin sérstök nauðsyn á því. Hin leiðin [þ.e. sækja um og hafa svo atkvæðagreiðslu um samning] er hreinlegri af því að þá erum við að kjósa um eitthvað sem við vitum hvað er.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 2. janúar 2009.)

Jón Gunnarsson:

„Ég tel að niðurstaðan hafi að sumu leyti verið óheppileg, hversu langt var gengið að hafna aðild [á landsfundi Sjálfstæðisflokks].“ (Viðtal í hádegisfréttum Bylgjunnar 26. apríl 2009.)

 

„Þeirra eigin orð“ hét velheppnaður áróðursbæklingur úr kalda stríðinu sem ég á uppi í hillu. Hann gáfu Heimdellingar út og notuðu eingöngu tilvitnanir í andstæðinga sína, sem þá voru auðvitað „kommarnir“. Nú passaði aftur þessi góði titill.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (27)

  • Sigursteinn Másson

    Það er ekki eftir neinu að bíða. Áfram með smjörið!

    Væri miklu stærri og afdrifaríkari ákvörðun að fresta málinu enn einn ganginn heldur en að sjá hvað út úr samningum kemur á meðan Svíar eru í forsæti ESB. Sjálfur er ég ekkert viss um að ég sé hlynntur aðild að ESB en það veit ég ekki fyrr en samningur liggur fyrir sem þjóðin kýs um.

  • Sparibaukur

    Góðir punktar, þörf áminning og alger skyldulesning fyrir alla landsmenn.

    Sigurlaug Ragnarsdóttir

  • Mörður; Það er bara eitt í þessu. Það eru flestir Íslendingar bara löngu hættir að treysta þér og Samfylkingunni í ESB málum, sérstaklega eftir allt klúðrið hjá ykkur í Icesave málunum.

    Þess vegna treysta þingmenn og þjóð ykkur ekki, þar á meðal margir þingmenn VG. Þjóðin hafnaði ESB aðild í síðustu kosningum, það sést best á ykkar útkomu þar.

    Þið voruð eini flokkurinn sem höfðuð þá stefnu að gerast aðilar að ESB og fóruð mikinn.

    Ef þið í Samfylkingunni gátuð myndað ykkur skoðun á að ganga inn í ESB án þess að fyrir lægi aðildarsamningur í smáatriðum, hlýtur Íslenska þjóðin að geta myndað sér skoðun á sama máli á sömu forsendum og þið.

    Eða ert þú þeirrar skoðunnar að þið í Samfylkingunni séuð bara mikið klárari en þjóðin í þessu ESB máli.

    Ekki hafið þið sýnt það að undanförnu.

    Leyfið þjóðinni að kjósa hvort sótt er um aðild eða ekki, því það er það sem liggur fyrir þinginu, þ.e. umsókn um aðild að ESB.

    Samfylkingin raupaði mikið um beint lýðræði og þjóðaratkvæðisgreiðslur fyrir kosningar í öllum mikilsverðum málum, því þá ekki nú í þessu mikilvæga máli?

    Eða var þetta bara hefðbundið froðusnakk að hætti Samfylkingarinnar!

  • Guðmundur Gunnarsson

    OG……????

    Er það ekki öllum löngu vel þekkt stærð út á hvað stjórnmál á Íslandi gengur og „STÓRKOSTLEGT“ eðli þingmanna?

  • Guðmundur Gunnarsson

    „ganga“ átti það að vera.

  • Fín samantekt.

    Það er afskaplega „furðuleg“ tilviljun að eftir 17 ára valdasetu þar sem aldrei var minnst á þjóðaratkvæði skuli Sjálfstæðismenn allt í einu núna vilja Þjóðaratkvæðagreiðslur um öll möguleg mál.

  • Já… betra er að kúga en vera tvísaga…

    sbr. nýjustu fréttir…

    Lifi lýðræðið… eða þannig…

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Það er skemmst frá því að segja að þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta ekki stutt tillögu um að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið enda liggur ekki fyrir heimild til þess frá landsfundi flokksins. Þeir geta ekki heldur stutt tillögu sem ekki gerir ráð fyrir því að fyrst fari fram þjóðaratkvæði um það hvort sækja skuli um slíka inngöngu í ljósi ályktunar landsfundarins í Evrópumálum.

    Framsóknarmenn geta ekki stutt ályktun sem ekki felur í sér þau ófrávíkjanlegu skilyrði sem flokksþing þeirra setti fyrir því að samið yrði um inngöngu í Evrópusambandið.

    Þess utan munu bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn vera þeirrar skoðunar að hugsanleg þjóðaratkvæði um Evrópumálin verði að vera þannig að þjóðin eigi raunverulega síðasta orðið í málinu, þ.e. að þau verði bindandi en ekki aðeins ráðgefandi eins og ríkisstjórnin stefnir að.

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Og rétt að bæta því við að undir þessum áherzlum fóru frambjóðendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í kosningabaráttuna fyrir þingkosningarnar í vor. Þetta eru loforðin til kjósenda. Nú vill Mörður s.s. að þau séu svikin eins og loforðin sem forysta vinstri-grænna gaf sínum kjósendum.

  • Hörður Tómasson

    Ég vona að mér verði fyrirgefinn þessi smá úturdúr, en mig langar að setja fram smá samsæriskenningu hérna, sem hefur verið dálítið rædd í mínum vinahópi.
    Hún er svohljóðandi. Ástæðan fyrir því að svo lítið virðist hafa gerst síðan ný ríkistjórn samfylkingar og VG tók við er sú að samfylkingin er vítisvitandi að grafa undan samfélaginu og trú fólks á íslenskt stjórnarfar, réttarkerfi og alþingi. Hugsunin á bak við þetta sé sú að ef íslensk alþýða missir trú á að íslenskir stjórnmálamenn séu færir um að stjórna landinu, því meiri séu líkurnar á að evrópusambandsaðild verði samþykkt.
    Það sé þarmeð planið að grafa undan ástandinu á allan mögulegan hátt þangað til að búið sé að samþykkja aðild íslands að evrópusambandinu, og að öllum aðgerðum verði frestað eða komið í veg fyrir þær þangað til eftir að búið er að samþykkja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Endilega ræðið.

  • Mörður Árnason

    Samfylkingin sem 5. herdeild heimsveldisins illa í Brussel? Vá! Þú ættir að prófa að sækja um hjá CCP, Hörður, þeir kunna örugglega að nota svona hugmyndaflug. — Annars voru tveir Framsóknarmenn að lýsa yfir stuðningi við ESB-tillöguna, Siv og Guðmundur Steingríms — í fullu samræmi við fyrri orð. En kannski eru þau líka útsendar Sárons í Mordor-ríkjum? Kannski Orkar eða Svartriddarar …

  • Skúli Einarsson

    Hjörtur J. Guðmundsson ætti að kynna sér stjórnarskrána, þingmenn sem kosnir eru á þing, sverja eið að stjórnarskrá Íslands, og sverja að greiða atkvæði á þingi eins og samviskan býður þeim en ekki eins og flokkurinn fyrirskipar, þingflokkur VG er klofinn í afstöðunni vegna þess að þingmenn ætla að greiða atkvæði eins og samviskan býður þeim en ekki eins og stjórn flokksins vill, það sama ætti að gilda fyrir sjálfstæðismenn og framsókn, en harðstjórnin frá Davíðstímanum og Halldóri, virðist vera allsráðandi og enginn sjálfstæðismaður eða framsóknarmaður fær að greiða athvæði samkvæmt sinni samfæringu. Er það þetta sem kallað er líðræði?

  • En Skúli.. .kúgun er í lagi sem sagt sbr. nýjasta dæmið…

    Þetta eru nú ljótu flokkarnir… allir fjórir…

  • Bjarni Guðmundsson

    Hvar eru ummæli þingmanna Vinstri grænna Mörður minn ?

  • Ég er frekar neikvæð á ESB en mér finnst við verða að fara í aðildarviðræður, þó ekki væri nema til að geta rætt um staðreyndir og raunverulega valkosti.
    Ég er löngu hætt að nenna að hlusta á umræður og tilvitnanir í einstaka embættismenn ESB sem slá úr og í með öll mál.

    „Þa gostar ekket að sgoða“ sögðu kaupmenn á Majorka við mörlandann í den og það á við um þetta mál.
    Þess vegna finnst mér tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla óþörf og frekar hallærisleg.

  • En alveg sama hvað þetta annars ágæta fólk sagði þá og núna þá geturðu ekki verið á móti því að það verði hreinlega þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort:
    Ísland eigi að sækja um aðild að ESB og í framhaldinu ef það verður samþykkt þá hefja aðildarviðræður við Bandalagið“

    Þetta hræðist þið ESB sinnar óskaplega samt þykist þið svo lýðræðislegir að þið viljið að 15% þjóðarinnar eigi að fá að krefjaswt þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta og hitt. En í þessu mikilvæga máli NEI:

    Tvöfalt siðgæði ykkar skýn í gegn. bara þegar mér hentar.

    Þið þorið ekki að tapa. Ísland skal í ESB með góðu eða illu og öllum klækjabrögðum líka ef þarf !

    Þó ég hafi ávallt talið þig til mætustu manna Mörður þá ertu nú fyrir fullt og fast með hræsni þínu og yfirlæti búinn að stympla þig innn með hræsninni og hégómanum sem er uppistaðan í úrtöluliðinu og landráðhyskinu sem stefnir að því að leggja lýðveldið Ísland niður með einfaldri tilskipun frá Evrópusambandinu nr. x-iceslave-xf-d/b/f-00089999-67-09 !

  • Mörður Árnason

    Afstaða VG er hér, ágæti Bjarni:

    ,,Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrárbreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.”

    Þetta er úr landsfundarályktun þeirra fyrir kosningar, og ekki hægt að saka þingmenn flokksins um ósamkvæmni þótt þeir sætti sig við umsókn sem Samfylkingin, Borgaraflokkur og Framsóknarflokkur styðja — eða studdu a.m.k. fyrir kosningar (33 þingmenn af 63).

    Sjá: http://blog.eyjan.is/mordur/2009/04/

  • Tek undir með Herði Tómassyni hér að ofan.
    Landráðapakk sem ekki er treystandi er að stjórna landinu og stefnir því leynt og ljóst í enn meiri ógöngur og svo inní ESB sambandsríkið með góðu eða illu.
    Hvenrig í andsk… get Vinstri Grænir verið svona andsk….. grænir að hafa fylgt þessu skítapakki fram að brúninni. STOPP !

  • Guðmundur Gunnarsson

    Man ekki betur en þegar stór könnun um trúverðuleika stofnanna, fjölmiðla og fyrirtækja, þá hafi Alþingi með innihaldi náð heilum 12% trausts þjóðarinnar.

    Hvers vegna ætti einhver að taka mark á fólki sem hefur ekki meiri trúverðuleika?

  • Ég veit að mitt álit skiptir engu – en ég er samt ekki viss…

  • Held að þetta geti verið rétt hjá Herði Tómassyni.

    Minnsta kosti ef mið er tekið (aðgerðum?)aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

    Það virðist sem að verið sé að lemja lýðinn til hlýðni.

  • Ólafur Gíslason

    Málfarið bendir til skyldleika á milli Skorrdals og Reykáss

  • Það á auðvitað að sækja um og athuga hvort að verði okkur hagstætt,
    ef það er hagstætt og líkur á betri lífskjörum, þá er það ekki spurning
    þjóðin mun segja já…en ef verið sé að reyna að fara inn einhverja
    bakaleið með offorsi og látum, þá er eitthvað rotið í Danaveldi…
    Getur verið að búið sé að segja stjórnvöldum hér í trúnaði að ef
    við förum inn, þá muni td ice slave málið detta sjálfkrafa um sjálft sig
    við inngöngu ?? vegna viðsnúnings ýmissa vg liða og annara þá eru
    sumir farnir að spyrja þessarar spurningar …. og fleiri að sjálfsögðu.

  • EysteinnÞór

    Gunnlaugur voðalegt argaþvarg er í þér. Þjóðin fær að kjósa um aðild! Treystirðu ekki þjóðinni? Ef meirihluti samþykkir aðild verður það þá samfylkingunni að kenna?!!!

  • Fyndið þegar Sjálfstæðismenn fara að tala um samþykktir landsfunda sinna. Eru það ekki svona einsog einnar nætur gaman, best gleymt þá liðið er? Ekki verið venjan í þeim flokki að hanga á þessum samþykktum enda meira gerðar fyrir stemninguna á fundunum en í alvöru!

  • Mætti ekki bæta aðeins við listann, Mörður? Mér dettur í hug að það mætti sjálfsagt lengja hann sjöfalt með nokkrum vel völdum tilvitnunum í Steingrím J. Sigfússon, einn mætasta góðkunningja sannleikans á þingi.

    Ekki vantar þó síður tilvitnanir í orð Samfylkingarmanna. Fyrir aðeins tveimur árum var Jóhanna nokkur Sigurðardóttir spurð að því í viðtali við Viðskiptablaðið hvort hún væri mikill Evrópusambandssinni. Hún svaraði:

    „Nei, það er ég ekki. Ég vil fara varlega í Evrópumálum og hef verið í þeim hópi Samfylkingar sem vill fara sér hægt í inngöngu í sambandið. Ég hef þó komist að því að vitræn umræða um aðild mun aldrei eiga sér stað nema að við förum í aðildarviðræður til þess að vita hvað við fáum. Það eru mjög skiptar skoðanir um ávinninginn, sérstaklega hvað varðar sjávarútveginn. Það er algert lykilatriði að við missum ekki forræði yfir þeirri auðlind.“

    Nú virðist það lykilatriði engu skipta lengur og Jóka talar eins og hún hafi verið Evrópusinni frá upphafi vega!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur