Laugardagur 11.07.2009 - 13:53 - 25 ummæli

Fyrsta orðið

Þjóðin á ekki bara að hafa síðasta orðið um Evrópusambandsaðild, heldur líka fyrsta orðið, segir Ásmundur Einar Daðason alþingismaður.

Já – og það orð var upp kveðið í alþingiskosningunum 25. apríl þegar skapaðist tvennskonar meirihluti á alþingi, meirihluti norrænu velferðarstjórnarinnar annarsvegar og hinsvegar meirihluti þeirra flokka sem höfðu á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja samninginn síðan undir þjóðaratkvæði. Þetta voru Samfylkingin, Borgarahreyfingin og Framsóknarflokkurinn.

Einmitt af því þessi síðarnefndi meirihluti var fyrir hendi var sá einn uppi fyrir VG að semja um aðildarumsókn í stjórnarmyndunarviðræðunum – enda ljóst öllum sem vildu vita Samfylkingin mundi ekki fara í stjórn og gæti ekki farið í stjórn án aðildarumsóknar. (Hér og hér má sjá hvað yðar einlægur sagði um þetta fyrir stjórnarmyndun en eftir kosningar).

Nú kann að vísu að vera að einhverjir Framsóknarmenn í popúlíska Sigmundararminum láti af fyrri stefnu til að freista þess að sprengja stjórnina – en slíka hentistefnu stjórnarandstæðinga eiga stjórnarliðar einmitt að standa af sér. Stóra stundin fyrir Ásmund Einar og aðrar frjálsræðishetjur í VG og víðar rennur upp þegar samninganefndin snýr aftur, og þjóðin á síðasta orðið.

Svo þarf að skipuleggja samningaviðræðurnar þannig að þjóðin eigi allskyns milliorð – að utanríkisráðherra, ríkisstjórn, samninganefnd og alþingi, jámenn og neimenn og kannskimenn, séu í stöðugu sambandi við hagsmunaaðila og áhugahópa í samfélaginu með upplýsingaflæði og samráði, meðal annars á skipulegum opnum fundum um allar hliðar máls. Með því móti verður lokakafli ESB-ferilsins einfaldari, sársaukaminni og markvissari, hvort sem þjóðin segir já eða nei.

Hugmyndin um að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn – sem hvergi hefur gerst í 21 umsóknarlandi frá 1973 til 2004 – hefur hér kviknað í þremur flokkum sem redding út úr ágreiningi og innanflokksvandræðum, fyrst hjá Framsókn, sem hætti við og vildi sækja um strax, svo hjá VG, sem hætti líka við þessa hugmynd í vor, og loks hjá Sjálfstæðisflokknum sem annars hefði líklega klofnað á flokksþinginu í mars þegar Bjarni var kosinn.

Hugmyndin er ekki góð – vegna þess að enginn veit hvað er verið að kjósa um, og vegna þess að ef umsókn yrði felld mundum við aldrei vita hvað hefði verið í boði. Galli á hugmyndinni er líka sá – bæði fyrir fylgismenn og andstæðinga aðildar en einkum fyrir þjóðina í heild – að niðurstaðan „já“ gæti veikt stöðu okkar í samningunum sjálfum. Það er einfaldlega ólíklegt að þjóðin samþykki fyrst að sækja um aðild og felli síðan sjálfa aðildarsamningana, og þetta vita þeir sem sitja hinumegin borðsins.

Annars er skemmtilegt að sjá einmitt þá sem aldrei hafa ljáð máls á almennri atkvæðagreiðslu borgaranna – um annað en hunda og brennivín – berjast svo hatrammlega fyrir hinu beina lýðræði að þeir vilja hafa það tvöfalt. Nánast þjóðaratkvæði um að hafa þjóðaratkvæði. Af hverju var þá, ágæti Sjálfstæðisflokkur, ekki hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin? Og hversvegna mátti alls ekki hafa flugvallaratkvæðagreiðsluna í Reykjavík? Af hverju var ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um EES á sínum tíma þrátt fyrir áleitinn stjórnarskrárvafa? Eða Efta enn fyrr? Og er úr vegi að spyrja Sjálfstæðismenn líka um herinn og Nató? þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla hefði haft mikið að segja fyrir sálarlíf þjóðar og stjórnmálamanna hvernig sem farið hefði. Hefði þá kannski átt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfa umsóknina eða viðræðurnar um EES, Efta, her og Nató? Um Icesave strax í nóvember og svo aftur í sumar?

Sannleikurinn er auðvitað sá að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla um þjóðaratkvæðagreiðslu er því aðeins í umræðunni að forystu Sjálfstæðisflokksins vantaði klæði til að bera á vopnin innandyra. Þeir tímar eru hinsvegar liðnir að leikslok í þjóðlífinu ráðist af vopnaviðskiptum í Valhöllinni við Bolholt.

„Fyrsta orðið“ átti þjóðin kosningunum í vor. Síðasta orðið á þjóðin líka – í atkvæðagreiðslu eftir aðildarsamningana – kannski haustið 2010. Þá skrifum við undir á Hrafnseyri við Arnarfjörð hinn 17. júní 2011, á tveggja alda afmæli hinnar djörfu sjálfstæðishetju og praktíska þjóðvinar, skjalavarðarins og íslenskufræðingsins Jóns Sigurðssonar.

😉

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Jóhann Guðmundsson

    Þessi orð, að enginn viti hvað kjósa skal um, skil ég ekki.

    2 umferðir.

    1. Kosið um hvort þingmenn eigi að fara í aðildarviðræður

    2. Kosið um hvort samþykkja skuli samninga, og ganga i ESB.

    Skil ég þetta rétt? Ef svo, þá skilja þetta allir.

  • Það er væntanlega bardagi við vindmyllur að benda þér á að það var ekki kosið um ESB í síðustu kosningum.

    En ef þú ætlar að halda því fram að svo hafi verið þá fékk ESB sama fylgi og Samfylkingin. Fólk kaus ekki Framsóknarflokkinn til að komast í ESB og fólk kaus ekki Borgarahreyfinguna til að komast í ESB.

  • Ómar Kristjánsson

    Þetta tvöfalda dæmi er svo vitlaust að það tekur því ekki að ræða það einusinni.

    Sjallar og frammarar bara að reyna að koma höggi á stjornina. Allt reynt náttúrulega. Meira ruglið.

    Drífa þetta bara af, setja ameríkurhraða á þetta, og senda umsókn í næstu viku eða svo.

  • Mörður Árnason

    Ha, Jens, var ekki kosið um ESB? Mig minnti það hefði verið eitt af helstu kosningamálum — þrjú frambOð Sammála um aðildarumsókn hið Bráðasta, eitt á móti aðild en Volgt fyrir umsókn, og eitt í Dellu og rugli út í allar áttir!

  • Íslendingar eru stundum ótrúlegir þvagheilar þegar kemur að stjórnmálum, og afglapar í allri aðferðarfræði…nema auðvitað þegar kemur að því að þvæla tittlingaskít marga hringi í malstraumi dálítillar fagkunnáttu og míga gegn vindinum til að koma stuðningsmönnum til að vökna hressilega um augun og knéfalla af aðdáun. Í þeim efnum eru þeir meistarar þó slík færni færi þeim svosem ekkert nema höfuðverk og flokk sem hefur ekkert nef fyrir hreinni sýn. Auk þess eru þeir staurblindir þegar kemur að hinu stóra samhengi hlutanna, en þeir geta svo sannarlega talað um samhengið og þuklað sig fram á hengiflug skynseminnar og látið bergmála í Miklagili sinnar tómu tunnu, lapið upp gamla frasa síðustu missera og spýtt þeim einsog dýrustu fræjum á flæðiengi gleymskunnar. Og þó þetta séu ekkert nema dauð orð mælt í eyru sofandi þjóðar, dásama helstu álitsgjafar okkar frjósemi slíkra samræðustjórnmála, en eftir sem áður þá hefur ekkert gerst… En um leð og öll sund virðast lokuð, málæðið horfist hafa málað sig út í horn, þá tekur einhver snillingurinn við sér, breiðir yfir sig sparilak og kemur spekingslega fram sem norðlenskur leikhúsdraugur, og segir: 2. umferðir – axlabönd og belti til dýrðar fjallkonunni. Allt svo við Íslendingar missum ekki af að horfa á gjaldmiðil okkar og sjálfsvirðingu teygja soðlopann fram í andlátið…

  • María Kristjánsdóttir

    Má þá skilja þetta sem svo að ekki hafi verið ætlunin að mynda stjórn um“norræna velferð“ heldur stjórn til að sækja um í ESB? Vinstri-Grænum hafi verið hótað og sé enn með því að Samfylkingin hlaupi bara yfir til Framsóknar og Finns ef ekki verði sótt um ESB?

  • Þorfinnur

    Auðvitað hárrétt. Um þetta var kosið, engin spurning. ESB var eitt helsta kosningamálið og sem slíkt vann það sigur.
    (það er hinsvegar alrangt hjá sumum stjórnarþingmönnum að halda því fram að það hafi verið „kosið um Icesave“, því engar slíkar umræður fóru fram fyrir kosningar, en látum það liggja á milli hluta hér)

    En ég vek athygli á því að hugmyndin um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja eigi um – hugmynd sem hentar ákveðnum flokkum en ekki fólki – ja, hugmyndin sú virðist smitandi, því nú hefur Birgitta í Borgó beilað út og hætt við að styðja málið.

    Hún sagði í ræðu í dag, svona a la Bjarnfreðarson, að fyrri afstaða sín hefði verið byggð á „einhverjum misskilningi“. Hún hefði nefnilega haldið að hægt væri að fara í „könnnunarviðræður“, svona til að „athuga hvað væri í boði“.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Mörður. Þú ert þá augljóslega sammála mér og fleirum að nýi Steingrímur J. og aðrir ESB vinir þingflokks Vinstri grænna hafa gerst sekir um gróf svik á kosningaloforðum til handa kjósendum sinna – ekki satt?

  • „Já, við viljum sækja um og leggja það í dóm þjóðarinnar.“
    (Birgitta Jónsdóttir í leiðtogaumræðum í Sjónvarpinu 26. apríl)

  • Guðmundur Gunnarsson

    Birgitta hefur komið vel til skila í fjölmiðlum að eftir því betur sem hún kynnt sér ESB málið, því sannfærðari er hún um að við eigum ekki að sækja um.

    Það getur gert sig að kynna sér málin vel áður en rokið er til að semja, eins og IceSave ruglið sýnir og sannar.

  • Magnús Steinar

    Hver er þessi NORRÆNA VELFERÐARSTJÓRN?

  • Ef Samfylkingin hefði viljað koma þessu ESB máli í gegnum þingið hefði hún átt að láta reyna á að ná lendingu með Framsókn og Borgarahreyfingu. Hún valdi að starfa með VG og situr því uppi með að hafa enga vissu fyrir því að fá ESB málið í gegn. Þetta hefur hún væntanlega gert vegna þess að hún vissi að hún fengi aldrei Icesave í gegn með Framsókn og Borgarahreyfingunni og án Icesave væri ástæðulaust að sækja um aðild að ESB. Þið völduð og verðið að taka afleiðingunum.

  • Norræn velferð er í ESB, að mestu leiti. Það vantar bara Ísland og Noreg. Önnur Norðurlönd eru í ESB, þá Svíþjóð, Danmörk og Finnland.

    Þannig að Norræn velferðarstjórn og ESB fara alveg saman.

  • Hvað þarf annars til að ESB taki umsókn alvarlega frá Íslandi með þverklofna ríkisstjórn og – í besta falli – nauman stuðning þingsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla upp á innan við 60% stuðning við umsókn mundi endanlega slátra málinu. Er það ekki málið?

  • Nákvæmlega, Mörður. Ég gæti ekki verið meira sammála.

    Það hefði líka mátt bæta við þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúka og fleiri mál. En auðvitað höfðu Sjálfstæðismenn nákvæmlega engan áhuga á slíku.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Össur á ekki orð vegna hneykslunnar á framferði Birgittu, og brýnir fyrir henni og Borgaraflokknum að þau verði að standa við kosningaloforð sín eins og allir stjórmálamenn geri sem vilja vinna sér inn traus og virðingu kjósendurna.

    Ætli kallinn stormi líka á fund Júdasar J Sigfússonar og þingflokks Vinstri grænna, til að brýna fyrir þeim að hafa rétt við og leika eftir leikreglum í pólitíkinni, og standa við kosningaloforðin eins og Birgitta á að gera? (O:

  • ég verð að segja mörður, að þegar birgitta kemur fram eða segir eitthvað um esb þá er það með viti,annað heldur en þið hinir segið eitthvað.

  • ég er ekki sammála össuri, ég veit ekki hvað maðurinn er fara,enda hefur hann þvælst milli flokka, … þvi miður gerir hann engum gagn, hann segir ekki orð um loftbóludrengina, ásamt steingimi j um hvað eigi að gera við þessa lotbóluræningja,nóg hafði steingrimur ha´tt eftir 1okt hann sagði við skulum ná þeim,ekkert hefur skeð nema talandi um esb, eitt er vist að þangað förum við ekki strax,það vill enginn okkur inn nema að við gefum allt frá okkur, og skriðum ínn í moldar kofana okkar aftur , þar sem við áttum heima einu sinni

  • Mörður Árnason

    Æi, Guðmundur sífelldi Gunnarsson, þetta verður að vera í síðasta sinn (og fyrsta, sem betur fer) sem maður er kallaður Júdas á minni síðu. Það er utan við tilhlýðilega kurteisi — en einkum skelfilega bjánalegt.

    Annars var minn pistill ekki um Birgittu — en ég sé ekkert athugavert við að benda á að afstaða hennar er ekki í samræmi við stefnu Borgarahreyfingarinnar fyrir kosningar, sem meðal annars má sjá í grein eftir Þór Saari alþingismann frá 24. apríl, sem hefur legið í hálfan þriðja mánuð á heimasíðu framboðsins:

    ,,Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildarsamningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllun í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf. Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.“

    (http://www.borgarahreyfingin.is/2009/04/24/thor-saari-esb-og-kjarkleysid/)

    Auðvitað getur Birgitta skipt um skoðun en hún á þá að viðurkenna það þegar nýja skoðunin er þvert á stefnu framboðsins. Þessi afstaða Borgarahreyfingarinnar — að sækja um aðild og kjósa svo um samninginn — var ein af forsendunum fyrir ágætu fylgi flokksins í kosningunum í vor, sem meðal annars skilaði Birgittu inn á þing. Mér finnst fínt að hafa hana þar, hún talar mannamál og eykur breiddina — en hún hefur ekkert siðferðilegt sérleyfi gagnvart kjósendum sínum og almenningi.

    Birgitta hefur einfaldlega ekki skýrt umskipti sín í ESB-málinu á þann hátt að hægt sé að taka mark á því. Ég ætla ekki að kalla það eitt eða neitt — en þannig er það bara.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Æi Mörður minn. Afskaplega er erfitt að vera Samfylkingarmaður þessi misserin. Má bæta orðinu spilling fyri aftan Sam – nafnið, eða er draumaveröld Norður Kóreu þér það kær að þér hugnast að ritskoða netið eins og Steingrímur J. vinur þinn vildi endilega gera á sínum tíma og er gert i Norður Kóreu?

    Nafnið Júdas er mannsnafn og má ma. finna í Biblíunni sem er líka bönnuð í Norður Kóreu.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    PS. Það væri samt athyglisverðara að fá að vita skoðun þína á stórkostlegum svikum Steingríms J. við alla kjósendur Vinstri grænna vegna þess að þau treystu honum og flokknum að standa við stóru kosningaloforðin, eins og að hafna alfarið ICESAVE samningnum, inngöngu í ESB og samvinnu við AGS.

    Segist hugur að Steingrímur J. eigi eftir að verða dæmdur mun harðar af sögunni, fyrir að ræna kjósendum heilögum rétti sínum til að hafa áhrif á þjóðmál, öll þau gýfuryrði sem menn hafað láti falla um hann fyrir svikin og þeir sem þau sögðu.

  • Nýi Dexter

    Starfsmenn AGS fullyrða að sjóðurinn hafi veri Misnotaður af bretum og hollendingum til að þjarma að íslendingum. Hvað segirðu um það Mörður?

  • Íslensk pólitík getur verið ömurleg og sannast það þessa dagana. Sjálfstæðismenn gera sitt besta til að leika einhverskonar íslenska fjalldala- talibana í þeirri von að komast inn í kerfið aftur og geta tekið til við að hylja slóð sína. Þykjast hafa áhyggjur af kostnaði við samningana, fólkið sem gleðst nú við hvern milljarðinn sem ríkið neyðist til að setja inn í íhaldsfyrirtækin. Þeim þótti ekki slæmt er afskrifaðir voru rúmir 3 millj. til að geta komið Mbl. í hendur útgerðaraðalsins og nú er það SJÓVÁ og hvernig var með tvö til þrjúhundruð milljarðana sem spreðað var til að bjarga ríka fólkinu út úr peningamarkaðssjóðunum.
    Þeir vita sem er að tætingsliðið með ímyndaða hugsjónahitann er til alls víst, kennir sig við vinstri og grænt, en er náttúrulega hvorugt og hefur ekki minnstu hugmynd um hvað raunsæi er. Þau lifa í þeirri trú að peningar þjóðarinnar verði til hjá ríkissjóði og þó ekki væri nema fyrir þá sök, er aldeilis alveg frábært að Steingrímur skuli vera fjármálaráðherra.
    Þau verða að fara að átta sig á að íslenska þjóðin er á hausnum, aðallega fyrir stjórnkænsku Sjálfstæðis og Framsóknarflokkkanna og ef VG- ingar taka sig á og koma fram af ábyrgð, þá gætu þau leikið stórt hlutverk við að byggja upp nýtt Ísland. Vonandi bera þau gæfu til þess.

  • Sigursteinn Másson

    Í upphafi var orðið…og hvað er orðið af því?

    Ef Alþingi leitaði lausna og staðreynda í stað gilda og sérhagsmuna værum við ekki í þeim sporum sem við erum í.

  • Þegar ég kaus þá var ég að kjósa þann flokk sem vill fara inn í ESB. Þannig að það er ekki rétt að ekki hafi verið kosið um þetta í kosningunum í vor. SF er stærsti flokkurinn einmitt vegna þess að þeir settu ESB á oddinn.

    Allt tal um annað er bara vitleysa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur