Miðvikudagur 15.07.2009 - 09:28 - 21 ummæli

Venjulegur stjórnmálaflokkur í venjulegri stjórnarandstöðu

Hvað er meira gamaldags í pólitík en að taka eitt mál í gíslingu til að ná fram vilja sínum í öðru máli? Og hvað er meiri hentistefna í pólitík en að finna sér á nokkrum dögum tylliástæður til að skipta um margyfirlýsta afstöðu í stórmáli til að koma andstæðingum sínum illa og vekja á sér athygli?

Hver stundar svona pólitík? Gömlu refirnir í fjórflokknum? Kannski.

Allavega ekki fólkið með geislabauginn úr Borgarahreyfingunni, eða hvað:

,,Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildarsamningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf. Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.“ — Þór Saari 24. apríl 2009.

En nú er þetta breytt. Kannski betur heima setið en af stað farið: Það tók ekki nema tæpa þrjá mánuði fyrir hreyfingu fólksins af Austurvelli að verða að venjulegum gamaldags stjórnmálaflokki í stjórnarandstöðu.

Sic transit gloria mundi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • María Kristjánsdóttir

    Það vantar S í transit -að minnsta kosti var okkur Svavari kennt það þannig af Magnúsi í menntó.

    Og annars: Borgarahreyfingin á ekki búsáhaldabyltinguna- það sagði kona nokkur, þéttingsreið, við mig í gær.

  • já…nokkuð ljóst að þau eru að taka upp siði fjórflokkana og þar er enginn undanskilinn.

  • Mörður Árnason

    Takk, María, transit, þannig lærði ég það líka, af trans (gegnum) + ire (fara). Hérmeð leiðrétt. Og hitt er líka rétt, með fullri virðingu fyrir ágætu fólki í Borgarahreyfingunni: Það á enginn búsáhaldabyltinguna.

  • Hörður Tómasson

    If you can’t beat them, join them.
    Sæll Mörður.
    Eitt skil ég ekki (reyndar er margt sem ég skil ekki, en tökum eitt fyrir í einu).
    Hvernig ætlar samfylkingin að fá þjóðina til þess að samþykkja inngöngu í ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vegna þess að ég er ekki að sjá það að þetta verði samþykkt. Einhvervegin held ég að ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður núna, yrði það kolfellt, og engar aðildarviðræður myndu eiga sér stað. Og það sem meira er, ég held að þið samfylkingarfólk gerið ykkur fullkomlega grein fyrir þessu og það er ástæðan fyrir því að þið viljið ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. En hvers vegna haldið þið að það verði eitthvað auðveldara að fá fólk til að samþykkja inngöngu í ESB eftir aðildarviðræður, ef fólk er ekki einu sinni tilbúið að samþykkja aðildarviðræðurnar. Það væri gott að fá svar við því.

  • Krónan er dauð – STEINDAUÐ! Við verðum að fá annan gjaldmiðil. Allir vita þetta. Langflestir vita að við þurfum að stefna að því að taka upp Evru og það sem fyrst. Til þess þurfum við að aðlaga okkur að þeim aðstæðum sem ES krefst en það eru m.a. LÁGIR VEXTIR – LÁG VERÐBÓLGA OG FAGLEG VINNUBRÖGÐ HVAÐ VARÐAR FJÁRMÁLASTARFSEMI SEM STUÐLAR AÐ STÖÐUGLEIKA!
    Hver vill það ekki?

  • Blandarinn

    Þetta er ekki að taka mál í gíslingu , þeta eru tengd mál.

  • Það skipta flestir flokkar um skoðanir þegar skoðunin þeirra hentar ekki lengur, t.d. var Samfylkingin mjög hörð á því þegar hún var í stjórnarandstöðu að það ætti að taka okkur af lista þeirra þjóða sem studdu Íraks stríðið, en um leið og hún fór í stjórn með xd þá harmaði hún að við værum á listanum, en við erum enn á listanum.. Eins voru vinstri grænir gjörsamlega á móti evrópusambandinu en núna hentar það ekki því það gæti fellt stjórnina.. Þetta er allt saman bull, allir þessir flokkar, gráðug svín..

  • Já Alda það er sami sitjandinn undir þeim öllum saman.

    Eitt af því fáa jákvæða sem ég sé við umbrotin síðustu 2 ár er afhelgun nýju flokkanna sem margir héldu að væru á hærra siðferðilegu plani en x-D og x-B

    Það er vel að þeirri mýtu sé komið frá – þá er kannski von til þess að næsta kosningabarátta verði háð um málefni án þess að helmingur framboðanna séu álitin siðferðilega verri.

    Að auki er gaman að fylgjast með Borgarahreyfingunni taka við keflinu af Framsókn og verða að aðalskotspónn hinna kjaftandi stétta

  • Mörður! Ein af forsendum þeirra sem telja okkur geta staðið við IceSave samninginn er að hér verði ennþá íslensk króna að 15 árum liðnum. Ekki bara íslensk króna heldur veik íslensk króna. Hvernig rímar þetta við stefnu Samfylkingarinnar um að með umsókn um ESB verði lagður grunnur að nýrri peningamálastefnu og upptöku Evru ?

  • Mörður Árnason

    Hörður — Þjóðin á síðasta orðið, og þeim dómi á að hlíta, enda liggur þá fyrir samningur sem hægt er að taka afstöðu til. Það er ekki núna.

    GVald — Krónan er ekki forsenda Icesave-samningsins. Gengi ræður miklu um lokaupphæðina, einsog heimtur Landsbankafjárins og hagvöxtur á Íslandi. Reyndar er betra fyrir okkur gagnvart þessum skuldum að gengið hækki. Upptaka evru hefur engin úrslitaáhrif á Icesave, sérstaklega ekki ef lokagengið í gjaldmiðilsskiptunum er sæmilega miklu hærra en núna. Svo er rétt að muna að lánið er bæði í evrum og pundum. — Almennt batnar einmitt staða okkar við nýja peningamálastefnu og upptöku evru, sem hjálpar okkur að borga allar skuldirnar (en af þeim er Icesave-dæmið því miður bara tiltölulega lítill partur!).

  • Mörður betra ef satt væri. Þú hefður nú alveg getað blaðað í gegnum skýrslu Seðlabanka Íslands um IceSave áður en þú svaraðir.

    Í þeirri skýrslu er gengið út frá að hér sé króna allavega til 2018 og að raungengi hennar verði 0,8 sem er svipað og núna – allan tímann.

    Til þess að tryggja gjaldeyristekjur á tímabilinu er líka gert fyrir svipuðu ástandi á Íslandi og verið hefur undanfarið. En allir vita að hér er stöðnun ef ekki afturför í efnahagslífinu. Hér eru okurvextir, engar fjárfestingar, mikið atvinnuleysi og sáralítill innflutningur. Þetta ástand er forsendan sem Seðlabankinn gefur sér.

    Er þetta í takt við stefnu Samfylkingarinnar í efnahagsmálum ?

  • Hörður Tómasson

    Þegar samfylkingin er uppvís að því að halda skýrslum frá háskóla íslands leyndum fyrir alþingismönnum, þannig að þeir geta ekki tekið upplýsta ákvörðun, hvernig eigum við að trúa því að samfylkingin muni veita almenningi allar upplýsingar svo að við getum tekið upplýsta ákvörðun?

  • Mörður Árnason

    GVald — Ekki er gott að rugla saman reikningsforsendum Seðlabankans og framtíðarstefnu í peningamálum. Þessi athugasemdadálkur er kanski ekki besti vettvangurinn fyrir þá umræðu, en hér er nýja skýrslan frá seðlabankanum um Icesave:

    http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=2186

    og hér nokkrar af meginniðurstöðunum:

    ,,Þjóðarbúið verður fyllilega fært um að standa undir Icesave-samningunum. …

    Með áætluðu 75% endurheimtuhlutfalli á eignum Landsbankans, skynsamri hagstjórn og talsverðum afgangi af vöruskiptum á tímabilinu 2009-2018 eykst enn geta þjóðarbúsins í þessu efni. …

    Með því að hækka neðra þrep virðisaukaskatts úr 7% i 7,88% og það efra í 24,5% í 27,57% og leggja skatttekjurnar til hliðar, safnaðist viðlíka upphæð á lánstímanum og sem nemur Icesave-skuldbindingunni. Þetta dæmi er einungis til skýringar og ekki ber að skoða sem tillögu. …

    Matsfyrirtækjunum þremur hefur verið kynnt megininntak Icesave-samninganna. Ljóst er að bæði Moody’s og Fitch hafa sagt opinberlega að þeir telji að samningarnir séu jákvæðir að því leyti að þeir eyði ákveðinni óvissu um stöðu innlendra efnahagsmála.“

    Annars var ég ekki að skrifa um Icesave — en það leiðindamál allt herðir mjög á því að við náum góðum aðildarsamningum við ESB.

  • Mörður spurningin mín í upphafi fjallaði um peningamálastefnuna og upptöku Evru. En hún er hornsteinn í röksemdafærslu þeirra sem sækja það sem fastast að sækja um aðild í dag. Til að fyrirbyggja misskilning þá hef ég verið fylgjandi aðild að ESB.

    Forsendur Seðlabanks sem þú kýst að kalla „reikniforsendur“ gera ráð fyrir krónu allan endurgreiðslutímann og ríma því ekki við málflutning þeirra sem breyta vilja peningamálastefnunni og taka hér upp Evru.

    Það er því mótsögn í stefnu Samfylkingarinnar og forsendum Seðlabankans þegar hann segir okkur geta staðið undir IceSave samningnum. Það er ekki hægt að gera hvortveggja: að sækja um aðild og taka upp Evru og að standa við IceSave.

    Þarna verða menn að velja og hafna, spurningin er því hvort ætlar Samfylkingin að velja nýja peningamálastefnu og upptöku Evru eða að standa við IceSave ?

  • Mörður Árnason

    Hvort tveggja! kæri GVald — í því er engin mótsögn. Og engin rök fyrir því í Seðlabankaskýrslunni.

  • Hver sagði svo að Framsókn væri opin báða enda?

    Takk fyrir skemmtunina ég hló mig máttlausan 🙂

  • skattmann

    er nýji flokkurinn ekki bara að læra hvernig kaupin gerast á Alþingiseyrinni.
    Ef þið fáið þetta, þá vill ég eitthvað annað á móti.

    Stjórnmálamenn verða sjálfir að geta horft í augun á almenningi og sagt að þeir stundi ekki slík vinnubrögð áður en þeir eða þær fara að hallmæla öðrum fyrir það sama.

  • Mörður, Skipta um skoðun er því miður vitra manna val. Ég vildi mjög gjarna heyra frá Borgarahreyfingunni hvers vegna þeir skiptu um skoðun, kannski var það viturlegt.
    Hvers vegna hins vegar skipti Samfylkingin um skoðun varðandi Fagra Ísland, eða er það kannski smekksatriði þannig að álvinnsla er að ykkar mati partur af Fögru Íslandi.
    Hvernig stendur á því að fólki er talin trú um að það sé krónunni að kenna að gengið er óstöðugt og veikt, það er ekki hægt að kenna skóflunni um ef grafinn er vitlaus skurður.
    Það er ykkar ábyrgð að byggja upp heilbrigt atvinnulíf, nýta lágt gengi til þess að byggja upp útflutning og ferðaiðnað. Ef það væri focusinn hjá ykkur væru þessi vandamál á annarri leið en nú er raunin á.

  • Enemy of the state

    Mörður

    Ljóst er að bæði Moody’s og Fitch hafa sagt opinberlega að þeir telji að samningarnir séu jákvæðir að því leyti að þeir eyði ákveðinni óvissu um stöðu innlendra efnahagsmála.”

    er ekki svoldið stjúpit að vera að vitna í fyrirtæki sem gáfu íslensku bönkunum AAA í einkunn

  • Ágæti Mörður.

    Gæti ekki verið nærtækara fyrir þig að nota fyrirsögnina:

    „Samfylkingin er bara ósköp venjulegur stjórnmálaflokkur í sinni þriðju ríkisstjórn?“

    Til þess benda allavega störf hennar í stjórn stórasta hrunsins sem og í tveimur eftirhrunsstjórnum. Blekkingar og leynimakk gagnvart þjóðinni munu koma í koll þeirra sem þeim beita.

  • Ég er reyndar þeirrar skoðunnar að ef ESB málið fellur eigi Samfylkingin að fara í stjórnarandstöðu.

    Það er órjúfanlegur hluti í endurreisnaráætlunar flokksins að sækja um aðild ESB og taka upp Evru.
    Það hafði mikil áhrif á það að ég kaus Samfylkinguna. Ég hef ekki séð neitt annað í þeim efnum sem ég tel trúverðugt.

    Hvernig verður atvinnulífið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og húsnæðismarkaðurinn með krónuna og verðbætur um ókomin ár….

    Ríkið þarf að borga erlend lán með verðlausum krónum….

    Ég er stórlega efins um að ég vilji búa við þessar aðstæður né bjóða börnunum mínum upp á þetta…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur