Fimmtudagur 16.07.2009 - 14:24 - 12 ummæli

Það tókst!

Það var naumt – en það tókst! einsog Dóra segir í barnasjónvarpinu. Naumt um tillögu Bjarna og Þorgerðar, en þegar þingmenn hættu að deila um form og þurftu að taka afstöðu til málsins sjálfs voru tölurnar aðrar, enda er veruleg samstaða um umsókn bæði meðal stjórnmálamanna og í þjóðarsálinni.

Nú verður farið strax af stað, og það er mikilvægt að sem allra flestir taki þátt í samningunum, með ráðslagi, í umræðu, með rannsóknum og kynningu. Ef vel tekst til getur umsóknarferlið orðið einn helsti hornsteinn endurreisnarinnar – ef við höfum ekki bara undir efnahagsstærðir og peningarök heldur lítum líka í spegil og skoðum sjálfsmynd okkar, gildi og  vegferð undanfarin ár. Ég er ekkert sérlega hrifin af frammistöðu Birgittu Jónsdóttur þessa dagana, en eitt sagði hún gott í frægri ræðu um ESB-umsókn, að við ættum ekki bara að horfa á það sem við getum fengið út úr Evrópusambandinu heldur athuga líka það sem við höfum fram að færa.

VG – efnir loforð annarra

VG hefur auðvitað verið í undarlegri stöðu í þessu blessaða umsóknarmáli. Umsókn var ákveðin við stjórnarmyndunina – í ljósi þess ekki síst að upp úr kjörkössunum kom þingmeirihluti með umsókn. Þrjú framboð höfðu haft umsókn á stefnuskránni, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin, og allir vissu um verulegan áhuga hjá mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þegar þetta fólk hljóp mestallt frá til að reyna að fella stjórnina frekar en bjarga landinu – þá reyndi á vinstrigræna sem nánast þurftu að taka að sér að efna kosningaloforð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Þórs Saari og félaga í gömlu góðu hentistefnunni.

Þeir sem stóðust þessa raun í VG eru menn að meiri, en það má heldur ekki gleyma þeim Framsóknarmönnum og Borgurum sem ákváðu að orð skyldu standa: Guðmundi, Siv, Þráni og Birki Jóni. Í þessum hópi er líka einn Sjálfstæðismaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir. 

Því miður snerust þessar atkvæðagreiðslur ekki nema að litlu leyti um Evrópusambandið og þjóðarhagsmuni Íslendinga heldur um flokkana og um ríkisstjórnina. Og vegna þess að forystumenn stjórnarandstöðunnar ákváðu að sækja að ríkisstjórninni vann hún í dag góðan sigur, sem gæti átt eftir að reynast henni afar mikilvægur. Björninn er þó ekki unninn fyrr en Icesave-málið er í höfn í næstu viku.

Þjóðarhagur, ekki fjölskyldurifrildi

Fyrst og fremst er dagurinn í dag – 16. júlí 2009 – merkisdagur í þjóðarsögunni. Það er hafinn fyrsti áfangi í ferð sem gæti skapað okkur nýjan grunn í efnahagslífi, alþjóðamálum, menningarefnum.

Við höfum aldrei verið afar samferða Íslendingar, og hver stórákvörðunin af annarri hefur hér verið tekin eftir hávaðarifrildi með svartagallsrausi, svikabrigslum og heimsendaspám. Upphaf ESB-umsóknarinnar varð engin undantekning, og kannski er þetta bara þjóðarsálin með góðu og illu.

Reynum nú samt að vanda okkur í framhaldinu, gleyma öllu svekkelsi og standa saman. Nú verða fjölskyldurifrildin að víkja fyrir þjóðarhag: Næstu missirin erum við á stóra sviðinu. Svo kjósum við öll um famtíðina.

Til hamingju.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Sömuleiðis til hamingju. Þetta er góður dagur.

  • Jón Ottesen

    Allveg eru það furðuleg skrif að hampa VG fyrir að svíkja kosningaloforð og lasta B og O fyrir að gera það sama, nánast í sömu setningunni.

    Ef einhver flokkur er með hentistefnu þá er það VG. Þar sem þeir hafi svikið nánast hvert einasta kosningaloforð sem einhverju skiptir.

  • Menn skyldu merkja þennan dag í sögubókunum, því í dagurinn í dag markar uppið á endalokum Íslands sem fullvalda ríkis.

    Ég óttast það mikið að málinu verði „nauðgað“ í gegnum þingið í krafti þess að menn eru veikir fyrir völdum og ráðherrastólum, allveg burt séð frá því hver vilji þjóðarinnar verður.

    Af hverju óttast ríkisstjórnin það að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi?

    Ef ríkisstjórnin er svona viss um vilja þjóðarinnar, þá ætti að boða til Alþingiskosninga þegar samningurinn liggur fyrir, og láta nýtt þing afgreiða hann. Ef ríkisstjórnin hefur ekkert að óttast ætti þetta ekki að vefjast fyrir henni. Þá kæmi raunvörulegur vilji þjóðarinnar í ljós.

  • Ómar Kristjánsson

    Já, það tókst – og það tókst að stöðva Nappa ref !

    Þetta er bara frábært.

    Tja, einna helst hægt að finna að lélegri leiksýningu sjalla. Var svo illa leikið og ósannfærandi að furðu sætir að þeir skyldu setja stykkið á svið.

    Annars fannst mér þetta fyndnasta setingin sem sögð var: „Þetta er ógeðslegt“ hahaha get enn hlegið að þessu.

  • Þorfinnur

    Já, ég hafði reyndar spáð 34-29 á á fésbókinni í gær, en niðurstaðan sú sama. Ekki hvarflaði að mér að tveir þingmenn myndu sitja hjá í svona stóru máli.

    Karpið um þjóðaratkvæðagreiðsluna var sýndarveruleiki. Auðvitað vita allir – líka þeir sem hæst töluðu – að þjóðaratkvæðið verður fullkomlega bindandi. Það hafa allir lýst því yfir að þjóðaratkvæði verður virt að fullu og í raun er enginn alvöru ágreiningur um það.

    Það vita líka allir – ekki síst flutningsmenn tillögunnar – að tillagan var aðeins sett fram til að knýja fram nýjar þingkosningar. Og þessvegna var hún ekki samþykkt.

    Og svo vita allir þingmenn – en afskaplega fáir virðast muna – að þeir sem hæst töluðu í dag um skýrari þjóðaratkvæðagreiðslu voru þeir sömu og komu í veg fyrir að lög yrðu sett um þjóðaratkvæðagreiðslur í vor. Eru allir búnir að gleyma því?

    Var svo ekki bara ágætt að hinn óvænti viðsnúningur Borgara skipti engu máli?

  • Svartur dagur fyrir Ísland. Svikafylkingin (Samfylkingi) ætlar að svíkja Ísland inn í ESB með lýðskrumi um að allt verði miklu betra hér á landi við aðild.
    Þetta mun verða dýrt spaug fyrir landið og dýru verði keypt fyrir Samfylkinguna.

  • Loksins loksins, er glöð í dag. Í fyrsta sinn frá hruninu.

    Til hamingju Ísland.

  • Já, Dóra og Klossi eru magnað tvíeyki.

  • Úlfar Guðmundsson

    Hamingjudagur
    Ég segi hamingjudagur ekki vegna þess að við erum að sækja um ESB (sem ég er á móti) heldur vegna þess að með lýðskrumi hefur Samfylkingin náð að þvinga þingið til þess sækja um. Hamingjudagur vegna þess að eftir 2 ár þegar Össur kemur heim með samning sem ÞJÓÐIN mun hafna. Mun Samfylkingin skammast sín fyrir að reyna bjóða þjóðinni uppá slíkt. Grundvallar hugmyndarfræði Samfylkingarinar það sem hún byggir allt á mun brotna niður í litla mola sem fjúka mun út á haf og ekki koma aftur í bráð. Ég sé þetta í framtíðinni, loksins munum við geta losnað við þessa bölvuðu hugmyndafræði því að þjóðin mun segja skýrt og hátt að hún vil ekki það sem Samfylkingin hefur verið að söngla svo lengi. Hamingjudagur sem mun einungis kosta okkur milljarð.

  • Sigurður #1

    Er eitthvað eftir fyrir VG að svíkja?

    Hafa þeir ekki örugglega svikið allt sem þeir lofuðu kjósendum sínum?

    Ætli kjósendur VG séu sáttir við hvernig viðstöðulaust hefur verið logið að þeim?

    Ætli kjósendum Vg finnist þeir vera að fá það sem þeir kusu?

    Skiptir einhverju máli hverju VG lofar, eða setur í næstu stefnuskrá fyrir kosningar?

    Verða þau loforð einhvers virði?

    Hverju ætlar VG að svara í næstu kosningabaráttu þegar þeir verða spurðir hvort eitthvað sé að marka loforð þeirra og stefnu miðað við síðustu kosningar?

    Held að flokkurinn allur sé búinn að vera eftir daginn í dag, ekki bara steingrímur reykás.

  • Rökkvi, ríkisstjórnin óttast ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Ríkisstjórnin hafð full áform um að atkvæðagreiðslan yrði bindandi og lagði þess vegna fram breytingu á stjórnarskránni fyrir kosningar.

    en það voru sjálfstæðismenn sem fóru GEGN þeirri tillögu og hótuðu málþófi framyfir kosningar, ef það væri það sem þyrfti til að hindra því frumvarpi framgöngu.

    Hvað breyttist – annað en að þeir sáu leið til þess að tefja málið frekar?

  • Rétt hjá þér mörður, það tókst. Það er rétt orðað. Þessi tillaga sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi yfir höfuð að fara í aðildarviðræður, sem allar líkur eru á að sé ekki meirihluti fyrir, hún var felld með minnsta mögulega mun. Einn þingmaður hefði þurft að kjósa með tillögunni og hún hefði verið á jöfnu. Það voru þingmenn úr öllum flokkum nema samfó sem kusu með tillögunni.

    Þetta er í raun stórsigur fyrir sjálfstæðisflokkinn. Fyrir rúmum þremur mánuðum þegar landsfundur sjálfstæðisflokksins fór fram og þessi tillaga kom fyrst fram, þá var hún talin galin og engar líkur á að hún myndi verða samþykkt á fundinum. Flestir fjölmiðlar (sem eru játtúrulega í höndum vildarvina samfó) voru helst á því að aðildarumsókn yrði samþykkt. Það reyndist ekki. Þannig verður að segja að þessi tillaga sýnir svo ekki verður um villst að stjórnarflokkarnir eru á mjög hálum ís með þessa aðildartillögu. Ekki þarf mikið að gerast svo allt springi í loft upp á stjórnarheimilinu.

    Það væri nú gaman að fara að sjá skoðanakannanir aftur. maður er eiginlega farinn að sakna þeirra. einhverra hluta vegna hafa þær legið í láginni undanfarnar vikur. Síðast þegar ein birtist hafði fylgið tæst af stjórninni. Þó hefur hún lítið gert í málunum og enn eru ljót mál og óvinsæl sem stjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um og á líklega eftir að reyna á samstarf þessara tveggja flokka sem eiga svo lítið sameiginlegt annað en að halda sjálfstæðisflokki utan stjórnar. Svoleiðist politík er ekki líkleg til árangurs.

    Steingrímur J. er að sigla inn í eitthvert hlutverk sem einn nöturlegasti fjármálaráðherra síðan Ólafur Ragnar stýrði því ráðuneyti. Það þarf náttúrulega að moka heilan forarpytt til að komast nálægt hans verkum, en steingrímur er á leiðinni þangað. Hann er líka að bíta af sér mikið af því fólki sem kaus hann með því að ganga á bak orða sinna aðeins nokkrum dögum eftir kosningar.

    Ég er ekki viss um að þér verði að ósk þinni mörður um að fólk leggi nú sína stríðsexi inn í gamalt fréttablað eða kannski dagblað frá ritsóðanum frá flateyri. Mér segir svo hugur að ballið sé rétt að byrja. Það hefur ekkert verið gert síðan efnahagur landsins hrundi, ekki neitt. Allt fólkið sem gekk hér um ruplandi og rænandi hefur enn ekki skilað þeim fjármunum sem það tók, ófrjálsri hendi. VG eru ekki að efna loforð sín við kjósendur. Mikill niðurskurður er fyrirsjánalegur. Mál eins og kvótaniðurskurður, sem hefði einhvern tíma verið stórfrétt er nú varla nefndur, en á eftir að taka í.

    Að þessu sögðu held ég að það sé of snemmt að skála of mikið á ölstofunni í kvöld.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur