Mánudagur 20.07.2009 - 14:43 - 8 ummæli

Góðar fréttir

Einhverntíma hefðu manni ekki fundist það féleg tíðindi að tveir af þremur helstu bönkum Íslendinga væru á leiðinni í erlenda meirihlutaeigu. Lengi skal manninn reyna …

Góðar fréttir af bönkum

… en þetta eru sannarlega góðar fréttir, að erlendir kröfuhafar gangi líklega til samninga um að breyta kröfum sínum í hlut og eignist meirihluta í Kaupþingi og Íslandsbanka. Þar með leita þeir arðs í íslenskum atvinnurekstri í staðinn fyrir að heimta mat sinn strax og engar refjar – hitt skiptir ekki síður máli að með þessu hefðu öflugir aðilar í öðrum löndum skyndilega beinan hag af endurreisninni og viðgangi íslenskra fyrirtækja. Vera má að náin kynni sem með þessum hætti fengjust af atvinnulífi hér gætu leitt til frekari erlendra fjárfestinga í öðrum rekstri en hinni eilífu stóriðju. Ef þetta gengur upp væru það líka góðar fréttir að til áhrifa komist í íslenskum bankaviðskiptum menn sem fyrst og fremst hafa áhuga á að reka fjármálafyrirtæki á Íslandi en ekki að eignast hálfan hnöttinn og komast á forsíðuna hjá Forbes.

Það skiptir auðvitað miklu að þetta séu almennilegir venjulegir kapítalistar. Við viljum enga vogunarvíkinga.

Það er líka góð niðurstaða í bili að einn bankanna verði áfram í höndum ríkisins. Reyndar virðist orðinn þokkalegur samhljómur um að það liggi ekki á fyrir ríkið að losa sig við hlutafé í bönkunum, jafnvel þótt allt fari á besta veg. Fyrir kemur þrátt fyrir allt að menn læra af reynslunni.

Góðar fréttir af ESB 

Einsog meirihluti að baki ESB-umsókn sýnir.

„Góðar“ fréttir af Icesave? 

Svo er Icesave-málið erfiða á dagskrá í vikunni. Þeir Ragnar Hall og Eiríkur Tómasson hafa gert við samningana athugasemdir sem stendur upp á stjórnvöld að svara, en okkur sem ekki höfum próf í gjaldþrotarétti finnst í svipinn heldur ólíklegt að íslenska samninganefndin hafi verið svona vitlaus og „samið af sér“ eins og þeir félagar halda fram.

Að þeim málum slepptum hef ég ekki sömu trú á því og félagi Guðbjartur Hannesson að stjórnarandstaðan fáist til að styðja Icesave-frumvarpið, jafnvel með einhverjum fyrirvörum. Þar hafa menn einfaldlega tekið þá ákvörðun að vera á móti, og fyrir utan augljósar efnislegar ástæður – því þetta hefur aldrei verið einfalt – finnst þeim Bjarna og Sigmundi Davíð þægilegast næstu ár að vera alsaklausir af þessum leiðindum. Það verður þá svo að vera. Hinsvegar er sjálfsagt að alþingi hafi skoðun á málinu og það gæti styrkt málstað okkar síðar meir að alþingi féllist á ríkisábyrgð fyrir sitt leyti með sérstakri tilvísun til hinna sameiginlegu viðmiða sem ýmsum finnst vanta í samningstextana og voru forsenda samningsgerðar af hálfu alþingis í nóvember.

Athugasemdir, skilyrði, fyrirvarar, eða hvað menn vilja kalla það – þetta er allt til bóta meðan ekki er hætta á að sjálfir samningarnir spillist. Það má ekki gerast. Björgunarstörf og upphaf endurreisnar hafa tekið miklu lengri tíma en nokkur hélt, og enn bíða úrlausnar fyrirtæki og heimili. ESB fyrir helgi og bankarnir nú eru góðar fréttir. Nýir tímar á leiðinni. Höldum því striki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Er ekki skrýtið að leynd hvíli yfir hverjir kröfuhafarnir séu?
    Ef ég man rétt þá eru stærstu kröfuhafarnir stöðutökurotturnar.
    Það er alltof mikil halelúja söngur í kringum þetta sem og að Sjallarnir og framsókn þegja yfir þessum gjörning ríkisstjórnarinnar. Það þýðir að þeirra umbjóðendur eru að græða á þessu.

  • Getur þú útskýrt fyrir mér hvernig það stenst að hægt sé að einkavæða bankana án þess að ræða það á Alþingi. Hvernig getur þú talið það góðar fréttir að nýjum glæpamönnum séu fengnir bankarnir með fullri ábyrgð ríkisins, án þess að ríkið fái einu sinni brot af því sem það gaf fyrir bankana? Er að vænta að þingið verði heldur ekki spurt þegar sama verður gert við orkufyrirtækin, sjúkrahúsin og háskólana?

  • Af hverju eru þeir sem eru á móti ómálefnalegir að þínu mati en þeir sem eru með málefnalegir? Þú segir að þar hafi menn „einfaldlega tekið þá ákvörðun að vera á móti“. Hver er munurinn á því og afstöðu stjórnarliða, sérstaklega Samfylkingar að hafa einfaldlega „tekið þá ákvörðun að vera með“?

    Er að þínu mati óhugsandi að samninganefndinni hafi orðið á mistök?

  • Nýi Dexter

    Amerískir Björúlfar.

  • Held að væri forvitnilegt áður en við halelújum mikið meira, að fá að vita
    hverjir þessir aðilar eru. Vonandi skripla menn ekki á skötunni í þessu
    máli. Það vekur hins vegar eðlilega tortryggni í samfélagi sem hefur orðið vitni að endalausu pukri að spilin skuli ekki löggð á borðið.

  • Er þetta kampavín frá Argentínu?

  • Ég því miður get ekki tekið undir fagnaðarlætin m.v. þær upplýsingar sem við almenningur fengið. Mér finnst allt of mörgum spurningum ósvarað í þessu máli. Og enn og aftur klikka fjölmiðlar á að greina málið og spyrja réttra spurninga.

  • Hverjir eru að kaupa bankana? Myndir þú selja húsið þitt án þess að vita hver kaupandinn væri? Ríkið tók yfir bankanna sl. haust og ríkið er einfaldlega við almenningur. Við viljum vita hverjum við erum að afhenda okkar eignir!

    Sanngirni og réttlæti takk fyrir !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur