Miðvikudagur 22.07.2009 - 14:25 - 8 ummæli

En hvað segir Árni Matt?

Þjarkið um Icesave hefur nú færst inn á vettvang lögfræðinga í fullnusturétti – sérfræðinga í gjaldþrotum – og við hin stöndum eiginlega bara og horfum á. Fyrst kom Ragnar Hall, svo Eiríkur Tómasson, síðan Ástráður Haraldsson og Ása Ólafsdóttir, Eiríkur aftur í morgun, og þessar skylmingar hljóta að halda áfram næstu daga.

Viðurkennt skal að á þessu sviði er þekking yðar einlægs frekar takmörkuð – en mér sýnist þó að ekki sé verið að deila um bókstaf laganna eða hvernig hann hefur umbreyst í úrskurði og réttarvenjur heldur um túlkun án stuðnings af fordæmi eða fræðilegri umfjöllun: Hvort hinn frægi Tryggingarsjóður hafi við setningu neyðarlaganna fengið svipaðað réttarstöðu og Atvinnuleysistryggingasjóður við tilteknar aðstæður þótt ekkert standi beinlínis um það í lögbókinni.

Þetta er að minnsta kosti svona ekki alveg venjuleg lagadeila, einsog til dæmis má sjá af þessari setningaruppbyggingu hjá prófessor Eiríki í morgun: „Þegar … , þá finnst mér það rökrétt að …“

Undir er mikið fé – ef Ragnar og Eiríkur hafa rétt fyrir sér um að Svavar og samninganefndin hafi beinlínis gert mistök og samið af sér – ja, þá er úr vöndu að ráða, og menn verða væntanlega að senda út bón um nýjar samningaviðræður af því höfðum áður svo vitlausa samningamenn.

Deilur Ragnars og Eiríks við Ástráð og Ásu eru örugglega afar fróðlegar fyrir áhugamenn um fullnusturétt en mér finnst samt rökrétt að fyrsta spurningin sé þessi:

Var jafnstaða kröfuhafa gagnvart búinu mál sem samninganefndin samdi sérstaklega um við Hollendinga og Breta – eða var þetta ein af forsendum samningsgerðarinnar, sem ekki var til umræðu í samningaviðræðunum?

Ef jafnstaða allra kröfuhafa (þ.e. þeirra sem hafa forgang) var ein af forsendum samningsins skiptir litlu máli hver niðurstaða verður af rökræðum lögfræðinganna í Fréttablaðinu. Þá er sú staða grundvöllur samningsins og ekki um að ræða neinskonar mistök eða vanþekkingu samninganefndarinnar.

Þessvegna þurfum við eiginlega að vita þetta frá þeim sem gerst þekkja til, allra helst frá ábyrgðarmönnum málsins þegar ákveðið var að ganga til samninganna, Árna Mathiesen fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra hans, Baldri Guðlaugssyni, og þeim öðrum sem komu við sögu – neyðarlaganna, sameiginlegu viðmiðanna frá Brussel og hinnar frægu nóvemberviðbótar við AGS-yfirlýsinguna, þar sem þáverandi fjármálaráðherra og þáverandi seðlabankastjóri kvittuðu undir það að Íslendingar tryggðu innstæðueigendum og lánardrottnum málsmeðferð sem yrði „sanngjörn, jöfn og án mismununar“ (e. fair, equitable and non-discriminatory) í samræmi við gildandi lög.

Það er erfitt að lesa þessa klausu öðruvísi en sem yfirlýsingu um jafnstöðu allra kröfuhafa gagnvart þrotabúinu, óháð búsetu eða upphæð.

En hvað segir Árni Matt?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • bitvargur

    Árni segir örugglega ekki margt enda tekin til við hrossalækningar í smærri einingum.

  • Ég er ekki alveg viss um að yfirlýsingar – og jafnvel undirskrift – Davíðs Oddssonar og Árna Mathiesen hafi lagagildi.

  • Non-discriminatory getur varla átt við óháð upphæð, enda hefur það ekki talist til mismununar að t.d. skattleggja fólk mismunandi eftir stærð eigna eða tekna.

  • Agnar Helgason

    Mörður, þetta er ekki spurning um „jafnstöðu allra kröfuhafa gagnvart þrotabúinu“. Þetta er spurning um það hvort rétt sé að innstæða eins aðila geti orðið að tveimur eða fleiri kröfum í þrotabúið. Fyrirliggjandi samningar gera ráð fyrir því og skv. þeim skiptast eignir þrotabúsins í hlut íslenska tryggingarsjóðsins (sem nota á til að endurgreiða allt að 20887 Evrur per innstæðueiganda) og hluti bresku og hollensku tryggingasjóðanna (sem nota á til að endurgreiða innstæður umfram 20887 Evru markið).

    Ragnar og Eiríkur benda á að innstæða eins aðila gefi aðeins af sér EINA kröfu í þrotabúið. Þess vegna ætti að klára fyrst endurgreiðslur íslenska tryggingarsjóðsins áður en bresku og hollensku tryggingarsjóðirnir fá nokkuð.

    Báðar útfærslur gera ráð fyrir „jafnstöðu allra kröfuhafa gagnvart þrotabúinu“. Þetta er spurning um hversu margar kröfur geti orðið til af einni innstæðu.

  • Agnar, takk fyrir að færa þetta yfir á mannamál.

    Nú heyrast fréttir um að VG sé að sjá ljósið og vilji ekki samþykkja athugasemda/fyrirvara-laust, einnig að tvær grímur séu að renna á einhverja Samfylkingarmenn/konur, og ber að fagna því. Hann skelfdi mig þessi einradda hallelújakór Samfylkingarinnar og ennfremur að fólk sem ég taldi fullvíst að væri bæði gott og skynsamt syngi gagnrýnislaust með.

    Mér rennur kalt vatn millis skinns og hörunds við lestur 15. og 16. greinarinnar og maður spyr sig hvort alþjóðalög leyfi að eitt ríki beygi sig svo algerlega í duftið fyrir öðru? Er einstaklingi heimilt að afsala sér mannréttindum sínum við annan mann í samningi?

  • Ólafur Gíslason

    Þetta mál er ennþá óskiljanlegt fyrir venjulegt fólk og það er ábyrgðarhlutur af þeim sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar standi í því að slá ryki í augu þjóðarinnar og rugla hana í ríminu með óskiljanlegum málflutningi.
    Ef hér er um raunverulegan ágrreining að ræða þá hlýtur að vera hægt að skýra hann út þannig að almenningur skilji.
    Ef það er ekki hægt, þá er hér um alvarlega skemmdarverkastarfsemi að ræða, sem er gerð undir fölsku flaggi innihaldslauss tæknimáls í nafni sérfræðiálits sem er ekki púðurkerlingar virði.

  • Jón Ottesen

    Ég sé ekki hvernig krafa Breta og Hollendinga getur verið á pari við kröfu innistæðutryggingasjóðs, þar sem þeir ákváðu sjálfir að tryggja innistæður umfram 20887 evrur. Þar eru þeir komnir út fyrir ramma laganna um innistæðutryggingar og þar að leyðandi þeirra eigið mál að standa straum að kostnaði við þá ákvörðun.

    „Íslendingar tryggðu innstæðueigendum og lánardrottnum málsmeðferð sem yrði „sanngjörn, jöfn og án mismununar“ (e. fair, equitable and non-discriminatory) í samræmi við gildandi lög.“

    Lykil atriði í þessari settningu er „í samræmi við gildandi lög,,
    Þar sem Landsbankinn var íslenskt fyrirtæki þá eiga íslensk gjaldþrotalög að gilda um skiptingu þrotabúsins og samkvæmt þeim eiga bretar og hollendingar ekki forgangskröfu í búið vegna innistæðna.

    Annað sem ég hef velt fyrir mér er, menn tala um að vextir af Icesave verði um 300 miljarðar á þessum sjö árum sem við getum sleppt því að borga.
    Er líklegt að eignir Landsbankans vaxi um meira en 300 miljarða á þessum sjö árum. Væri ekki betra að selja þær strax á fyrsta árinu frá hruni bankans og losna þannig allveg við vaxtagreiðslur.
    Þar sem innistæðutryggingasjóður hefur eitt ár til að borga til baka 20887 evrur án þess að þurfa borga vexti.

  • Bjarni Kjartansson

    Nú væri við hæfi, að þú skoðaðir gerr, hver hvatti þá til að skrifa undir letter of intent, við Hollendingana!!!

    Værir þú sómakær og horskur, létir þú þessa getið, vissir þú það.

    Mér er kunnugt um, hvernig snúið var upp á únliði sumra sem voru mjög svo guggnir eftir að lokað var á alla fyrirgreiðslu við Kaupþing og LÍ. Ingibjörg, Össur og fl ESB sinnar fóru sem lóðatíkur um allt og svo fóru þau á taugum og töldu okkur ekki tekið inn í ESB og því væri engin ráð nema að samþykkja allt, sama hvað það hefði í för með sér.

    Svona færsla er ekki svona ,,the done thing“ meðal kúltíverðara, því að í henni felst að menn ætli öðrum sem samherjar settu mótspilara sína í.

    Skamm
    Miðbæjaríhaldið
    fyrrum skólafélagi

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur