Fimmtudagur 23.07.2009 - 09:50 - 19 ummæli

Glæpur Verhagens

Óvinur Íslands númer eitt heitir núna Maxime Jacques Marcel Verhagen og er utanríkisráðherra í Hollandi. Það sem herra Verhagen vann til óhelgi sér var að tilkynna blaðamönnum að Hollendingar yrðu tregir í samningataumi um Evrópusambandsaðild Íslendinga ef Icesave-málið yrði ekki klárað. Þar með gerði hann það sem ekki má: Að tengja Icesave við aðra þætti í efnahags- og alþjóðasamskiptum Íslendinga nú um stundir.

Össur varð hvumsa – því hinn kurteisi Hollendingur hafði hljómað allt öðruvísi í símann fyrr um daginn, og nú verður Maxime Jacques Marcel að passa sig því að Össur er ekki árennilegur ef hann reiðist. Steingrímur Jóhann kom fokvondur í sjónvarpsfréttir, og Árni Þór taldi ummælin „óheppileg“ og er orðinn miklu diplómatískari en yfirdiplómatinn. Stjórnarandstæðingar glottu auðvitað, því innanhússpólitískar yfirlýsingar Verhagens í Hollandi koma sér fyrir innanhúspólitík Bjarna og Sigmundar Davíðs á Íslandi.

Það er sjálfsagt að mótmæla ósmekklegum hótunum hollenska utanríkisráðherrans. Að formi til á umsóknin um Evrópusambandið ekkert skylt við þetta vandræðamál vegna Icesave-skulda ríkistryggðra útrásarvíkinga.

Á hinn bóginn þarf enginn að verða hissa á Verhagen. Orð hans eru einfaldlega fyrirboði þess sem vænta má ef íslenskir ráðamenn – ráðherrar og alþingismenn – bera ekki gæfu til að beita skynseminni í Icesave-málinu. Og þar er Evrópusambandsumsóknin ein ekki undir, því þokkalega farsæl lausn í því guðsvolaða leiðindamáli er lykill að sjálfri endurreisninni.

Glæpur Verhagens er eftir allt saman sá helstur að segja upphátt það sem aðrir tauta í hljóði um Íslendinga og Icesave – um ESB-aðild, lánveitingar, bankarekstur, traust og ímynd.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Er ekki rétt að leggjast strax á bakið?

  • Doddi D: Leggjast á bakið? Þarf ekki að vera uppistandandi til þess?

  • Ari Matthíasson

    Sæll Mörður.
    Hvað finnst þér vera þokkalega farsæl lausn í þessu máli?
    Kv., Ari

  • Nýi Dexter

    Snúa sér á bakið þá.

  • Það liggur í „augum uppi“ að við verðum að samþykkja Icesave.
    Að hinu leytinu væri það landanum afar dýrkeypt en um leið mjög holl reynsla að sjá afleiðingarnar af því að neita að samþykkja Icesave.
    Við „blakkmeiluðum“ allt og alla í kalda stríðinu og komumst upp með allt eins litlir frekir krakkar.
    Sá tími er liðinn!

  • Mér er farið að finnast það scary hvað ég er farinn að verða oft sammála þér upp á síðkastið Mörður.

    Það sem að mér finnst samt sýnu verst er að stjórnarandstaðan á þingi kvartar og kveinar (stundum réttilega en sjaldan þó) yfir því hversu lítið sé að gert til þess að vinna að bættri stöðu heimilanna í landinu. Samt er þessi sama stjórnarandstaða að tefja og koma í veg fyrir að Icesave fái farsæla lausn sem að er jú forsendan fyrir því að hægt sé að bæta stöðu heimilanna í landinu.

    Einn punktur sem að virðist líka hafa farið framhjá fjölmiðlum heima á Íslandi:
    Icesave skuldbindingarnar voru settar í gerðadóm með aðkomu Íslendinga, Hollendinga, Breta og Evrópusambandsins. Ísland sagði sig hins vegar einhliða frá gerðadómnum í desember þar eð þáverandi stjórnvöldum hugnaðist víst ekki framkvæmdin. Gerðadómstóllinn hélt hins vegar ótrauður áfram og úrskurðaði, eins og við var að búast, að Íslandi bæri að standa við fjárhagslegar skuldbindingar eigin bankakerfis.

    Þess vegna finnst mér umræðan núna snúast meira um að slá ryki í augun á fólki frekar en bláköldum staðreyndum málsins; sem að eru þær að íslenska stjórnkerfið stóð sig herfilega illa í aðdraganda hrunsins og mánuðunum á eftir og sýndi í raun vítaverða vanrækslu á skyldum sínum.

  • Ágæti Mörður. Lítið þykir mér þú þekkja þjóð þína ef þú heldur að þetta verði samþykkt. Ég er reyndar ekki búin að mynda mér skoðun á málinu en veit vel að afskipti Þessa Paul Verhofen voru síst til þess fallinn að auka líkur á því að þetta ógeð yrði samþykkt. Tékkaðu nú á einu ágæti Mörður.

    Íslendingar eru Bjartur í Sumarhúsum. Þeir myndu frekar vilja hafa rangt fyrir sér í 1000 ár en að láta !einhverja útlendinga“ hafa 10 sekúntna yfirlætistilfinningu yfir því að hafa rétt fyrir sér.

    -Það er allt undir og ef ég þekki mina þjóð rétt þá verður hún ofaná þegar yfir lýkur.

  • Við skulum borga allt – ALLT

    Svo fremi að sá hluti íslensku valdstéttarinnar (þú ert hluti af íslensku valdastéttinni, Mörður) sem ábyrgð ber á hruninu verði saksóttur og skili ránsfeng sínum.

    Það verður aldrei gert til hlítar. Það sem er að gerast nú um stundir er einfaldlega að íslenska valdastéttin er að endurskipuleggja stjórnvalds- og bankakerfið, EINGÖNGU MEÐ EIGIN HAGSMUNI Í HUGA. Liður í því er að sættast við alþjóðasamfélagið til þess áfram megi höndla og braska með einhverjum hætti.

    Íslenskur almenningur er algert aukaatriði í huga valdastéttarinar hvað allt þetta varðar. En það er hann sem borgar brúsann. Hann hefur það eina hlutverk. ARÐRÁN hét það einhvern tíma.

  • skattmann

    heyr heyr Keilir

  • Þið sem viljið ná meirihluta fyrir þessum samningi ættuð að reyna að gera eitthvað í því að ná peningum af glæpamönnunum sem komu okkur í þessa stöðu. Ef Bónusfeðgar, Björgúlfsfeðgar og Bakkabræður hefðu verið gerðir eignarlausir með þjóðnýtingu væri fólk kannski til í að samþykkja þennan samning. Meðan hann á að snúast allur um að vellta skuldum frá auðvaldinu yfir á okkur án þess að eignirnar fylgi með verður enginn friður í þessu máli.

  • Mörður Árnason

    Ari: Farsæl lausn er að samþykkja með rökstuðningi um ,,umsamin viðmið“ og túlkun á endurskoðunarákvæðinu, í nefndaráliti fjárlaganefndar. Helst í næstu viku. Sé ekkert annað í dæminu, en alltaf tilbúinn að hlusta. — Já, Teitur, þetta er rétt um Bjart — það er greinilegt að Verhagen skilur ekki Íslendinga. En Bjartur þarf að lokum að átta sig á því hvað er best fyrir strákana og Ástu Sóllilju.

  • María Kristjánsdóttir

    Og hvað var það besta fyrir Ástu Sóllilju og strákana?

  • Það er allavega ekki noprast upp á heiði í moldarkofa, með breyskum geðillum karlkaufsk.

  • STEFÁN STEF

    Ef þeir sem halda að allt lagist við aðild eru virkilega á villigötum. Ég vil ESB aðild en hún er ekki lausn núna.
    Við erum ekki tæk og það vita flestir sem eitthvað þekkja til mála ESB. Við erum ekki einu sinni tæk í EES eins og stendur.
    Samningstaða okkar er líka verulega skert. Við erum þessa mánuðina eins og dauðvona sjúklingur sem myndi gera allt til að haldast hérna megin.

    ESB fer ekkert , komum okkur fyrst úr stöðu þess dauðvona ef hægt er og síðan tökum við púlsinn

  • Breytir það einhverju um samninginn að samþykkja hann með rökstuðningi um umsamin viðmið?
    Verða ekki viðsemjendurnir að samþykkja þann skilning ?
    Af hverju er þetta ekki inni í samningnum ?
    Getur verið að gerð hafi verið mistök?

    Mér hefur einmitt skilist hingað til að þetta væri „take it or leave it“ samningur.
    Hvað svo með nýjasta útspilið að við eigum að borga 2ja milljarða lögfræðikostnað ofan á allt heila klabbið, er það enn eitt sem hin seka þjóð þarf að kyngja og bera ábyrgð á?
    Þrátt fyrir öll spurningamerkin þá er ég meira að hugsa upphátt heldur en beina þessum spurningum til þín, kv.

  • Fór ekki ránið fram í Bretlandi og Hollandi? Voru ræningjarnir ekki íslenskir? Voru þeir ekki undir íslensku eftirliti? Var innistæðutryggingasjóðurinn ekki íslenskur? Lagði fólk ekki peninga sína inn á reikningsfjandann í góðri trú um að Landsbankinn væri traust og heiðarleg stofnun, undir traustu og heiðarlegu eftirliti íslenska Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins?
    Er þá glæpurinn að hafa treyst íslendingunum fyrir sparifé sínu, eða er það glæpur að taka við fé til ávöxtunar, en eyða því síðan í íslenskt hagkerfissvarthol sem svo lengi sem elstu menn muna hefur þrifist á því að stela af alþýðunni eins og þeir vilja nú gera þeir Bjarni og Sigmundur, þ.e. ræna lífeyrissjóðina.
    Að því loknu virðast þeir ætla að halda til fjalla og skríða inn í heppilegan helli til að bíða endalokanna, því ekki er hægt að gera ráð fyrir að þeir leggi eitt eða neitt að mörkum til að vinna þjóðina út úr feninu sem forverar þeirra sökktu henni í.

  • magnús steinar

    Mörður, óvinur Íslendinga NR 1 er þessi ömurlega ríkisstjórn,þetta eru skrípamyndir af alvöru stjórnmálamönnum.

  • Ekki veit ég hvernig að leysa á Icesave. Það er búið að koma okkur í mjög slæma stöðu. Ég held samt að við verðum að hefjast handa heima við og sjá til þess að afbrotamenn gangi ekki lausir. það væru bestu skilaboð sem við gætum sent umheiminum. Síðan er að semja. Þetta er ekki samningur sem verið er að bera fram fyrir okkur heldur fullar kröfur breta og hollendinga sem hljómar sem skilaboð til skúrka „skiiði öllu sem þið hafið stolið“. Þþ

  • Mörður Árnason

    Það er algerlega sjálfsagt að allt verði gert til að fá það fé sem hægt er frá glæframönnunum — með aðferðum réttarríkisins. Það er eiginlega hin hliðin á Icesave-málinu. Maður vill að það gangi hraðar en munum að Eva Joly predikar okkur þolinmæði og seiglu. Þetta er á réttri leið, sýnist manni, og uppá síðkastið hef ég meira að segja heldur meira álit á Ólafi Skagasýslumanni en áður. En hvar eru allir hinir duglegu lögmennirnir fullir réttlætiskenndar og með glóð í hjarta? Að rukka?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur