Föstudagur 24.07.2009 - 10:12 - 14 ummæli

En hvað viljið þið gera?

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir andstöðu Sjálfstæðisflokksins við Icesave-samningana. Í gær var lína formannsins sú að samninganefndin hefði samið af sér. Í Sjónvarpsfréttum vildi hann samt engu svara um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera í málinu:

Bjarni: Við munum aldrei fallast á þessa samninga einsog þeir liggja fyrir þinginu óbreyttir.

Jóhanna Vigdís: Hvað viljið þið gera?

Bjarni: Ja, við viljum einfaldlega að, við höfnum því, við höfnum því algerlega að íslenska ríkið taki á sig, á þeim skilmálum sem um er að ræða í þessum samningum, þessar gríðarlegu ábyrgðir. Við teljum að menn hafi samið af sér í fjölmörgum atriðum. 

Sumsé: Afstaða Sjálfstæðisflokksins á þinginu er að fallast ekki á samningana. Stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu er að Íslendingar hafni samningunum. Punktur.

Úr þessu gerir hin glúrna Lára Hanna Einarsdóttur svo ágætt grín á síðunni sinni: hér.

Hinn mikli línudansari

Það er annars ekki alveg óvænt afstaða hjá Bjarna að halda því fram að samninganefndin hafi samið af sér, þótt hann vilji ekki segja til um hvað svo á að gera. Formaður Sjálfstæðisflokksins er ekki í góðri stöðu til að taka undir þá hressilegu og anarkísku draumóra að borga ekki. Formaður Sjálfstæðisflokksins getur heldur ekki bent á „dómstólaleiðina“ vegna þess að hann var fram til 1. febrúar hluti af  stjórnarmeirihluta sem hafnaði þeirri leið, og flutti um það fræga ræðu sem formaður utanríkismálanefndar þegar alþingi samþykkti að fara í viðræður.

Hinsvegar getur formaður Sjálfstæðisflokksins svarið af sér alla ábyrgð á sjálfri samninganefndinni og tekið almennt undir allskyns gagnrýni á samningatextann:

„Það er að koma upp núna, síðast í þessari viku, ábendingar, og í síðustu, um einstök svona lagaleg útfærsluatriði sem menn virðast hafa klúðrað í samningaferlinu. Þannig að við teljum það einfaldlega ekki koma til greina að fallast á þá beiðni ríkisstjórnarinnar sem hún hefur teflt hér fram, að veita ríkisábyrgð fyrir slíkum samningi.“ (BBen í Útvarpsfréttum, sama viðtal.)

Svo er rétt að taka eftir litlu lýsingarorði í fyrstu setningu formannsins: „… einsog þeir liggja fyrir þinginu óbreyttir.“ Formaður Sjálfstæðisflokksins á erfitt með að sveigja flokkinn mjög langt frá þeirri línu Samtaka atvinnulífsins og annarra forystumanna í atvinnulífi, í viðskiptum og á vinnumarkaði, að þetta mál verði að klára – þótt það sé frekar létt gestaþraut að ímynda sér samninginn bærilegri í ýmsum greinum.

Formaðurinn telur sig þurfa að leika þann línudans að halda uppi ekki miklu óvægnari stjórnarandstöðu en Sigmundur Davíð, og vonar auðvitað enn að Icesave sprengi stjórnina, sem aldrei hefur verið líklegt og er heldur ólíklegra nú en undanfarið – en formaðurinn þarf líka að sýna lágmarks-ábyrgð og má þrátt fyrir allt ekki fara um of á svig við hagsmuni atvinnurekstrar og viðskiptalífs.

„… óbreyttir.“ Næstu daga býr Sjálfstæðisflokkurinn til einhverskonar skilyrði fyrir stuðningi sínum við Icesave-málið. Þau verða þannig orðuð að vel hljómi í eyrum þjóðar með stolt sitt sært eftir atburðina að undanförnu, en líka þannig útbúin að stjórnarliðar geti engan veginn á þau fallist. Sjálfstæðisflokkurinn veifar síðan skilyrðum sínum en „hafnar“ Icesave, og þarf aldrei að segja hvað hann sjálfur vill gera.

Hjá því þarf formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir alla muni að komast.

 

PS: Gott blogg um Icesave og stjórnkerfið eftir Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur hér á Eyjunni!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Er Engeyringurinn ekki bara að hafna Ríkisábyrgð?…

    Þarf nú ekki háskólagráður til að lesa það út hjá honum…

    Held að mestöll þjóðin sé á móti henni, þó ekki sé hún með honum…

    En við erum ekki þjóðin…it´s been established…

    ps: þurfum við líka að borga fyrir snittur bresku samninganefndarinnar, eða náði Svavar Saviour því inn sem included…?

  • Það er allavega klárt hvað þú vilt gera Mörður; láta undan kúgun Breta,AGS og ESB og gangast við 1000 milljarða skuld einkaaðila möglunarlaust! Gott að vita það – við munum þetta í næstu kosningum. Þetta verður ekki gleymt, á hvorn veginn sem niðurstaða þingsins verður.

  • Þeim sem ætla að fara að rukka fyrir þessarri skuld á íslenskum heimilum munu finna fyrir óvægnari stjórnarandstöðu en hægriflokkarnir geta nokkurn tíman ímyndað sér. Hvort sem þið náið þessu í gegnum þingið eður ei munið þið aldrei ná þessum peningum út úr íslenskum heimilum. Við erum einfaldlega fleiri og betur vopnuð en rukkararnir og munum verja okkur.

  • Nýi Dexter

    Ég vil gera handtökur.

  • Kristján Kristinsson

    Mér fannst spurningin góð en eftirfylgnin engin þegar Bjarni fór að bulla og koma sér undan spurningunni. Þetta hefur verið mikið vandamál meðal fréttamanna að þjarma ekki að viðmælendum sínum til að fá skýr svör. Í stað þess er þeim leyft að bulla út í eitt. Er þetta hræðsla við þá, feimni eða almenn kurteisi? Mér finnst einfaldlega ekki nóg að segja að við eigum að hafna þessum samningi en vera ekki með á takteinum hugmyndir hvað eigi að gera í staðin.

    Annars finnst mér þessi Icesave umræðan á Íslandi einkennast mikið til af þjóðerniskennd. Með því að samþykkja hann séum við að láta undan kúgun þjóða sem beita sér gegn okkur í krafti stærðar sinnar. Auðvitað er Icesave samningurinn hrikaleg byrði. En af hverju mótmælum við bara þessum samningi? Af hverju mótmælum við ekki því þegar ríkissjóður dældi 200 milljörðum í peningamarkaðssjóði bankana? Eru Íslendingar eitthvað meira spes sem réttlætir peningaustur í sjóði sem átti alls ekki að setja peninga í? Eða þegar seðlabankinn tapaði 350 milljörðum í einhverju sem kallast endurhverf viðskipti við fjármálafyrirtæki? Eða lánum upp á 2,5 milljarða Bandaríkjadala frá AGS, Norðurlöndunum og öðrum þjóðum á kjörum sem eru almennt séð lakari en Icesavesamningurinn? Hefur fólk séð þá samninga? Hver eru lagaleg atriði í þeim samningum? Hvað gerist ef við getum ekki staðið við þær skuldbindingar?

    Þeir sem vilja hafna Icesave samningnum verða að koma með tillögur um hvernig best er að ná sátt við Breta og Hollendinga í þessu máli. Engar klisjur um dómstólaleið. Að hafna samningnum og segja þessum þjóðum éta það sem úti frýs finnst mér ekki vera góð leið.

  • Við eigum að snúa okkur beint til almennings í þessum löndum og setja hundrað af okkar bestu sérfræðingum í að skrifa greinar í þarlend blöð til að sýna okkar hlið á málinu. Almenningur hér á sameiginlega hagsmuni með almenningi í Hollandi og Bretlandi gegn valdastéttinni í þessum sömu löndum. Setja svo saman Munchen sveit sem getur ellt uppi þessa helvítis glæpamenn sem komu okkur í þessa stöðu hvar sem þeir finnast og annað hvort komið þeim lífs eða liðnum með bögglapósti til þjóðþinganna í Amsterdam og London.

    Við getum ekki borgað það sem þessi stjórnvöld setja upp en við getum sýnt almenningi í þessum löndum að við erum að gera okkar besta til að ná þeim sem bera ábyrgð. Ef við erum ekki hörðust allra í uppgjörinu mun umheimurinn halda áfram að telja að við séum samsek.

  • Ómar Kristjánsson

    Hvað sjallar vilja gera ?

    Tja, vilja þeir ekki fella núverandi stjórn, mynda þjóðstjórn og samþyggja samninginn þá. Einna helst skilst mér það. Samt ekki algjörlega gott að átta sig á því. Slíkt er ruglið og hringlandahátturinn á þessum flokki.

  • Héðinn: Var það bara valdastéttin sem átti peninga í ICESAVE í Hollandi og Bretlandi og er að berjast fyrir að fá þá aftur? Almenningur á Íslandi og Hollandi eiga ekkert sameiginlegt í þessu máli, enda átti þetta alltaf að fara þannig að íslenskur almenningur fengi allt sitt (sbr. peningamarkaðssjóðainnspýtinguna) en erlendur almenningur ekkert (sbr yfirlýsingar sumra ráðamanna), og það er í raun og sann okkar hlið á málinu. Hollenskum almúga er örugglega alveg sama um Björgólf Thor eða Sigurjón digra, hvort sem þeir koma í bögglapósti eða hvað. Þau vilja bara fá peningana sína eins og lög kveða á um og þeim var heitið og það er sama hversu margir af okkar færustu sérfræðingum skrifa greinina „Hvernig íslendingar samþykktu óvart að leyfa bófum að stela peningunum ykkar“ í hollensk blöð, þá verður málstaður okkar ekkert skárri.

  • Samfylking er með einfalda stefnu: Samþykkja allt sem útlendingar vilja, af því að annars verðum við útskúfuð þjóð. Ef maður trúir því að manni verði úthýst úr samfélagi þjóðanna, (les: Voldugustu þjóðir Evrópu), ef maður hlýðir ekki, rétt einsog barn sem þorir ekki annað en hlýða foreldri, þá er það viðhorf í sjálfu sér. Þá er það viss upplifun á því hvað er að vera þjóð. Í þessu viðhorfi felst skýringin á því hvers vegna Mörður Árnason vildi samþykkja samninginn, áður en hann las hann.

    Við skulum ekki gleyma því að átökin um samninginn hófust áður en hann var birtur.

  • Mörður Árnason

    Ekki rétt, Doddi. Skoðaðu bloggin mín aftur í tímann: Ég las samningana, hlustaði á fróðleiksmenn og tók síðan afstöðu. Ýmis almenn atriði — um að borga ekki og dómstólaleið — er hinsvegar búið að tala miklu lengur. Að vera þjóð — því svaraði kannski Pétur, næstur á undan þér, með ákveðnum hætti …

  • Elías Pétursson

    Það mætti nú líka spyrja ykkur samfylkingarmenn hvernig ætlið þið að borga allar þær skuldir sem á okkur eru að leggjast þmt ICESAVE.

    Frá stríðslokum höfum við eitt hverjum einasta dollar og hverju einasta pundi sem við höfum aflað í eitthvert dót eða kaup á tækjum og búnaði.
    Allann þennann tíma hefur verið að meðaltali tap á viðskiptum okkar við útlönd….

    Frá 1995 höfum við að meðaltali verið með 11,45 milljarða halla á viðskiptum við útlönd. frá 1995 er uppsafnaður halli ca 1.700 milljarðar á viðskiptum við útlönd.

    Hvar ætla samfylkingarmenn að fá gjaldeyri til greiðslu á ICESLAVE og öðrum erlendum skuldum ríkis og fyrirtækja, uþb 3.500 milljörðum + vexti.

    Það er nokkuð sama hve mikið mönnum langar að greiða þessa skuld svikahrappana í Landsbankanum, við eigum ekki og munum ekki að óbreyttu afla gjaldeyris til þess að greiða.

    Ekki nema við ríkisvæðum útflutninginn og bönnum innflutning, það breytir allavega engu þótt seðlabankanum detti í hug að hækka vsk og safna iskr.

  • Sjálfstæðis- og framsóknarmenn voru í raun og veru sigurverar síðustu kosninga. Innan þeirra raða eru forráðamenn sem hafa efnast á bankasukkinu. Þessir menn eru enn við völd í viðkomandi flokkum. Anarkíski spuninn um vonda Breta og Hollendinga er í hag þessara manna og tefur að tekið verði beint á þeirra málum sem meintra glæpamanna.

    Samfylkingin og vinstri græn eru eina aflið sem ef vel tekst til getur leitt okkur út úr þessari krisu. Þþ

  • Ég held að mergurinn málsins sé ekki hvað Bjarni Ben vill gera. Hann er ekki í ríkisstjórn. Það má ef til vill finna því stað að röksemdir þeirra sem á
    móti eru markist ekki nó af lausnum. Það er ef til vill eðlilegt í ljósi þess að völdin eru ekki þeirra né gjörningurinn. Það er hins vegar afar sennilegt að
    afdrifarík mistök hafi verið gerð í þessu samningaferli. Mér dettur ekki í hug að gagnrýni á samninginn sem sett hefur verið fram af fjölmörgum lögfróðum mönnum sé runnin undan rifjum Davíðs Oddssonar eða sé tilkomin í þeim tilgangi að klekkja á ríkisstjórnarflokkunum. Þrátt fyrir það geta Þær skoðanir þeirra sem verja þessa samningsgjörð og telja að okkur séu allar bjargir bannaðar aðrar en að samþykkja geta svo sem vel verið réttar og óttinn sem náð hefur tökum á valdhöfum er ugglaust raunverulegur. Sé svo þá þarf að skýra það betur , upplýsa hverjir eru að hóta hverjum. A.G.S virðist fremur vera innheimtustofnun Breta og Hollendinga fremur en aðili sem aðstoðar í erfiðum kringumstæðum.
    Ég hef trú á því að Íslenskir stjórnmálamenn munu ná lendingu í málinu,
    en hún mun ekki verða óbreyttur samningur, enda stendur þjóðarvilji ekki til þess.

  • Ef við eigum að vera viðurkennd sem þjóð þurfum við að viðurkenna lámarksgreiðsluskyldu sem er tæp 21.000 21.000 €. Annað þarf að semja um.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur