Fimmtudagur 30.07.2009 - 09:59 - 15 ummæli

Hneykslið á Hjarðarhaganum

Sjónvarpið komst í feitt í gær: Jóhanna Sigurðardóttir er komin í frí! Meðan Róm brennur!

Fríið fer að vísu fram ekki langt frá stjórnstöðinni, nefnilega heima hjá sér á Hjarðarhaganum, og Jóhanna er daglega á fundum um brýn úrlausnarefni – en leyfir sér þó að vera í fríi – og þarmeð ekki í viðtölum við Sjónvarpsfréttir þegar þar er kallað. Svo koma dálkahöfundar í blöðum og skeytasendarar á bloggi: Forsætisráðherrann í fríi – hvílík lausatök! hvílík léttúð!

Meðal samherja er Jóhanna reyndar fræg fyrir að taka sér nokkurnveginn aldrei frí – og ætlast líka til þess af öðrum að þeir skili fullri vinnu og vel það. Þar vaka gildin úr gamla samfélaginu – kannski frá ömmu Egilsdóttur? – vinnusemi, ábyrgð, nægjusemi.

Nú hafa stjórnmálamenn í fremstu víglínu hinsvegar verið að næstum allan sólarhringinn samfellt frá því október þegar kreppan skall á, og þarf engum að finnast skrýtið að einhverjir þeirra noti tækifærið í þinghléinu rétt fyrir verslunarmannahelgi til að heilsa upp á fjölskylduna.

Jóhanna í fríi. Ekki nema það þó! – Sarkozy Frakklandsforseti datt um helgina flatur í ræktinni og er nú kominn í þriggja vikna frí – og fær þó sýnilega æðiber í rass alla þá stund að ekki suða á honum sjónvarpsvélarnar. Pólitískur leiðtogi Svía um þessar mundir, Friðrik Reinfeldt, er sem betur fer öðruvísi náungi en Sarkó, en ég hef fyrir satt að tilraunir til að koma á fundi þeirra Jóhönnu vegna ESB-umsóknarinnar hafi strandað á því að forsætisráðherra sænska konungsríkisins sé farinn í skerjagarðinn … í frí.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins, Sjónvarpshluti, fékk sitt viðtal um örlögþrungin AGS-mál við fjármálaráðherrann sem málið heyrir undir. Ráðherrann svaraði greiðlega að vanda og sagði um málið allt sem hægt var í gærkvöldi – og það er alger óþarfi á Sjónvarpinu að ráðast að Jóhönnu fyrir að taka sér nokkra dagsparta til að vökva blómin og passa ömmubörnin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Fréttir stöðvar 2 eru alltaf í æsifréttastíl og oftast ómerkilegar. Vona að Jóhanna geti hvílt sig í nokkra daga. Heimurinn ferst ekki á meðan og Icesave fer ekkert heldur !

  • Mörður Árnason

    Þetta var Sjónvarpið, búinn að leiðrétta það — en það munar ekki miklu …

  • Bíddu… hver er þessi Jóhanna…

  • Algjör skömm að þessu, konan heima á virkum degi á miðjum slætti. Svo frétti ég að hún hafi sofið undanfarnar nætur!
    Haldið þið að það sé?
    Þetta er hneyksli.
    Ætli Steingrímur J. sé ekki jafn ósvífinn og hreinlega SOFI á næturnar?
    Frusssssssss

  • Það er ekki að spurja að tvöfeldninni hjá heilaga Samfylkingarfólkinu. Fréttamaðurinn sagði skilmerkilega frá því að á meðan úrslitatilraun fer fram um að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til þess að taka fyrir afgreiðslu II.hluta lánsins þá náðist ekki í forsætisráðherrann því hann var í fríi. Þannig voru svörin úr ráðuneytinu. Hvað átti fréttamaðurinn að gera? Segja ósatt? Segja ekki frá svörum ráðuneytisins? Þylja upp hversu marga daga Jóhanna hefði tekið í frí á síðustu mánuðum? Geta þess sérstaklega að hún væri oft að vinna á kvöldin og um helgar? Hvaða Íslendingur gerir það ekki?Er ekki heilög Jóhanna orðin full heilög? Hún á marga afar marga veikleika eins og margir aðrir, því miður. Við því er hins vegar ekkert að gera. Hún er eini og besti kostur Samfylkingarinnar. Flóknara er það nú ekki.

  • Það er athyglisvert að þið og fjölmiðlar haldið að enginn geti unnið vinnuna nema þau? Eru þau ekki með aðstoðarmenn? Og síma? Og kerfi sem á að starfa sama hvað gengur á?
    Framkvæmdavaldið á Íslandi er út í hött. Bara ráðherrar taka ákvarðanir og kerfið er svo lélegt (og var það alltaf líka fyrir bankahrun) að fjölmiðlar fara á hliðina ef ráðherrar eru ekki alltaf til taks til að froðusnakka í sjónvarpi. Fréttamenn ættu kannski að nota tímann og setja sig inní málin hvernig hægt er að frysta eigur og sækja þýfi?

  • Fleiri en Sjónvarpið hneykslaðist á „fríi“ forsætisráðherra. Ekki þarf lengi að fletta bloggum þar sem andstæðingar stjórnarinnar (einna helst þeir sem græða á daginn og grilla á kvöldin) fara mikinn.

  • Telemakkos

    Jóhanna grillar mest í vinnunni, þ.e. Sjálfstæðismenn og útrásarliðið sem FLokkurinn bauð upp á…

  • Vitaskuld þarf Jóhanna eins og aðrir að reyna að slaka á inn á milli og safna orku. Ég hefði haldið að lærdómurinn af veikindum síðustu þriggja forsætisráðherra skilaði sér!

    Það er hárrétt að Jóhanna liggur ekki á liði sínu og verður seint sökuð um vinnuleti. Allt sæmilega upplýst og sanngjarnt fólk veit þetta.

  • Já hafa pólitíkusar í fremstu röð unnið dag og nótt, frá hruninu síðan í haust. Ef svo er reyndin, þá hefur það skilað litlu.

    Frosinn fasteignamarkaður
    Byggingargeirinn hruninn
    16.500 atvinnulausir
    Útgerðin skuldug upp fyrir eyru
    Enginn bankaræningjana ákærður
    Gift málið 30.000 miljónirnar í svæfingu
    Tvöföldun í ásókn hjálparstofnana
    Bankarnir rústir einar
    Trúverðuleiki á íslandi enginn
    Icesave í tómu tjóni
    40.400 manns í klemmu með myntkörfu bílalán
    Fasteignaeigendur fangar í toppveðsettum húsum
    Landflótti hafinn
    Útlendingar liggja á atvinnuleysisbótum og sjóðurinn að tæmast
    Fyrirtæki verða gjaldþrota í röðum
    Fyrirtæki eru einkavædd og ríkið í kennitöluflakki ( Penninn-Eymundsson )
    Bankastarfsmenn og skilanefndarmenn höfundar hrunsins verma enn sömu stólana
    Ráðuneytis innherja svikarinn orðin ráðuneytisstjóri á ný
    Útrásarvíkingar valsa enn um og hóta málsóknum hægri vinstri

    Listinn gæti verið efni í langa bók eða ritsafn. Er það þetta sem öll næturvinnan er búinn að skila. Ef svo er, er þá ekki kominn tími til þess að draga úr næturbröltinu til þess að pólitíkusar sé í það minnst klárir í kollinum. Ja-svei þessu liði, hvort sem það er til hægri eða vinstri eða mitt á milli
    Kv

  • Jóhannes Laxdal

    Hvernig væri að einhver úr Samfylkingunni stigi nú fram við hlið Steingríms og útskýrði endurreisnaráætlun Ríkisstjórnarinnar og AGS. Mér finnst stórlega vanta á að Samfylkingin axli ábyrgðina á efnahagsráðstöfunum.
    Afhverju talar Jóhanna ekki við þjóðina?

  • Heldur vill maður nú að þetta samfylkingarfólk sé að grilla lambakjöt í garðinum heima hjá sér, en að grilla heila þjóð í vinnutímanum. Jóhanna á fríið skilið.

    Henni hefur tekist sem forsætisráðherra að halda vöxtum næstum jafn háum og þegar ríkisstjórninni sem hún sat í var komið frá. Ekkert breyttist þó Davíð Oddssyni var komið frá, sem var þó að hennar mati einhver forsenda fyrir því að geta lækkað vexti

    Gengi krónunnar er hærra en það var þegar ríkisstjórninni sem hún sjálf sat í var komið frá af henni sjálfri. Það átti manni automatiskt að lækka um leið og aðildarumsókn Íslands í ESB myndi verða send inn. Það gerðist nákvæmlega hið gagnstæða.

    Það eru allar erlendar bankastofnanir með ísland í gjörgæslu og ekkert hefur breyst í þeim málum. AGS hefur ekki lánað okkur eina krónu þar sem allt er í steik, ekki bara á grillinu heima hjá Jóhönnu, heldur í öllum ríkisbúskapnum.

    Í stuttu máli sagt held ég að það væri óskandi að samfylking færi bara í langt og gott sumarfrí og kæmi aldrei aftur. Vinstri Grænir færu þá bara líka í langt og gott sumarfrí og kæmu heldur aldrei aftur. Þeir gera víst bara það sama og samfylking gerir. Ætli Steingrímur J. sé ekki með mexíkóskar kreppu pylsur á grillinu í kvöld, alveg eins og Jóhanna?

  • Það er alveg víst að Jóhanna þarf að hvíla sig, henni er örugglega mjög ljóst öfugt við suma að heilinn þarf að vera nokkuð úthvíldur, þegar menn taka mikilvægar ákvarðanir.Það er nú líka nokkuð fræg leið sem sáttasemjarar ríkisins hafa farið, að hafa sólarhringsviðræður kannske fleiri sólarhringa til að viðræðendur semji af sér. Hefur oft tekizt, t.d. 2 síðusu skifti sem KÍ samdi af sér vegna þreytu og þar með hálfgerðum !heilabresti vegna ofþreytu. Jóhanna veit hvað hún syngur og ég styð hana í þessu svokallaða fríi.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Það er sitthvort að vinna og vinna að einhverju viti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur