Sunnudagur 02.08.2009 - 12:19 - 18 ummæli

Takk, Eva

Íslandsgrein Evu Joly í nokkrum merkum Evrópublöðum er snjöll pólitísk ádrepa á tregðu ýmissa helstu leiðtoga í Evrópusambandsins við að yfirgefa fagnaðarboðskap hins óhefta markaðar og koma á regluverki sem tryggir að almenningur verði ekki leiksoppur glæfra-kapítalista einsog og gerst hefur undanfarið um alla Evrópu og raunar heiminn – en alveg sérstaklega á Íslandi.

Hún ávítar Breta og Hollendinga fyrir óbilgjarnar kröfur á hendur Íslendingum, segir að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið fólskuleg árás á varnarlausa smáþjóð af heimapólitískum ástæðum, telur að Evrópusambandsforustan hefði átt að skipta sér af samningunum og fullyrðir að forseti framkvæmdastjórnarinnar, Portúgalinn Baroso, hafi brugðist vegna þess að hann eigi stöðu sína undir Bretum. Þá flokkist afgreiðsla AGS í síðustu viku undir fjárkúgun.

Eva Joly lætur hinsvegar ekki einsog Íslendingar séu einber fórnarlömb. Stjórnvöld og stofnanir á Íslandi bera umtalsverða ábyrgð, segir hún, og í hruninu hafi ekki hjálpað til „hagsmunaárekstrar og klíkuskapur í stjórnkerfinu“ (mun sterkara á frönskunni: les collusions d’intérêt et le fonctionnement clanique des institutions).

Hún leggur ekki til neina sérstaka lausn á vandamálum Íslendinga en krefst þess að fjármálastarfsemi verði mótaður skýr evrópskur lagarammi, og að alþjóðasamfélagið komi sér upp reglum til að bregðast við hörmungum einsog hér standa enn yfir.

Takk, Eva.

Villigötur

Þeir eru hinsvegar á nokkrum villigötum sem í nánast úrvinda umræðu hérmegin landsteina hafa hampað grein Evu sem ávísun á að við eigum ekki að borga Icesave eða gera einhverskonar aðsúg að Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu.

Eva segir sjálf að hún skrifi grein sína ekki sem ráðgjafi saksóknara eða á vegum Íslendinga, og það er rétt. Hún þekkir málin auðvitað vegna afskipta sinna af eftirmálum bankahrunsins en greinina skrifar hún fyrst og fremst sem evrópskur stjórnmálamaður, fulltrúi Franskgrænna á Evrópuþinginu.

Og einsog stundum hendir bestu menn við stjórnmálaskrif lætur Eva ekki smámuni draga úr áhrifamættinum. Þjóðin „ræður alls ekki við að greiða“ skuldir sínar (allar sumsé, Icesave og allt hitt), segir Eva án þess að orðlengja það frekar (þetta er raunar ekki eins afdráttarlaust á frönskunni: dont elle n’a pas les moyens de s’acquitter). Upphæð innstæðutryggingarinnar er ekki aðeins um 20 þúsund evrur heldur 50 og 100 þúsund evrur, segir Eva, sem er nokkuð ónákvæmt, því kröfur umfram 20 þúsund eru ekki gerðar á íslenska tryggingarsjóðinn heldur þrotabú bankans. Og Eva tilfærir skuldina vegna Icesave í heild sem 4 milljarða evra – en sleppir öllum peningum á móti úr eignasafninu, þar sem mat skilanefndarinnar er 75%.

Þetta sýnir ágætlega að Eva Joly er í raun ekki að skrifa um Icesave heldur um þá endurskoðun fjármálareglna sem leiðtogar ESB-þjóða hafa lofað en ekki bólar mikið á.

Með þeirri endurskoðun eigum við Íslendingar að fylgjast afar nákvæmlega, því þar í grennd gæti málstaður okkar styrkst síðarmeir í Icesave-málinu. Nýtt regluverk kynni að hjálpa okkur bæði við nýjar viðræður ef áætlanir standast ekki um greiðslugetu og hugsanlega einnig til endurskoðunar ef regluverkið er á skjön við samningana við Hollendinga og Breta og atburðarásina sem til þeirra leiddi. Þá stæðum við vissulega sterkari sem ESB-þjóð, einsog Elvíra Mendes hefur bent á. Mér sýnist reyndar sá svarti gamli senuþjófur Uffe Elleman-Jensen vera að segja okkur eitthvað svipað í Berlingi undanfarið.

Það sem við okkur blasir er hinsvegar að eiga við Icesave-samningana á næstu vikum – og hefðum átt að vera löngu búin. Grein Evu Joly gefur okkur engar vísbendingar um hvernig það verði best gert, en sýnir að samþykkt frumvarpsins um ríkisábyrgð á skuldir Tryggingarsjóðsins á alþingi merkir ekki endilega að málinu sé lokið af okkar hálfu.

Icesave-málið er öðrum þræði – aðalþræðinum kannski – pólitískt og siðferðilegt, ekki bara viðskiptalegt og lögfræðilegt. Þessvegna átti strax að kynna þann málstað sem við þó höfðum á alþjóðavettvangi, ekki síst evrópskum. Við það hafa stjórnmálamenn verið linir, sérstaklega fyrstu mánuðina þegar mest reið á. Það er þessvegna mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga árnaðarmenn í evrópskum stjórnmálum. Einn þeirra er nú Eva Joly á Evrópuþinginu. Þá skiptir máli að þakka fyrir – en forðast að misskilja, mistúlka, misnota.

Skaupþing

Aðrir viðburðir helgarinnar: Ég er yfirleitt nokkuð mis-uppnæmur af bloggaranum Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni, en nýja merkið er snilldarlegt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Jón Óskarsson

    Og svo ætti Jóhanna að fá sér annan aðstoðarmann.

    Ekki seinna en nú þegar.

  • já, kærar þakkir eva.

  • Rómverji

    Það er framför átta sig á að andstaða við icesave-samningana er ekki haldið uppi af þeim fámenna hópi sem segir: „Við eigum ekki að borga. Við berum enga ábyrgð.“

    Takk, Mörður.

  • Rómverji

    „andstöðu“ átti það að vera.

  • Ágæt samantekt Mörður en mér finnst nú líka hrópa á mann við lestur greinar Evu hversu vanmáttug/lin íslensk stjórnvöld hafa verið að koma sínum skoðunum á framfæri. Hvort það sé af skömm af klúðri stjórnvalda í aðdraganda hrunsins eða bara hreinum aumingjaskap er ekki gott að segja. Vissulega verðum við að semja um málin en það er ekki sama hvernig haldið er á málum af okkar hálfu.

    Hins vegar er sorglegt þegar Hrannar flokksmaður þinn og aðstoðarmaður Jóhönnu bregst við með þeim hætti sem hann gerði. Ef menn í hans stöðu sjá ekki möguleikana sem svona grein Evu gefur á erlednum vettvangi, þó að setja megi út á einstök smáatriði hjá henni, þá þarf Jóhanna nýjan ráðgjafa.

  • Mörður segir um endurskoðun fjármálaregluverks EB:
    Með þeirri endurskoðun eigum við Íslendingar að fylgjast afar nákvæmlega, því þar í grennd gæti málstaður okkar styrkst síðarmeir í Icesave-málinu.

    Þetta verður ekki skilið á annan veg, Mörður, en að þú sért að mæla með fyrirvörum við Icesave, því ef undir samkomulagið verður skrifað fyrirvaralaust er engin trygging fyrir því að einhverjar „leiðréttingar“ fáist í framtíðinni eða að málstaður okkar styrkist síðar með einhverjum hætti, því ef hið himinháa Alþingi okkar Íslendinga samþykkir samkomulagið þá verður auðvitað þar með búið að leiða málið endanlega til lykta.

    Þá gleymir þú alveg að nefna þann þátt Evu, sem lýtur að þeirri skoðun hennar að mögulegt sé að Bretar beri LÍKA ábyrgð á því hvernig fór með þessa Icesave-reikninga. Fréttastofa Útvarpsins hljóp líka yfir þetta atriði í hádeginu á laugardag, og verður það að teljast undarlegt, þar sem um afar merkilegt sjónarhorn hlýtur að vera að ræða. Eva segir:

    Bresk stjórnvöld bera líka ábyrgð
    Brown heldur því ranglega fram að hann og ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á þessu máli. Brown ber siðferðilega ábyrgð þar sem hann var fremstur í flokki þeirra sem hömpuðu svo mjög því skipulagi sem nú er komið í þrot. En hann ber líka ábyrgð að því leyti að hann getur ekki skýlt sér á bak við lagalega stöðu Icesave – að það heyri formlega undir íslensk yfirvöld bankamála – og sagt að Bretland hafi hvorki haft tök né lagalega stöðu til að fylgjast með starfsemi þeirra. Hvernig er hægt að ímynda sér að 40 manns í Reykjavík hafi getað haft virkt eftirlit með starfsemi banka í hjarta fjármálahverfisins í Lundúnum? Það er raunar athyglisvert að evrópskar reglugerðir sem fjalla um fjármálasamsteypur virðast greinilega gera ráð fyrir að aðildarríki ESB sem heimila starfsemi slíkra fyrirtækja frá þriðja landi verða að fullvissa sig um að þau séu undir jafn miklu eftirliti frá upprunaríkinu og kveðið er á um í evrópskum lögum. Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti. […] Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar? [Tekið af bloggi Jóns Vals Jenssonar á blog.is]

    Þá langar mig, Samfylkingunni til umhugsunar, að benda á eftirfarandi klausu af bloggi Jóns Vals Jenssonar þar sem hann talar um tilskipun eða forsögn EB:
    „Í þessu dírektífi Evrópubandalagsins frá 1994 stendur í 3. grein, 1. málslið: „The system [tryggingainnistæðukerfið] must NOT consist of a guarantee granted to a credit institution by a member state itself or by any of its local or regional authorities.“ Í íslenzkri þýðingu: „Kerfið má EKKI fela í sér tryggingu til handa fjármálafyrirtæki af hálfu þátttökuríkisins sjálfs eða sveitarstjórna eða svæðisstjórnvöldum þáttökuríkisins.“

  • Já, það er flókið að vera Samfylkingarmaður núna. Fer að minna á maóistana og allar „túlkanir“ þeirra. Bækur einsog „What Marx really said“. Það er ekki hægt að treysta fólki til að lesa sjálft, það verður að skýra út hvað Eva sagði „raunverulega“. Hvað hún „skilur ekki alveg“ en að hún sé að reyna eins og hún „hefur vit til“.

    Það skortir hins vegar á skilninginn og heiðarleikann hjá Samfylkingunni. Þar er málstaðurinn orðinn of flókinn til að hægt sé að skýra hann út. Hrannar kvartar yfir því að hún skilji ekki til hvers á að nota lánin frá AGS. Vandinn er sá að Eva gagnrýnir hvergi lánin frá AGS. Mörður lætur að því liggja að hún misskilji ábyrgðirnar vegna Icesave, en hún er aðeins að benda á að sú staðreynd að Bretar og Hollendingar ákváðu að greiða umfram skyldu, hafi áhrif á heildarkostnað gjaldþrotsins, en að það hafi verið einhliða ákvörðun þeirra sjálfra.

    Eva Joly er ekki að misskilja neitt. Hún er ekki að kommentera á hvað Íslendingum beri skylda til að greiða. Hún er að gagnrýna aðferðafræðina sem beitt var í „samningunum“. Hún er að gagnrýna hugmyndafræðina sem liggur til grundvallar hruninu. Hún er að verja málstað Íslands. Nokkuð sem Mörður Árnason gerir ekki.

  • Ásdís Thoroddsen

    Takk fyrir innleggið, Mörður.

  • Eva er að vinna verk sem þið samfó fólk hefðuð átt að gera fyrir löngu. „Blaðurfulltrúar“ ráðuneytana voru einmitt ráðnir til að vinna svona verk og láta ráðamenn kvitta undir. Það er skelfilega ófaglega og klaufalega unnið upplýsingamálum í ráðuneytunum og ég hef mínar skýringar á því sem ég geymi til betri tíma.

  • Kristján Sveinsson

    Sæll Mörður.

    Ef við förum að æfa okkur í því að túlka boðskapinn í margumræddri blaðagrein Evu Joly og komast að því hvað hún fjalli í raun um, eins og þú gerir hér á bloggi þínu, þá get ég ekki verið þér sammála um að í henni felist ekki afstaða til ICESVE-samkomulagsins. Sé það svo að óbjörguleg staða Íslendinga stafi að mestum hluta til af ónýtu evrópsku regluverki, fólskulegum árásum og óbilgirni (nú nota ég orðin sem þú valdir í bloggi þínu) sem hlaðið hafi slíku oki á þjóðina að hún fær alls ekki undir því risið. Já, þá er ekki um neitt annað að gera en neita að borga og lýsa útgerðina fallíttt. Þess vegna skil ég vel þá andstæðinga ICESAVE-samkomulagsins sem telja grein hennar styrkja þann málflutning sem þeir hafa haft uppi. Og get raunar ekki skilið hana með neinum öðrum hætti sjálfur.

    Ég hef verið á öðru máli og talið að rétt væri að Alþingi samþykkti ICESAVE-samomulagið þótt mér hrjósi hugur við efni þess. Afstaða mín mótast af því að ég sé enga aðra leið betri til að leysa þann hnút sem atburðir undanfarinna missera hafa riðið, og með réttu má kalla hengingarhnút. Ég geri mér sem sagt vonir um að með því að samþykkja ICESAVE-samkomulagið geti Íslendingar endurheimt, með tímanum, trúverðugleika sinn á efnahags- og fjármálasviði. Hann er nú með öllu glataður sem víða sér vott en kannski skýrast í gengisfellingu á lánshæfismati Landsvirkjunar sem áreiðanlega á sér ekki síður forsendu í efasemdum um greiðsluvilja en greiðsluhæfi. Nú er greinilega efast um hvorttveggja þegar Íslendingar eiga í hlut. Ég vil einnig trúa því að hægt verði að greiða þær skuldir sem Íslendingar myndu taka á sig með ICESAVE-samkomulaginu og að viðsemjendurnir verði til viðtals um vægari kjör án afarkosta ef við lentum í alvarlegum mótbyr með það. En þetta er von, ekki vissa, og ég verð að segja að mér hefur þótt sem ráðherrar og fjármálaráðgjafar úr hópi stjórnarsinna (einkum í Samfylkingu) hafi talað helst til útrásarlega um skuldakúfinn. Hafa sagt að það sé efasemdalaust að unnt verði að greiða. Hafa efnislega sagt að þetta verði allt í besta lagi. Hversu oft var ekki talað þannig um fjármál á undanförnum árum þótt önnur væri raunin?

    Flokkur Evu Joly er fámennur á Evrópuþinginu og í harðri andstöðu við Baroso og hægri sinnaða forystu hans. Grein hennar er augljóst innlegg í þá valdabaráttu og ekkert er gegn því að segja að efnahagshrunið hér skuli notað í þeim pólitísku átökum sem þar eiga sér vitaskuld stað og eru réttur vettvangur þeirra. Ég get hins vegar ekki varist þeirri hugsun að með þessu fari ráðgjafi sérstaks saksóknara út á hála braut. Er það ekki eitt merki óeðlilegrar stjórnsýslu þegar menn bera kápuna á báðum öxlum? Væri því vel tekið ef danskur þingmaður, segjum einhver af þingmönnum Socialistisk Folkeparti eða Dansk Folkeparti, gegndi ráðgjafastörfum fyrir sérstakan saksóknara auk þess að fjalla um regluverk um samskipti þjóðanna á þeim vettvangi sem málsrannsóknir snúast um? Ég efa það nú.

    Nú kann að vera að grein Evu Joly nái augum og eyrum margra úti í hinum stóra heimi. Ekki er ég dómbær um það. Það kann að vera að hún geti lagað almenningsálit í garð Íslands eitthvað í þeim löndum þar sem hún birtist. Og kannski vekur hún einhverja af þingmönnum Evrópuþingsins til umhugsunar. Helst er von í því. En jafnvel þótt hvert einasta mannsbarn í Evrópu vissi hvernig ástatt er fyrir Íslendingum myndi það ekki breyta neinu verulegu. Það er til dæmis alkunna hvernig svikahrappar sviðu almenning í Albaníu fyrir allnokkrum árum. En kemur það Albönum að einhverju gagni? Ekki held ég það. Samfélög verða að vinna sig sjálf út úr svona stöðu, en þiggja auðvitað góða hjálp. Ef hún býðst.

    Fyrirgefðu langhundinn.

  • Mörður Árnason

    Ágæti Kristján: Sammála. Um afstöðu Evu til Icesave er ég ekki að deila, en vek athygli á því að í grein Evu er ekki að finna neinar leiðbeiningar til okkar um lausn á því máli. Held með þér að lausnin sé sú að klára dæmið og bíta á jaxlinn. En málið er ekki endilega þarmeð búið.

    Doddi D: Það má endalaust halda svona áfram. Var þá ekki grunnforsenda Icesave-málsins sú að hér var ákveðið að allir sparifjáreigendur skyldu halda sínu þótt bankarnir væru í raun gjaldþrota, og ekki bara upp að lágmarkinu? — Eva er ósátt við aðferðafræði samninganna — en fyrst og fremst er hún ,,að gagnrýna hugmyndafræðina sem liggur til grundvallar hruninu,“ og þar er ég henni hjartanlega sammála. — Hver ver málstað Íslands — ja, um það ættum við kannski að leyfa sögunni að dæma.

  • Valur Antonsson

    ,,Upphæð innstæðutryggingarinnar er ekki aðeins um 20 þúsund evrur heldur 50 og 100 þúsund evrur, segir Eva, sem er nokkuð ónákvæmt, því kröfur umfram 20 þúsund eru ekki gerðar á íslenska tryggingarsjóðinn heldur þrotabú bankans.“

    En um það snýst málið, Mörður. Íslenska ríkið segist ætla standa við dírektíf 94/19/EC um bætur úr tryggingarsjóði upp á 20.000 Evrur einmitt til að halda eignum þrotabúsins til haga – eignir á móti skuldum. (Enda þótt þar sé ekki kveðið á um ríkisábyrgð né vaxtagreiðslur ofan á skuldbindingu tryggingasjóðs.) Hvers vegna er því þá ekki haldið aðskildu í samninginum? Þrotabú bankans ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum að gera upp við sína lánadrottna beint; en Bretum og Hollendingum er gert sérstaklega hátt undir höfði með því að skuldsetja Íslendinga fyrir bæði eignum úr þrotabúinu plúss skuldbindinguna vegna 94/19/EC. Það er því enginn ónákvæmni að þessar eignir sem Bretar og Hollendinga hirða úr þrotabúinu er de facto krafa umfram þessar 20.000. Eva Joly er einfaldlega að segja hlutina eins og þeir eru án þess að svindla.

    Það er endalaust hægt að láta hlutina líta vel út með því að búa til nýjan flokk fyrir óhagstæða útgjaldaliði. Breyttu breytandi gerði Bush-stjórnin hið sama í Bandaríkjunum með því að telja ekki Írakstríðið með inn í hallarekstri ríkissjóðs.

    Þessar eignir sem samninganefndin samdi af sér eru beinharðir peningar sem annars færu upp í að borga þessar 20.000 Evrur per reikning.

    Svo ekki sé talað um afsal á þeim möguleika að greiða úr þessu þrotabúi skv. félagslegri forgangsröðun sem lýtur öðrum lögmálum en kapítalismans. (glæfra-kapítalismi eður ei).

    Auk þess eru allar spár um að 75% verði eftir að þessum helmingaskiptum háðar því að það verði komin amk. 2% hagvöxtur í löndunum hér í kring strax á næsta ári. Flestar af þessum eignum eru lán til annarra skuldsettra lánastofnanna; sem er nokkuð ótraust eign samanborið við þetta skuldabréf sem bretar og Hollendingar fá, þ.e. Icesave.

    Eða eins og Paul Krugman sagði: Heads we win, tails you lose.

  • Ólafur Elíasson

    Sæll Mörður.
    Ég vil aðeins benda þér á þá áhættu sem er fólgin í því að veita ríkisábyrgð á láni vegna Icesave og vonast til að seinna sé hægt að taka upp málið ef allt skyldi fara á versta veg. Við í Indefence hópnum og lögfræðingar á okkar vegum, bæði hérlendir og erlendir, hafa lagt mikla áherslu á að samningurinn er því miður þannig úr garði gerður að ekki eru nokkrar líkur á því að það verði hægt. í krafti samningsins munu Bretar og Hollendingar hafa í höndum skýrar aðfararheimildir gagnvart eigum íslenska ríkisins á traustum lagalegum grunni. Þessa stöðu hafa þeir engan veginn núna þegar ekki er búið að skrifa undir ríkisábyrgðina.
    Með því að hvetja til þess glannaskapar að undirrita samningana óbreytta og vonast til að þetta reddist einhvernveginn er að okkar mati verið að hvetja til svipaðs gáleysis og bankamenn og útrásarvíkingarnir stunduðu.

  • Endalaust tal Samfylkingar um að „okkur beri að borga“ Icesave, byggir á eftirfarandi röksemdafærslu: Okkar stjórnkerfi brást, þarmeð berum við ábyrgð.

    Fólkið sem segir þetta er sama fólkið og mannaði stjórnkerfið á þeim tíma sem það „brást“.

    Ef það trúir eigin orðum, hvers vegna segir það ekki af sér? Össur, Jóhanna, Björgvin og allir hinir?

  • Sæll Mörður,
    þú segist ekki finna neina lausn í skrifum Evu. Þar sem hún er reyndur lögfræðingur veit hún að því yrði ekki vel tekið ef hún kæmi með beinar ráðleggingar. Aftur á móti er svar hennar við IceSave augljóst ef þú lest þessar línur vel;

    „Þegar til kastanna kemur verður hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi né Hollandi. Lega Íslands er hernaðarlega mikilvæg og landið ríkt af náttúruauðlindum. Ef svo fer sem horfir mun aldurssamsetning íbúanna breytast og ungt, menntað fólk flytja úr landi. Þeir sem eftir verða munu eiga meira undir þeim sem hæst býður.“

    Hún segir að við getum ekki staðið í skilum og þar af leiðandi lendi Ísland á uppboði sem hvert annað þrotabú.

    Af því að hún veit að það er bannað samkvæmt Stjórnarskránni að setja Ísland í slíka stöðu er bara til eitt svar, NEI VIÐ ICESAVE.

  • Hrafn Arnarson

    Þakkir fyrir góða greiningu Mörður . Ég er sammála henni að mestu leyti .
    En hvað svo ? Deilurnar um það hvort við getum greitt icesavelánið eru jafn óleystar og áður . Flestir myndu ætla að ný samningalota myndi ekki færa okkur betri samning . Það að neita að borga þýðir einangrun okkar í alþjóðasamfélaginu . Stórþjóðir beita smáþjóðir þvingunum og þrýstingi . Það er gömul og ný sama . Ef þú stendur illa heima fyrir þá ræðstu á óvin sem kemur að utan .Það er líka gömul og ný saga . Eva bendir á klíkuskap og spillingu í stjórnkerfinu hér. Þetta þekkjum við af margra áratuga reynslu .
    Alþjóðavæðingin hefur náð einna lengst í fjármálageiranum . Það hefur verið lengi ljóst . Alþjóðlegar eftitlitsstofnanir eru langt á eftir . Það er jafn ljóst .
    En hvers vegna fyllast þá margir þakklæti til Evu Joly ?Jú hún tekur málstað þjóðarinnar á erfiðum tímum og leggur henni lið .

  • Elías Pétursson

    Asskoti eruð þið góðir saman þú og Hrannar B, annar kemur með stutta úttekt á greininni og skoðun aðstoðarmanns forsætisráðherra á skrufum hennar, hinn fylgir með lærðri langri úttekt á grein kerlingarinnar…….spurning hvort þið vopnabræður og skoðanamágar opnið ekki bara einn vettvang fyrir ykkar hugsanalestur og túlkanir á orðum annarra.

  • Og takk Egill. Þþ

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur