Þriðjudagur 04.08.2009 - 09:42 - 9 ummæli

Runnu á rassinn!

(s)Kaupþing rann á rassinn með lögbannið og merkilegheitin, og þar sitja bankaleiðtogarnir nú öllum til aðhláturs – urðu að gefast upp fyrir almennri andstöðu við varðstöðu bankastjórans, skilanefndarinnar og bankaráðsins við þá leyndarveröld sem var.

Þetta var líka eitthvað það vitlausasta sem bankinn gat gert í stöðunni! Vissulega eru í lekaskjalinu miklu fleiri en almenning varðar um – því ákveðinn lágmarkstrúnaður verður að ríkja í samskiptum banka og viðskiptamanns rétt einsog hjá lækni eða lögfræðingi. Og það er alltaf galli við leka að við vitum sjaldnast af hvaða hvötum lekið er: Er lekarinn að hugsa um landsins gagn og nauðsynjar eða er lekinn partur af einhverskonar valdabaráttu eða uppgjöri þar sem ekki er sögð öll sagan?

Í nútímasamfélagi er það einmitt hlutverk góðra fjölmiðla að vinsa úr og skila til almennings sæmilegri heildarmynd úr upplýsingunum sem lekið er. Lögbannið kom einmitt í veg fyrir að fjölmiðlar gætu þetta. Kaupþing uppskar einsog það hafði til sáð, tortryggni, óróa, fjandskap – en fyrirtæki og einstaklingar á lekalistanum sem ekkert hafa til saka unnið verða fyrir ádeilu og óþægindum sem líklegt er að traust fjölmiðlaumfjöllun hefði hlíft þeim við.

Hvar var Mogginn?

Leiðari Moggans fjallar um þetta í dag. Þar er réttilega gagnrýnd bankaleynd á kostnað almannahagsmuna. En hvað gerði Mogginn sjálfur? Hann setti ekki Agnesi eða aðrar stjörnur í málið að skýra fyrir lesendum hvað þetta merkti allt saman og hvaða lærdóm mætti draga af – heldur þegir í dag þunnu hljóði um Kaupþingsmálið. Nærtækasta skýringin er því miður að Moggi hafi orðið hræddur við hótanir bankans í garð annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins.

Nema hér hafi gætt samúðar í garð þeirra sem urðu fyrir lekanum? Enn er margt á huldu um björgunarleiðangur Glitnis hins nýja fyrir blaðið á kostnað almennings, enda engri lánabók verið lekið í þeim banka.

Að siga

Rétt hjá Blaðamannafélaginu, fréttamönnum RÚV, Álfheiði, Björgvini, Katrínu og öðrum sem hafa tjáð sig: Eftir þetta þarf að endurskoða bankaleyndarákvæði í lögum til að tryggja að þau gangi ekki á almannahagsmuni.

Annað sem þarf að gera eftir lekalögbannið er að taka til í Kaupþingi, eign íslensku þjóðarinnar. Þar geta ekki haft forustu menn með hugarheim í ætt við þau ummæli Finns Sveinbjörnssonar frá 2008, fyrir hrun, að það eigi að „siga lögfræðingum á fjölmiðla sem [fara] með fleipur um bankann“.

Lögbannsdellan er reyndar þriðja skrýtna málið sem forusta Kaupþings lendir í á skömmum tíma. Fyrst var uppgjöf hlutabréfaskulda við háttsetta bankastarfsmenn, að ráði innanhúslögfræðings sem reyndist eiga ólítilla hagsmuna að gæta. Síðan fréttist af bankanum í ráðslagi við Björgólfsfeðga um helmingun skuldar sem þeir tóku hjá Kaupþingi til að kaupa Landsbankann. Og svo setja þeir lögbann (hjá sýsluföðurnum góða!) á að Ríkisútvarpið fjalli um upplýsingar sem fyrir liggja á netinu.

(Eva Joly: les collusions d’intérêt et le fonctionnement clanique des institutions.)

Ábyrgð

Skilanefndin kann að hafa það sér til afsökunar að hún starfar fyrir kröfuhafana, og við höfum í sjálfu sér ekkert yfir henni að segja. Bankastjórinn starfar hinsvegar í umboði bankastjórnar sem fulltrúar okkar á alþingi kusu – og bera að lokum á alla ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Milljarða lánveitingar eru ekkert einkamál ,varða þjóðarhag heilmiklu en auðvitað eiga almenn viðskipti einstaklinga og fyrirtækja með smærri upphæðir að vera trúnaðarmál.

  • Takk fyrir tetta en heyrdu Mördur, geturdu útskýrt fyrir mér thetta med skilanefndina. Hver skipar hana og ber ábyrgd á henni? Erlendir kröfuhafar?? Hver skipar bankastjórann og ber ábyrgd á honum? Veistu hverjir eru staerstu kröfuhafar Kaupthings? Eitt enn thví ég er med svo lítinn fattara. Tessi leki, var hann úr gamla Kauptingsbanka, thessum sem hrundi, eda nýja, thessum sem stendur og fellur med innlánsreikningum almennings og fyrirtaekja?

    Eins og Madonna segir: Some people talk the talk, others walk the walk.

  • Skítlegt eðli

    Hvernig verður sú ábyrgð öxluð sem tjáð er í lokamálsgreininni?

  • Mörður Árnason

    Jú, Páll, Fjármálaeftirlitið velur í skilanefndina skilst mér en hún er í raun fulltrúi kröfuhafanna, rétt einsog skiptastjóri i þrotabúi ber eingöngu ábyrgð gagnvart lánardrottnum þess. Stjórn bankans sem alþingi kaus ræður bankastjórann. Um stærstu kröfuhafa Kaupþings er ég fáfróður en þeir eru sagðir einkum voldugir bankar í Evrópu, auk ýmissa skuldabréfaeigenda. Deutsche Bank aðallega, segir Mogginn. Og enginn veit hvaðan lekinn er, en ég skil heldur ekki muninn á nýja og gamla bankanum, þeir virðast til dæmis báðir hafa sama bankastjórann, Finn sigara Sveinbjörnsson. — Hann á að hætta, og þeir sem tala talið eiga líka að ganga ganginn … eða þannig. Það er líka ágætt svar við spurningu Skítlegs eðlis (gott bloggnefni!).

    mbl.is um kröfuhafa: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/07/21/i_fadm_erlendra_banka_risa/)

  • Takk aftur Mördur fyrir ágaetis svar. Finnur sigari, haha….gódur. Einu velti ég thá fyrir mér, afsakadu fábrotna hugsun hjá daudlegum manninum og stafsetninguna en ég bý í Svíthjód ( vaenar sálir thar eins og vid vitum og gódhjartadar ): Ef lög hafa kannski verid brotin vaeri thá hagstaett fyrir kröfuhafa, td Deutsche Bank, ad fara í mál vid fyrri eigendur bankans? Flestir their eru jú umsvifamikilir í dag, bara undir ödrum formerkjum. Eda er thetta kannski allt sama risk taking behaviour hjá thessum virdulegu stofnunum, hún var bara extrem hér enda blessad skerid fámennt og einmana hrúgald.
    Ae, thetta var nú bara svona paeling hjá kallinum. Thú tharf ekkert ad svara thessu.

  • Nýi Dexter

    Smjörkreppuklípuklám.

  • Húrra fyrir þeim sem lak lánabók Kaupþings.

    Ólafur G. Einarsson! Viltu ekki hugleiða að veita óþekktu Kaupþingshetjunni stórriddarakross? Hvað réði eiginlega valinu á Sigurði Einarssyni og co?

    ………………….

    Við bíðum eftir hetjum úir Landsbanka og Glitni

  • En af hverju er stjórn „alls upp á borðum“ eingöngu reaktív í þessum málum? Af hverju eruð þið stjórnarliðar ekki búnir að heimta þessar upplýsingar fyrir löngu? Og af hverju eruð þið ekki búnir að heimta þessar upplýsingar úr hinum bönkunum, nú eftir þennan leka?

    Koma svipaðir pistlar ef að einhver annar ábyrgur íslendingur nær að leka þaðan?

  • Mörður Árnason

    Ha, Kristján G., hvernig pistlar? Hér er als ekki hnýtt í þann sem lak , aðeins minnt á að menn leka af ýmsum ástæðum. Ég tek undir með Agli Helgasyni: Það þarf að hraða hinumopinberu rannsóknum, og rannsóknarnefnd þingsins á að athuga um einhverskonar framvinduskýrslu/milliuppgjör. En á meðan eigum við að taka fagnandi öllum bankalekum sem geta skýrt hrunið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur