Miðvikudagur 05.08.2009 - 11:08 - 17 ummæli

Hvað það verður veit nú enginn

Nýjasta nýtt í Icesave-málinu er mat Hagfræðistofnunar Háskólans á útreikningum Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins. Matsskýrslan er kynnt í sumum miðlum sem „svört“ skýrsla, en þar segir þó ekki nema það sem allir vissu: Óvissa er veruleg um afdrif Icesave-skuldanna, annarsvegar af því við vitum ekki hvað mikið kemur inn frá þrotabúi Landsbankans, og hinsvegar vegna þess að erfitt er að spá um hagvöxt, fólksfjölgun og viðskiptajöfnuð næstu fjórtán ár.

Höfundar matsskýrslunnar telja að fyrri skýrslugerðarmenn hefðu átt að setja fram einskonar sviðsmyndir þar sem endurgreiðslur væru tengdar spám um ýmsa hagþætti („varasamt að styðjast um of við tiltekin grunndæmi þegar meta á áhættuna“). Þetta væri fróðlegt en manni sýnist örðugt að segja fyrir nema afar almennt um þessa þætti, því annars væri hætt við að stjórnmála- og áhugamenn veldu sér bara þá sviðsmynd sem væri í bestu samræmi við fyrirframskoðanir þeirra sjálfra um greiðslugetuna.

Ég staldra hinsvegar við þá gagnrýni Hagfræðistofnunar að Seðlabanki og fjármálaráðuneyti hafi ekki reiknað inn í dæmið afleiðingar Icesave-skuldanna sem um er fjallað – fyrst og fremst að menn hafi verið of bjartsýnir á fólksfjölgun. Þetta vitum við ekki – og auðvitað er hætt við að það grípi um sig vonleysi og uppgjöf ef fram heldur sem horfir. Sumir stjórnmálamenn virðast raunar líta á það sem hlutverk sitt að tala fólk sem hraðast úr landi – til dæmis og einkanlega formaður Framsóknarflokksins. Höfundar matsins segja þó í niðurstöðum að reynslan bendi til þess „að áhrif hagsveiflu á fólksflutninga séu marktæk en ekki stórvægileg“. Munurinn á ástandinu nú og í fyrri kreppum eða lægðum sem í minni standa hér er þó sá að kringum 1990 og 1970 var lægð á Íslandi en gott ástand í grannlöndunum – nú er hinsvegar víðast illt í ári.
 
Athyglisverð niðurstaða Hagfræðistofnunar er þessi:

„Hvað varðar greiðslubyrði afborgana og vaxta ræðst hún mjög af aðgengi að erlendu lánsfé á þeim tíma sem endurgreiðslurnar eiga sér stað. Ólíklegt er að afgangur af ríkisrekstri verði svo mikill sem gert er ráð fyrir í greinargerð fjármálaráðuneytisins. Það ætti ekki að koma að sök verði aðgengi að fjármagni tryggt þegar fram líða stundir þar sem hægt yrði að endurfjármagna greiðslurnar. Engu að síður er ljóst að miðað við breytingar í forsendum sem ekki eru ólíklegar getur greiðslubyrði af lánunum orðið þungbær ef aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum er takmarkaður á endurgreiðslutímanum.“

En aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum ræðst einmitt mjög af því hvernig við afgreiðum Icesave-málið!

Já eða nei

Mér sýnist búið að segja allt sem sagt verður um einstaka þætti Icesave-samninganna. Það eru í raun og veru ekki nema tveir kostir í stöðunni – og báðir illir einsog í öðrum Íslendingasögum: Að hafna samingunum eða samþykkja þá, hugsanlega með formúleringum frá þinginu sem þyngja pólitíska pundið í endurskoðunarákvæðinu.

Það er varla raunhæft að fá „leiðrétt“ eitt eða tvö atriði samninganna af því þau séu óréttlát eða tilteknir spekingar telji þau á svig við lög. Samningar af þessu tagi eru einfaldlega gerðir á mörgum „frontum“ og eftir að ákveðnu jafnvægi er náð við samningsgerðina breyta menn ekki heildarstöðunni heldur þurfa að draga lið sitt aftur á einu svæði skákborðsins ef þeir vilja sækja fram annarstaðar. Bretarnir munu til dæmis hafa lagt á það mikla áherslu að tryggja jafnræði krafna, sem Ragnar Hall vakti á mikla athygli, vegna þess að íslenskir lögfræðingar þeirra bentu þeim á að hér væri lagaóvissa um þetta. Hættan við að biðja um „leiðréttingu“ á þessu er sú að þá séu teknir upp aðrir þættir samningsins sem okkur eru í vil, svo sem lánstíminn eða vextirnir – eða endurskoðunarákvæðið, sem með núverandi orðalagi og tengslum við Brussel-viðmiðin gefur færi á útleið ef illa fer, einkum ef Íslendingar eru orðin ESB-þjóð eftir nokkur misseri.

Þessvegna er það rétt hjá Guðbjarti Hannessyni í Kastljósi í gær að hér geta þingmenn og almenningur allur varla gert annað en að bera saman afleiðingarnar af því að samþykkja samningana og afleiðingarnar af því að hafna þeim.

Hvað fólksflótta varðar er líka þar mikill efi: Kannski flytjast einhverjir frekar til Noregs eða Ástralíu ef samningarnir eru samþykktir. En hvaða áhrif hefur það á útflutning fólks – og hugsanlega heimkomu Íslendinga ytra – ef Icesave-ruglið heldur áfram og við komumst aldrei úr sporunum til að endurreisa efnahagslífið og bæta samfélagið?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • „… ef Icesave-ruglið heldur áfram“ ?

    Þetta minnir óþægilega á skort Svavars á nennu. Er nú ekki rétt að halda hina lýðræðislegu umræðu út og fara ekki á taugum? Ég á bágt með að ímynda mér að himnarnir hrynji þó svo að við reynum að vanda okkur.

    Ykkur Samfylkingarmönnum hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina. Ykkur virðast skorta rök. Kjarninn í röksemdafærslu ykkar er „realpólitík“, sem sé að hröð afgreiðsla á Icesave, leiði til hraðfara uppbyggingar og hraðari tekjuöflunar sem sé verðmætari en fórnarkostnaðurinn. Og einnig að höfnun samnings geti leitt til viðskiptalegrar einangrunar.

    Veikleikarnir í þessari hugsun eru þeir að þið eruð ekki til viðræðu um að það séu nein töluleg mörk, þar sem fyrri rökin hætta að gilda. Allt tal um þak á greiðslur eða greiðslugetu er slegið út af borðinu, með því að segja að þetta verði örugglega í lagi. Þetta finnst fólki ekki trúverðugt, þó svo að rök ykkar séu að öðru leyti trúverðug. Þetta tal ber vott um einhvers konar kæruleysis hugsun.

    Hvað einangrunarrökin varðar, þá er það spádómur sem erfitt er að fjalla um og enginn veit hvort reynist réttur og er þess vegna léttvæg röksemd, enda minna notuð af ykkar hálfu eftir því sem liðið hefur á umræðuna.

    Það sem eftir stendur eru vangaveltur um meiri eða minni hagsmuni og flestum finnst eðlilegt að við látum reyna til hins ítrasta á það hvort ekki er hægt að komast að samkomulagi sem allir aðilar geta sæst á með góðu móti. Þjóðinni finnst einsog þar vanti mikið á.

  • Ómar Kristjánsson

    Það veit allt ábyrgt fólk að samninginn ber að samþykkja hið fyrst. Umræðan hefur að mestu verið úti á túni. Nú síðast að íslenski tryggingarsjóðurinn ætti að hafa ofurforgang í kröfur þroabúsins. Reyndist steypa náttúrulega eins og annað sem menn hafa dúkkað upp með.

    Niðurstaðan verður líklega einhverjir fyrirvarar við samninginn og málið afgreitt.

  • Nýi Dexter

    Enn í sumarfríi Mörður?

  • Sigurður #1

    Ómar Kristjánsson.

    Þú ert ábyrgðarlaus að ætla öðrum (jafnvel öðrum kynslóðum) að greiða skuldir Landsbankans.

    Það er mikill ábyrgðarhluti (ábyrgðarleysi) að flytja út þau skilaboð til glæpamanna að þeir hafi frjálsar hendur, og almenningur muni bara bæta þjófnaðinn.

    Það eru ekkert nema aumingjar sem samþykkja Icesafe, enda ber okkur ENGIN skylda tl að greiða þetta.

    Svo er ágætt að hafa það í huga að samfylkingin hefur ALDREI, og HVERGI haft neitt frumkvæði í að rannsaka þessa glæpi eða efla saksókn.

    Aðeins látið undan þrýstingi annara.

  • ÆÆÆ, þetta er allt orðið býsna sorglegt; eiginlega aumkunarverðara en þegar maður horfði upp á Sjálfstæðisflokkinn ætla að troða ýmsu í gegn brennimerktu ranglætinu. Þá hafðir þú, Mörður, augu til að sjá og eyru sem heyrðu, og gátu fyrir vikið gagnrýnt, en nú ertu, eins og samflokksmenn þínir, sleginn blindu.

  • Farið að sýna okkur eitthvað plan um hvernig eigi að afla fjármuna til að standa við þessar skuldbindingar ofan á allar hinar þannig að við getum trúað því að þið séuð ekki bara að halda áfram Ponzi-svindl-viðskiptamódelinu sem borgar vexti með nýjum lánum.

  • Kristján Sveinsson

    Sæll Mörður.

    Það væri undanhald að hlaupa frá ICESAVE-samningnum. Undanhald sem myndi keyra Ísland endanlega í skítinn. Það hefur enn ekki verið slegin undan okkur nema önnur löppin. Stöndum fast í hina, þiggjum þann stuðning sem okkur stendur til boða eftir að gengið hefur verið frá ICESAVE. Gerum skyldu okkar og krefjumst réttar okkar. Verum áfram menn með mönnum. Þá mun vel fara að endingu.

  • Mér sýnist þessi læti um Icesave samninginn vera ein stór smjörklípa hinna ráðandi stétta, sérstaklega úr Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Það hefur nefnilega tekist framúrskarandi vel að þagga niður í allri umræðu um hina 200-300 milljarða sem sturtað var í peningamarkassjóði bankanna af almannafé. Þetta var sparifé hinna ráðandi stétta á Íslandi, m.a. alþingsmanna, ættingja þeirra og vina, sem glataðist í hruninu. Ákvörðun var tekin um að þjóðin greiddi þessar skuldir (við sparifjáreigendur) einkabankanna. Við, börn okkar og barnabörn munum finna fyrir þessari ákvörðun um ókomin ár. Finnst fólki virkilega ekkert mál skattborgarar greiði þennan reikning af því um Íslendinga er að ræða, en þegar kemur að sambærilegum skaðabótum til útlendinga verður allt brjálað?! Ég skil ekki svona rugl. Hér er ábyrgð fjölmiðla mikil.

  • Elías Pétursson

    Héðinn,

    Ekki biðja Mörð um plan, þau hjá sf hafa bara eitt plan og það er klárt…….

    Samþykkja allt sem Englendingar, Hollendingar og ESB sækja um í ESB fá svo að vera með í ESB eftir einhver ár, evra eftir guð veit hvað mörg ár og allt gott (það eru reyndar smávandamál sem enginn talar um svo sem krafan um skuldastöðu við útlöng og efnahgsstjórn, en hverju skiptir það).

    þangað til mun líka allt verða gott vegna þess að við umsókn í ESB þá mun traust á íslandi stóraukast og gengið rísa til gammalla hæða, já og matvælaverð lækka um 30 til 70%……og verðtrygging og verðbólga munu heYra sögunni til.

    Jóhanna og aðstoðarmaðurinn hennar eru bæði viss um þetta allt.

    Ekki skemmir svo fyrir að Gylfi er kominn með aðstoðarmann sem kann að gera voðafínar sýningar fullar af bjartsýni og trú á framtíðina ( http://www.landsbanki.is/Uploads/Documents/Greiningar/hagspa_2008_glaerukynning.pdf).

    hættum svo að vera með þessa vantrú og neihvæðni

  • Vangaveltur eru stöðugt um það hvað miklar eignir eru til uppí Icesave skuldirnar hjá Landsbankanum. Nú er verið að veita ríkisábyrgð fyrir skuldunum. Ég velti því oft fyrir mér hvað gerist ef nýir aðilar eignast Landsbankann. Verður t.d. hægt að henda þessum skuldum alfarið á íslenska samfélagið með einhverjum brellum.
    Áður voru miklar eignir til í t.d. Brunabótafélagi Íslands. Fyrrum stjórnmálamenn og fjárfestar komu sér einhvernveginn inní félagið, urðu stjórnarformenn þess og settu sig í stjórnir. Svo var eitthvað selt einhverjum og það síðan öðrum svo var verðið lækkað á nýju félagi það selt öðrum eða einhvernveginn þannig og nú eiga sveitarfélögin ekki krónu í Brunabótafélagi Íslands. Verður hægt að beita svona bellibrögðum með Landsbankann. Skilja skuldirnar eftir í íslenskum þegnum en hirða eignir bankans og verða ríkir af þ.e. einhverjir snjallir og sjálfumglaðir einstaklingar.? Ég spyr bara.

  • Mörður Árnason

    Ég vona svo sannarlega, Drífa, að Brunabótarsögur séu liðin tíð. Það eiga að vera skýr skil milli gömlu bankanna, sem í öllu nema orði eru farnir á hausinn, og hinna nýju, sem ríkið setur peninga í (okkar!) en selur hugsanlega að lokum (og fær þá peningana til baka). En það er rétt og skynsamlegt að vera vel vakandi og mjög tortrygginn.

  • Þú fyrirgefur vonandi….en það er ekki heil brú í þessari færslu, þ.e. ef maður setur hana í samhengi við þá staðreynd að þú (eins og hver og einn einasti þingmaður Samfó) hyggst kjósa „með“ ríkisábyrgð á ICESAVE samningnum.

    Þú ert klárari en þetta „sloppyness“ ber vitni um. Og rökfastari.

    Ég endurtek spurningu að ofan: „ertu enn í sumarfríi?“.

  • Helena – þú veist að Mörður er ekki á þingi?
    Eftirsjá að honum – sannarlega.

  • Mörður,

    Þú hefur snúið þessu eitthvað á hvolf.

    Ísland verður nefnilega ekkert girnilegra í augum erlendra fjárfesta ef það tekur á sig viðbótarskuldir upp á hundruði milljarða. Við það geta lánskjör okkar aðeins versnað amk hjá skynsömum fjárfestum.

    Við eigum að standa á rétti okkar. Það skapar virðingu annara þjóða. Það að láta undan ólögmætum þrýstingi Breta og Hollendinga sendir bara merki um að kúgarar séu velkomnir til Íslands.

    Það verður að hafna þessum samningi. Íslensk heimili áttu enga sök á hruni Landsbankans og það er þjófnaður að láta þau borga.

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Það eru greinilega enn til það fólk sem heldur að við Íslendingar getum gert eitthvað annað en að borga Icesave. Dæmalaust hvað margir hafa enn skoðanir eins og að fara dómstólaleiðina sem ljóst er síðan í haust er ófær, að samninganefndir hafi samið af sér þó að ítrekað hafi komið upplýsingar um að ekki hafi tekist að ná meiru fram og ekki síst að það skipti engu máli að fella samninginn því það muni ekki vekja athygli og jafnvel að Bretum og Hollendingum sé sama. Enn aðrir telja að Samfylkingin sé að búa til vondan samning til að þóknast ESB! Svo er það þetta með að Íslendingar standi ekki undir þessu og því eigi ekki að samþykkja ábyrgðina.

    Það er bara eitt að segja um þetta. Sumt kemur þetta í ljós ef við samþykkjum s.s. hvort við verðum gjaldþrota og hitt kemur í ljós ef ábyrgðinni verður hafnað. Og annaðhvort gerist! En eins og Mörður segir, nú verður þjóðin að fara að hætta á þessum Icesavebömmer til að koma sér að verki við endurreisnina. Ég ætla rétt að vona að það verði Samfylkingin og VG sem leiði það verk og verði ekki jafn „þolinmóð“ gagnvart ruglinu í …. eins og á undanförnum vikum. Tíminn er dýrmætur og dragist þetta áfram með þjóðina hlustandi á fréttaflutning sem ærir hana (á ný) er hætt við uppgjöf og atgervisflótta.

    En mikið lifandis ósköp sleppa Sjálfstæðisflokkur og Framsókn billega frá því að bera nokkra ábyrgð á því sem hefur gerst. Ef þeir fá sinn vilja í þessu máli tel ég réttast að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn á Íslandi borgi sjálfir Icesave og fái til þess hjálp frá þeim VG mönnum sem eru sammála þeim í ábyrgðarleysinu.

    Fellur ríkisstjórnin ef Icesave verður fellt á Alþingi?
    Hver ætlar í ríkisstjórn með Framsókn og eða Sjálfstæðismönnum?

  • Yfir 4000 milljardar í skuld, afborganir sem vega 2-3% af thjódarframleidslu í mörg ár og thetta kallar fólk bömmer sem thurfi ad komast yfir. Thad vill nú bara svo til ad thetta er nú bara thó nokkur hluti af endurreisninni. Kannski Unnur og félagar vilji ritskoda fréttir eins og kommúnistar í Kína til ad „aera ekki thjódina“. Kannski tíminn er svo dýrmaetur ad lýdraedisleg umraeda er óthörf. Bara keyra í gegn thetta ICESAVE rugl og fara ad sinna gaeluverkefnum. Thad er vel haegt ad fara adrar leidir og já, thessi samningur er lélegur. Semja langt umfram ábyrgdir!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur