Föstudagur 07.08.2009 - 12:49 - 28 ummæli

Blóðtappi

Þessa daga eru liðnir tíu mánuðir frá hruninu. Auðvitað var óraunsætt að halda að við næðum upp úr því á nokkrum mánuðum, en ósköp gengur okkur hægt! – bæði að klára björgunaraðgerðir og koma okkur í vinnustellingar.

Þjóðin varð gjörvöll fyrir feikilegu áfalli í október, efnislegu og huglægu, og við erum enn ekki komin lengra en á reiðistigið í sorgarferlinu: Ásökum hvert annað og sjálf okkur – og getum um fátt sameinast nema sjálfsagða andúð á fjárglæframönnunum og svo að bölsótast út í grannríkin sem séu ýmist í fólskulegum árásum á litla saklausa smáþjóð eða að svíkja okkur í aldagömlum tryggðum.

Þetta kristallast í Icesave-deilunni, sem nú er farin að hindra alla framþróun – samfélagið snýst hring eftir hring um þetta mál einsog þráhyggjusjúklingur – kannski mætti líkja því við tappa sem þrengir að blóðstraumnum í mikilvægri æð.

En við þurfum að halda áfram. Við þurfum að fá peningana að utan, þurfum að bæta lánstraust og viðskiptavild – fá kaupfrið, þurfum að koma atvinnulífinu í almennilegan gang, þurfum að hafa vinnu fyrir alla og þurfum koma í veg fyrir hörmungar á heimilum landsins. Við þurfum að fá upp á borðið með skipulegum hætti hvað gerðist í hruninu, draga til ábyrgðar þá fjármála-, embættis- og stjórnmálamenn sem ábyrgð eiga að sæta, heimta inn það fé sem hægt er að fá upp í skuldir sem við höfum að vísu fæst til stofnað en verðum samt að standa á öll skil. Við þurfum að endurhugsa stjórnsýslu og skipulag í stofnunum okkar, setja lýðræði og gagnsæi í staðinn fyrir klíkur og klön.

Við þurfum líka hið bráðasta að komast áfram í áfallsferlinu: Yfir reiðistigið og gegnum þunglyndið þangað til samfélagið nær þokkalegri sátt við sjálft sig og getur sinnt því hlutverki að búa borgurunum tækifæri til frjórrar lífsnautnar – og til þess verðum við á einhverjum stað í þessu ferli að geta sameinast um að endurskoða gildismat okkar, fleygja á haugana ýmsu hugmyndalegu fylgigóssi góðærisklikkunarinnar og sækja í hugmyndastrauma samtíðar og í arfinn frá áum og eddum þau gildi sem geta reynst veganesti til frambúðar – nú er ég næstum farinn að tala einsog forsetinn en meina þetta samt: Hella forsjá, heiðarleika, nægjusemi og samhjálp í þjóðarsálarkokteilinn með Ég elska þig stormur og Upp með taflið, ég á leikinn.

Yðar einlægur er núna að lesa yfir þýðingu á ágætri bók sem kemur út í haust um loftslagsvána – og við það verk finnst manni vandi Íslendinga þrátt fyrir allt ekki afar fyrirferðarmikill. Framtíðarforsagnir – eftir bara 15–20 ár – eru þannig að líka hér á Íslandi blasa við okkur fleiri brýn úrlausnarefni en að taka til eftir vitleysuna. Maður þarf satt að segja stundum að harka af sér.

Tvö óskyld fyrirbæri – bankahrunið á Íslandi og loftslagsváin um alla jörðina – en sameinast þó í einum punkti. Hvort tveggja krefst mikilla fórna, fjár, vinnu, hugvits – og frá hvorutveggja vill mannskepnan helst komast sem allra lengst – en hvorugu verkefninu völdum við nema 1) standa saman, og 2) læra að hugsa upp á nýtt.

Þessi dægrin virðast ýmsir alþingismenn uppteknastir af því í Icesave-málinu að sitja ekki uppi með Svartapétur eftir undanfarin hróp og köll. Ég vona samt að þeir skilji hvað það skiptir miklu máli að við losnum við blóðtappann og förum að undirbúa nýja tíma.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Nýi Dexter

    Næsta skammt sagði fíkillinn.

  • Það er enginn blóðtappi, bara stefnuleysi.

  • Óréttlæti

    Vandamálið er Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms………….

  • Þorgrímur Gestsson

    Góð greining, Mörður, og þessi þrennu ummæli hér að ofan sanna eiginlega þitt mál, flestir eru enn ringlaðir og reiðir, hafa ekki náð áttum; verst er þó þegar þetta ringlaða lið reynir að klína sökinni á ástandinu á núverandi stjórnarflokka. Mann grunar stundum að það sé gert út af sjálfri hægriklíkunni til þess einmitt að stinga inn svona eiturheimskum athugasemdum sem víðast til þess að æsa upp tortryggnina í fólki.

  • Kristján Sveinsson

    Vel mælir þú Mörður.
    Stjórnin stendur sig og Steingrímur er búinn að finna viðspyrnuna. Þetta hefst.

  • Já, best að hlusta bara á þá sem eru yfirvegaðir (les: Sammála).

  • Sumir eru bara svo innilega sannfærðir um að fnykurinn sé af þeim sem er að moka flórinn en ekki af flórnum sjálfum.

  • Eitt er að hafa valdið hruni. Af því dæmast þeir sem ullu.
    Svo er annað og það er að bera ábyrgð á hvernig tekst til með úrvinnslu og uppbyggingu. Ekki á að láta þá sem þar eru gjalda fyrir ábyrgð hinna sem hruninu öllu. En þýðir það að viðkomandi er án ábyrgðar?. Nei, um leið og hann ber ekki ábyrgð á hruninu þá ber hann ábyrgð á uppbyggingu. Í henni leynast hættur og þar er líka hægt að láta takast vel til eða illa. Það er því slæmt að gagnrýni á núverandi stjórnsýslu sé svarað að þeim sé um að kenna sem hruninu olli. Það er eins og að skamma brennuvarginn sem brenndi fjósið fyrir lélega smíði á nýja fjósinu. Þetta eru óskyldir hlutir og hver og einn ber ábyrgð á sínu.
    Eins og ég er sammála ábyrgð eða kannski réttara að segja ábyrgðarleysi þeirra sem hruninu ollu þá ber ég orðið mikinn kvíðboga yfir því að núverandi ábyrgðarhafar standi ekki undir nafni. Kannski á það betur eftir að koma í ljós og verða þess verðugir. En ég verð að segja eins og er að ekki hafa aðgerðirnar borið það með sér svo tilrú mín aukist.

  • Gagarýnir

    Icesave er bara sýnilegt mark, nánast formsatriði, um hvort við ætlum að taka hér til. Landið er í EES og allur grunur um að glæpamenn geti hreiðrað um sig hér og notað landið er óþolandi í huga ESB ríkja.
    10 mánuðir og engin eftirlitsstofnun nema kannski Eva Joly hefur skilað árangri. Sérstaklega hefur Seðlabankinn staðið sig illa. FME hefur verið vísvitandi fjársveli lengi en má vona efitir að þessi forstjóragufa er farin.

  • Gagarýnir

    Annars er núna lag að gera róttækar breytingar eins og ríkisstjórnin hefur verið að vinna að. En fellur stjórnin? Þessi gamli veikleiki vinstri manna að hafa sínar eigin skoðanir. Svo hún fellur kannski á einhverjum hippavaramanni, móhíkanavaramanni eða paestínuklútsvaramanni.

  • Aðal vandinn sem ríkisstjórnin á við að stríða bæði inn á við og út á við er að hún sýni að hún hafi ekki tekið upp starfshætti útrásarvíkinganna og sé ekki bara að viðhalda nýju ponzi-svindli þar sem ný lán eru notuð til að greiða vextina af gömlum lánum. Sýnið okkur að þið séuð með nýtt plan sem gengur út á að minnka skuldir samfélagsins og þá getið þið farið að kalla eftir stuðningi og samstöðu. Meðan að fólki finnst að þið séuð bara að kalla eftir samstöðu til að geta fórnað öllu fyrir enn fleiri lán sem enginn leið virðist vera að við munum geta greitt mun ekki vera margir sem svara slíku kalli.

  • Sigursteinn Másson

    Þeim mun fyrr sem Alþingi afgreiðir málið þeim mun betra.

    Mér finnst fólk vera of upptekið af sekt og sakleysi í umræðunni. Það eru ekki ýkja margir sekir í hruninu, kannski 50 eða 100, en það þýðir ekki að restin sé saklaus. Það fylgir því nefnilega ábyrgð og skyldur að búa í sjálfstæðu lýðræðisþjóðfélagi m.a. þær að bera ábyrgð á þeim stjórnvöldum sem kosin eru og setja leikreglur í samfélaginu. Sömuleiðis forseta lýðveldisins. Gildir þá einu hvort sá flokkur eða einstaklingur sem maður kaus var við völd.

    Við berum auðvitað sem þjóð siðferðislega ábyrgð á Icesave og það væri mikil skömm að hlaupast undan henni. Hinn sjö ára greiðslufrestur gefur okkur færi á að sækja peninga útrásarforkólfanna hvar sem þá er að finna. Það er sjálfsagt mál að Alþingi setji fyrirvara sem fást staðist en við samninga verður Ísland að standa svo við getum snúið okkur að því að móta hér nýtt og réttlátara samfélag.

  • skattmann

    http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/2259

    Rakst á eftirfarandi í athugasemdadálki við blogg Bjarna Harðar á mbl.is:

    Margrét Tryggvadóttir Borgaraflokksþingmaður og fulltrúi flokksins í

    fjármálanefnd, var að lýsa því í útvarpsviðtali að því meira sem hún kynnir sér

    IceSave samninginn því verra lítur hann út, sem og því meira kæmi í ljós hversu

    gróflega samtengdur hann er EBS inngöngunni og beinum afskiptum AGS sem

    augljóslega er notaður af Bretum og Hollendingum sem innheimtustofnun þeirra.

    Jafnframt að formaður fjármálanefndarinnar, Guðbjartur Hannesson

    Samfylkingarmaður, fari með staðlausa stafi þegar hann fullyrti um helgina í

    fjölmiðlum að Bretar og Hollendingar geti ekki gengið að auðlindum þjóðarinnar og

    ríkiseignum ef að ekki tekst að standa við gerðan samning. Það eina sem hægt væri

    að túlka í þá áttina sagði hún er að mögulega geti þeir ekki gengið að eignum

    ríkisins sem væru ekki lífsnauðsynlegar þjóðinni til að þjóðfélagið gæti starfað

    áfram.

    Hún sagðist vera sannfærð um að samningurinn hafi verið tilbúinn fyrir kosningar,

    enda hefur allur farsinn í kringum hann þess eðlis og að hann hafi verið gerður á

    2 dögum svo með eindæmum, að hálfa væri nóg. Allt bendir til að hann hafi verið

    gerður einhliða af Bretum og íslenska samninganefndin (sem hafði ekki neina

    reynslu af alþjóðasamningsgerð ef mér skjátlast ekki?) samþykkt hann í algeri

    undirgefni, enda með ordrur um að þeim væri ekki heimilt að hafna honum.

    Athugasemdir:

    Eins og fram hefur komið þá er IceSlave 100% einhliða plagg sem samið er af
    Bretum. Einnig hefur komið fram að Bretar kostuðu hundruðum miljónum í að semja

    þetta plagg. Engin söguleg dæmi eru um þá afarkosti sem þetta plagg inniheldur.
    Versalasamningarnir voru meira að segja skárri þvi að þar var t.d. stöðu

    Þýskalands skv. þjóðarrétti ekki afsalað.

    Því verður ekki á móti mælt að IceSlave á það þó sameiginlegt með

    Versalasamningnum að um er að ræða óútfylltan tékka.
    Steingrímur hefur verið duglegur við, rétt eins og Jakob Möller, að handvelja

    einstök ákvæði plaggsins og velja að horfa framhjá öðrum.
    Þessar tölur um að IceSlave kosti 2,5-3,5% af vergri landsframleiðslu eru hreint

    og beint rangar. Bæði mun landsframleiðsla minnka og einnig er þar ekki tekið með

    í reikninginn fjölmargir þættir IceSlave s.s. að skv. IceSlave geta Bretar og

    Hollendingar ákveðið uppá sitt einsdæmi að greiða allar innistæður með þeim

    afleiðingum að nánast ekkert af eignum þrotabús Landsbankans má nota í IceSlave

    skv. lögleysunni að krafa Tryggingarsjóðs Innistæðueigenda sé ekki ein í efsta

    forgangi sem beinlínis stangast á við alþjóðalög t.d. lög um slíkan sjóð í

    Bandaríkjunum.

    „Skuldari sem gerir heiðarlega tilraun til að borga en óskar svo eftir

    endurskoðun ef þörf krefur er í annarri stöðu en sá sem neitar að reyna strax í

    byrjun.“

    Þetta er alrangt. Öllu máli skiptir þegar halla er tekið undan fæti að reisa sér

    ekki hurðarás um öxl og að taka sér ekki of mikið fyrir hendur.
    Þegar sú staða kemur upp að við getum ekki borgað þá munu þær kúganir sem að við

    höfum þegar orðið fyrir vera hljóm eitt miðað við það sem mun koma.
    Það hefur komið fram að IceSlave er einhliða plagg samið af Bretum.
    Annað slíkt plagg með uppgjafarskilmálum munum við þá fá og þá verður Alþingi

    ekki spurt að einu eða neinu heldur einfaldlega taka Bretar og Hollendingar það

    sem þeir hafa áhuga á af okkur.
    Í því sambandi er vert að geta þess að þegar hafa verið skrifaðar lærðar skýrslur

    í Bretlandi um hvernig hægt væri að taka af okkur raforkuauðlyndina að ógleymdum

    fiskinum.

    „Af svipuðum toga eru röksemdir þeirra sem nálgast málið út frá því

    svartsýnishugarfari að vegna þess að hér kunni að verða lítill eða enginn

    hagvöxtur, gengisþróun geti orðið óhagstæð, óvissa sé með gæði eignasafns

    Landsbankans gamla, héðan kunni að verða brottflutningur fólks o.s.frv. þá beri

    að hafna samningnum.“

    Það er til hugtak sem heitir raunsæi. Sú trú að allt gæti bara þróast á besta

    mögulega veg óháð því hvort að staðreyndir og þróun mála bendir til þess eða ekki

    er hluti af því sem að kom okkur í þessa stöðu.

    Það er staðreynd að reynt var að falsa spár um mannfjölda og þjóðarframleiðslu

    þvert á söguleg gögn sem að liggja fyrir um þær stæðir í ástandi eins og nú er.
    Að kjósa að líta framhjá staðreyndum og neita að læra af sögulegri reynslu kann

    ekki góðri lukku að stríða.

    Þá eru uppi fullkomlega réttmætar efasemdir um gæði lánasafns Landsbankans. Í

    ljósi þeirra lána sem að skipa bróðurpart lánasafns Kaupthings eru réttmætar

    ástæður til að hafa áhyggjur af raunverulegu virði lánasafns Landsbankans.

    Stjórnmálamenn hafa ekki umboð skv. Stjórnarskránni til að leggja framtíð

    þjóðarinnar undir í einhverju fjárhættuspili með þeim afleiðingum að við töpum

    okkar auðlyndum og forsendum þess að hér sé byggilegt ef allt fellur ekki okkur í

    hag.

  • skattmann

    „…ekki bara eftir sjö til fimmtán ár heldur strax næstu mánuði og ár ef

    samningnum er hafnað? “

    Það er stórhættuleg hugsun að líta bara til næstu mánaða og ára þó að

    stjórnmálamenn sem kjörnir eru til 4 ára hætti oft til að gera það. Að leggja

    óbæran skuldabagga á börn okkar og barnabörn og réttlæta það með því að það komi

    ekki strax að skuldadögunum gengur ekki upp og er fullkomlega óábyrgt.

    „Samstarfsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum siglir í strand og engin frekari

    lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforðann berast þaðan.“

    Það hefur ítrekað komið fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ber hag allra annarra

    en okkar fyrir brjósti. Erlendir fjármagnseigendur og valdamikil lönd eins og

    Bretland sem á þar fastafulltrúa eru skjölstæðingar AGS.
    Það er köld sú hönd sem að AGS réttir okkur.
    Rétt er að benda á að AGS heldur því formlega fram að IceSlave tengist ekki

    afgreiðslu annarrar útborgunar lánsins enda myndi það stríða gegn þeim lögum og

    reglum sem að AGS starfar eftir.

    „Engin gjaldeyrislán berast frá hinum Norðurlöndunum.“

    Það hefur ekki verið gerð tilraun til að ræða til hlýtar við stjórnmálamenn og

    almenning á Norðurlöndunum um þetta mál og þá lögleysu s.s. að rukka um langt

    umfram lágmarkið, rukka vexti og sjálftökukostnað sem að Bretar og Hollendingar

    reyna að handrukka okkur um.

    Ljóst er að norrænir stjórnmálamenn eru tvísaga í málinu:

    http://www.amx.is/stjornmal/8829/

    „Erlendu kröfuhafarnir samþykkja ekki að koma að endurreisn Kaupþings og

    Íslandsbanka.“

    Þetta eru væntanlega vangaveltur. Það er algerlega óljóst hvort að þeir komi að

    endurreisn bankanna óháð IceSlave.

    „Alþjóðlegar lánastofnanir og erlendir bankar verða áfram lokuð bók og ný lán eða

    endurfjármögnun eldri lána er ógerleg.“

    Þetta þarf að ræða ítarlegrar og fyrir opnum töldum þar með talið með því að

    útskýra málið fyrir kjósendum í þeim löndum sem um ræðir. Það hefur ekki verið

    reynt. Bresk stjórnvöld hafa sem dæmi leyft sér mikla ósvífni í áróðursflutningi

    sínum af málinu til kjósenda. Þá hafa kjósendur á Norðurlöndunum einnig fengið

    takmarkað að heyra okkar hlið mála.

    Við erum tilbúin að borga, en setjum það sem skilyrði að við séum ein í hæsta

    forgangi með lágmarkið auk vaxta og kostnaðar.
    Þá strikum við út afarkosti sem gera IceSlave að versta kúgunarplaggi sögunnar.

    Það að Bretar vilji eyða hundruðum miljóna í að semja slíkt plagg verða þeir að

    eiga við sjálfa sig og borga úr eigin vasa.

    „Hætta á að neyðarlögunum frá í október verði hnekkt vex á ný.“

    Það verður að vera skýr fyrirvari í IceSlave um að neyðarlögin haldi. Ef að þau

    halda ekki þá mun augljóslega forsendur gjörbreytast og við augljóslega ekki vera

    aflögu fær til að borga einn einasta aur.

  • skattmann

    „Mikil neikvæð umræða verður um íslendinga á nýjan leik sem óábyrga í viðskiptum

    og aðila sem hlaupi frá skuldbindingum sýnum og gefnum fyrirheitum.“

    Þetta er alrangt. Eins og sjá má á athugasemdum mínum hér:

    http://eyjan.is/silfuregils/2009/08/04/buid-ad-taka-lokid-af/#comments

    Þá skrifa erlendir fjölmiðlar og almenningur í athugasemdarkerfi fjölmiðlanna að

    íslenska fjármálaelítan, eftirlitsaðilar og stjórnmálamenn hafi brugðist og

    hreinlega stolið frá íslenskum almenningi.

    Það er hvergi orði hallað á íslenskan almenning.

    Ef að átt er við með Íslendingur = fjármálaelíta, embætismenn og stjórnmálamenn

    þá mun það að senda almenningi IceSlave ekki breyta því slæma orðspori sem að

    þessir aðilar hafa unnið sér réttilega inn bæði hér heima og erlendis.
    Það er hinsvegar beinlínis rangt að blanda íslenskum almenningi inn í þennan

    missi orðspors.

    „Trúverðugleiki Íslands, sem hefur byrjað að endurheimtast að undanförnu, fer

    aftur þverrandi.“

    Það má leyfa sér að efast um að trúverðuleiki Íslands hafi verið byrjaður að

    endurheimtast. Hér ganga þjófar og vitorðsmenn þeirra lausir. Á sama tíma þá er

    búið að handtaka, dæma og setja Róbert Madoff sem að bygði svipaðan Ponzi

    fjársvikakerfi og íslensku bankarnir og eigendur þeirra. Einnig heyrast fréttir

    frá Danmörku um að forsvarsmenn þarlendra banka verði sóttir til saka vegna

    gjafgjörninga.
    Það er bara einn leikurinn í stöðunni til að endurheimta trúverðuleika Íslands.

    Það er að heimta ránsfenginn aftur og koma honum í hendur síns réttmæta eiganda

    íslensk almennings. Það er að dæma þjófana og vitorðsmenn þeirra og hlífa þar

    engum hvorki stjórnmálamönnum né öðrum.

    Sú aðgerð myndi auka hróður Íslands og sýna alvöru hugrekki. Það að reyna að

    berja í geng álögur á þá sem minnst mega sín þ.e. almenning er ekki merki um

    alvöru dug þor karlmennsku og kjark.

    „Ef deilan opnast upp aftur kann að verða gripið til aðgerða sem geta reynst

    íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum skeinuhættar.“

    Við lifum í lýðræðisþjóðfélagi og löndin sem hér um ræðir eru þótt ótrúlegt megi

    virðast líka lýðræðislönd. Það að neyta að setja mál fyrir dóm, gera tilraun til

    handrukkunar og neita að fallast á sanngjarnt gagntilboð sem tekur við af

    Alþjóðalögum um Innistæðutryggingar og tekur ábyrgð á engu umfram lágmark með

    fyrsta forgang er andstætt lýðræðinu.

    Bretar, Norðurlöndin, Hollendingar, AGS í stuttu máli sagt allir hafa reynt að

    segja fjölmiðlum í sínum löndum ítrekað ósatt og þrætt fyrir það að beita okkur

    þvingunum. Þetta hefur verið látið óátalið af íslenskum stjórnvöldum. Með

    gagntilboð í höndunum munu þeir ekki geta haldið þeim leik áfram.

  • skattmann

    „Minni líkur á styrkingu gengis, minni líkur á lækkun stýrivaxta, meiri óvissa um

    þróun lánshæfismats ríkisins og tengdra aðila.“

    Hér ert þú að tala um til skemmri tíma. Með því að taka á okkur skuldir sem okkur

    ber ekki að samkvæmt lögum að greiða á afarkjörum og með afarkostum gerum við til

    lengri tíma litið okkur sjálfum, börnum okkar og barnabörnum mun mun meiri óleik

    en það sem þú lýsir.

    Íslensk þjóð þarf að lifa lengur en eitt kjörtímabil!

    „Endureisnaráætlun stjórnvalda, stöðugleikasáttmálinn og ýmsir tengdir hlutir

    lenda í óvissu og bið.“

    Það eru uppi raddir um að forsendur stöðugleikasáttmálans séu brostnar óháð

    IceSlave.

    „Aukin svartsýni grípur um sig, uppsögnum starfsfólks og gjaldþrotum fyrirtækja

    fer fjölgandi og fráflutningur frá landinu eykst.“

    Stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að gjaldeyrislög komi í veg fyrir ólöglegan

    gróða á aflandsgjaldeyrisviðskiptum.

    „Tekjur ríkis- og sveitarfélaga dragast meira saman en ella hefði orðið.“

    Íslensk þjóð þarf að lifa lengur en eitt kjörtímabil!

    „Eftir langt og kostnaðarsamt óvissuástand myndu aðstæður aftur neyða okkur til

    samninga sem engin trygging er fyrir að yrðu okkur hagstæðari, o.s.frv.“

    Eins og fram hefur komið er IceSlave 100% einhliða plagg samið af Bretum. Það eru

    ekki dæmi um það í sögunni að annar eins óskapnaður hafi verið þvingaður á þjóð,

    ekki einu sinni þjóð sem sigruð var með hervaldi. Þá er lögfræðilegur stuðningur

    IceSlave verulega ábótavant. Lögfræðiálit eru 100% einhliða samin af breskum og

    hollenskum lögfræðingum og líta fullkomlega framhjá okkar rétti samkvæmt lögum í

    einu og öllu.

    Það er því útilokað að hægt sé að finna eina einustu klásúlu í IceSlave sem hægt

    væri að gera óhagstæðari fyrir okkur.

    „Gæti þetta allt eða eitthvað af þessu orðið ávísun, a.m.k. tímabundið, á 2-3%

    meira atvinnuleysi en ella, hindrað fjármögnun nýfjárfestinga og stærri

    framkvæmda og dregið þar með úr hagvaxtarlíkum á næstu árum um 1-2%, aukið

    rekstrarvanda ríkis og sveitarfélaga og kallað á meiri niðurskurð og/eða

    skattahækkanir?“

    Íslensk þjóð þarf að lifa lengur en eitt kjörtímabil!

    „uppbyggingu norræns velferðarsamfélags til framtíðar og endureisn efnahags- og

    atvinnulífs“

    Hér erum við sammála.
    Það er hins vegar ekki hægt að fórna öllu, framtíð barna okkar og barnabarna til

    þess að þetta kjörtímabil verði aðeins skaplegra.

  • Sigurður #1

    EIn spurning sem Steingrímur og co ættu að velta fyrir sér.

    80% þjóðarinnar er á móti þessum samning.

    Eruð þið alveg viss um að þjóðin sé mest öll svona vitlaus?

    Hvernig væri að líta aðeins í eiginn barm?

    Kannski er Steingrímur sá vitlausi….?

  • Sammála Gagarýni. Ég óttast mest þetta sama.

  • skattmann

    sagan kennir okkur að það vitlausasta sem að ríkisstjórn tiltektar getur gert er að láta erlendar þjóðir kúga sig.

    Nægir þar að nefna örlög fyrstu ríkisstjórnarinnar í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina.

    Það marg borgar sig að stunda vönduð vinnubrögð sem að stuðla að því að hagur lands og þjóðar eflist til lengra tíma litið.

    Stjórnmálamenn fá kannski það sem þeir eiga skilið.

    Það er ljóst að IceSlave er ekki dæmi um vönduð vinnubrögð.

    Í raun er óskiljanlegt hvernig tókst að eyða 350 miljónum í ráðgjöf ef að litið er á fylgiskjölin sem hafa verið birt.
    Þar er sama á hvað er litið, samninginn sjálfann, lögfræðiálit eða annað.
    Allt kemur frá Bretum og Hollendingum, er unnið af þeim og þeirra lögfræðingum.

    Indriði Þorláksson meira að segja skrifar tölvupóst til bresku og hollensku samningamannanna til að fá ráðleggingar um hvernig í ósköpunum hann á að reyna að verja það að kröfur á Tryggingarsjóð Innistæðueigenda eru ekki einar ásamt öllum kostnaði þar með talið hugsanlegum vöxtum í efsta forgangi í þrotabú Landsbankans.
    Það er í samræmi við alþjóðleg lög t.d. lög um Tryggingarsjóð Innistæðueigenda í Bandaríkjunum.

    Það læðist að manni grunur sbr. lögfræðikostnaður lögfræðistofu skilanefndarmanns Landsbankans uppá litlar 250 miljónir fyrir að innheimta eitt lán fyrir Landsbankann að sjálftökuliðið hafi alls ekki hætt við hrunið.

  • Gagarýnir

    skattmann
    Hver nennir að lesa þig?
    Afhverju ekki að taka saman mál þitt, annar kostur bara að gefa út bók. Sem reyndar JVJ ætti að gera, þá getur hver lesið sem vill. Óska þér alls hins besta en svona ritræpa á ekki heima hér.

  • skattmann

    Ég er að gera tilraun til þess að koma með vandaða umfjöllun.
    Ekki bara slengja fram fullyrðingum út og suður sem að allir eru jafn nærri eftir að hafa lesið.

    Viðtalið við Steingrím í Kastljósinu:

    Athugasemdir

    1. Að tengja við endurskoðunarákvæði er hættulegt. Þá erum við á hnjánum og m.v.

    reynslu og fyrri störf nýlenduveldanna Breta og Hollendinga ekki fallegt að hugsa

    útí hvað þau munu gera við þjóð sem ekki getur varið sig.

    2. Tryggingarsjóður Innlána á að vera einn í efsta forgangi með kröfu í þrotabú

    Landsbankans með lágmarkið og allan kostnað þar með talið hugsanlegan

    vaxtakostað.

    Hér er alls ekki búið að útskýra neitt.

  • skattmann

    Ég fer ítarlega í þetta í athugasemdum mínum sem birtar voru hér:

    http://eyjan.is/blog/2009/08/04/forgangi-islenska-tryggingasjodsins-hafnad-

    fjarmalaraduneytid-birtir-greinargerd-og-fylgiskjol/

    Eitt lögfræðiált frá Hollendingi, sem er jú evrópumaður, sem að starfar nú sem

    prófessor í Brussel (allt saman einn og sami maðurinn, villandi framsetning hjá

    Steingrími) þar sem hann tekur fram alveg í byrjun að hann ætli bara að fjalla um

    mismununarákvæði ESB laganna og sleppa alveg að fjalla um lög um

    lágmarksinnistæðutryggingarvernd er allt og sumt sem þeir hafa sem að berjst

    fyrir lögleysunni.
    Þá nefnir Steingrímur ekki að Bandarísk lög um Innistæðutryggingarsjóði taka af

    öll tvímæli um að Tryggingarsjóður Innistæðna er einn í fyrsta forgangi með

    lágmark auk kostnaðar þar með talið hugsanlegs vaxtakostnaðar.

    Greinilegt að ekki hefur verið leitað til Bandarískra lögfræðinga og enginn

    lögfræðingur af alþjóðlegu kalíberi í ESB lögum hefur verið ráðinn til að semja

    lögfræðiálit fyrir okkur.

    Við sem sé erum þarna að fallast á einhliða verstu mögulega túlkun þar sem bara

    er fjallað um lög sem okkur geta verið í óhag og sleppt að fjalla um öll lög sem

    eru okkur í hag s.s. að það er tekið skýrt fram að bara lágmarkið sé tryggt.

    Búið skipt á Íslandi eftir íslenskum lögum. Íslenskir lagaprófessorar telja að

    íslensk lög heimili einmitt að við séum með IceSlave ein í fyrsta forgangi.

    Það að nota hugtökin rétt meðferð og gífurlega vel rökstutt um það að fallast á

    einhliða lögfræðiálit viðsemjandans og leggja ekkert slíkt fram sjálf er mikið

    hugtakaklám.

  • skattmann

    3. Umsýsla fé til Breta, þeir mega halda eftir því sem er umfram þeirra kostnað.

    Sjálftaka.

    4. Það kemur ekkert fram í ESB lögunum um hvenær bankar þurfa að greiða

    lágmarkstrygginguna.
    Það að Bretar og Holland greiði þetta út og heimti síðan vexti er í hæsta máta

    óeðlilegt.
    Breskur banki greiddi nýlega út lágmarkstrygginu að sjálfsögðu án allra vaxta

    þrátt fyrir að talsverður tími hafi liðið.

    Þá greiddi Kaupthing Edge út innlán löngu eftir að bankinn féll án allra vaxta

    eins og fram hefur komið.

    5. Samninganefndin er ekki með bundnar hendur. Það þarf Alþingi til að binda

    hendur. Við erum með lýðræði. Í lýðræðisstjórnskipulagi hefur þjóðþingið síðasta

    orðið. Bretar reyndar lika þó að maður sé farinn að setja spurningarmerki við það

    í ljósi orða fjölmiðlafulltrúa breska fjármálaráðuneytisins í dag, þess að okkur

    er meinuð dómstólaleiðin og hryðjuverkalaganna.

    6. Það er munur á einhliða kröfum sem að aðili sem að neitar að útkljá mál fyrir

    dómstólum heldur fram og skuldbindandi samningi.
    Ef að Bretar og Hollendingar eru ekki búnir að taka gangtilboði okkar þann 7.

    Október þá hafa þeir engan lagalegan grundvöll til innheimtuaðgerða. Lýðræðið, en

    dómsvald er hluti þess virkar ekki þannig að einn deiluaðili geti einhliða

    ákveðið alla skilmála og sett fresti þó að IceSlave líti þannig út.

    7. Við = íslenska þjóððin klúðruðum ekki málum og skemmdum ekki orðspor okkar

    erlendis. Öðru máli gegnir um fjármálaelítuna, stjórnmálamenn og embættismenn.

    Það staðfestir umfjöllun erlendra fjölmiðla:

    http://eyjan.is/silfuregils/2009/08/04/buid-ad-taka-lokid-af/

  • Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir

    Takk fyrir góðan pistil, Mörður.

  • Helga Sigurjónsdóttir

    Sammála þér Mörður. Góður pistill. Mikilvægt að allt skynsamt og yfirvegað fólk standi saman, láti í sér heyra og styðji við það sem varðar veginn útúr þessum ógöngum. Gagnrýni á sanngjarnan hátt, en láti ekki reiðina eyðileggja fyrir sjálfum sér og öðrum.

    Synd að fólk skuli nota athugasemdir til að koma á framfæri heilu ritgerðunum.

  • skattmann

    það hefur marg komið fram að hluti af ástæðu þess hvernig komið er fyrir okkur sé „incompetence“.

    Tilraun til að koma á framfæri faglegri umfjöllun er hugsuð sem svo að með því móti sé hægt að sporna við yfirborðlegri umfjöllun um þessi mikilvægu mál.

  • Mörður vinir þínir í „alþjóðasamfélaginu“ gera kröfu um að hreinsa verði til bæði í stjórnkerfinu og flokkunum.

    Þinn flokkur var við völd með Sjálfstæðisflokknum, manstu?

    Eða finnst þér í lagi að sama liðið haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist?

  • Jóhannes Laxdal

    Ef þú kallar þetta nöldur á blogginu reiði, þá veistu ekki hvað reiður múgur er.
    Vonandi að reiðialdan sem kemur í haust skelli ekki á saklausum. Finnst þér Mörður sem varamanni no.1, ekkert athugavert við að Björgvin Sigurðsson sitji enn á þingi? Og hvað með Þorgerði K eða Ragnheiði Elínu?. Eða Illuga og Guðlaug? Þetta fólk er holdgerfingar hrunsins og ef það skilur ekki að vera þeirra á Alþingi er móðgun, þá skulu þau búast við meiri látum í haust en urðu í janúar s.l Sjálfbirgingsháttur Félagsmálaráðherra virkar líka sem olía á bál. Ef þú telur að enn sé von fyrir Samfylkinguna, þá ættirðu að kalla eftir uppstokkun í öllum valdastöðum og hreinsa út þá sem spillingarstimpilinn bera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur