Föstudagur 14.08.2009 - 18:06 - 12 ummæli

Litla bomban

Stóra bomban var það kallað á forsíðu Tímans þegar geðlæknar lýstu Jónas Jónsson dómsmálaráðherra frá Hriflu geðveikan – fyrir því stóð auðvitað Íhaldið, árið 1930 var þetta, og Jónas vann þessa orustu og stóð eftir enn keikari en áður. Á þessum stóratburði í mannkynssögunni var ég mataður í mörgum skömmtum tólf ára kaupamaður á Halldórsstöðum í Kinn, Ess Þing – en Hrifla var einmitt suðr’ og niður framan við Fellið. Og er enn.

Er þetta þá ekki litla bomban? – og sannast enn það sem Marx kvað um endurtekningu sögunnar að fyrst komi tragedía og síðan farsi. Broslegt er þetta að minnsta kosti, og enn lenda þingmenn í klandri af því þeir kunna ekki á tölvupóst!

Nema hvað Þráinn Bertelsson er betri maður, hugsuður og höfundur en svo að það sé fyndið að sjá hann svona leikinn. Rétt hjá honum að ganga burtu. Hann stækkar við það, rétt einsog Jónas í minni Þingeyinga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Þráinn Bertelsson kemur heill frá þessum hildarleik innan Borgarahreyfingarinnar- alveg öfugt við þremenningana.

    Hvað annað, maður af Fremra- Hálsætt í Kjós. Okkur af þeirri ætt kemur frammistaða Þráins ekki á óvart….

  • Góður pistill þetta. Sammála því að það var rétt hjá Þráni að segja skilið við þessa þrenningu, hann vex við það!

    Annars var dálítið heimilislegt að sjá skrifin þín um Halldórsstaði. Ég var búin að gleyma að þú varst kaupamaður þar. Finnur var mágur móður minnar og ég heyrði þetta bæjarnafn af þeim sökum afskaplega oft nefnt á æskuárunum. Falleg sveit Kinnin. Keyrði þar um síðast í fyrrakvöld og velti fyrir mér að ég hefði sjaldan séð jafn iðjagrænan lit á túnum og blöstu þar við mér þetta kvöld.

  • Bendi á að það var einmitt til að koma í gegn Icesavesamningum síns tíma sem Jónas gamli lennti í stóru bombunni.

  • kristgeir

    Þetta bættist við í dag:

    Þau Birgitta og Þór segja upphaflegar áhyggur komnar frá ónefndum manni “sem er vel inn í málum Borgarahreyfingarinnar og þingmanna hennar og sem einnig er sálfræðimenntaður með mikla reynslu”

    Ný útgáfa af pistli MT:

    Ný útgáfa:
    Takk Katrín fyrir að vera til. Eitt sem mig langar að ræða við þig. Ég hef miklar áhyggjur af Margréti Tryggvadóttur og þar sem þú þekkir hana vel og þekkir e.t.v. betur inn á fjölskyldu hennar eða forssögu en ég langar mig að bera þetta upp við þig. Kannski er það ímyndun að þú sért betur inn í hennar málum en við en – það má alla vega reyna. Við höfðum áhyggjur af því snemma í sumar að hún væri að síga inn í einhverjar óvenjulega heimskulegar hugsanir. Ég ræddi við sálfræðimenntaðann mann í dag sem er vel inni í málum hreyfingarinnar og hann grunar að Margret sé með Borderline personality disorder. Hann tók það skýrt fram að þetta væri einungis kenning og auðvitað hefur hann ekki rannsakað Margreti. Ég hafði ekki leitt hugann að slíku þótt mér fyndist þetta skýra margt. Hvað finnst þér?

    Talsvert fyndið einnig að hinn meinti alzheimer sjúklingur er eini þingmaður sibótarflokksins er man hverju kjósendum var lofað varðandi EB umsókn.

  • Já, Ásgeir Jóns fjallaði einmitt um þetta gamla ríkisábyrgðarmál í viðtali í Speglinum á þriðjudagskvöldið og það var merkilegt að heyra hvað þessi mál voru að mörgu leyti keimlík.

  • Hrafn Arnarson

    Stóra bomban var fyrirsögn á grein sem Jónas frá Hriflu skrifaði í Tímann . Að öðru leyti alveg sammála .

  • Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

    Þessi litla skrítna saga Borgarahreyfingarinnar verður brátt gleymd öllum nema þeim sem áttu í þessum erjum. Það er spurning hvort hún hafi einhverja merkingu nema þessa sígildu um að engin keðja sé sterkari en veikasti hlekkurinn. Var ekki annars einhver í vetur að tala um að óánægjuhreyfingar nútímans hefðu enga hugmyndafræði?

  • Skil ekki hvernig fullorðið og sæmilega upplýst fólk dettur í hug að ráðast svona að persónu manns og halda svo að einfalt ‘Sorrý’ dugi til að lempa. Birgitta og Þór reyna að afsaka og styðja Margéti, henni gekk jú ekki vont til. Þráinn átti þetta svosem inni, mætti ætla af skrifum þeirra.

    Eineltarar sem skilgreina hvað er einelti og hvað ekki. Mér blöskrar, frú forseti.

  • Ómar Kristjánsson

    Það voru nú fleiri mál en Íslandsbankamálið sem voru til umfjöllunnar á átakaárinu 1930. Ekki síður skipti máli, í tengslum við Bombuna, svokölluð Læknadeila sem var geysilega hörð.

    Reyndar var þetta ekki í fyrsta skipti sem haft hafði verið á orði að Jónas væri ekki ok. En stjórnmálin í þá daga voru ekkert grín.

    M.a. var talað undir rós um að hann kynni að vera á einum eða öðrum efnum og skrifaði Moggi þeirra tíma fræga grein sem kallaðist „Eiturmeðulin“
    http://is.wikipedia.org/wiki/St%C3%B3ra_bomba

  • Hörður Þorsteinsson

    Stóra bomban var fyrirsögn á grein sem Jónas frá Hriflu skrifaði í Tímann
    eins og Hrafn Arnarson benti á
    Fallegt af þér að skrifa þetta um Þráinn,því hann hefur ekki gert annað en að gleðja okkur með myndum sínum og skrifum,ég sjálfur kýs aldrei fílupúkaflokka,bara einhvern af fjórflokkunum nema XD auðvitað ég er verkamaður á skrifstofu

  • Var ekki Birgitta að tala um að það væri einelti á alþingi ? Svo virðist hún vera ein af gerendum í ógeðslegu eineltismáli sjálf. Margur heldur mig sig.

  • Munurinn er kannski að Jónas frá Hriflu var illa veikur en Þráinn er nú yfirleitt með fulla fimm…
    Jónas frá Hriflu vann ótrúlegan sakað á íslensku þjóðfélagi. Kemst örugglega á topp 10 hjá Framsókn í því tilliti þó þar séu margir til kallaðir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur