Mánudagur 17.08.2009 - 09:01 - 24 ummæli

Upphefð að utan

Ef ekki væru svona margar Liljur að rugla stílinn væri upplagt að segja eftir helgina að allir vildu Lilju kveðið hafa þar sem eru breytingartillögur fjárlaganefndar við Icesave-frumvarpið – því einsog oft áður í pólitík hafa allir sigrað, líka þeir sem allsekki voru í meirihlutanum, og eru eiginlega allra gleiðastir.

Samt er ennþá alveg óljóst hvort breytingar fjárlaganefndar eftir mánaðarþóf voru góðar eða ekki góðar. Það fer eftir næsta kafla: Viðbrögðum Breta og Hollendinga. Ef þeir láta kyrrt liggja geta allir verið ánægðir. Ef þeir telja að fyrirvararnir jafngildi höfnun samninganna frá í júní – séu „gagntilboð“ – þá gæti verið verr af stað farið en heima setið, því ekkert í langvinnri umfjöllun málsins bendir til að samningsstaða okkar hafi batnað í sumar.

Upphefð meirihluta fjárlaganefndar kemur því að utan og ræðst ekki á forsíðum eða fréttatímum á Íslandi.

Á mörkum samningsrammans

Tillögurnar úr nefndinni hafa enn ekki verið birtar í síðustu útgáfu, en af fréttum sýnist mér að þær séu á mörkum samningsrammans – og það fari eftir því hvernig stendur í bólið hjá Bretum og Hollendingum hvort þeir segja þetta gott eða byrja upp á nýtt.  Þar skiptir máli hvort þrýstingur heimafyrir er enn jafnákafur og áður á ríkisstjórnir Browns og Balkenendes, og hver viðhorf eru uppi gagnvart þessari deilu hjá sameiginlegum bandamönnum, þar á meðal ríkisstjórnunum á Norðurlöndum, ekki síst Svíum. Næstu vikur reynir líka nokkuð á hina víðkunnu hlýju nærveru utanríkisráðherrans.

Manni finnst samt sennilegast að viðsemjendur láti hér við sitja. Að mestu leyti er þingið með fyrirvörunum að semja við sjálft sig vegna vandræða í íslenskri pólitík, og gefur sjálfu sér og ríkisstjórninni fyrirmæli fram í tímann: Ef staðan er svona árið 2015, þá þetta, en ef hún er hinsegin, þá hitt. Margt af þessum hegðunarreglum er ágætt fyrir stjórnvöld framtíðarinnar að hafa ef allt lendir í klandri, annað voru nánast sjálfsagðir hlutir.

Ragnars-Halls-ákvæðin kynnu hinsvegar að standa í Bretum og Hollendingum, vegna þess að þar er farið útfyrir samningsrammann, sýnist leikmanni að minnsta kosti, og verulegt fé undir. Þetta kynni að setja samningana í uppnám, og þarna reynir sannarlega á yfirlýstan góðan vilja viðsemjenda okkar og á þær óskir bandamanna að loka Icesave-dæminu. Þingið tekur verulega áhættu með þessu ákvæði. Á hinn bóginn virðast Bretar og Hollendingar ekki eiga mikið á hættu, því ofurforgangurinn sem um ræðir er hvergi í lögum, íslenskum eða evrópskum, heldur aðeins til í praxís sumra þrotabústjóra hér gagnvart aðallega einum aðila, Ábyrgðarsjóði launa. Þetta lítur þannig út að hið fyrirhugaða mál sé fyrirfram skíttapað fyrir Íslendinga og peningaeyðsla að steypa í það milljónatugum eða hundruðum. En ég skal glaður éta hattinn minn ef það fer á hinn veginn.

Orðalag fyrirvarans um hitt hugsanlega dómsmálið (að sögn Fréttablaðsins sem birtir þó aðeins parta úr tillögunum), það sem ætti að skera úr um skyldu okkar til að greiða innstæðurnar, sýnir svo ágætlega að úr því verður aldrei annað en hnyklan vöðva fyrir innanlandsmarkað.

<<Eftir að þetta birtist var mér bent á að mbl.is er með tillögutextann allan, hér>>

Evróputenging

Mikilvægasta ákvæðið frá fjárlaganefnd er svo skýr tenging samninganna við Brusselviðmiðin, og krafa um að málið verði tekið upp aftur ef Evrópusambandið breytir reglum um innistæðutryggingar. Þarna er raunverulegur möguleiki á að taka síðar upp samningana eða bæta við þá, sérstaklega ef Íslendingar eru orðin ESB-þjóð eða hafa formlega stöðu umsóknarríkis. Þetta kann að vera viðkvæmt í London og Amsterdam, en á hitt er að líta að Evrópusambandið tók sér stöðu guðforeldra við þessa samningsgerð og ber auðvitað nokkra ábyrgð á því hvernig fór.

Þriggja flokka stjórn

Aðalatriðið er að Icesave er í höfn – vonandi. Það er gott. Búið að standa alltof lengi. Nú þarf að sinna næstu verkefnum.

Til þess er hér ríkisstjórn – sem kemur út úr Icesave-átökunum ósár en ákaflega móð, og er nú skyndilega orðin þriggja flokka stjórn: Samfylkingin, VG og Liljur. Sem enginn skilur hver kvað. En það er efni í annað blogg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Besserwisser

    Verður utanríkisráðherra rekinn úr brezka verkamannaflokknum?

  • Jakob Þór Haraldsson

    Líklegra að félagi Össur verði gerður að Sir Össur eftir framgöngu sína í þessu máli…!

  • Valur B (áður Valsól)

    Þú gleymir hlut Bjarna Ben og hans yfirlýsinga. Þarna fer Bjarni af stað með yfirlýsingu sem beinlínis gæti skaðað landið. Hann virðist vera mælast til þess við Breta og Hollendinga að þeir hafni samningunum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Það er alveg með ólíkindum að menn láti svona frá sér fara bara til að bjarga andlitinu. Það er löngu komin tími á að þessi Sjálfstæðisflokkur og hans fylgismenn biðji þjóðina afsökunar á því sem þeir hafa gert. Fyrir kosningar var smá hljómgrunnur og auðmýkt í tali Sjálfstæðismanna þess efnis að biðja ætti þjóðina afsökunar, en núna eftir kosningar, snýr málið allt á haus hjá þessum blessaða flokki. Nú skal setja málin í nýjan búning og afneita gjörðum sínum. Skýrsla endurreisnarhóps Sjálfstæðismanna var plagg sem viðurkennir að hrunið megi setja á herðar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það er einnig ömurlegt að þessir menn skuli svo fá í kosningum 44,000 atkvæði. Hvar hefur þetta fólk verið og hvers vegna heldur fólk tryggð við flokk og fólk sem komið hefur svona fram? Réttast væri að allt þetta fólk bæði okkur hin afsökunar fyrir að halda þessu liði við völd í 18 ár og að Sjálfstæðisflokkurinn væri svo í framhaldinu lagður niður sem stærstu mistök Íslandssögunnar.

  • Ómar Kristjánsson

    100% sammála pistlinum.

    Nokkurnveginn rétt mat á stöðunni, held eg.

  • Nýi Dexter

    Er eitthvað gagn af afsökunarbeiðnum?

  • Þessi samningur er handónýtur og það sætir undrun að í ríkisstjórn íslands og á íslandi sé til svo vitlaust lið að það heldur að um góðan samning sé að ræða. svo bætir það gráu ofan á svart og ver gjörðir misindsmanna og vill gera allt til þess að verja stöðu þess á meðan almúginn er barinn eins og harðfiskur.

    útrásarmenn og fyrirtæki fá afskriftir og frystingar á lánum sínum. eitthvað sem almúginn fær ekki. skuldir útrásarvíkinga eru látin falla á almúgann sem þarf að bera stöðugt meiri byrgðar á meðan elítan sem þú vilt greinilega vera í Mörður er enn að daðra við útrásina og skipuleggja hvernig lífga meigi hana við með esb aðild og evru.

    vandamálin hér á landi byrjuðu með því að samfylkingin komst í ríkisstjórn. ísland mun ekki komast út úr þessari kreppu fyrr en samfylkinginnu hefur verið bolað frá völdum. þangað til verður ekkert gert og hagur landsmanna mun versna með hverjum mánuðinum. því samfylkingin er flokkur orða. enskis annars.

  • hér eru skilmálarnir Mörður. Mogginn birti þetta.
    http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/08/15/hagvoxtur_styri_greidslum/

  • Mörður Árnason

    Takk, erasmus, þetta fór framhjá mér. Við snöggan lestur er þetta einsog ég hélt. Gaman hvað það hefur þurft marga lögfræðinga til að skrifa þennan hulduhrút í viðtengingarhætti um ,,dómstólaleiðina“:

    Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, að slík ábyrgð hvíli ekki á Íslandi eða öðrum ríkjum EES-samningsins skal ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum bundin þeim fyrirvara að fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins.

  • Ég held að Ögmundur og Liljur eigi ákveðnar þakkir skildar fyrir þrjóskuna. Það tryggði að þingið sem á að hafa síðasta orðið fer ofan í saumana á samningnum sem er gott. Einnig sýndi afstaða þeirra sjálfstæði þingmanna gagnvart framkvæmdavaldinu sem er eitthvað sem hefur vantað hér undanfarið. Framkvæmdavaldið hefur farið með þingið eins og stimpil í þeirra eigu en ekki vald fólksins sem það á að vera. Ég get ekki ímyndað mér að það skaði samninginn að það skuli hafa verið farið í saumana á honum, miklu frekar styrkir það samninginn. Einnig gætu fyrirvararnir sem þingið settur orðið fordæmi fyrir þjóðir í þröngri stöðu sem þurfa að standa fast gegn ásælni sterkari landa. Ég hef ekki hugmynd um gæði samningsins en ég er ánægður með staðfestu þingmanna.

  • Við eigum heldur ekki að sitja hér og velta okkur upp úr viðbrögðum breta og hollendinga fyrirfram. Þeir segja það sem þeim finnst og við tökum það þaðan.

  • Ómar Kristjánsson

    Jú, fyrirvarinn um „dómstólaleið“ er nú svona og vona.

    Miklu frekar, eins og bent er á í upphafspistli, Ragnarshall – fyrirvarin. Ofurforgangsfyrirvarinn.

    Nú td. sagði Hr. Hall í gær að Héraðsdómur Reykjavíkur gæti bara skorið úr um það.

  • Mér finnst þú djarfur að afskrifa hugmyndir Ragnars H. Hall eins og eitthvert píp. Raunar hefur enginn hrundið þeim nema þeir sem hafa gerst launaðir talsmenn fjármálaráðuneytisins, sem vildi gefa allt eftir.

  • Já það eru þrír flokkar í stjórn:
    1. Samfylkingin
    2. Vinstrihreyfingin – grænt framboð
    3. Talebanar (Atli, Ásmundur, Liljurnar tvær og Ögmundur).

    Til að hægt sé að tala um eitthvað sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu (eins og Teitur og fleiri gera) þarf að vera til a.m.k. eitt dæmi um það að þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks starfi með öðrum þingmönnum gegn stefnu EIGIN flokka. En slíkt dæmi finnst auðvitað ekki og mun aldrei finnast. Þetta sem við sáum var ekki sjálfstæði þings gegn framkvæmdavaldi heldur það að Talebanar unnu með stjórnarandstöðunni gegn stefnu stjórnarinnar sem varð svo að lúffa í Icesave málinu. En Talebanar sjá það sem „sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldi“ vegna þess að í trúarofstæki sínu eru þau staurblind á það að stjórnarandstaðan er eingöngu að notfæra sér þau til að koma höggi á ríkisstjórnina.

  • Ragnheiður Ríkharðsdóttir greiddi atkvæði eftir sannfæringu en ekki flokkslínu í ESB málinu. Sama gerði Þráinn Bertelsson.
    Því miður man ég ekki eftir sjálfstæðri hugsun í Samfó né Framsókn

  • Við verðum að bera hönd yfir höfuð okkar. Vissulega erum við skuldbundin að greiða þessa lágmarkstryggingu. En kjörin um hvernig átti að greiða voru algjörlega óviðunandi. Auk þess er óásættanlegt að binda fyrir þann möguleika og rétt að láta reyna á dómstólaleiðina þó við værum að samþykkja samninginn í dag. Það þarf að gerast svo allar þjóðir læri af og breyti því sem þarf að breyta svo svona samtrygging sé betur í stakk búin að takast á við hrun sem þetta…..sem ég vona auðvitað að aldrei komi fyrir aftur.
    Svo er hitt að ég tel gríðarlega mikilvægt að nýtt fólk fari í þá samninganefnd sem setjist nú niður með bretum og hollendingum. Því það er alveg ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var á móti samningnum og þá auðvitað sérstaklega kjörunum. Tel að meirihluta þjóðarinnar var ljóst að þyrfti að borga en kjörin afleit. Því þarf að tefla nýju fólki fram og þau brugðust. Þau komu með vondan samning heim.

  • @Teitur

    Ef þú manst ekki eftir sjálfstæðri hugsun í Samfó ættirðu að rifja upp nafnið Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Hún er einmitt fyrrverandi í Samfó sem útskýrir kannski hvers vegna hún var sú eina í Sjálfstæðisflokknum með „sjálfstæða hugsun“ í ESB málinu. (Þið Sjálfstæðismenn viljið af einhverjum ástæðum ekki viðurkenna atkvæði Þorgerðar Katrínar).
    Þráinn greiddi reyndar atkvæði eftir flokkslínu í því máli en ekki hinir þrír frá xO sem voru að nota sín atkvæði til að berja eitthvað á ríkisstjórninni.

    Annars er þetta útúrsnúningur hjá þér. Atkvæði Ragnheiðar og Þorgerðar voru ekki úrslitaatkvæði og til þess að hægt sé að tala um að þingræði hafi sigrast á flokksræði þurfa atkvæði undanvillinganna að vera úrslitaatkvæði annars eru þau kannski bara sýndarhugrekki þegar niðurstaðan er hvort sem er ljós fyrirfram. Mundu að Bjarni Ben sagðist eftirá hafa vitað niðurstöðuna fyrirfram.
    Enginn úr xD og xB ljáði máls á svo mikið sem hlutleysi við Icesave þótt þeim væri öllum vel ljóst að Íslendingar komast ekki hjá því að borga. Eflaust eru skiptar skoðanir í þessum flokkum á því hvað ber að gera en enginn í þeim flokkum mundi taka „þingræði“ fram yfir flokksaga ef atkvæði þeirra væru raunveruleg úrslitaatkvæði – sem líklegt er að þau væru í núverandi aðstæðum á þingi.

    Almennt fer fólk eftir flokkslínum hjá öllum flokkum. Slíkt er nauðsynlegt til að stjórnir geti verið samkvæmar sjálfum sér og komið einhverju í verk. Það má hugsa sér undantekningar – en hjá ákveðnum hópi vinstri grænna eru slík upphlaup fremur regla en undantekning og stjórnarandstaðan spilar inn á það, sem kannski er ekkert óeðlilegt.

  • Það er amk ekki mikla upphefð að finna innan ríkisstjórnarflokkanna, né samstöðu. Nýjasta málið þar sem flokkarnir eru enn og aftur ósammála er sala á orkufyrirtækjum til einhverra og einhverra sem enginn veit hverjir eru. Super Magma í Kanada. Líklega verður minnihlutinn í ríkisstjórn aftur að hlaupa undir bagga með ríkisstjórninni, af því hún er enn og aftur þverklofin í sinni afstöðu. Núna í þriðja sinn síðan í júní.

    Hvað þolir ríkisstjórnin þetta lengi? Hvað getur hún lengi treyst á gott skap Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Þráins Bertelssonar? Þetta er líklega sú ríkisstjórn sem hefur verið ósammála í hvað flestum stórum málum og það á tæpum 100 dögum!!!! Það má ekki heldur gleyma því að þetta er ekki þriggja flokka stjórn, þar sem oft vildi loða við eitthvert ósamkomulag, heldur stjórn mynduð af tveimur vinstri flokkum. Þeir virðast samt vera nokkurn veginn sammála í einu og bara einu. Að vera ósammála.

    þetta bix á eftir að reynast þjóðinni dýrkeypt þegar fram í sækir. Líklega nær stjórnin að vera ósammála um hvort eigi að vera norðlenskt eða sunnlenskt hangikjöt á jólahlaðborðinu, en miðað við frammistöðuna undanfarið, þá halda flokkarnir sín þorrablót sitt í hvoru lagi. Stjórnin lifir ekki veturinn af.

  • Villi Páls

    Það vita allir að Ragnheiður og Þorgerður eru í raun Kratar sem villt hafa á sér heimildir til að komast inn í Sjálfstæðisflokkinn til að spilla fyrir honum.

    Aldrei mun ég kjósa þessar manneskjur í ein eða nein embætti í framtíðinni. Þær eru svikarar við hægrihugsjónina.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Ólafur Arnarson skrifar afar snjallan pistil um ICESAVE samninginn og helstu aðalleikarana undir fyrirsögninni:

    FYRIR HVERJA VINNUR ÞETTA FÓLK?

    http://pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/fyrir_hverja_vinnur_tetta_folk

  • Mörður Árnason

    Ja, Guðmundur 2., Vigdís Hauksdóttir talaði um ,,föðurlandssvikara“ í grein í Mogga á laugardaginn — ætli þetta skítapakk sé ekki bara á mála hjá Rússum? — Orðbragðið í Icesave-deilunni er annars merkilegt rannsóknarefni, sýnir kannski best geðheilsu þjóðarinnar undanfarin góðærisár.

  • Sæll Mörður.

    Mér finnst þú afgreiða „Ragnars-Halls-ákvæðin“ full léttilega, miðað við að þau varða hagsmuni sem nema líklega amk hundruðum þúsunda króna fyrir hvern einasta skattgreiðenda. Ég ákvað að svara þér frekar í bloggfærslu:

    Stærðfræði handa bloggurum (og þingmönnum) úr máladeild – „Ragnars-Halls-ákvæðin“

    http://patent.blog.is/blog/patent/entry/932786/

    Með góðri kveðju.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Hafa ekki alltaf fallið stór orð í stjórnmálaorðaskaki, og ef mér misminnir ekki, þá hafa vinstrimenn verið afar orðljótir í gegnum tíðina, og ekki síst síðuútgerðarmaðurinn sjálfur.

    Steingrímur J orgaði á ræðumann í púlti á Alþingi, ekki fyrir ekki svo löngu, „Étt´ann sjálfur“ og forsetinn þegar hann var þingmaður fullyrti að þáverandi forsætisráðherra hefði „Skítlegt eðli“ og það líka úr ræðupúlti Alþingis.

    Þetta voru smámál sem voru til umræðu, miðað við ICESAVE hörmungarnar.

  • Mörður Árnason

    Einar: Já, kannski, tala þar sem leikmaður og dirfist ekki að hafa sjálfstætt vit á þeim lögfræðilegu launhelgum. En ég lofa líka að éta hattinn minn …

    Guðmundur 2: Rétt, ég hef sjálfur stundum ekki ,,sparað stóru orðin“ frekar en SJS og ÓRG — og oft ekki verið nein ástæða til. Hinsvegar máttu lengi leita í mínum textum að landráðum og föðurlandssvikum. Orð eru eftir allt saman dýr …

  • Þetta er nú vægast sagt arfaslök grein hjá Ólafi og langt fyrir neðan hans standard.

    Ekki ætla ég að bera blak af samninganefndinni en mér finnst einkennilegt að hún og fjármálaráðherra hafi ekki kyrfilega flækt Brussel inní viðræðurnar til að tryggja að farið væri eftir viðmiðunum t.d. hvað áhrærir vextina.

    Evrópuótti þessa fólks og frekjusiðferði Íslendinga olli því að Bretar komust upp með að gera nauðasamninga við okkur, frekar en að vinna þetta mál sem sameiginlegt úrlausnarefni.

    Það er vandinn

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur