Þriðjudagur 18.08.2009 - 09:58 - 11 ummæli

Málstaður Sannra Íslendinga

Fyrir hverja vinnur þetta fólk? spyr Ólafur Arnarson í Pressugrein, og sýnist helst vera að velta fyrir sér atvinnurekendum mínum og Stefáns Ólafssonar prófessors sem birt er eftir frábær grein um Icesave-deiluna í Fréttablaðinu í gær – að vísu skrifuð áður en samkomulag tókst á þingi.

Minn glæpur er hinsvegar pistill hér á Eyjunni þar sem það álit kemur fram að lítið sé hægt að segja um samkomulagið áður en við vitum viðbrögð Breta og Hollendinga við því. Deilur þingmanna og álitsgjafa um það hvort tillögur fjárlaganefndar séu „innan samningsrammans“ eða „samningsrof“ hafi lítinn tilgang. Svo er spáð í einstaka þætti tillagnanna.

Ólafur segir að í þessu komi fram „sá undirlægjuháttur, sem ráðið hefur för ríkisstjórnarinnar og flestra þingmanna hennar í Icesave málinu. Hagsmunir Íslands og íslensku þjóðarinnar eru ekki í fyrirrúmi. Fyrir alla muni verður að forðast að styggja Breta og Hollendinga.“

Nú er einsog stundum áður eitt að hafa ekki sömu skoðun um tiltekið efni, í þessu tilviki hvort hægt hafi verið, eða sé enn, að ná betri samningum um Icesave-klandrið, og annað að ausa menn auri – sem hjá Ólafi Arnarsyni hefur það form að við Stefán – og margir fleiri – höfum ekki í fyrirrúmi íslenska hagsmuni heldur einhverja aðra – og liggur beint við að álykta að það séu hagsmunir þeirra sem ekki má styggja.

Þingmenn úr Framsóknarflokknum hafa einkum verið iðnir við þennan kola undanfarnar vikur og mánuði, Eygló Harðardóttir hóf umræður sínar um Icesave-málið með því að líkja samningagerðinni við landráð, og Vigdís Hauksdóttir talar um föðurlandssvikara í Moggagrein um helgina. Fremstur fer auðvitað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem taldi eina tillögusyrpuna í fjárlaganefnd vera svik við þjóðina. Þannig að Ólafur er í góðum hópi.

Landráðabrigsl eiga sér því miður langa sögu í íslenskum stjórnmálum þótt nokkuð sé um liðið síðan síðast – en orðbragð Ólafs og félaga er auðvitað alþekkt og ævagamalt. Og á sér hvað kunnasta hliðstæðu í Dolchstoss-áróðri öfgahægrimanna í Þýskalandi eftir fyrra stríð, kenningunni um rýtingsstungu í bak hers og þjóðar.

Slíkum málflutningi fylgir svo allajafna upphafning flytjendanna sem hinna einu raunverulegu málsvara þjóðardjúpsins, nú vopnabræðra sjálfs Jóns Sigurðssonar – sú upphafning er einna frægust í íslenskum bókmenntum þar sem útrásarhetja sinna tíma, Pétur þríhross, eflir sóma landsins á Sviðinsvík með félagsskap Sannra Íslendinga.

Í Þýskalandi varð líka til félagsskapur hinar einu sönnu þýsku þjóðar og sá til þess að óvinirnir þurftu svo sannarlega „að beita meiru en pennanum og augnaráðinu til að kúga okkur Íslendinga“.

Við ættum kannski að grípa til vopna?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Nýi Dexter

    Er ekki 70% íslendinga á móti ESB og Iceshave?

  • Nú eruð þið Samfylkingarmenn að hefjast handa við að útlendingavæða orkufyrirtækin. Mér sýnist rýtingurinn hitta okkur beint í brjóstið, enda við með bundnar hendur.

  • Takk Mörður, les alltaf pistlana þína, þú segir það sem segja þarf, við þurfum á þér að halda á þessum erfiðu en líka spennandi tímum.

  • Norski skógarjólakötturinn

    Mörður, þú ert oft frábær sem einn af fáum með samvisku innan Samfylkingarinnar og kyndilberi grænna gilda þar inni.

    En ekki detta í „þýska“ flokkadráttinn þó að þú fáir smá ádrepu. Ólafur Árnason er ekki orðinn að formannin Framsóknar né þýsks fortíðarflokks þó að þið séuð ósammála. Ekki falla í gildru rökleysu og samspyrðinga. Teldu upp að tíu og mundu að anda í leiðinni.

    Með von um að geta stutt þig áfram.

  • Ertu að líkja „sekt“ íslendinga vegna Icesave við sekt Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöldina?

  • Sýnið fram á að þið munið rukka stóreignafólk um bankahrunskostnaðinn áður en þið rukkið almenning og þið munið sjá feiknarstuðning við ykkar málstað og vinstristjórn mun standa lengi. Sýnið að stóreignarfókl fær að halda sínu með niðurfelld lán en reka eigi almenning út af heimilum sínum og þið fallið með vopnaðri byltingu fyrir áramót.

  • Ólafur Sveinsson

    Hvað segið þið um pistilinn í MBL í dag. s. 16.
    ‘Óvæntur leki varð í London. Satt eða logið?

  • Leiðrétting

    http://www.dv.is/frettir/2009/8/18/tugmilljarda-skuldir-magnusar-afskrifadar/

    Mörður, viltu ekki skrifa pistil um þetta og endurtaka það að ekki sé hægt að hjálpa almenningi sem tók lán til fasteignakaupa?

  • Ómar Kristjánsson

    Já. Málið er bra að menn eins og Ólafur hafa verið á villigötum í þessu icesavemáli frá byrjun og mest allar götur síðan.

    Annaðhvort ekki skilið eðli máls eða viljandi misskilið það.

    Etv. sambland að ofannefndu tvennu.

    Vantar allt raunsæi.

    En jú, þetta mál er auðvitað alveg tilvalið í málflutning eins og borið hefur talsvert á, að það eina sem þurfi í rauninni sé að Ísland rífi bara kjaft uppá þúfu !

    Og þeir sem ekki geri það séu að flytja málstað breta.

  • Mörður Árnason

    Kalli — Hver var sekt Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöldina? Þar var búin til samsæriskenning um ástæður ófaranna sem vanheilagt bandalag kaupsýslu og hernaðar hafði valdið þjóðinni, það eru líkindin — ég er einfaldlega að vara við áróðri sem getur leitt menn í ógöngur, samanber hið ægilega dæmi Þýskalands á millistríðsárunum.

    Leiðrétting: Jú, svo sannarlega eru Landsbankinn og Magnús pistils virði– ótrúlegar fréttir. Kannast hinsvegar ekki við að ríkisstjórnin hafi ákveðið að láta fólk í vanda eiga sig. Hvaða fasteignakaupendur ertu að meina, og hvaða hjálp?

  • Ólafur Sveinsson

    Endurtek:
    Hvað segið þið um pistilinn í MBL í dag. s. 16.
    ‘Óvæntur leki varð í London. Satt eða logið?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur