Mánudagur 24.08.2009 - 09:07 - 25 ummæli

Námslánin fyrirmynd?

Góð tillaga hjá Þórólfi Matthíassyni í Mogganum á laugardaginn um að tekjutengja húsnæðislán sem nú skapa fjölskyldum vanda sem þær eiga á litla sök.

Það hefur lengi verið ljóst að úrræði sem nú eru í boði fyrir skuldara duga ekki öllum, og rétt  það sem Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði um daginn: Við getum ekki búist við að fólk með persónulegan skuldaklafa gangi glatt og frjálst til verka við endurreisn í samfélaginu.

Allsherjar-hókus-pókusar einsog Framsóknarmenn og Lilja Mósesdóttir boða ganga ekki upp – enda láta þau aldrei svo lítið að segja okkur hver eigi að borga. Og allar þær lausnir sem ganga út á einhverskonar skuldaniðurfellingu stórra hópa – nema þá þeirra sem teljast í slíkri neyð að um þá gildi mannúðarlögmál eða barnaverndarsjónarmið – mæta hvössum spurningum annarra samfélagshópa. Besta dæmið eru auðvitað þessir 40 þúsund sem skulda milljarða samtals í myntkörfulánum fyrir bíla – af hverju eigum við að borga fyrir þá? spurja þeir sem borguðu íslenska vexti fyrir sinn bíl, eða keyra á tíu ára gömlum bíl, eða keyptu sér aldrei bíl.

Það er líka eðlilegt að setja spurningarmerki við þá aðferð sem Árni Páll virtist kynna til sögu í Fréttablaðsviðtalinu, að bankarnir ættu sjálfir að sjá um afskriftir lána sem væru ella í hættu. Allar afskriftir eða niðurfellingar verða að eiga sér stoð í almennum gagnsæjum reglum, og þannig starfa ekki bankarnir – ekki fyrir hrun og ekki eftir hrun, hvað hin norræna velferðarstjórn geri svo vel að byrja að athuga! Við treystum þeim ekki, og þeir hafa ekki sýnt – ennþá – að þeir eigi annað skilið en fullkomið vantraust.

Þórólfur benti í grein sinni á að við hefðum á einum stað reynslu af félagslegum lánum að nokkru leyti – nefnilega í námslánakerfinu, þar sem endurgreiðslur fara að hluta eftir tekjum. Það gæti veri farsælt að breyta húsnæðisskuldum fjölskyldna sem nú eru í vanda í slík lán, sem menn greiddu niður eftir tekjum sínum. Þeir sem eiga í skammtímavanda vegna samdráttar i tekjum mundu bjargast yfir erfiðasta hjallann. Þeir sem hafa reist sé hurðarás um öxl – í nánast eiginlegri merkingu – fá svolítinn frið til að breyta högum sínum, skipta til dæmis í ódýrara húsnæði þegar markaðurinn leyfir.

Um þetta yrði að setja tiltölulega skýrar reglur, bæði gagnvart skuldurum og lánardrottnum, væntanlega þá um ábyrgð ríkisins á lánunum gegn ákveðnum afskriftum. Og sennilega væri best, einsog Þórólfur leggur til, að þessi lán fari á sérstakan stað í kerfinu, meðal annars vegna náinnar samvinnu sem nauðsynleg er við Skattinn. Þórólfur lagði til sérstaka deild hjá LÍN, af því þar hefði starfsfólk langa reynslu af félagslegum lánum af þessu tagi.

Það er auðvitað búið að pönkast mikið á því kerfi tekjutengdra námslána sem tekið var upp að ég held árið 1975, en grundvallarprinsippið hefur þó haldist: Að menntun sé sameiginlegur hagur námsmannsins og samfélagsins, samfélagið sé þessvegna reiðubúið að taka þátt í kostnaði námsmannsins svo sem með niðurgreiðslu vaxta, og sjálfsagt sé að samfélagið sjái til þess að endurgreiðslur séu í einhverju hófi að námi loknu, miðað við tekjur námsmannsins.

Að breyttu breytanda geta þessi prinsipp átt við um þá hópa sem nú eru í verstum vanda og þegar ákveðin úrræði ná ekki til eða illa. Þá er líka rétt að stinga þessu inn í umræðuna: Fyrstu áratugi námslánakerfisins sem til varð í tíð jarðbundinna vinstrimanna í SHÍ og SÍNE – og menntamálaráðherrans Vilhjálms Hjálmarssonar – lauk endurgreiðslum á ákveðnum tíma. Það sem þá var eftir féll einfaldlega niður, þannig að þeir sem „högnuðust“ á námi sínu og fengu miklar tekjur, þeir borguðu margir upp lánið sitt, en hinir sem fengu lægri laun eftir námslok þurftu að lokum ekki að borga allt lánið.

Að breyttu breytanda væri hugsanlegt að nota líka þessa reglu frá námslánabreytingunum 1975 um tiltekna hópa og tilteknar aðstæður. Slík regla mundi flytja afskriftir og niðurfellingu aftur í tímann – 20 ár? 30 ár? – þannig að léttara yrði við þær að fást, og á þann hátt að réttlátlega kæmi niður, ef skynuglega er á haldið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þennan málflutning. Því miður Mörður ert þú svo bundinn á flokksklafann að þú hvorki heyrir né sérð það sem frá öðrum kemur. Árni Páll ætlar að taka peninga til að leiðrétta lán einstaklinga af þeirri niðurskrift sem átti sér stað frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þetta er nákvæmlega sama leið og Framsóknarflokkurinn, Tryggvi Þór og Lílja Móses hafa bent á síðan í febrúar. Nær allar þær aðgerðir sem núverandi stjórnvöld hafa gripið til, til varnar almenningi og heimilum landsins hafa því miður reynst gagnlitlar. Augun á Árna Páli eru að opnast fyrir því. Hvergi hef ég séð að verið sé að tala um niðurfellingu á bílalánum og því fjarstæðukennt að koma með slíkar smjörklípur. Spurningin snýst einfaldlega um hvort þessar leiðréttingar eigi að vera almennar og að jafnt eigi yfir alla að ganga, eða hvort það verði hlutverk pólítíkusa að segja til um hver eigi að fá leiðréttingu og hver ekki. Öll umræða um annað, er bara til að slá pólitískar keilur og afvegaleiða mikið réttlætismál.

  • Jens Finnsson

    Mörður þú skrifar:
    „Allsherjar-hókus-pókusar einsog Framsóknarmenn og Lilja Mósesdóttir boða ganga ekki upp – enda láta þau aldrei svo lítið að segja okkur hver eigi að borga“

    Ég skal upplýsa það hér hverjir eiga að borga þessa hókus-pókusa:
    Þeir sömu og borguðu 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóði gömlu bankanna. Þeir sömu og borguðu upp allar bankainnistæður gömlu bankanna upp í topp, í staðinn fyrir að borga aðeins það sem bar samkvæmt lögum (c.a. 3-4 milljónir per bankareikning). Málið er að það er langt síðan við byrjuðum á „allsherjar-hókus-pókusum“ í boði almennings. Það eru margir mánuðir síðan almenningur borgaði fjármagnseigendum nánast upp í topp það sem þeir töpuðu þegar bankarnir sem þeir treystu fyrir peningum fóru á hausinn!

    Finnst þér það að taka mynntkörfulán vera óskynsamlegra en að kaupa peningabréf gamla Landsbankans, eða hlut í sjóði 9 hjá Glitni? Ég sé ekki muninn. Mikil áhætta í öllum tilvikum. Afhverju eigum við að henda björgunarhring til sumra en hengja blýklumpa á aðra eftir svona allsherjar hrun?

    Ég væri allveg á móti öllum „almennum leiðréttingum“ ef fjármagnseigendur hefðu ekki fengið þær. Auðvitað er spurning hve mikið, hvar á að hætta o.s.frv, en mér finnst halla á skuldsettu kynslóðina í stað þeirrar kynslóðar sem samdi reglurnar ef við hættum núna í „almennum leiðréttingum“.

  • Vinstrisinnaður námsmaður

    Kæri Mörður.

    Þar sem ég er í þeirri stöðu um þessar mundir að vera að ljúka áratugarlöngu framhaldsnámi, langar mig að koma eftirfarandi athugasemd á framfæri vegna hugmyndar þinnar hér að ofan.

    Verri lán en íslensku námslánin, og óhagstæðari endurgreiðslukjör, eru vandfundin í vestrænum heimi sl. 20 ár. Þau eru svo óralangt frá því að vera einhver blessun, að mig sundlar hreinlega við að lesa texta þinn hér að ofan.

    Og tekjutengingin skiptir hverfandi litlu máli. Vissulega eru endurreiðslur tekjutengdar (en þó aðeins að hluta). En lágmarksendurgreiðslan er allt, allt, allt of há, og lánstíminn er hreinlega hlægilegur.

    Ég þekki ansi marga sem stofnað hafa til fjölskyldu í sínu langa framhaldsnámi og af þeim sökum farið í eitthvað sem kallað er ‘hálft nám’, sem er leyfilegt alls staðar annarsstaðar en á Íslandi. Því um leið og maður fer niðurfyrir 75% lán, telst maður hættur í námi!! Og þá koma endurgreiðslukröfur eins og klukka 2 árum seinna. Af þeim 5 Íslendingum sem ég veit af í doktorsnámi í mínum heimabæ, hafa 4 lokið við að greiða námslán sín að fullu fyrir BS námið, áður en þeir eru búnir með doktorinn! Og það þrátt fyrir verðtryggingu og vexti.

    Og það er ekki vegna þess að fólk hafi svo háar tekjur – síður en svo. Hér hangir fólk í sultarmörkum sí og æ. Nei, lágmarksgreiðslan er einfaldlega svona há, jafnvel þegar maður hefur rétt í sig og á.

    Álagið sem er á fólki af þessum völdum er þvílíkt, að ég legg ekki í að lýsa því.

    Ég get aðeins ráðið þér eindregið frá því – og jafnvel mótmælt því kröftuglega að þú skulir láta þér detta það í hug – að draga íslensk námslán inn í umræðuna sem einhverskonar jákvætt félagslegt fyrirbæri.

  • Eigi er fé fé nema loðið sé

  • Jæja þá veit maður að flokkslínan er ekki að breytast.

    Þórólfur skrifar grein og Mörður mærir hana.

    Þið skiljið ekki við hvað er átt með þessum niðurfellingar/leiðréttingaaðgerðum

    ÞIÐ SKILJIÐ ÞAÐ EKKI og djöfull er það óþolandi.

    Ég vill ekki tekjutengingu á húsnæðislánið mitt, ég vill ekki þurfa að skrá mig atvinnulausan og vinna svart til að fá niðurfellingu á húsnæðislánið mitt, ég vill ekki þurfa að eignast 5 börn og skilja við makann minn í orði til að fá niðurfellingu á húsnæðislánið mitt.

    Ég asnaðist til að mennta mig og taka vinnu þar sem allt er gefið upp til skatts. Er með sæmileg laun, á konu sem er með sæmileg laun og eitt barn á framfæri. Húsnæðislánið okkar er búið að hækka úr 15,5 í 18 síðan við tókum það. Höfuðstóllinn er horfinn og íbúðin selst aldrei á meira en 18.

    Þetta er rán Mörður Árnason og ég er viss um að ef ég væri hvalur væriru trítilóður yfir þessu.

  • Hver borgaði innstæðueigendunum og þeim sem áttu í peningamarkaðssjóðunum? Kom sá peningur ekki úr ríkissjóði? Af hverju á ríkissjóður að tryggja afkomu þessa fólks en ekki mína?

  • Mörður Árnason

    Takk fyrir innlegg. Ég var nú aðallega að vekja athygli á hugmynd Þórólfs Matthíassonar um tekjutengdar afborganir — en ef menn vilja ávíta einhvern fyrir bankahrun, verðbólgi, gengissig et cetera — skal ég safna því saman, setja í hin og þessi umslög og splæsa nokkrum frímerkjum. Nokkur atriði samt:

    * Nei, Jens, ,,við“ skiljum það ekki — hvaðan eiga að koma milljarðatugir í hókus-pókusleiðirnar. Getur þú kannski skýrt það fyrir okkur? En það er HFF að lenda í þessu einsog þú gerir — og þessvegna er þessi umræða uppi.

    * OK o.fl. — Ég er enginn svarari um ráðstafanir ríkisstjórnar Geirs Haarde en ég held að hinn lífseigi 200 milljarða-styrkur til peningamarkaðasjóðsfólks sé misskilningur. Hann komst á flug úr því sem til var í þessum sjóðum, um 80% innstæðu að jafnaði. Fólk sem átti pening á venjulegum reikningum tapaði hinsvegar ekki, samkvæmt hinum frægu fyrirheitum, sem svo urðu grunnur Icesave-málsins, og það erum við vissulega öll að borga.

    * Vinstrisinnaður námsmaður — Stilltu þig gæðingur — hér var enginn að hrósa námslánunum, a.m.k. ekki þeim sem nú eru í gangi — heldur var hugleitt hvort tekjutengingarreglan gæti gagnast. Sögnin að pönkast var notuð um ríkisstjórnir fjögurra síðustu áratuga sem hafa verið að herða skrúfurnar á lánunum, meðal annars með því að afnema hámarkstímann (með þeim afleiðingum að sumir langskólamenn verða orðnir ellilífeyrisþegar áður en þeir klára námslánið) — alveg sammála þér um þetta.

  • Ágæti Mörður

    200 milljarðarnir sem fóru inn í núverandi ríkisbanka er enginn misskilningur. Ef það hefði ekki verið gert hefðu þessir peningamarkaðsjóðir aðeins getað greitt 20-30 prósent af höfuðstól inneigna. Ég ráðlegg þér að spyrja Björgvin G. Sigurðsson að þessu. Hann veit allt um málið enda var þetta gert á hans vakt.

  • Ég ætla ekki að halda því fram að ég geti lýst nákvæmlega tæknilegu útfærslunni við t.d. 20% leiðréttingu á húsnæðisláni.

    Það segir mér reyndar mikið að þú kallar þetta hókus-pókus leiðina sem er akkúrat spilið sem SF hefur notað síðan þetta var lagt fram. Að þetta væri bjánalegt, ekki hægt og til þess eins að bjarga N1 og Kögun og fleira jafn fáranlegt.

    Staðreyndin er sú að það er verið að færa húsnæðislán á milli gömlu og nýju bankanna með afskriftum. Það er búið að margtaka þetta fram og ég veit ekki betur en að þetta sé rétt. Fullkomlega réttlætanlegt er að skuldarar fái að njóta afskriftanna að hluta á móti nýju bönkunum.
    Þá stendur eftir íbúðalánasjóður, þar kostar leiðréttingin væntanlega einhverja peninga úr ríkissjóði. En það væri ekki 100% sokkinn kostnaður, þetta myndi ýta við því að fólk stæði við sínar skuldbindingar. Ég bendi á eftirfarandi klausu af vef Íbúðalánasjóðs.

    „Árin á undan voru umsóknir um úrræði vegna greiðsluvanda mun færri, eða 377 árið 2007, 378 árið 2006 og 412 árið 2005. Umsóknum af þessu tagi tók að fjölga mjög eftir bankahrunið sl. haust og hafa þær verið 200 til 350 á mánuði undanfarna 10 mánuði.“

    Semsagt á tveimur mánuðum sækja jafnmargir um „leiðréttingu“ nú þegar. Verst að leiðréttingin sem er boðið uppá felst í lengingu hengingarólar og byggir að sjálfsögðu á því að maður sé andskoti nógu mikill aumingi, sé einstæður með barnaskara eða vinni svart.

    Svo er það hitt með kostnaðinn, hver er kostnaðurinn við að streytast við að halda sama kerfi áfram og láta eins og lán hafi ekki hækkað um 20% á milli ára.
    Hvað helduru að það þýði fyrir þig þegar kannski tveir í götunni gefast upp og skila lyklunum til lánastofnunar sem þarf þá einhvernveginn að losna við íbúðina þeim yrði „dömpað“ og eignin þín færist niður í verði og verður óseljanlegri jafnharðan og það gerist.

  • Nafn (krafist)

    Mörður, þú ert ótrúlegur.

    Á ég að trúa því að þú hafir ekki enn kynnt þér framkvæmd skuldaleiðréttingar?

    Afskriftir erlendra lánadrottna á lánum til Íslands eru miklar, þeir reikna ekki með því að fá allt til baka. Þetta gera bankamenn þegar kreppir að, í stað þess að rukka 100% til baka sætta menn sig við, segjum 70%. Minna í einhverjum tilfellum.

    Það er ekki rétt hjá þér þegar þú talar um að ríkið þurfi að koma með eigið fé til þess að leiðrétta skuldir almennings.

    Það er eflaust hægt að gera það líka en enginn (fyrir utan samfylkingarfólk, ekki eins margir í VG og sjálfstæðisflokki) hefur haldið því fram.

    Ég hvet þig til að kynna þér málið nánar, gætir t.d. lesið skýrslu Tryggva Þórs um málið.

    Kær kveðja.

  • Mörður Árnason

    Ágæti ,,Nafn (krafist)´´ — Þetta hafa menn farið gegnum hvað eftir annað. Bankarnir urðu gjaldþrota. Seðlabankinn líka. Peningar vaxa ekki á trjánum þótt afskriftir fari fram á skuldum gjaldþrota banka. Að lokum þarf að endurfjármagna bankana og það gerum við sjálf úr ríkissjóði (plús vonandi erlendir kröfuhafar sem breyta kröfum í hlutabréf). Hókus-pókus-aðferðir Framsóknarflokks og Lilju (og að hluta Tryggva Þórs) hafa bara gildi fyrir kosningar og í stjórnarandstöðuræðum.

    Það er pólitískt verkefni að nýta sem allra best það litla fé sem til er. Almenn leiðrétting, t.d. 20%-aðferð Framsóknar, er algerlega út í hött, fjárhagslega og siðferðilega. Rök eru hins vegar fyrir því að bæta hlut þeirra sem verst standa og ekki hafa gert til þess mikið annað en að vera hluti af íslenskum veruleik. Leiðir til þess þarf að velja af gaumgæfni — Þórólfur Matthíasson hefur bent á eina þeirra.

    Um skýrslur Tryggva Þórs Herbertssonar er svo best fyrir okkur að tala sem allra minnst.

  • Þórður Magnússon

    „Besta dæmið eru auðvitað þessir 40 þúsund sem skulda milljarða samtals í myntkörfulánum fyrir bíla – af hverju eigum við að borga fyrir þá?“

    Sjálfur skulda ég ekki bílalán í erlendu gengi og hef svo sem hingað til ekki verið fullur samkenndar með þeim sem gera það, en mér hreinlega blöskrar mannvonskan sem opinberast með þessari settningu.

    Að öðru leiti er greinin þín eins skammsýn og þröngsýn og við er að búast af manni sem sér ekki út fyrir sitt eigið veski.

    Hafðu það sem allra best en ég mun ekki leggjast svo lágt að nenna að lesa greinar eftir þig eða hlusta á sjónarmið þín á öðrum vettfangi í framtíðinni.

  • Sigurður #1

    Mörður.

    Þú hefur aldrei látið staðreyndirnar þvælast fyrir þér, og gerir ekki enn.

    Útúrsnúningar og þvæla eins og þú viðhefur enn í dag er sorgleg að sjá.

    Svona málfltuningur held ég að sé að stórum hluta ástæða þess að við erum í þessum dansi í dag, það er aldrei hægt að koma málefnanlega að neinum málum.

    Það er ævinlega snúið út úr og handvaldar staðreyndir eftir hentugleika, eða slitið úr samhengi til að rugla fólk í ríminu.

    Það væri mikill sigur fyrir lýðræðið ef fólk eins og þú gætið sýnt aðeins meiri þroska og hætt þessum sandkassaleik og farið að ræða hlutina af yfirvegun og metnaði.

    Það gerir þú ekki, og hefur aldrei gert.

    Þú dansar eftir flokkslínuni, og fórnar öllum trúverðugleika fyrir.

    Það er magnað að fólk skuli enn þora að verja þessa rányrkju sem verðtryggingin er, og sjálftaka ríkis og banka er með verðtrygginguna að vopni.

    Það liggur algerlega fyrir, og ekkert um það deilt lengur að bankarnir felldu krónuna með skipulegum hætti.

    Þeir eiga beinlínis sök á hækkuðum lánum, hvort sem eru verðtryggð eða gengistryggð.

    Þetta er hrein og klár eignaupptaka sem hvergi þekkist í veröldinni nema hér.

    Finnst þér eðlilegt og sjálfsagt mál að bankarnir geti leikið sér að hækka lán almennings eftir eigin geðþótta?

    Ef ég tek 10 miljónir í gengistryggt lán, fæ útprentaða greiðsluáætlun og byrja svo að greiða af því, en bankinn ákveður svo að fella krónuna til að laga bókhaldið sitt, og tvöfaldar lánið mitt.

    Er það bara sjálfsagt mál að ég borgi það þá tvöfalt til baka?

    Bankinn breytti bara höfuðstólnum einhliða eftir á, hvar þekkist það í veröldinni annarsstaðar en hér?

    Og hvar í heiminum yrði lántakandi sem kiknaði undan þessu kallaður óreiðumaður, og sukkari?

    Þ.e. annarsstaðar en hér?

    Hvergi í heiminum nema hér!!

    Hér hefur þínum flokki tekist að gera hlutabréfakaup áhættulaus með öruggum gróða, en venjuleg húsnæðiskaup eru skyndilega áhættufjárfesting með óútfylltum höfuðstól til 40 ára!!!

  • Þetta er í theoríunni ok. en eins og svo margt sem kemur frá vinstri mönnum, vonlaust í praxis. Íslendingar væru ekki lengi að lækka sínar tekjur til að borga minna í húsnæðislán. Ríkið sæti uppi með skuldirnar í fanginu.

    Annars ótrúleg umræða þetta um að afskrifa skuldir. Á næstu 16 mánuðum fer fram niðurskurður hjá ríkinu um 150 milljarða vegna óska AGS. Það eru tæpir 10 milljarðar á mánuði. Hvar ætlar ríkisstjórnin að taka peninga til að endurgreiða þeim sem keyptu sér húsnæði eða bifreiðar? Ríkið verður heppið að geta haldið úti lögbundinni þjónustu, hvað þá að borga skuldir borgaranna.

    Ef ríkið færi út í að borga niður skuldir þeirra sem tóku of há íbúðalán, eða þeirra sem tóku lán í rangri mynt, þá er næsta víst að ríkið yrði að ná svoleiðis niðurgreiðslu til baka hinum megin við hornið í formi meiri skattheimtu, lakari opinberri þjónustu eða niðurskurði á einhverri þjónustu sem ríkið er að veita í dag.

    Gengi krónunnar er í dag t.d. ca 180 pr. evru. Ef ríkið ætlar að bjóða almenningi að borga erlendar skuldir á 150 kall, þá þarf ríkið sjálft að borga það sem stendur á milli, 30 kr. Það er ekki hægt að færa vísitöluna til baka alla leið. Svo einfalt er það.

    Það er alveg með ólíkindum að heyra fólk tala um að ríkið eigi að gera þetta eða gera hitt. Ég held að ríkisstjórnin megi teljast heppin ef hún nær að halda úti bankakerfinu án þess að sambandið við útlönd rofni, halda úti lögbundinni þjónustu á sjúkrahúsum, skólum, löggæslu og slíku. Það eru engir peningar á lausu til að borga niður skuldir borgaranna. Því miður.

  • Sigurður #1

    Joi.

    Þú talar um að ríkið geti ekki borgað skuldir fólks sem tók of há húsnæðislán.

    Þú ert greinilega ekki að skilja einföldustu hluti, t.d. þá að fólk fékk aldrei þennan pening að láni sem bankarnir eru að innheimta í dag.

    Aldrei nokkurn tímann.

    Það er bara verið að tala um að skila sjálftöku bankanna til baka aftur.

    Það líðst hvergi í heiminum að bankar getir breytt og hækkað lán að eigin geðþótta eins og gert er hér á landi.

    Hvergi nokkursstaðar.

    Þess vegna er það með ólíkindum að menn eins og þú skuli láta það út úr sér að lántakandinn beri einhverja ábyrgð á stórhækkuðu láni.

    Sá eini sem ber ábyrgð á stöðu lánanna í dag, er bankinn sjálfur.

    Ekki lántakandinn.

    Lántakandinn er fórnarlamb fjárglæframanna sem fengu banka að gjöf frá stjórnmálamönnum.

    Íslenska bankahrunið hefur nákvæmlega EKKERT með flatskjárkaup að gera eins og sumir bjánar vilja halda fram.

    Ég ber ENGA ábyrgð á því hve mikið mitt húsnæðislán hefur hækkað, bankinn ber alla og óskipta ábyrgð á því.

    Afhverju á ég að taka allann skellinn?

    Eitt enn:

    Þessi lán voru afskrifuð að eihherju leiti út gömlu bönkunum og yfir í nýju, svo það ætti ekki að lenda ein einasta króna á skattgreiðendur þó þessu þýfi verði skilað til baka til lántakenda.

  • Ef sá sem tekur lánið er hættur að bera ábyrgð, þá er ekki skrýtið að allt sé komið til fjandans hérna.

    Þeir sem tóku t.d. erlent lán, segjum upp á 10.000 Evrur. Hljóta að borga sömu upphæð til baka, ásamt vöxtum og verðbótum í sömu mynt? Þeir hinir sömu sem eru að mótmæla hækkun í íslenskum krónum á láninu geta einfaldlega farið og keypt evrur, og fært greiðsluna með evrum sem þeir hafa keypt. Það hefur hins vegar ekkert nema kostnað í för með sér.

    Ég hef ekki hugmynd um hvaða skilmála þú skrifaðir undir þegar þú tókst lánið. Þú átt að efna þær skuldbindingar sem þú gekkst undir þegar þú tókst lánið. Getur ekki ætlast til þess að einhverjir aðrir, sem þú kannski þekkir ekki neitt hlaupi undir bagga með þér.

    Þú spyrð hvers vegna þú eigir að taka allan skellinn af eigin gjörðum, ég spyr á móti, hvers vegna á einhver annar að taka einhvern hluta af þínum skelli?

    Ég man amk ekki til þess að nokkur sem tók erlent lánhafi minnst á að borga mér svo mikið sem eitt cent þegar erlenda lánið var enn á hagstæðum vöxtum og hagstæðu gengi til baka!

    Sá sem fékk mun lægri vexti á evru láninu, og að auki einhvert djók gengi á árunum 2005-2008 ætti þá að borga til baka mismunin á lága genginu og því sem gæti talist eðililegt gengi evrunnar. Það var svo sannarlega ekki 80 kr, líklega 120 kr. Er þá ekki eðlilegast að sá mismunur verði borgaður til baka, rétt eins og þeir sem eru með erlend lán sem hafa hækkað óeðlilega mikið eru að fara fram á niðurfellingu niður í það sem þeir telja eðlilegt gengi?

    Svona skuldaniðurfellingar hjálpa engum. Það er augljóst. Eina sem getur hjálpað fólki sem er í slíkum vanda er að lækka gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónunni og hækka aftur kaupmátt fólksins í landinu. Ríkisstjórnin lagði nú upp með þetta á sínum tíma fyrir nokkrum mánuðum síðan. Síðan hefur verið fátt um efndir. Hvert axarskaftið á fætur öðru hefur rekið ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar. Hún var t.d. rétt búin að binda okkur í nokkur hundruð MILLJARÐA auka greiðslu vegna Icesave vegna arfaslakra samninga sem samninganefnd Steingríms J. var búin að undirrita. Ef ríkisstjórnin væri ekki að gera svona slaka samninga og taka jafn slakar ákvarðanir og hún hefur verið að gera, þá væri kannski líkur á að gengi krónunnar styrktist og ekki þyrfti að skerða kjör þeirra sem síst mega við því.

  • joi,

    Þú mátt þó ekki gleyma því að á meðan skuldari fær enga samúð þá voru settir peningar í að vernda fjármagnseigendur með því að bakka upp innstæður gjaldþrota banka og borga inn í peningamarkaðssjóði, sem átti að vera ljóst að væru áhættu fjárfesting. Eina sem sagði að þær voru ekki áhættufjárfesting voru auglýsingar bankanna.

  • Ibba Sig.

    “Besta dæmið eru auðvitað þessir 40 þúsund sem skulda milljarða samtals í myntkörfulánum fyrir bíla – af hverju eigum við að borga fyrir þá?”

    Tek undir með Þórði….þetta er bara kjánalegt. Við getum því miður ekki öll verið á hjóli Mörður. Margir tóku bílalán fyrir hóflegum fjölskyldubílum….ekki bara Hummerum og Range Roverum.

    Skiptir máli í hvað lán var notað þegar forsendubrestur verður? Held ekki.

    Er betra fyrir þjóðfélagið þegar fjölskyldur fara út á guð og gaddinn útaf bílaláni en húsnæðisláni? Held ekki.

    Held að stjórnvöld ættu að gera sér betur grein fyrir ástandinu meðal almennings. Fullt af fólki getur borgað en sér ekki alveg tilganginn, eigurnar étast upp, sífellt þrengra í búi og engin framtíðarsýn. Líka hjá fólki sem var skynsamt og búið að koma sér þokkalega fyrir með sparnaði og ráðdeild.

  • Lesandi:
    Þeir sem eru illa staddir fjárhagslega eiga samúð fólks skilið. Líklega eru flestir í þeirri stöðu að eiga í vandræðum með að láta enda ná saman. Það eru fáir sem hafa það mjög gott þessa dagana.

    Þessi umræða um að hlaupið hafi verið undir bagga með fjármagnseigendum, og leggja það að jöfnu við þá sem skulda er ekki sanngjörn nema að ákveðnu marki, það er að segja að bankarnir voru búnir að lofa fjármagnseigendum ákveðinni ávöxtun. Bankarnir eiga að standa við sitt. Skuldarar voru líka búnir að lofa sínum skuldurum að standa í skilum, og eiga að reyna að standa við slíkt fram í lengstu lög.

    Helsta ástæða fyrir því að ríkisstjórnin setti peninga inn í bankana sl. haust var sú að hún óttaðist að áhlaup yrði gert á bankana. Sparifjáreigendur tækju peninga sína út. Þar me myndu viðskipti við útlönd lokast og fjármálakerfið þar með hrynja til grunna, líkt og gerðist í kreppunni í USA árið 1929. Þær hörmundar sem þá áttu sér stað vildu menn ekki sjá aftur. Sem betur fer hefur það ekki gerst, og vonandi gerist það ekki.

  • Sigurður #1

    Joi.

    Finnst þér þá ekkert athugavert við það að bankarnir leiki sér að því að stórhækka lán eftir hentugleika?

    Veistu einhver dæmi þess í þessu sólkerfi að svona viðskipti séu lögleg?

    Að maður taki 10miljónir að láni, en bankinn hafi það svo bara eftir eigin hentugleika hvað hann rukkað það margfalt til baka?

    Einhversstðar í veröldinni annarsstaðar en hér?

    Finnst þér þetta virkilega eðlilegt og sanngjarnt?

  • Gleymdu þessu Mörður. Þetta er hagfræði fyrir sauðfé.

    Þessi leið mun aldrei ganga upp. Fyrr mun fólk stefna þessu landi í annað hrun en að samþykkja, að skuldaukningin sem er tilkomin vegna skussaskapar landsfeðrana, verði notuð til þess að mynda eiginfjárgrunn nýju bankana. Það kostar kannski 1800-2000 milljarða að endureisa hagkerfið. Fólk sér engan tilgang í því að kosta svo miklu til, til þess eins að viðhalda séríslensku óréttlæti. Þá er alveg eins gott að dýfa skerinu einu sinni duglega ofan í leðjuna og hefja svo alvöru hreingerningu í framhaldi af því.

    Það bað engin ykkur um að taka yfir þessar skuldir og reyndar er hægt að draga í efa rétt stjórnvalda til þess að gera það. En það er gjörsamlega siðlaust eftir það sem á undan er gengið, að ríkið ætli að hagnast á ógæfu almennings með því að áfram senda ekki afslátt kröfuhafanna til hins almenna skuldara.

    Og hvað ætlar þú svo að gera ef að einstaklingar vinna mál sín gegn bönkum? Mun þá peningurinn vaxa á trjánum? Það má þar fyrir utan einu gilda hvort þessi peningur vex á trjánum eða ekki. Afskriftirnar koma að sjálfu sér þegar fólk hættir að borga. Þetta er spurning um að afskrifa jákvætt eða neikvætt. Og ef þú hugsar þig djúpt um? Hvort heldur þú að sé skynsamlegra í ljósi aðstæðna?

    Afslátturinn sem að kröfuhafarnir gefa nýju bönkunum fer áfram til almennings Mörður Árnason. Þú getur gleymt öllu öðru.

  • Sigurður1
    Það er eitt og annað sem er að gerast í bankakerfinu. Held að bankarnir „leiki“ sér ekki að því að hækka vexti af lánum. Þau fylgja einfaldlega verðtryggingu.

    Það má líka spyrja sig hvers vegna vextir af venjulegum bankabókum séu ekki nema um 9% þegar almennir vextir eru 13%? Síðustu þrjá mánuði hafa innlánsvextir verið neikvæðir, og það verulega. Vextir af bankabókum voru færðir niður með handafli, án þess að það væri svo mikið sem tilkynnt þeim sem áttu bankabækur með innistæðum á. Það gleymist stundum að tala um að það eru margir fjármagnseigendur að tapa stórum fjárhæðum. Ekki má heldur gleyma þeim sem hafa sparað peninga gegnum lífeyrissjóðina, sumir með greiðslum í þá alla sína ævi. Horfa upp á peningana sína þar brenna upp. Líklega um tugi prósenta þegar búið verður að gera þetta allt upp. Enginn hefur talað um að bæta því fólki sitt tap?

  • Sigurður #1

    Joi.

    Þú svarar ekki einföldum spurningum.

    Ég talaði ekkert um að bankarnir léku sér að því að hækka vexti.

    Þeir léku sér að því að hækka höfuðstólinn.

    Það er óumdeild staðreynd.

    Verðbólgan sem er núna, er sköpuð af bönkunum.

    Það er önnur staðreynd.

    Ríkisstjórnin bætur svo um betur með skattahækkunum sem allir vita að skilar ENGU í kassann, en hækkar lánin enn meir.

    Það er þriðja staðreyrndin.

    fjórða staðreyndin er svo sú að sá sem tók lánið upphaflega ber nákvæmlega ENGA ábyrgð á þessum stór hækkaða höfuðstól sem bjánar eins og þú telja sjálfsagt og eðlilegt mál að sé greiddur að fullu.

    Enda þótt það sé alveg ljóst að svona eignaupptaka viðgangist hvergi í veröldinni meðal siðaðra þjóða nema hér.

    Það má reyndar deila um hvort ísland sé siðuð þjóð.

  • Þakka hlý orð í minn garð Sigurður. Segir það ekki nokkuð um þig að þú kallar þá sem þú ert að rökræða við bjána?

    Þú sérð greinilega ekki um að kaupa í matinn á þínu heimili ef þú heldur því fram að verðbólgan sem hefur hækkað lánin sé „búin til af bönkum“. Verðhækkanir hafa ekki síður verið að eiga sér stað í verslunum. Ríkið hefur heldur ekki verið að draga að sér í verðhækkunum. Allt hækkar verðbólguna sem hækkar svo verðtryggðu lánin. Þar koma bankarnir ekki nálægt.

    Ríkisstjórnin hefur enn ekki hækkað skattana mikið Sigurður, hún hefur ekki þorað því, ekki fyrr en búið er að þræla ESB og ICESAVE málum gegnum þingið. Núna verður farið út í niðurskurð og skattahækkanir. Stjórnin þarf að ná 160 milljónum í kassann á næstu mánuðum. Með minnkandi skattstofni ríkisins er nokkuð ljóst að hækka verður skatta og álögur. Það er á hreinu. Eins og forsetinn sagði svo skemmtilega um vini sína í útrásarbransanum „you aint seen nothing yet“!!!!

    Verðtryggð lán greiðast skv. verðbótum og vöxtum. Erlend lán greiðast í erlendri mynt. Það er staðreynd sem þarf ekki að rífast neitt um. Spurningin er bara hvort einhver sé tilbúinn að borga niður lán þeirra sem tóku svona lán og eiga ekki fyrir skuldum. Að halda því fram að sá sem taki lánið beri enga ábyrgð er ekki góður málarekstur, vilji menn fá aðstoð utanfrá við að greiða lánið sem er komið í vanskil.

    Ísland er siðuð þjóð, þú þarft ekkert að velta því fyrir þér, en ef tillögur á borð við þær sem menn hafa verið að tala um, að hætta bara að borga, þá er ekki víst að fólk líti Ísland sömu augum og áður.

  • Sigurður #1

    Jói.

    Ég las aðeins 6 línur og læt það duga.

    Miðað við skilning þinn á efnahagsmálum reikna ég með því að þú hafir varla náð fermingaraldri.

    vertu blessaður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur