Föstudagur 28.08.2009 - 08:25 - 3 ummæli

Flottar stelpur

Þær fara ekki áfram – en voru flottar í gær, og hafa skrifað nýjan kafla bæði í annál íþróttanna og sögu jafnréttisbaráttunnar.

Íslenskt landslið á EM eða HM, það var draumur sem maður gat varla átt von á að nokkurntíma rættist – og auðvitað er það bara gott á okkur að það var kvennalandsliðið sem hér braut ísinn. Það eru varla nema tuttugu-þrjátíu ár síðan það var lenska í fótboltahópum að konur gætu að vísu kastað dansað listdans á skautum og synt flugsund – og ein og ein kastað handbolta, en knattspyrnu kynnu þær ekki og mundu aldrei læra. Nú hafa þær á þessum nokkru áratugum (fyrsta Íslandsmót 1972!) náð lengra en nemur samanlögðum knattspyrnuárangri íslenskra karla frá því Ferguson prentari kom hingað með fótboltann það herrans ár 1895.

Þetta var auðvitað óþolandi í gær að ná ekki að jafna, eftir mikinn dugnað og snarpar sóknir í seinni hálfleik – en líklega lokaðist leiðin strax í Frakkaleiknum. Nema hvað? Í draumnum um Ísland á HM eð EM var aldrei reiknað með nema þremur leikjum, að minnsta kosti í fyrsta sinn.

Sem betur fer sýnast bæði liðið og þjóðin staðráðin í að geyma árangur „stelpnanna okkar“ í Finnlandi og þoka vonbrigðunum til hliðar. Það er gott – í öllu þessu ástandi. Við getum þetta alveg!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Nýi Dexter

    Hefur ÞÚ ekkert mikilvægara að hugsa um?

  • Árni Þór

    Hollt fyrir alla að hugsa um hversu rík þjóðin er!!
    Mörður, ég er ánægður með þessi skrif!!!

  • Hrafn Arnarson

    Þetta eru merk tímamót í íslenskri knattspyrnusögu og sögu kvennaknattspyrnunnar .

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur