Þriðjudagur 03.11.2009 - 09:16 - 10 ummæli

Bankar úti í móa

Hagamálið sýnir mistök við endurreisn bankanna, gerð í tíð síðustu ríkisstjórnar, haldið áfram í tíð þessarar. Í miðjum rústunum eftir hrunið voru stjórnmálamenn svo fullir lotningar gagnvart skilunum gagnvart viðskiptalífinu að hver af nýju bönkunum átti að stjórna sér sjálfum á einhverskonar viðskiptaforsendum. Að vísu voru engir hluthafar að taka tillit til, engar hefðir sem hægt væri að styðjast við, engin sérstaða hvers banka í starfsháttum, atvinnugreinum eða viðskiptamönnum – nema það sem hver banki fékk í arf eftir nafna sinn hinn eldri.

Það voru kosin bankaráð – skipuð fulltrúum frá flokkunum, en þau áttu að leika glöð og frjáls án áhrifa frá nokkrum aðila og herma eftir raunverulegu samkeppnisástandi – með aðstoð bankastjóra sem flestir voru ráðnir úr gamla bankanum.

Einhverskonar verklagsreglur um skuldameðferð voru að lokum settar en sínar fyrir hvern banka, og alveg óljóst hvernig þær virka innan hvers banka eða hver munur er á þeim í raun milli bankanna. Lítið heyrist af störfum svokallaðra umboðsmanna, sem reyndar starfa á vegum bankastjórnarinnar!  – eftirlit er óljóst og gagnsæi fer aðeins eftir því hvort einhver fjölmiðillinn er nógu duglegur og áræðinn að grafa upp mál þau mál sem hin frjálsu bankaráð véla um ásamt hinum frjálsu bankastjórum.

Síðasta undarlega mál sem í hámæli komst var þegar Kaupþing bjóst til að fella niður milljarðaskuld Björgólfsfeðga vegna lánsins sem þeir tóku þar til að kaupa Landsbankann. Bankastjórn og -ráð hættu við í bili eftir almenna uppreisn, en ekkert gerðist annað í starfsháttum bankans eða mannaskipan í valdastöðum. (Minnir það hafi orðið breytingar í bankaráðinu vegna breyttra valdahlutfalla flokkanna, nýr formaður bæjarstjórinn Helga Jónsdóttir sem, þar mun sitja á einhvern hátt á vegum Samfylkingarinnar – við sem erum í þeim flokki sjáum hinsvegar aldrei framan í þennan mikla valdamann.)

Nú er í fréttum endurreisn Haga í sama banka og hermt að það eigi að fella niður milljarða af fyrri eigendum – og undanfarið höfum við fylgst með svipuðum tíðindum af öðru máli miklu minna en ámóta í laginu, þar sem Landsbankinn hjálpar Bjössa í World Class að losna útúr milljarða-dellumakeríi í Danmörku.

Ég skal ekkert um þessi tvö mál segja sérstaklega. Til þess þekki ég þau ekki nógu vel og get einkum ekki borið þau saman við önnur ámóta, en fréttaflutningi Morgunblaðsins er því miður ekki að treysta vegna þess að þar blandað saman fréttum og pólitík, og gert upp á milli manna og fyrirtækja. Það er örugglega skynsamlegt að reyna að bjarga lífvænlegum fyrirtækjum. En það verður að gera með samræmdum reglum í öllum bönkunum og eins gagnsærri meðferð og nokkur völ er á. Og þegar eigendurnir heita Björgólfur og Jón Ásgeir verður almenningur, eigendur bankanna, að geta verið viss um að allt sé borgað sem hægt er. Spurningin á forsíðu Moggans um traust er ekki ástæðulaus.

Fyrst og fremst verður að vera á hreinu að bankarnir gæti jafnræðis milli skuldaranna og fyrirtækjanna. Og hvar eru, vel á minnst, frá Kaupþingi þær „reglur um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga sem kunna að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana fyrir skuldara“ og eiga að vera  „aðgengilegar fyrir lántaka og aðra viðskiptavini þeirra“ – samkvæmt lögunum sem alþingi samþykkti 23. október síðastliðinn?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • > „Hagamálið sýnir mistök við endurreisn bankanna, gerð í tíð síðustu ríkisstjórnar, haldið áfram í tíð þessarar“

    > „Ég skal ekkert um þessi tvö mál segja sérstaklega. Til þess þekki ég þau ekki nógu vel “

    Mörður, ekki falla í þessa gryfju. Kynntu þér þessi tvö mál fyrst og segðu okkur svo skoðun þína.

    Það er alltof mikið af háværum skoðunum í gangi frá fólk sem ekki þekkir málin nógu vel.

    > „Síðasta undarlega mál sem í hámæli komst var þegar Kaupþing bjóst til að fella niður milljarðaskuld Björgólfsfeðga“

    Björgólfsfeðgar sendu Kaupþing tilboð. Bankinn tók við því. Það var allt sem bankinn gerði af sér í því tilviki. Hvað áttu þeir að gera, neita að taka við bréfinu vegna þess að það kom frá Björgólfsfeðgum?

  • Sendi tölvupóst á fulltrúa VG í þessum ráðum og bauð þeim á fund með grasrót flokksins þar sem þau gætu útskýrt hlutverk sitt og hvernig lýðræðislegu eftirliti með ríkisbönkunum færi fram. Þau höfnuðu öll á þeim forsendum að slíkt samræmdist ekki starfi þeirra.

  • Á þessari slóð má finna þennan smekklega bækling:
    http://www.kaupthing.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=16801

  • Mörður Árnason

    frá janúar 2009 …

  • Bíddu – ert þú þingmaður í flokki sem er í ríkisstjórn Íslands?

    Það er ekki furða að þessi ríkisstjórn sé máttlaus, svikul og aum. Sennileg aeru applir meðlimir hennar jafn utangátta og „undrandi“ og þu.

  • á auðvitað að vera: …. sennilega eru ALLIR meðlimir hennar

  • Góð umfjöllun.

    Bankarnir eru gjörsamlega ruglaðir varðandi úrlausn skuldamála.

    Bankaráðin hafa ekkert um venjuleg mál að segja og svo er þá eru staðreyndir settar þannig fram að þau geta bara fallist á tillögur starfsmanna og ekkert annað.

  • Hvað er „jafnræði“ – „réttlæti“ – „gegnsæi“ – „sanngirni?“ Eigum að ræða það eitthvað?

  • Jóhannes Laxdal

    Það er verst að Össur skuli vera hættur að blogga á nóttunni………

  • Margrét: Það eru greinilega margir undrandi og utangátta. Mörður er ekki þingmaður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur