Sunnudagur 15.11.2009 - 19:56 - 11 ummæli

Af hverju fagnar ekki Ragnar?

Ragnar Arnalds er hættur að vera formaður Heimssýnar, félags Evrópusambandsandstæðinga, og við tekur yngri maður úr sama stjórnmálaflokki, Ásmundur Einar Daðason. Ásmundur hefur vissulega kraftinn – en vantar þó mikla reynslu Ragnars, sem á sínum annars ágæta stjórnnmálaferli hefur afrekað að vera á móti nokkurnveginn öllu starfi Íslendinga í alþjóðasamtökum með skammstöfun.

Ragnar, Ásmundur Einar, Styrmir, Sigurður Kári og aðrir Heimssýnarfélagar samþykktu á aðalfundinum í dag ályktun um að íslensk stjórnvöld ættu að hætta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Alþingi hlýtur þá að eiga að draga til baka stuðning sinn við umsóknina frá 16. júlí í sumar, og nú bíðum við spennt eftir þeirri þingsályktunartillögu frá hinum nýja Heimssýnarformanni.

Í Sjónvarpsfréttum voru rök fráfarandi formanns að viðræðurnar væru svo dýrar, og svo væri meirihluti í skoðanakönnunum á móti aðild – en gleymdi því að í sömu könnunum kemur líka í ljós annar meirihluti sem styður aðildarviðræður!

Þetta er skrýtin stefna hjá Heimssýn. Maður skyldi þvert á móti halda að ESB-andstæðingar fögnuðu viðræðunum, því að út úr þeim kemur loksins samningur, og samkvæmt kenningum Ragnars og Styrmis, Ásmundar Einars og Sigurðar Kára getur sá samningur ekki annað en verið ákaflega vondur. Og þá munu frjálsræðishetjurnar góðu í Heimssýn hrífa með sér alla þjóðina gegn Evrópusambandsaðildarsamningnum með glæsilegum sigri í þjóðaratkvæðagreiðslu, og síðan una allir glaðir við sitt.

Eða hvað? Vilja þeir ekki samning sem sýnir svart á hvítu kostina og gallana við Evrópusambandsaðild? Er betra að fiska í gruggugu vatni?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Gagarýnir

    Litróf íslenskra stjórnmála var eins og regnboginn. Rauðir voru kommarnir en bláir íhaldið. Á milli var svo græni litur framsóknar. En það var viss eining milli þess rauða og bláa sem fer þvert á þessa einföldun.

  • Ragnar taldi á sínum tíma eða upp úr 1980 að réttlætismál væri að allir vegir landsins væru byggðir upp úr snjó áður en þeir væru lagðir bundnu slitlagi.

    Hann vildi af þeim sökum heppilegt að setja upp vegtollskýli á vegi með bundnu slitlagi að fyrirmynd Reykjanesbrautarskýlisins.

    Sem betur fór voru þau ráð hans höfð að engu.

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Já Mörður, undanfarin ár hafa skoðanakannanir bent til þess að meirihluti væri fyrir því sem kallað hefur verið „aðildarviðræður“ (aðallega kannanir Capacent) á sama tíma og meirihluti hefur yfirleitt mælst á móti „umsókn um aðild“. Hvað var það sem Alþingi samþykkti í sumar? Jú einmitt, umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

    En hvað getur skýrt þennan mun á því hvort spurt er um „aðildarviðræður“ eða „umsókn um aðild“? Það eina sem getur það er að fólk vilji einhvers konar óformlegar“könnunarviðræður“ sem þið Evrópusambandssinnar töluðuð mikið um hér um árið til þess að kanna hvað væri í boði eins og það var orðað. Hins vegar vill fólk ekki formlega umsókn.

    Nýjasta skoðanakönnunin sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Bifröst gerði fyrir Stöð og tvö sýndi vissulega að meirihluti vildi aðildarviðræður en síðasta könnunin þar á undan, gerð af Capacent, sýndi að meirihluti væri ósáttur við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er í samræmi við þann mun sem ég kom inn á hér á undan.

    En talandi um meirihluta fyrir aðildarviðræðum. Í könnun Rannsóknarmiðstöðvarinnar mædust um 50% hlynnt þeim en 43% andvíg. Síðast þegar spurt var um aðildarviðræður sl. sumar voru 51% hlynnt aðildarviðræðum en 36% þeim andvíg. Þar áður var staðan 61% hlynnt en 27% á móti.

    Samfylkingin réttlætti ekki sízt þetta Evrópusambandsbrölt sitt með vísan í það að meirihlutinn vildi „aðildarviðræður“ en jafnvel á þeim vígstöðvum, hálmstrái ykkar Evrópusambandssinna, fjarar hratt undir ykkur.

    Þannig að við sjálfstæðissinnar höfum fjölmargar ástæður til þess að fagna. Örvæntingar gætir hins vegar í vaxandi mæli í röðum þinna manna hvort sem þeir heita Jón Baldvin Hannibalsson, Eiríkur Bergmann Einarsson eða Andrés Pétursson.

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Það má síðan bæta því við að þegar er vitað í langflestum tilfellum hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér eins og t.d. Olli Rehn, ráðherra sambandsins í stækkunarmálum, hefur bent á. En það þarf að kynna sér málið og því nenna ekki allir. Það þarf engar „aðildarviðræður“ til þess.

    Þannig hafa fjölmargir Evrópusambandssinnar tekið afgerandi afstöðu til málsins og vilja í Evrópusambandið hvað sem tautar og raular. Væntanlega vegna þess að þeir hafa kynnt sér málið og í framhaldinu tekið þá afstöðu. Á sama tíma halda þeir því fram að ekkert sé hægt að vita um þessi mál nema fyrir liggi aðildarsamningur við sambandið!

    Þetta er vægast sagt skrítinn málflutningur hjá ykkur Evrópusambandssinnum. Hvort er það?

  • Ómar Kristjánsson

    Það er ekkert nema gott um aðild að sambandi fullvalda lýðræðisríkja Evrópu að segja. Hið besta mál náttúrulega. Þarf að huga að nokkrum málaflokkum, ss. landb., dreifb. og gjaldmiðlamálum. Sjávarútvegurinn er minnsta málið. Alls ekki að fá undanþágu eða sérlausn þar. Alls ekki. Smellpassar svoleiðis fyrir ísland.

    Hins vegar vilja andsinnar ekki að aðildarviðræður og samning. Why ? Jú, einfaldlega vegna þess að þeir eru búnir að bulla svo mikið um málefnið undanfarin ár og áratugi – bara eitthvert bull útí loftið. Engin þekking eða vit. Ekki til. Og með viðræðum og samningi mun allt bullið koma í hausinn á þeim eins og búmerang. Það eru þeir auðvitað hræddir við – og er það alveg skiljanlegt.

    Andsinnar vilja helst bulla í helli sínum.

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Ómar, það mun einmitt koma í ljós þegar þetta ferli er á enda, ef það fer svo langt, að þeir sem bullað hafa eru fyrst og síðast í hópi ykkar Evrópusambandssinna. En málið snýst ekki um það heldur það að þetta ferli er eins og að greiða fyrir gríðarlega dýra kynningu á máli sem þegar er vitað nánast allt um og miklu meira en nóg til þess að taka afstöðu til þess. M.ö.o. alger tíma- og peningasóun svo ekki sé talað um skynsemina í þessu. Enda kemur ekki á óvart að sífellt fleiri snúi baki við ykkar málflutningi samkvæmt skoðanakönnunum.

  • Hvernig væri að þú leyfðir komment á þinni vefsíðu, Hjörtur, í stað þess að pestera annarra manna kommentakerfi?

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    H: Því er til að svara að ég lokaði á athugasemdir á mínu bloggi vegna of mikils ómálefnalegra skrifa þar. Mér þótti það ekki ljúft enda hef ég gaman af því fá viðbrögð við mínum skrifum. Áður hafði athuagsemdakerfið verið opið í tvö ár.

    En ertu s.s. að segja að það sé forsenda þess að skrifa athugasemdir hjá öðrum að bjóða upp á slíkt sjálfur? Er það ekki einfaldlega val hvers og eins hvernig hann hefur sína bloggsíðu? Hvað ef ég t.d. héldi ekki úti bloggsíðu??

    Þetta er auðvitað úti í hött og ég hallast að því að ástæðan fyrir þessu innskoti þínu sé einfaldlega sú að þú treystir þér ekki til þess að ræða það sem ég hef skrifað hérna og viljir því ekki að ég sé að skrifa það.

  • Helgi Helgason

    Ég hjó eftir því í Silfri Egils þegar Þór Saari var að tjá sig um þessi mál þá beittu þeir Mörður og séra eitthvað…hvað sá góði maður nú annars heitir…þessari venjulegu skoðanakúgun Samspillingarinnar. Þeir gripu í það að saka andstæðinga ESB um rasisma!! Útlendingahatara! Er hægt að leggjast lægra? Ég hef aldrei kallað ESB sinna föðurlandssvikara og leiðist að þeir sem eru sömu skoðunar og ég gera það. En svona skoðanakúgun virðist vera orðin almenn hjá Samspillingunni. Við hin erum Bjartur í Sumarhúsum, viljum búa í moldarkofum, erum einangrunarsinnar og nú síðast rasistar. Verði Samspillingunni og Merði að góðu ef þetta er þeirra málflutningur.

  • Sorrý Helgi, en þanna er það bara: Þið hin eruð Bjartur í Sumarhúsum, viljið búa í moldarkofum, eruð einangrunarsinnar og (sumr hverjir) rasistar. Eða alið alltént á úlendingahatri. Sb. bullið um vondu kúgarann sem heimta að við borgum skuldir óreiðumannanna sem við skrifuðum upp á ábyrgð fyrir.

    Sem væri svo sem allt í fína, asnar eiga líka fullan tilverurétt. En verst ef ykkur tekst að koma í veg fyrir að Ísland fái að vera þáttakandi í samfélagi Evrópuþjóða, sitji uppi með ónýtustu mynt í heimi, og íslendingar verði áfram sérstök rúninghjörð íslenskarar yfirstéttar, sem er hefur sýnt sig af því að vera ekki aðeins illgjörn, heldur óhæf lika.

  • Helgi Helgason

    Je,je,je, svona bulli nennir maður nú ekki að svara.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur