Þriðjudagur 17.11.2009 - 09:49 - 38 ummæli

Refaveiðar eru rugl

Í eymdinni og volæðinu sem þessa daga ríkir um allt samfélagið áður en niðurstaða fæst um skatta og fjárveitingar má þó hafa nokkra skemmtun af því hversu hetjulega vörn hinir fjölmörgu fulltrúar og forystumenn veita bæði niðurskurði og skattaálögum. Við vorum að tala um það í ræktinni í fyrradag að núna væru á nokkrum vikum komnir fram í sjónvarpsfréttatímum málsvarar nokkurnveginn allra hagsmunahópa á Íslandi, og vantaði bara einhvern til að tala fyrir munn skattpíndra og þjónustulausra meðaltekjukarla á miðjum aldri.

Næstsíðast var það fulltrúi ferðaþjónustunnar sem var búinn að reikna það út afar trúlega að samfélagið færi á hausinn við að innheimta nokkrar krónur af ferðamönnum til landsins – sá sami sagði ekkert þarsíðast þegar álfyrirtækin og ASÍ börðust fyrir hærra tryggingagjaldi á mannfrekar atvinnugreinar.

Og í dag kemur svo talsmaður refaskyttna, sem bregst að sjálfsögðu ókvæða við hugmyndum í umhverfisráðuneytinu um að hætta að niðurgreiða refaveiðar. Og þetta getur maður vel skilið – það er ónotalegt að fá ekki lengur ríkisstyrk við að vera karl í krapinu og liggja á grenjum til að verja búfénað og mannlíf um hinar breiðu byggðir.

Og samt er staðreyndin sú og hefur verið í allmarga áratugi að refaveiðar eru víðast um landið hreint rugl, eiginlega alstaðar nema kringum helstu fuglabyggðir.

Refurinn er ekki drepinn til að útrýma honum, enda ekki um það nein eining – margir líta svo á að hann sé órjúfanlegur hluti af íslenskri náttúru, og að minnsta kosti elsta spendýrið á landi. Með gjörbreyttum sauðfjárbúskap eru nánast tíðindi að refurinn leggist á fé – því er ekki hleypt lengur á fjöll fyrr en nokkuð er liðið á vor, og er miklu hraustara nú en horgripirnir sem voru settir á guð og gæfuna fyrr á öldum.

Skipulag á refaveiðum bendir heldur ekki til þess að verið sé að verja fuglalíf, sem skiptir okkur vissulega miklu máli – vegna þess að skipulag á refaveiðum er ekki neitt. Það er heldur engin sérstök tenging milli refaveiðanna og svo minkahernaðarins, sem reyndar er næstum jafnmikið rugl og refaskyttiríið, en þó með aðeins öðrum hætti.

Sannleikann þekkja allir sem koma nálægt þessum veiðum – stjórnmálamenn á þingi og í sveitarstjórnum, embættismenn, bændur og skyttur: Þetta er atvinnustyrkur til einstakra byggða, sem hagsmunagæslumenn rífast um á hverju ári. Alveg gagnslaust tiltæki – nema auðvitað til að halda við hetjuskap í sveitum og styrkja þjóðlega ævintýramennsku í baráttunni við melrakkann og rífinn, skolla og blóðdrekk, holtaþór, lágfótu, djankann og dratthalann.

Núorðið er þetta kannski meira svona þjóðleg fræði – og varla ástæða til að setja skattpeningana okkar í þessar fjallaferðir. Eiginlega ætti þetta að vera öfugt, að hinir þjóðlegu skotveiðimenn borgi í sameiginlegan sjóð fyrir veiðileyfi á ref, svipað og er um aðra veiði, og þá ekki nema þar sem það er óhætt með tilliti til þokkalegrar refaverndar og varðveislu náttúrufegurðar sem af skepnunni hlýst.

Gömu góðu grenjaskytturnar ætti svo að gera að leiðsögumönnum ferðamanna um helstu refaslóðir.

Gagg, gagg!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (38)

  • Blýantsnagari

    Já, sammála þessu. Þvílíkt andskotans rugl að kreista okkur um skatta sem eigum fullt í fangi við að hafa fyrir mat handa krökkunum okkar til að greiða einhverjum byssuóðum bjánum kaup fyrir að skjóta og drepa allt sem hreyfist í kringum þá. Þetta er heldur ekki það eina, sem við erum látin greiða fyrir að pakkið úti á landi geta krunkað þar áfram án þess að vinna handtak og lifað á bótum, sem við skattgreiðendur þurfum að standa undir. Sveiattan

  • Páll Ásgeir

    Harla gott.

  • Ég er sammála því að það þurfi ekki að greiða mönnum fyrir að veiða refinn. Menn eiga að hafa áhuga á því 🙂

    Hins vegar þurfa þingmenn að fara að taka til í bakgarði sínum ekki bara annarra. Það er rugl hvað þeir vilja skera niður alls staðar nema þar sem það kemur niður á þeim sjálfum.

  • Rétt hjá þér félagi Mörður að refurinn á það ekki skilið að veiðar á honum komist á fjárlög. Það er einnig mjög merkilegt, eins og þú hefur bent á, hvernig atvinnurekendur og svokölluð verkalýðsforysta hefur hlaupið upp til handa og fóta þegar framkvæma á einstök atriði stjórnarsáttmálans sem eiga að stuðla að jafnrétti/jafnræði þegnanna og eðlilegu afgjaldi af auðlindum landsins. En hækkun á tryggingagjaldi gæti tam kostað sveitarfélögin töluverðar fjárhæðir – fjárhæðir sem betur væri varið til ýmissa velferðarmála. En það má ekki því útgerðin vill ekki auðlindagjald. Er þetta ekki makalaust?

  • Jakob Bjarnar

    Sæll Mörður og takk fyrir góðan pistil!

    Já, þarna er nú vandinn í hnotskurn. Við niðurskurð gerist það að hagsmunasamtök og lobbíistar fara að hnakkrífast. Þar hefst sú umræða og endar oftast – nema kannski þegar einhverjir skrítnir einfarar sem fáir þekkja á borð við refaskyttur eru annars vegar.

    Ekki misskilja mig. Auðvitað má og á að skera í ríkisrekstrinum. En það er einkennilega lýsandi að „góða fólkið“ vaði fyrst í það erfiða verk að skera niður refaskyttur. Ég ræddi nýlega við stjórnarliða sem sagði að það hefði ekkert uppá sig að skera niður hjákátleg fyrirbæri á borð við Jafnréttisstofu (bara svo dæmi sé tekið) – því þá færi það fólk hvort eð er bara á atvinnuleysisbætur. Ríkið hefur sem sagt ótrúlega stóran hóp fólks á launum við fánýt störf en græðir samt því fólkið greiðir skatta af tekjum sínum!? Það kemur ekki til álita að breyta þessu rugli. Allt er persónugert – það er ekki hægt að skera þar af því hún Guðrún frænka er að vinna þarna og hún er nú svo ágæt – segir „góða“ fólkið sem nú er við völd. Fer þess í stað í þetta erfiða verk – sem þó er þægilegra – refaskytturnar eru stétt manna sem stjórnarliðar þekkja ekki persónulega.

    Til að forðast að taka á málum fer öll orkan í að lappa uppá ruglið. „Sækjum milljarð hingað og sækjum hann þangað í gegnum skattkerfið,“ segja þeir sem nú er við völd en átta sig ekki á því að það er brúttótala en ekki nettó. Oft er augljóst að með aðgerðunum fást færri krónur í kassann en fleiri. Og hið svarta hagkerfi bólgnar út – það má orðið skilja þetta lýti á þjóðarsálinni sem er viðhorf gagnvart því að greiða ekki skatta ef hjá því verður komist. Því þetta fer meira og minna í ranglátt kjaftæði. Því þeir sem hafa starfað utan hins opinbera geira og eru nú atvinnulausir, og hafa reyndar borðið þetta allt uppi, njóta ekki samúðar á borð við þá sem hún Gunna á Jafnréttisstofu nýtur meðal þeirra sem stjórna.

    Til að halda Gunnu á floti voru refirnir skornir og nú refaskytturnar. Sem mér finnst einhvern veginn bakka upp þá tilfinningu mína að hugmyndir vinstri manna um siðbót snúist fyrst og síðast um að nú sé komið að þeim.

    Ég vil að endingu benda á þennan pistil sem Gunnar Smári skrifaði á SÁÁ vefinn – sem þessu tengist. http://saa.is/islenski-vefurinn/felagsstarf/pistlar/nr/93544/

    Kveðja,
    Jakob

  • Gunnar G.

    Já verndum refina… niður með heimilin..

  • Sammála Jakobi að mörgu leyti. Hvað er þessi niðurskurður hár ? Er hann hærri en símreikningurinn á Bessastöðum ? Er hann hærri en einn ráðherrabíll ?

  • Refaveiðar snúast meðal annars um að vernda varplönd fugla, t.d. gæsavarp svo dæmis sé tekið. Offjölgun refs leggst því miður á lífríkið. Sama á við minkinn.

  • Jakob Bjarnar

    Sverrir! Það er ekkert að því að þeir sem sjá sér hag í því að gæsastofninn sé sterkur, eins og t.d. gæsaskyttur, taki þá að einhverju leyti að sér að halda refastofni í skefjum. Sama má segja um æðarvarpsmenn. Það þarf ekki alltaf eitthvað bólgið ríkisbatterí, með tilheyrandi kostnaði, til að halda utan um málin. Hárrétt er sem Mörður bendir á að fátítt er að refir leggist á lömb og sauðfjárbændur, sem náttúrlega hafa alltaf verið á framfæri hins opinbera, því ekki undir í þessu máli.
    En þetta er öfugsnúið – því það má allt eins búast við því að firrtar „kerlingar“ sem nú eru við völd og hreiðra oftar en ekki um sig í umhverfisráðuneytinu – taki uppá því í kjölfar þessa (eftir að refurinn er búinn að róta í rólegheitum í varpinu), svona til að sýna fram á dugnað sinn, að setja á veiðibann til að vernda fallegu gæsirnar! Þegar þeim sem eitthvað vita í sinn haus er það fullljóst að veiðar hafa sáralítil ef einhver áhrif á viðkomu varpstofna. Þar er einmitt refur og minkur miklum mun margfalt skæðari – auk þess náttúrlega sem tíðarfar skiptir sköpum.

  • Barlómur

    Þetta sínir nú bara best hvað þessi ríkisstjórn er duglaus. Ekki enn búið að útríma tófunni og búið að lofa allt öðru árum saman. Hvað eru Steingrímur og Jóhanna að hugsa? Segja eitt og gera svo ekkert og nú á að skera allt niður. Hver ber ábirðina? Kemur kannske í ljós að það er þessi AGS sem heimtar að refurinn verði fryðaður og fær að drepa allt hér í landinu?

  • Ég styð það að friða refinn. Hann var hér löngu á undan okkur og við eigum að láta hann í friði einsog stöku ísbirni sem hingað villast eða forystufé sem ver sjálfstæði sitt í fjallgörðum.

    Það er eitthvað undarlegt drápseðli í þessari þjóð. Leggst á lítinn varnarlausan fugl einsog rjúpu á hverju hausti og murkar úr henni lífið af stuttu færi. Af því það er svo gaman! Af því að það er svo mikil útivist! Eða fjöldamorð á lundum sem nú eru að leggjast af sem betur fer.

    Hvað minkinn snertir þá er hann aðskotadýr í náttúrunni sem aldrei hefði átt að flytja inn. Ríkið á ekki að leggja fé til veiðanna heldur loðdýrabændur.

  • Einar Guðmundsson

    Var þetta ekki kennt í skólum forðum daga:

    Refurinn gerir sér greni í urð,
    gengur út til veiða.
    Oft er bágt og bjargarþurrð,
    í búi fram til heiða.

  • Hef enga skoðun á refaveiðum og er sammála um áframhaldandi minkaveiðar. En segið mér eitt, er mörðurinn friðaður?

  • Mörður.Þetta er algjört rugl hjá þér.Refastofnin má ekki stækka meira þá nagar hann niður fuglastofna eins og sést best á Hornströndum.Refaveiðar hafa verið stundaðar síðan land byggðist og enginn veit hvað þær veiðar hafa breitt náttúrunni og engin veit hvernig fuglalíf var fyrir landnám þó vísbendingar séu um það þegar skoðað er fuglalíf á Ströndum.Nær væri að minka það fé sem hefur verið sett á jötuna hjá líffræðingastóðinu í sambandi við refarannsóknir því þar hefur allt verið rannsakað annarstaðar á norðuhveli og þarf engu að bæta við

  • Miðbæjarbúi

    Áhugavert var að heyra erindi líffræðings í útvarpinu í vor sem hélt því fram að eitt af því sem heldur vexti í refastofnum er sú staðreynd að refaskyttur bera út hræ af stórgripum sem þeir sitja síðan um. Þegar rebbi kemur svo til að fá sér bita er hann skotinn.

    Gallinn er bara sá að stórgripahræ heldur lífinu í fleiri refum en eru skotnir og í sumum tilfellum heldur það lífinu í dýrum sem annars hefðu drepist um veturinn.

    Refaskyttur geta keypt sitt veiðikort og greitt fyrir sín veiðileyfi og bændur geta varið sína hagsmuni og heimalönd sjálfir.

  • Mörður Árnason

    Alli — minkurinn er að vísu af marðarætt — en Mörðurinn er samt alfriðaður á Íslandi, öll fjögur eintökin! (Árnason, Ingólfsson, Finnbogason, Gunnarsson) 😉

  • Kristjan Sveinsson

    Vel er ritad Moerdur.

  • Telemakkos

    Einhvern tímann heyrði ég ótrúlegar tölur um fjölda hrafna sem skotnir eru árlega.

    Það er auðvitað jafn tilgangslaust að drepa hrafninn eins og refinn. Krummi geldur líklega gamalla sagna og þjóðkvæða um hann nagi augun úr fé og kjamsi í sig „krás á köldu svelli“.

    Það er heldur aldrei talað um að hjálpa krumma yfir harðindakafla, bara blessuðum smáfuglunum. Samt launar hrafninn fyrir sig, samkvæmt þjóðtrúnni. 🙂

  • Ómar Harðarson

    heyr heyr

  • Æi, er ekki hægt að láta allt sem ríkið gerir hljóma eins og það sé mesta fásinna. Eru atvinnuleysisbætur ekki bara fyrir aumingja með hor sem geta ekki drullast úr sófanum og fundið uppá einhverju til að gera?
    Það finnst mér ekki en þannig mætti útmála það.

    Refurinn er rándýr sem þarf að halda í skefjum til verndar fuglalífi. Vegna blöndunar eldisrefs við villta refinn gjóta refir nú fleiri ungum en áður, mögulega komast líka fleiri á legg vegna hlýnandi veðurfars. Við sjáum það ákaflega glöggt á hornströndum hvað gerist þegar refir eru friðaðir, fluglalíf hverfur, nema þá helst þeir fuglar sem finna skjól í ókleifum björgum.

    Það er einnig mikill miskilningur að menn séu að koma útúr þessu í plús, þeim er sífellt að fækka sem geta stundað refaveiðar því þeir hafa ekki efni á þessu, ríkisstyrkurinn fyrir hvert fellt dýr er ekki nema hluti af þeim kostnaði sem skyttan leggur út.

    Hvað varðar athugasemdina hér að ofan um drápseðli þessarar þjóðar sem lýsir sér í því að drepa litlar sætar rjúpur, þá finnst mér það sennilega lýsa sér enn betur í þeirri grimmd að ala fiðurfé upp í búrum á stærð við skókassa, á morgum hæðum svo þau neðstu séu útskitin eftir þau efstu. Rjúpnaveiðar eru miklu mannúðlegri heldur en þessar viðbjóðslegu útrýmingabúðir, ég hef bæði stundað rjúpnaveiðar og unnið á kjúklingabúi, veiðarnar eru miklu mannúðlegri og siðaðri.

  • Þetta er það dapurlegasta blogg sem ég hef lesið um dagana.
    Það er svo dapurlegt að lesa skrif um málefni sem menn vita ekkert um hvað þeir eru að tala.
    Mörður þetta var álíka málefnalegt hjá þér og hjá þeim sem svaraði einni umræður á hlad.is á eftirfarandi hátt “ haltu kjafti“

    Svo skýturu þig endanlega í fótinn þegar þú segir að skipulag refaveiða sé ekki neitt. Það er alrangt hjá þér.

    En skora á þig að kynna yður málið.

    kv, Sveinn

  • Sigursteinn Másson

    Það er undarlegt að fjalla um elsta villta spendýr landsins sem varg. Mönnum þykir refurinn réttdræpur og nefna í því sambandi einstök dæmi um ref sem lagst hefur á sauðfé. Það er eins og fram hefur komið afar fátítt. Hins vegar er miklu mun algengara að sauðfé drepist af völdum vélknúinna ökutækja á vegum landsins og ekki heyrast háværar kröfur um að halda umferð á vegum í skefjum eða að fækka bílum.

    Hvernig getur mannsskepnan, sem klárlega hefur valdið hér meira jarðraski en nokkurt annað spendýr, sett sig á háan hest gagnvart refnum og stimplað hann sem meindýr? Fullyrðingar um að refurinn eyði fuglalífi eiga ekki við rök að styðjast einfaldlega vegna þess að hvorir tveggja refir og fuglar lifðu hér góðu lífi í árþúsundir áður en mannskepnur létu sjá sig.

  • Birgir Stefáns

    Mörður
    Mikið varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar ég las þennan pistil þinn. Eg hef, mér til undrunar , oft verið sammála þér um hin ýmsu mál. En nú afhjúpar þú algerlega malbiksmengaðan skilning þinn á villtri náttúru. Það þarf ekkert að deila um áhrif friðunar refsins norður á Ströndum, þau sér hver sá sem vill sjá. Hvort hann skilur samhengið er svo annað mál.
    Að náttúran finni sitt jafnvægi eru rök sumra fyrir friðun. Hvernig gerist það. Refastofninn hættir að vaxa þegar skortir æti. Er ásættanlegt að fórna öllum mófugli fyrir refinn ?
    Eg veit að á svæðum þar sem grenjavinnsla hefur legið niðri um tíma, hefur mófugl svo til horfið. En eftir að veiðar hefjast að nýju, fjölgar mófugli, svo sjá má greinilegan mun frá ári til árs.
    Það er gott og blessað að vera náttúruverndarsinni og unnandi, en fólk verður að skoða heildarmyndina.
    Það fáránlegasta við þessar „sparnaðartilögur“ er að ríkir fær meira til sín með vaskinum af skottunum en sem nemur styrknum vegna þessara sömu skotta.

  • Það er furðulegt að lesa eftir Mörð !!Refurinn er eins og útrásarvíkingur eirir engu og skylur eftir sviðna jörð.Kanski er Möruður á því að svona eigi menn og refir að vera og það eigi að ríkja lögmálið að sá sterkasti á að lifa og þeir sem minna meiga sín svo sem spóar lóur musarindill og stelkur ,einstæðingar gamalmenni þroskaheftir og örirkjar séu bara kvöldverður fyrir útrásarvíkinga og refi

  • Næst mun Mörður verja frænda sinn, minkinn.

  • EiríkurJ

    „Það er heldur engin sérstök tenging milli refaveiðanna og svo minkahernaðarins, sem reyndar er næstum jafnmikið rugl og refaskyttiríið, en þó með aðeins öðrum hætti.“
    Ekki líst mér vel á tóninn í þessu, ef næsta skref er svo að hætta minkaveiðum ættu friðunarsinnar að fá lýsingu á þeirri breytingu sem varð á fuglalífi við Mývatn þegar minkurinn hélt innreið sína þar – og hvað síðan hefur verið gert þar í baráttunni við minkinn. Held að sá hernaður geti ekki talist „rugl“

  • Óskar Þór

    Ég er sammála Birgi Stefáns og Jóni, Hvernig er ástandið á Hornströndum, fullt af tófu og ekkert fuglalíf er það það sem þið 101 fólkið viljið. Það er svo mikið af tófu í Borgarfirði að ein tófuskitta hefur skotið 14 tófur á einni nóttu við sama ætið, það má ekki skemma áratugastarf tófuskitta.

  • Mörður, refur, minkur. Eiga það sameiginlegt að lifa á öðrum. Held að menn ættu ekki að vera tjá sig mikið um það sem þeir halda að þeir hafi vit á og slá þannig ryki í augu þeirra sem ekki þekkja til. En Mörðurinn er nú bara nokkuð góður í því (ásamt féögum sínum).

  • Valur Indriði Örnólfsson

    Sorgleg umræða það má alveg deila um það hvort refaskyttur eigi að taka á sig launaskerðingu en klárlega á að skera niður í matar og koktelboðum á vegum ríkisins fyrst. Er búið að negla bankamennina sem voru að láta ríkisbankann kaupa laxveiðileyfi fyrir sig?
    Eða er þeim bara klappað á bakið ætli það verði laxveiði ferðir fyrir ráðamenn næstasumar á vegum bankana?
    þetta var þaggað furðu fljótt niður í fjölmiðlum.

  • Ég er eiginlega bara hlutlaus um þessar refaveiðar, en vil benda á að forstöðumaður refasetursins fyrir vestan talar um að mest sé skotið af yrðlingum og eftir sé að rannsaka hvor það séu ekki næg afföll af þeim frá náttúrunnar hendi yfir veturinn. Mér finnst líka fáránlegt af ferðaþjónustunni að gagnrýna skatta eða gjöld sem innheimta á af ferðamönnum vegna umferðar um landið. Slík gjöld hljóta að vera til marks um það að við viljum að gengið sé velum að féð sé líka notað til að bæta aðgengi. Orkuskattar eru af sama meiði, við viljum hvetja til notkunnar á grænni orku og það er best gert með því að skattleggja þó orku sem mengar og starfsem sem mengar sömuleiðis. Allt er vænt sem vel er grænt (nema Framsókn) Hún minnir á gamla safnþró sem þarf að moka úr.

  • Heiðar Egils.

    „Skipulag á refaveiðum bendir heldur ekki til þess að verið sé að verja fuglalíf“

    Ég er búinn að ganga á Hornstrandir á hverju ári undanfarin 6 ár og það er sorglegt að verða vitni að því að allar víkur eru algerlega tómar af mófugli. Aðalvík, Hæluvík, Hornvík, Fljótavík, Bolungarvík, Reykjafjörður, þar er ekki einn einasta mófugl að sjá, allt steindautt, en alltaf er maður að rekast á tófu. Ég gekk eitt sinn fram á svæði, á stærð við einn eða tvo fótboltavelli, sem leit út eins og orusstuvöllur eftir að einhver læðan og steggurinn voru búinn að bera sjófugl úr björgunum í ungana til að æfa sig á, hafa ekki fundið neinn mófuglinn, enda búinn að drepa hann allan.

  • Þetta er undaleg þetta rándýrahatur frá mesta og lang versta rándýrinu, manninum. Og hvernig gengur það upp að refurinn eyði öllu fuglalífi en fjölgi samt ! Étur hann þá grjót eða hvað eftir að hafa útrýmt öllu lífi eins og margir veruleikafirrtir rándýrahatarar halda fram ? Og öfugsnúið þegar dráparar og landeyðingasinnar þykjast vilja vernda mófugla, margir þeir sömu sem styðja stórvirkjanir sem eyða búsvæðum mófugla sem leiðir til fækkurar þeirra og vilja drepa rjúpuna. Gaman væri að vita hvað mörg þúsund ef ekki tugþúsundir mófugla verða fyrir bílum hér á landi ár hvert, hversu mörgum ferkílómetrum lands er eytt árlega sem leiðir til fækkuar fugla. Það er líklega lítið minna en það sem refurinn tekur. Það stendur ekki steinn yfir steini hjá þessum dýrarasistum. Því minna sem maðurinn grípur inn í lífríkið, því betra.

  • Elvar Árni

    Ágæti Mörður

    Athyglisverður pistill hjá þér um refaveiðar á Íslandi.

    Eins og þú réttilega bendir á þá ríkir eymd og volæði í samfélaginu, a.m.k. hjá tilteknum hópum. Hugmyndaleg fátækt kemur líka upp í huga mér, sem kristallast í þessu refamáli.
    Um leið og svona greiðslur til sveitarfélaga eru nefndar er umræðan farin að snúast um landsbyggðina og niðurgreiðslur til sveitanna. Einu sinni enn.
    Það er nú hinsvegar svo að niðurgreiðslur til refaveiða takmarkast ekki við landsbyggðina. Þær miðast við skotna refi í hverju sveitar- og bæjarfélagi. Eftir því sem ég best veit myndi Reykjavíkurborg geta sótt um mótframlag vegna refaveiða ef þessum veiðum væri sinnt af einhverju marki í borgarlandinu, og sömu sögu er að segja af öðrum sveitarfélögum á SV horninu. Umræða um að þessar niðurgreiðslur séu einungis ætlaðar sveitunum heldur því ekki og vonandi kemst þessi umræða upp úr því fari í eitt skipti fyrir öll.
    Það er í raun ótrúlegt að starfsfólk ríkisvaldsins skuli ekki hafa meira hugmyndaflug en svo að þurfa endilega að klípa af þetta litla mótframlag til sveitarfélaga, en upphæðin er svo lág að hún skiptir engu máli þegar upp er staðið fyrir ríkið. Ég skal nefna dæmi. Eitt af því sem þetta framlag hefur til dæmis nánast afgreitt eru svartar greiðslur til refaskytta. Á meðan sveitarfélögin sjá um skipulag og greiðslur til verktaka (refaskyttna) er ljóst að allt er uppi á borðinu. Ég óttast að í kjölfar þess að sveitarfélögin hætti að hafa umsjón með þessum veiðum muni svartar greiðslur og greiðar manna á milli aukast og ríkið mun þá endanlega ekkert hafa upp út úr þessu. Í dag eru refaveiðar VSK skyldar og það litla framlag sem ríkið hefur lagt fram undanfarin ár hefur um það bil dekkað VSK af veiðunum. Verst er þó að það litla skipulag sem enn eymir af varðandi reafveiðar er fyrir bý og öll þau gögn sem safnast hafa um þessar veiðar tapa gildi sínu þegar gagnasöfnum leggst af.

    Refaveiðar snúast ekki um hetjudáðir og þrátt fyrir að þeir sem stundi þessar veiðar leggi oft á sig ómælt erfiði er tilgangurinn í þeim tilfellum sem ég þekki einfaldlega sá að vernda fuglalíf og lambé fyrir ágangi tófunnar. Ég held ég geti fullyrt það að ég hef enn ekki hitt þá refaskyttu sem vill útrýma tófunni. Hinsvegar vilja veiðimenn halda aftur af henni og það verður ekki gert nema með skipulögðum veiðum.

    Eftir að hafa hlustað á margan náttúruverndarsinnan tel ég að heiðarlegustu náttúruverndarsinnana finni maður í sveitum landsins. Af öllu því fólki sem þykir vænt um náttúru landsins finnur þú margt fólk í sveitunum sem ber ríkar tilfinningar til náttúrunnar og hefur góða tilfinningu fyrir því hvernig eigi að nýta hana sér til framfæris án þess þó að ganga á höfuðstólinn. Það er nefnilega þessi tilfinning sem þurfum stundum að fara eftir því vísindin geta ekki skorið úr um hvað sé það endanlega rétta í þessu máli. Það er ekki til fullkomið veiðilíkan sem segir fyrir um áhrif X fjölda af tófu á landsvæði A fyrir jafn mismunandi landsvæði og finnast á Íslandi og ég ætla að slíkt líkan mun seint líta dagsins ljós, nema þá að farið verði í umfangsmiklar rannsóknir á refastofninum með tilheyrandi kostnaði.

    Þetta allt hinsvegar skiptir ekki meginmáli að mínu mati. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu er það að náttúruvernd á Íslandi er ekki einkamál sveitarfélaga. Náttúra Íslands er sameign þjóðarinnar og það gengur ekki upp í mínum huga að fámenn og dreifbýl sveitarfélög sem mörg hver hafa haldið best utan um sínar refaveiðar, eigi að axla ábyrgðina ein í þessum efnum. Aldeilis ekki og því ætti ríkisvaldið að sjá um allan kostnað sem af þessum veiðum hlýst. Náttúruvernd snýst ekki bara um að friða svæði fyrir virkjunum og framkvæmdum. Það snýst líka um að halda aftur af afætum og það eru refir sannarlega.
    Hér er komið að kjarna málsins. Hann er sá að refir þurfa að éta til að framfleyta sér. Eins og rannsóknir benda til er fæðuval refa afar misjafnt eftir því hvað hann heldur sig til landsins og á sitt óðal. Refir sem búa við ströndina éta mikið úr fjörunni en refir sem hafast við inn til heiða éta fugla og mýs. Þessu er ekki hægt að horfa framhjá og það er sama hversu menn telja sig vita mikið um jafnvægi þess lífríkis sem hér var við landnám eða eftir landnám, refir þurfa að éta og þeir éta önnur dýr til að lifa af. Fjölgi ref munu fleiri dýr verða þeirra bráð. Egg og ungar mófugla eru mjög mikilvæg fæða refa að vorlagi og yfir grenjatímann. Þeir sem hafa legið á greni og séð hversu stórtæk lágfóta getur verið gera sér allt aðra mynd af afleiðingum þess að hafa mikið af tófu á varplandi fugla. Á sama tíma og stjórnvöld stýra veiðum og leggja fé til rannsóknar á rjúpunni ætla þau að skorast undan þeirri ábyrgð sem hvílir á þeim vegna refaveiða. Þvílík þversögn! Á sama tíma og lagt er til að friða hin og þessi svæði, meðal annars vegna þess að fuglalíf þykir fjölbreytt og fjölskrúðugt koma stjórnvöld með þetta útspil. Af hverju ætli það sæti að sum svæði á landinu hafa svo mikið og fjölbreytt fuglalíf? Ætli það geti verið vegna þess að refaskyttur hafa í gegnum tíðina haldið það mikið aftur af ref að fuglinn fái frið á varptímanum og komi þess vegna aftur og aftur til að verpa.
    Á meðan refavinir koma ekki með sannfærandi gögn sem sýna fram á það svart á hvítu að refir spilli ekki varpi og fækki ekki fuglum umtalsvert, á náttúran að fá að njóta vafans. Ég hefði haldið að þau stjórnvöld sem nú ráða ættu að íhuga þá hlið málsins.

  • Ég er alinn upp við að refurinn var talinn óvinurinn og hef séð illa bitið fé. Þá tók refurinn alltaf eitthvað af lömbum og bændur eru skaðasárir.

    Fóstra mín sagði mér að refurinn veiddi rjúpu í skafrenningi og hríð með því að koma að henni áveðurs. Hagsmunir bændasamfélagsins voru því þeir að leggja kapp á skipulagðar refaveiðar. Þegar ég ólst upp var allt krökkt af mófugl. Mófuglinn naut því verndar bændasamfélagsins.

    Það liggur fyrir að þar sem refurinn er alfriðaður á Hornströndum er flóra mófugla nánast horfinn. Þar sækir refurinn í fuglabjargið en á örðugra með að eyða því.

    Refurinn er í hálfgerðri hungurgildru. Ekkert fellur til af hræjum eða sláturúrgangi og lömb eru orðin stálpuð þegar þeim er hleypt út. Allt sorp er horfið sem hann hafði lífsviðurværi af og sennilega er minna að hafa í fjörunni en áður var. Hann sækir því í mófugl og egg að sumri og rjúpu að vetri.

    Sá háttur á að draga út sem kallað er þ.e.r. hræ af búsmala, fé og stórgrip fyrir ref að vetri til, veit ég ekki hvað er gamall. Ég man ekki eftir því úr bernsku minni. En það er náttúrlega happafengur fyrir refinn og eiga refaskyttur þakkir skyldar fyrir þá hjálp yfir erfiðasta vetraharðindin, því það eru bara vitleysingarnir sem eru skotnir hinir bíða þar til refaskyttan er farinn.

  • Guðrún Lár

    Mörður skrifar: „Með gjörbreyttum sauðfjárbúskap eru nánast tíðindi að refurinn leggist á fé – ………“

    Ef þú værir áskrifandi af Mogganum, Mörður, þá hefðir þú kannski séð grein um dýrbíta í Skagafirði í sumar. Í Staðarfjöllum voru unnin 3 greni með tugum lambshræja. Refaskyttur áætluðu að Á þessum grenjum væru um 80 hræ af LÖMBUM.

  • Óli Jón Gunnarsson

    Þetta er fáfræði og heimska Mörður, ekkert annað. Varla svara vert!

  • Steinar Rúnarsson

    Þetta er það mesta rugl sem eg hef heyrt að refaveiðar séu rugl. og sega að refaveiða séu ekki til að vernda fuglalifið….. Ég hélt að þingmenn væru aðeins fróðari en svo er ekki.

  • Ég verð að segja að þarna mælir maður sem sennilega fer of lítið út fyrir 101 Reykjavík. Hélt þig skynsamari en þetta. Heldur þú að bændur hringi í séð og heyrt þegar rebbi fellir kind eða lamb? Heldur þú að refaveiðar hafi verið settar í lög af bændum fyrri ára af gamansemi ? Drullastu upp á heiðar og skoðaðu hræin sem rebbi skilur eftir sig. Þið getið einfaldlega ekki skorið niður eigin eyðslu þannig að þið ráðist á aðra.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur