Laugardagur 21.11.2009 - 18:55 - 10 ummæli

Árásin á EES

Bjarni Benediktsson hefur nú komist að því að hið mikla ESB-veldi hafi vígbúist og gert árás … á EES.

Þetta segir hann okkur í Fréttablaði dagsins, og árásin felst í því að Evrópusambandið skuli ekki fyrir lifandis löngu hafa boðið EES-ríkjunum að ganga í myntbandalagið og taka upp evru. Það sé nánast rof á EES-samningunum.

Evran var frá upphafi bundin við ríki Evrópusambandsins og byggist á sameiginlegum ákvörðunum þeirra um efnahagsmál, þar á meðal stöðu ríkissjóðs hvers og eins ríkis í myndbandalaginu (sem þeim gengur sjálfum nógu illa að stilla af!). Þessar sameiginlegu ákvarðanir og hið sameiginlega stjórnkerfi sem þeim fylgir með deildu fullveldi í peningamálum, og líkamnast í Seðlabanka Evrópu, er grundvöllur evrusamstarfsins. Þeir sem vilja uppskera, þeir þurfa líka að sá.

Undanfarin ár – líka fyrir hrun – hefur verið hlaupin hver atrennan af annarri hér heima við að fá evru án þes að ganga í Evrópusambandið, en þær hafa allar fjarað út á þessu einfalda atriði: Evran er gjaldmiðill Evrópusambandsríkjanna í myntsamstarfinu. Ekki annarra.

Þetta veit Bjarni ágætlega. Hann er hinsvegar í vondum málum innanflokks. Á aðra hlið fer Davíð Morgunblaðsritstjóri fyrir eitilhörðu íhaldsbandalagi sem leggur allt í sölurnar – líka Moggann! – gegn Evrópusambandsaðild. Hinumegin standa þeir forystumenn sem eftir eru hjá atvinnurekendum, með Vilhjálm Egilsson í broddi fylkingar, og heimta að stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins skemmi ekki árangur við uppbyggingu og framtíðina inn í Evrópusambandið.

Stjórnmálaforingi í þessari stöðu þarf umfram allt að vinna tíma og koma í veg fyrir að vera króaður af. Einmitt þá fara menn að kasta reykbombum einsog þessari um árás Evrópusambandsins á Efnahagssvæði Evrópu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Þórunn Sveinbjarnardóttir

    Reykbomba er réttnefni. Með ólíkindum hversu lágt formaður Sjálfstæðisflokksins leggst í tilraun sinni til þess að friða Móa-veldið og svartstakkana í eigin flokki…

  • Þeir hjá ESB eru nú að athuga með að útvíkka EES samninginn til smáríkjanna innan Evrópu. Það er að segja ef þau ganga ekki í ESB áður en það gerist. Þannig að þessi froða hjá Bjarna Ben er ekkert nema forða og vitleysa.

  • Gunnar Tryggvason

    Það er kómískt þversögn hjá BB að saka ESB um þvergirðingshátt í þessu máli og svo stjórnvöld um að hafa aldrei rætt þetta við ESB. Hvar birtist þessi meinti þvergirðinsháttur ef þetta hefur aldrei verið rætt!!!

  • Hvalveiðimaður

    Meirihlutinn er á móti þessu ESB kjaftæði.

  • Núna er Davíð orðin ritstjóri Moggans, Styrmir reynir að vera með í nefndum út í bæ, og skrifar bækur til að reyna hafa áhrif, og einstaka þingmenn sjálfstæðisflokksins koma reglulega með ,,reykbombur“ !

    Allt þetta þarf Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins að yfirgnæfa !

    Þið sjáið úrlausn hans gegn eigin fólki !

    Upphrópanir um eigin aumingjaskap !

  • Þessi ummæli Bjarna eru æði undarleg í ljósi þess að ESB hefur staðfastlega hafnað þrýstingi, m.a. frá IMF, í þá átt að auðvelda núverandi ESB-ríkjum sem standa utan evrusvæðis að taka upp sameiginlegu myntina til að létta þeim lífið í kreppunni. Vilja þeir sem helst véla um myntbandalagsmálin innan ESB meina að það sé akkúrat á svona tímum sem menn verði að standa í lappirnar með þau skilyrði sem sett eru fyrir upptöku evru, en tilgangur þeirra er að stöðugleika gjaldmiðilsins sé ekki ógnað.

    Hvers vegna í ósköpunum ættum við að eiga eitthvað tilkall til að taka upp evru þegar lönd sem verið hafa í ESB lungann úr undanförnum áratug, og mörg hver eru í ERM II gengiskerfinu sem kalla má fordyrir evrunnar, fá ekki að stytta sér leið að evrunni?

  • Sammála Merði í fyrsta skipti á ævinni.

    Lengi skal manninn reyna.

    Allt sem hér er sagt um ESB og evru er satt og rétt.

    Þó er mikilvægt að halda því til skila að það þekkist að ríki hafi tekið upp og það einhliða erlenda gjaldmiðla.

    Kosovo er t.d með evruna og mörg ríki hafa tekið upp dollara án þess að leita sérsaks samþykkis.

    Rétt skal vera rétt.

    Einhliða uptaka evru er hins vegar ekki raunhæf nú. Væri það gert á núverandi gengi myndi það dæma þjóðina til langtíma fátæktar.

    En það að taka upp evru er auðvitað hægt.

    Við þurfum að treysta á krónuna til að geta seinna losað okkur við hana.

    Enn eitt dæmið um mótsagnarkenndan veruleika Íslendinga.

  • Finnst þér mörður ekki merkilegt að Vilhjálmur Egilsson sem er fulltrúi peningaseðilsins og hvers sem handleikur hann sé sammála þér í þessu máli? Umhugsunarefni ?? ESB er ríkjasamband. Ég sem krati hef ekki áhuga á að ganga í nýtt ríki.

    Ef einhver er að ruglast í þessu þá er þetta einfallt. Hvað er sjálfstætt ríki?

    1. Hefur landamæri. ESB flokkast undir það.
    2. Þegnar kjósa sér fulltrúa. ESB flokkast undir það.
    3. Hefur sinn eigin her ? ESB hefur herflokka undir beinni stjórn.
    4. Hefur sinn eigin forseta. ESB já líka þar.
    5. Dómstig. Já, ESB hefur slíkt.
    6. Stjórnarskrá. Já ESB hefur slíkt.
    7. Sameiginlegan gjaldmiðil. Já, enn og aftur.
    8. Frjálst flæði vinnuafls. ESB hefur það. Sem er meira en mörg ríki hafa.
    9. …… þessi lista þarf ekki að enda hér.

    Ég skora á alla skynsama menn að hugsa málið aftur. ESB er ríkjasamband eins og BNA, Eins og USSR, Eins og já Kína o.s.frv. Við verðum lítil gersamlega valdalaus þjóð þar inni.

  • Við erum ennþá minni og valdalausari (og varnarlausari) fyrir utan ESB.

  • Thrainn Kristinsson

    Það hefur ekkert breyst hjá íslenskum fjölmiðlum í kjölfar Hrunsins!

    Af hverju er ekki búið að fletta ofan af þessu dæmalausa rugli í manninum um aðild að EMU án aðildar að ESB sem aldrei hefur komið til greina?

    Hvaða lausn býður hann og hans flokkur fram á því stórkostlega vandamáli íslensku þjóðarinnar að gjaldmiðillinn er ónothæfur?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur