Laugardagur 28.11.2009 - 08:41 - 6 ummæli

Hindrun sem ryðja þarf úr vegi

Stefán Jón Hafstein skrifar Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra opið í bréf í dag út af fyrirheitum ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG um Helguvíkurálver og Suðvesturlínu. Hann spyr þessara spurninga í Fréttablaðinu:

1) Hvaða virkjanir eiga að útvega 360.000 tonna álveri í Helguvík þau megavött sem þarf?

2) Hversu mikið virkjanlegt afl og nýtanlegt afl (núna) verður þá eftir á SV-horninu fyrir  annars konar stóriðju (gagnaver og rafmagnsbíla og fleira)? Frá hvaða virkjunum? (Ég er ekki að tala um tæknilausnir framtíðarinnar.)

3) Samkvænt fréttaskýringum eru nú 70% af raforku Íslands bundin verðsveiflum á áli. Með Helguvíkurálveri verða 90% af allri raforkusölu á Íslandi tengd áli. Hversu mörg fjöregg telur þú rétt að hafa í einni körfu: 9 af 10? 7 af 10? Færri?

Það verður fróðlegt að lesa svör iðnaðarráðherra. Aðrir hafa nefnilega ekki svarað ámóta spurningum, einsog Stefán rekur í greininni, hvorki orkuveiturnar, álfyrirtækið, Árni Sigfússon og minni spámenn á Suðurnesjum, ráðherrar, kjördæmisþingmenn, hinir háværu álverssinnar í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda né hrópendur í verkalýðsforystu. Og ekki Orkustofnun, sem á að vera hlutlæg upplýsingaveita um orkumál og vinna fyrir landsmenn í heild.

Ekki verða flokkuð undir svör þær upptalningarromsur um alla hugsanlega virkjunarkosti á Íslandi fyrr og síðar sem undanfarið hafa birst meðal annars á heimasíðu Norðuráls og í bloggpistli hjá hinum ágæta formanni Rafiðnaðarsambands Íslands.

Mann er farið að gruna að svörin séu bara ekki til. Það viti enginn hvaða orka á að fara í síðari áfanga áversins við Helguvík. Hver og einn af öllum þessum aðilum líti svo á að það sé ekki hans mál heldur einhvers annars. Að það sé heldur enginn klár á því hvaða annar orkufrekur iðnaður kemst fyrir á Suðvesturlandi þegar Helguvík hefur étið nægju sína af orku.

Að sumir treysti á að þegar kallað verður eftir nýjum virkjunum þá hljóti þær bara að koma, sama hvað það kostar í peningum, umhverfisspjöllum og öðrum möguleikum. Aðrir reiði sig á þær tæknilausnir framtíðarinnar sem Stefán Jón minnist á – að þetta reddist seinna. Þegar einhverjir aðrir hafa tekið við.

Hér er ráð: Að stjórnvöld líti á hinar erfiðu spurningar Stefáns Jóns Hafsteins og fleiri sem eina af þeim hindrunum sem þau fjölluðu um í stöðugleikasáttmálanum víðfræga við SA og ASÍ.

Það væri ábyrgðarleysi af 2007-gerð að ryðja ekki þeirri hindrun úr vegi áður en lögð er suðvesturlína yfir vatnsbólin til að rafvæða fyrsta fjórðung Helguvíkurálversins.

Þingeyska leiðin

Dofri Hermannsson talar í Eyjarbloggi í gær um þingeysku leiðina – þá sem iðnaðarráðherra bjó til í Bakkamálinu, að setja fyrst fram áætlun um virkjunarkosti og orkumagn á svæðinu og hefja síðan viðræður við áhugasöm iðnfyrirtæki sem henta aðstæðum í byggðinni. Af hverju ekki að fara þingeysku leiðina hér suðvestanlands? Má kannski bæta því við í svörin til Stefáns Jóns?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Er ekki áætlun um orkuvinnslu á Krísuvíkursvæðinu byggð á 40 ára gömlum borunum og rannsóknum?

  • Það er löngu kominn tími til að fólk hreinsi glýjuna úr augunum vegna virkjanamála sem nú eru til umræðu.

    Í fyrsta lagi skal tekið upp boðorð um að engin gufuaflsvirkjun verði sett á koppinn nema hún verði fullnýtt. Varmaorkan sem eftir verður þegar raforkuframleiðslan er búin að taka sinn hlut úr henni sé þá nýtt til húshitunar eða með öðrum hætti.

    Í öðru lagi liggi fyrir áður en hafist sé handa, lausn á mengunarvanda sem skapast við vinnsluna bæði tæknilega og kostnaðarlega.

    Í þriðja lagi skal þannig staðið að verki að ekki sé gengið á vinnslugetu svæðisins.

    Vatnsaflsvirkjanir eru nærtækari kostur einfaldlega vegna þess að miklu meira liggur fyrir um hvaða áhrif þær hafa í umhverfinu.

    Þjórsárvirkjanir eru nærtækastar fyrir þá sök að það sem þar eru undirbúningsrannsóknir að mestu fyrir hendi.

    Í fyrsta lagi fer lítið landrými undir þær, að ekki sé talað um miðað við orkumagn sem í boði er.

    Í öðru lagi eru umhverfisáhrif lítil, reyndar eru jákvæðar hliðar sem bæta neikvæðar upp.

    Í þriðja lagi er orkan þaðan ein sú ódýrasta sem völ er á.

    Að lokum skal á það bent hversu góð heildaráhrif Þjórsárvirkjanir hafa haft niðri í byggð og vita það allir sem við ána búa og eru komnir til vits og ára.

  • Þegar kemur að orkumagni á Íslandi er spurningin ekki hversu mikil orka heldur hvað má hún kosta. Það er nefnilega mjög misjafnt hvað hægt er að ná út mikilli orku eftir því hvað fólk er tilbúið að borga. Ef álverin væru tilbúin að borga sama verð og grænmetisbændur borga í dag væri lítið mál að afla þeim orku. Vandinn er að það er erfitt að afla orku á verði sem álverin vilja borga.

  • Gagarýnir

    Smá uppryfjun á hugmyndum Landsvirkunar. Álverin greiða fyrir virkjanir. Orkuöflun hér er dýr til að byrja með en verður svo einhver ódýrasti kostur í heimi. Hún þverr ekki eins og olíulindirnar í Dubaí.

  • Samanburður á raforkuverði til grænmetisbænda og álvera taki mið af orkumagni sem keypt er á hverjum stað og á hvaða spennu orkan er afhent.

    Sé það ekki gert er samanburðurinn út í hött.

    Spurning til Héðins hvort hann hafi borið verðið saman miðað við þær forsendur?

  • Kúarektor

    Alcoa er að loka á Ítalíu til að komast í ódýru orkuna hér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur