Sunnudagur 29.11.2009 - 09:15 - 7 ummæli

Niðurgreiðsla launakostnaðar

Það er djarft verk og þarft hjá fjármálaráðherra og ríkisstjórninni að leggja til afnám svokallaðs sjómannaafsláttar í áföngum næstu ár (hér, 25. grein).

Djarft vegna þess að kringum þennan ríkisstyrk hefur myndast ógnarsterk varnarfylking – sjómannaleiðtoga, útgerðarmanna, byggðahöfðingja og kjördæmisþingmanna – og tilfinningarök þessarar fylkingar eiga að sjálfsögðu greiða leið að þjóð sem forðum hafði þá reglu að hverjar sem sakirnar kunni að vera er maður í sjóklæðum varinn friðhelgi. Á hann verða ekki lagðar hendur.

Þarft vegna þess að sjómannaafslátturinn er bæði úreltur og ósanngjarn. Hann var tekinn upp þegar enginn vildi á togara, á sama tíma og menn voru sjanghæjaðir af skemmtistöðum síðla nætur og vöknuðu upp við Grænlandsstrendur. Nú hafa skipsrúm verið eftirsótt í marga áratugi, og hlutur þeirra sem best afla er þannig að skattafsláttur til þeirra er fáránleikinn sjálfur. Þeir hafa unnið vel sitt verk og eru verðir launa sinna, en ekki sérstakrar ívilnunar í skatti.

Sjómenn og útgerðarmenn þurfa samt að semja sín á milli um framhaldið, og gefst til þess ágætur tími verði sólarlagsákvæðin samþykkt. Því að þessi skatttilhögun er löngu orðin hluti af kjörum sjómanna (fiskimanna og líka farmanna og smámsaman í gegnum tíðina allra þeirra sem vinna með einhverjum hætti á skipsfjöl, líka skemmtibátastarfsmanna og kallanna á dýpkunarprömmunum – og lóðsanna, sem eru opinberir starfsmenn!).

En fyrst og fremst er þetta ríkisstyrkur til útgerðarmanna. Upphaflega til að hjálpa útgerðinni að manna fiskiskipin, í staðinn fyrir að hún byði almennileg laun. Nú fullkomlega ástæðulaus undanlátssemi við grátkórinn.

Fróðlegt fyrir áhugamenn um þessi efni að kynna sér svör fjármálaráðherra á þremur þingum við fyrirspurnum Kristins H. Gunnarssonar (1996), Péturs Blöndals (1998) og Marðar Árnasonar (2004). Pétur spyr bestu spurningarinnar:

Telur ráðherra að sjómannaafsláttur sé niðurgreiðsla til útgerðar frá sjónarmiði hagfræðinnar?

Og þáverandi fjármálaráðherra svarar skýrt:

Já, það er skoðun fjármálaráðherra að sjómannaafslátturinn sé í eðli sínu niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðar og að uppruni afsláttarins og saga hans beri það með sér.

En fjármálaráðherra haustið 1998 hét Geir Haarde.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Allveg hárrétt ekki á að stoppa þarna af hverju eru RÍKISSTARSMENN OG KONUR MEÐ DAG PENINGA Í FEÐALÖGUM+KAUP ALLAN ÓSOMA AF…Ekki heyrt um að taka af millj sem ráðherra er með til að í að deila til gæluverkefna..[skúffufé]

  • Þegar sjómenn sigla í land og mæta niður á Austurvöll að mótmæla 101 landkrabbarottunum sem sitja í þessarri vonlausu ríkisstjórn, verður nú annað hljóð í þínum mönnum! Sjómenn eru og verða hetjurnar okkar sem sjá um auðlyndir okkar í sjónum. Þeir VINNA VERKIN og fórna mikklum tíma frá fjölskyldum sínum.

  • Gagarýnir

    Hægri menn tala mikið um niðurskurð hjá ríkinu. En væla undan honum þegar hann er kominn af stað. Ríkið hefur litið á sig sem verndara atvinnulífsins. Og þann arf fengu talsmenn hins frjálsa markaðar sem töldu ríkisafskipti af hinu illa og gengu í að selja eigur ríkisins, selja mjólkurkýrnar. Ríkið er enn oft stærsti kúnni einkageirans. En þá á að skera niður heilbrigðismál og menntamál. Hætta að styrkja Melabandið og listamenn. En ekki snerta styrki til atvinnulífsinns!

  • Kristján Kristinsson

    Jonn, dagpeningar eru til að greiða niður kostnað vegna vinnu sem farin er á vegum vinnuveitanda (annars vegar til útlanda og hins vegar hér innanlands). Þessi kostnaður er vegna gistingar (hótelkostnaður) og svo annar kostnaður þ.m.t. fæði og ferðalög á viðkomandi stað (þó ekki flugfargjöld). Dagpeningar eru því ekki laun eins og margir vilja meina (misskilja bæði meðvitað og ómeðvitað). Þess vegna þarf ekki að borga skatta af dagpeningum. Ætlast fólk virkilega til þess að starfsmaður, hvort sem hann vinnur hjá ríkinu eða hinum almenna markaði, og fer vegna starfs síns til annars lands eða annars landsfjórðungs að hann greiði úr sínum eigin vasa hótelgistingu og fæði?

    Svo annað mál hvernig dagpeningakerfið á að vera og um það þarf að ræða. En það á alls ekki að blanda saman dagpeningakerfinu og sjómannafslættinum, sem er ekkert annað niðurgreiðsla launa til útgerðarinnar.

    Stone, svona almennt séð þá vinna allir verkin sín sem hafa vinnu. Það er engin stétt merkilegri eða ómerkilegri en önnur.

  • Jón Páll

    Við sem erum sjómenn förum aðallega til sjós vegna þess þar er von um hærri laun heldur en í landi. Til þess að nenna að vera á sjó þurfum við að hafa hærri laun heldur en í landi. Það er ekki langt síðan svona 2 ár að það var mjög erfitt að manna stórann hluta af íslenska flotanum og var nánast ný áhöfn í hverri veiðiferð. Sjómannaafsláttur er kannski úreldur en hann tíðkast í nágrannalöndum okkar. t.d í þeim löndum sem við viljum líkjast eins og Noregi og Danmörku. Í Noregi er sjómannaafslátturinn miklu hærri heldur en á Íslandi. Erum við ekki að taka upp norrænt skattkerfi og svo í framtíðinni Norrænt velferðarkerfi. Það er alveg magnað að setja alla sjómannastéttina undir sama hatt. Það eru ekki allir sjómenn með ofurlaun og þeir sem eru með þau eiga þau einfaldlega skilið það er ekkert flóknar en það. Við erum ráðnir upp á hlutskipti við eigum hlutdeild í aflanum og eftir því sem aflaverðmætið verður meira þá þénum við meira. En ef lítið fiskast eins og oft gerist þá eru laun venjulegs sjómanns(háseta) um 200.000.- kr í mánaðarlaun. Svo varðandi launin þá hef ég verið á bát sem hefur selt mikið á erlenda markaði í Bretlandi þar hefur verðið frekar lækkað heldur en hækkað undanfarinn tvö ár í pundum þannig að mín laun hafa lækkað í raunverulegum gjaldmiðli eins og í pundum ef ég fengi gert upp í pundum væri ég með verri laun heldur en ég hafði fyrir 2 árum. Launin hafa hækkað mikið í verðlausum íslenskum krónum. Svo með dagpeningakerfið útafhverju fá menn ekki greitt samkvæmt nótum. Er það ekki miklu hreinlegra viðkomandi starfsmaður taki bara nótur fyrir útlögðum kostnaði og fái svo nóturnar endurgreiddar ég bara spyr.

  • Villi Páls

    Hvernig væri nú að afnema listamannlaun?

    Höfum við efni á að hafa hér ríkisrekin skáld í hundraðatali eins t.d. Hallgrím Helgason og álíka menn?

    Því geta ekki listamenn menn ekki unnið fyrir sér sjálfir eins og aðrir einyrkjar eins og t.d. iðnaðarmenn?

    Er þá ekki rétt að komið verði á „iðnaðarmannalaunum“ líkt og listamannalaunum?

    Nei, það er ósvinna hjá mönnum sem aldrei hafa migið í saltan sjá að afnema sjómannaafsláttinn.

    Í Danmörku greiða sjómann einungis 25% skatt, en þar í landi eru almennir launaskattar 50%

  • Ég ætla svo sem ekki að blanda mér í umræðuna umsjómannaafsláttinn. Þar væri ég að bera í bakafullan lækinn.

    Ein setning í pistli þínum (Mörður) minnti mig á „nýhugtak“ sem ég lengi reynt að koma inn í íslenska málvenju.
    „Hann var tekinn upp þegar enginn vildi á togara, á sama tíma og menn voru sjanghæjaðir af skemmtistöðum síðla nætur og vöknuðu upp við Grænlandsstrendur.“

    Hugtakið „sjanghæjaður“ verður til vegna atburða sem áttu sér stað í tengslum við siglingar og atburði sem tengjast íslandi lítt. Því finnst mér að staðfæra ætti hugtakið og myndi setningin þá lita svona út:
    “ . . . . . þegar mönnum var grænlent af skemmtistöðum síðla nætur.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur