Laugardagur 19.12.2009 - 14:50 - 12 ummæli

Pollýanna mætt í Kaupmannahöfn

Loftslags-skömm – Climate Shame – var hrópað fyrir utan Bella Center í nótt, sem að minnsta kosti kvartrímar við Climate Change og er andstæðan við hið langþráða Climate Justice. Og í dag hafa öll helstu umhverfis- og loftslagssamtök lýst megnum vonbrigðum sínum með niðurstöðuna af ráðstefnunni í No-Hopenhagen eða Brokenhagen. Það hafa þjóðarleiðtogar líka gert, auðvitað eyríkjanna smáu sem eru í bráðri hættu og annarra fátækustu þróunarríkja, en líka leiðtogar ýmissa iðnríkja, einna fyrstur Sarkozy Frakklandsforseti.

Það er létt verk að tæta niður textann frá Bellasentri. Við megum engan tíma missa, sagði hver ræðumaðurinn af öðrum á hálfsmánaðar-ráðstefnu 17 árum eftir upphafsfundinn í Ríó, 12 árum eftir að Kyotobókunin var undirrituð. Vísindin eru óyggjandi um loftslagsvána og fremstu sérfræðingar telja að næstu 5 til 10 ár ráði úrslitum, það þurfi ákvarðanir strax – tæknilausnir skortir ekki ef fé fengist til að vinna og framleiða – öllum sem vilja opna augu og eyru er ljóst að loftslagsváin er ekki lengur framtíðarspá heldur samtíðarstaðreynd, skelfileg í sjálfu sér og ennþá hræðilegri vegna þess að hún einsog skerpir og erfiðar allan annan vanda mannkyns og náttúru: bilið milli ríkra og fátækra, kynjamisrétti, styrjaldir, flóttamannastrauma, „venjulega“ mengun, hungur, sjúkdómsfaraldra …

Og út kemur plagg sem endar í verulegri hlýnun, uppundir 3 gráðum yfir meðaltalinu fyrir iðnbyltingu, ekki þeim 2 sem flestir voru komnir niður á, langt yfir 1,5 gráðum sem fólkið á láglendu eyríkjunum telur skilja milli lífs og dauða. Plagg sem skuldbindur engan að þjóðarétti og ríkin geta einsog valið að vera með í, og felur ekki einusinni í sér skýr fyrirheit um dagsetningu lokasamnings. Flopp. „Nedsmeltning,“ segir Politiken.

Þarna fyrir utan Bellusentur langaði mig mest að standa áfram um nóttina með krökkunum að hrópa Climate Shame framan í dönsku lögguna. En var þreyttur og daufur í dálkinn og fór heim til vina minna Gests og Kristínar að sofa frammá dag.

Pollýanna skoðar stöðuna

— Það er óþarfi að vera svona svartsýnn, sagði svo Pollýanna í morgun, — og getur jafnvel verið skaðlegt. Pollýanna vinkona mín telur nefnilega að þrátt fyrir allt hafi náðst talsverður árangur í Kaupannahöfn. Sérstaklega miðað við gang ráðstefnunnar þar sem allt virtist ætla upp í loft alveg fram á síðustu stund. Þegar ég saka hana um að vera einsog pólitíkus sem tapaði kosningunum en segist hafa staðið sig ágætlega miðað við skoðanakannanirnar – þá segir Polla að nokkuð kunni að vera til í því, en á hinn bóginn hafi Hopenhagen-ráðstefnan verið hæpuð uppúr öllu valdi, og gerð að einni allsherjar heimsslita-ögurstund. Það sé sem betur fer ekki raunveruleikinn. Þegar litið sé á stöðuna síðustu mánuði og misseri megi vera ljóst að það var ævintýralegt að hugsa sér mikið meiri árangur. Bandaríkin voru ekki með í Kyoto, og þróunarrríkin höfðu þar engar skuldbindingar, segir félagi Pollí – nú hafi hinsvegar verið gert samkomulag þar sem bæði Bandaríkin og þróunarríkin með Kína í fararbroddi skuldbindi sig til að vera með í samdrætti og öðrum aðgerðum til að vinna gegn vánni eða milda afleiðingar hennar. Það er mikilvægt, segir Pollýanna – og alls ekkert viðbúið þótt auðvitað hafi umhverfissamtök og loftslagsmeðvitaður almenningur á Vesturlöndum gert sé vonir um meira.

— Það skiptir sérstöku máli fyrir framhaldið að allir þjóðarleiðtogarnir tóku þátt í fundinum í Höfn, segir fröken Jákvæð líka. — Með komu sinni og ræðum gáfu þeir málinu það vægi sem það verðskuldar, og tókust á hendur bein eða óbein loforð og fyrirheit sem ekki gleymast. Eftir Kaupmannahöfn aukast líka kröfur á stjórnmálamenn og atvinnulíf alstaðar um jarðarkringluna um árangur bæði heima og á alþjóðavettvangi. Kannski er svo bara gott að væntingarnar verði ekki svona svakalegar fyrir næstu ráðstefnu, „COP-16“ í Mexíkó.

— Hér verður, secundo, að líta til þess, dixit Pollia maioris amica, sem er ágætlega verseruð í mannkynssögu og var latínunörd í MR – að með niðurstöðunni í Kaupmannahöfn hafa helstu persónur á aðalsviði 21. aldar heitið nýjum skuldbindandi samningi – Bandaríkin, Kína og fátæku ríkin, Brasilía, Indland, Evrópusambandsríkin 27 plús 1 (og er hér að skemmta neimönnnum Heimssýnar).

Ekki vopnahlé

— Tertio, segir hin ljúfa Pollýanna: — Vegna samningsrammans á ekki að vera hætta á því að nú fari af stað svipað ferli og stundum rétt áður en samningar nást um vopnahlé í styrjöld, þegar herirnir reyna í örvæntingu og með miklum blóðsúthellingum að bæta stöðuna áður en pennarnir fara á loft. Þvert á móti. Menn vita um viðmiðunina, losunarstöðuna 1990 eða 2005, og vita líka að ef þeir fara langt frammúr henni lenda þeir í að draga þeim mun meira saman eftir að samningar nást. Þetta á að tryggja að ekki fari allt úr böndunum næstu misseri þrátt fyrir úrslitin í Bellu – ásamt þeim fyrirheitum einstakra ríkja sem gerð var grein fyrir í Höfn, oft með þeim formála að ríkið ætlaði sér ákveðinn lágmarksárangur hvað sem hér gerðist.

— Ultimo – og mín er komin í ham: Samningurinn er vissulega arfa-slakur á yfirborðinu, en hver væri staðan ef leiðtogarnir hefðu ekki náð saman? – Þá væri sjálf aðferðin í hættu. Sú kenning hefði þá fengið á fæturna að þetta þýddi ekkert, SÞ gæti þetta ekki, og vonlaust að hafa alla með í ákvörðunum um svona mál. Það var fyrir stuttu afstaða ríkisstjórnanna í Washington og Canberra áður en Obama og Rudd hófust þar til valda – Bush og Howard töldu að málið yrði að leysa með stórveldaaðferðum, ef þetta væri á annaðborð eitthvert úrlausnarefni og ekki bara plat frá vinstrimönnum og hippum.

— Með niðurstöðunni í Höfn er tryggt að ferlið heldur áfram og tími sóast ekki við að gera einhverjar aðferðatilraunir eða byrja upp á nýtt, segir hin eina sanna, Pollýanna. Hún stóð einmitt við hliðina á mér að hlusta á Al Gore, og er síðan soldið skotin í þeim gamla: — Gore benti á Montréal-samninginn um ósonlagið. Hann var talinn ómögulegur og hálfgerð svik í upphafi – en samningurinn sjálfur til varð samt til þess að bæði pólitíkusar og bisnessmenn fóru að taka vandann alvarlega, skrúfurnar í samkomulaginu voru hertar næstu árin, og núna erum við komin vel á veg með að fylla í ósongötin.

— Og hvað þá, elsku Polla bolla, spyr ég.  – Eigum við þá bara að bíða róleg eftir COP-16 í Mehhíko og COP-17 í Höfðaborg og COP-18 á Kolasubbustöðum í Langtburtistan?

Í garðinum heima

— Nei, svarar Bjartsýn, og vitnar í Voltaire: Garðurinn heima! Nú verður hver að gera gagn í eigin landi, með því að veita forystumönnum sínum aðhald í samningamálunum en þó ennþá heldur með því að vinna að metnaðarfullum samdrætti, í landinu, í sveitarfélaginu, í fyrirtækinu og á heimilinu. Við þurfum að byggja upp nýtt samfélag án kolefnalosunar, og eigum að passa okkur að það samfélag sé fyrir alla, segir Polla, sem er nýlega gengin bæði í Samfylkinguna og Græna netið. – Markmið jafnaðarstefnu og loftslagsverndar fara oftar en ekki saman, þylur hún svosem að lokum og hvessir augun á prófkjörsfréttir á netinu, — sjáðu til dæmis almenningssamgöngurnar, og Fagra Ísland, og sprotastefnuna! Þetta skal hafast, og í tæka tíð, — og hvað sem þeim líður, Obama og Merkel og Jiabiao og Lumumba í Súdan, þá er það ekki síst komið undir mér og þér!

Svo fáum við okkur en pølse med brød á Ráðhústorginu og drekkum kalda sjokolademælk úr flösku. Þorum ekki strax í grænan Túborg. Það gæti komist í Kastljós.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Hulda Björg Sigurðardóttir

    Þetta var bæði fallega og skemmtilega sagt, Mörður!

  • Auður H Ingólfsdóttir

    Kærar þakkir Mörður fyrir fróðlega pistla frá þessum sögufræga fundi. Tek undir með þér um hrós til Fréttablaðsins og last til Morgunblaðsins. Í morgun, daginn eftir að nær allir leiðtogar heims reyndu að koma sér saman um næstu skref í einu flóknasta viðfangsefni samtímans var ekki eitt orð að finna um fundinn á útsíðum Morgunblaðsins. Hefði þetta getað gerst í gamla daga, þegar Mogginn var alvörudagblað? Alveg með ólíkindum.

    Sveiflast annars eins og þú milli vonleysis hvað þetta gengur illa, og pollýönnu viðhorfs að þetta sé mikilvægt skref á lengri vegferð.

  • Guðrún Anna Finnbogadóttir

    Takk fyrir þessa pistla um fundinn í Bella Center. Þetta er ein best og gagnlegasta yfirferðin á atburðarásinni sem ég hef lesið á íslensku, íslenskir fjölmiðlar sýna þessu ekki mikinn áhuga.

  • Dósóþeus

    Vel skrifaður pistill, enda höfundur pennavanur og góður íslenskumaður. Tek undir það sem sagt er um frammístöðu pentmiðla íslenskra. – Lítil von er til þess að bandarískur kjósandi hafi nokkurn minnsta áhuga á hagsmunum heimbyggðar, þröngsýnni þjóð er vandfundin að viðbættum fordómum hennar og dauðahaldi í úreltar kennisetningar og trúarbragðarugl. – Ekki er von til þess að þeir stjórnmálamenn, sem slík þjóð kýs til setu á sinni löggjafarsamkundu taki þá áhættu að fara í móti viðhorfum kjósenda sinna. Egosentrismi þessarar þröngsýnu þjóðar verður líklega banabiti mannkynsins.

  • Einar Guðjónsson

    Kemur Morgunblaðið ennþá út ?

  • Óþekkur

    Það ætla ég að vona, að þú eigir ekki fyrir farinu heim. Og ríkið ekki fyrir fari Svandísar.

  • Þetta er dauðans alvara.

    Þakka þer pistilinn og þann áhuga sem þú sýnir efninu.

    Er eitthvað sem við getum gert annað en: „think global and act local“?

  • Stórar breytingar gerast hægt og allar hugmyndir um að það væri hægt að ná þessu í gegn í Kaupmannahöfn voru algerlega út úr öllu korti. Bara það að taka stórar ákvarðanir í húsfélaginu mínu getur tekið fleiri ár svo ég fæ ekki séð að ég geti búist við að hlutirnir breytist hraðar á heimsráðstefnu sem reynir að vega og meta áhættuna af koltvísýringsútblæstri Vs. hættuna á því að ný kreppa komi upp úr því að draga úr útblæstri.

    Að því sögðu tel ég að samningurinn sé slæmur og að enginn samningur hefði verið betri niðurstaða. Að miða við 1990 eða 2005 er augljóslega ósanngjarnt og gegnur út frá því að réttur vesturlanda til lofthjúpsins sé margfaldur á við réttur þróunarlandanna í krafti reynslu. Slíkt er algert apparheitkerfi sem verður aldrei liðið til lengdar. Eins og um íslenska kvótakerfið mun engin sátt nást um þessa niðurstöðu.

  • Ekki gera lítið úr umfjöllun Kastljóss um áfengisneyslu þingmanna í vinnunni.

    Svona athugasemdir bera keim af „samtryggingarklíkuskap“ og renna frekari stoðum undir þær sögusagnir sem ganga af embættis- og alþingismönnum sem fara á ráðstefnur og fundi , bæði innanlands og erlendis, eru á kojufylleríi allan tímann en komast hjá því að vera hýrudregnir og skammaðir vegna þess að aðrir „kóa“ og enginn vill vera sá sem kjaftar frá.

    Er Sigmundur Ernir sá fyrsti sem fer drukkinn í ræðustól á Alþingi? Er Ögmundur sá fyrsti sem greiðir atkvæði undir áhrifum áfengis?

  • Það er eiginlega mátulegt á alla þessa bullukolla sem mættu í Kaupmannahöfn að dellan sé undirstrikuð með rækilega kuldakasti.

    Eytt er tíma í rándýrar lausnir á ekki-vandamáli sem sést best á því að ekkert hefur hlýnað síðustu 10 ár þrátt fyrir sívaxandi losun á CO2. Lykilmenn hjá IPCC nefnd Sameinuðu þjóðanna hafa verið staðnir að óvönduðum vinnubrögðum og fölsunum sbr. Climategate.

    Hugsandi og upplýst fólk hlýtur að fagna því að ekki náðist samkomulag í Kaupmannahöfn.

  • Mörður Árnason

    Hrönn — Það var ekki ætlunin að gera lítið úr gagnrýni á dryklkjuskap við störf, á alþingi eða annarstaðar. En ég sá engan fullan í Kaupmannahöfn.

    Borgari — Blessaður settu þig örlítið betur inn í málin áður en þú sest að dæma lifendur og dauða. Afneitunin kann að vera þægileg — en þótt þér sýnist jörðin flöt er hún samt hnöttur sem snýst í kringum sólina.

  • Brilljant pistill. Hvað er síminn hjá Pollý – ég er að hugsa um að setja hana á hraðval í símanum mínum 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur