Þriðjudagur 22.12.2009 - 11:53 - 5 ummæli

Háir vextir?

Lögfræðistofan Mishcon de Reya hefur komist að þeirri niðurstöðu að vextirnir á Icesave-láninu séu of háir – eða það segir allavega í fréttum Moggans og RÚV. „Flokksgæðingar“ – sem er örugglega eitthvert Samfylkingarlið – þykjast að vísu hafa fundið út að lögfræðingarnir – eða réttara sagt lögfræðingurinn, sem heitir Michael Collins, færi engin rök fyrir þessum úrskurði og byggi hann ekki á neinskonar rannsókn. Og hin enska lögfræðistofan, Ashurst, minnist ekkert á þetta, kannski af því lögfræðingarnir þar eru ekki eins miklir hagfræðingar og Michael Collins hjá Mishcon de Reya. En svo er ekkert að marka hana, segir Sigmundur Davíð, af því þeir hjá Ashurst gáfu víst Svavari ráð þegar hann var að svindla yfir okkur þessum svakalegu samningum (það gerðu þeir að vísu líka hjá M. de R. en örugglega allt öðruvísi ráð).

Á hinn bóginn fannst mér þetta líka þegar Icesave-samningarnir komu fyrst, að vextirnir væru háir, og hef sýnilega haft svipaðar heimildir og Mikjáll Collins de la Mishcon de Reya. Þeir eru að vísu fastir, sem þýðir að þeir breytast ekki hvað sem aðrir vextir hreyfast. Það merkir að ef þeir eru eins fjallháir og við teljum, ég og Collins, þá ætti að vera tiltölulega einfalt að fá lán með betri kjörum þegar aðeins fer að rofa til og lánstraust Íslendinga eflist á ný. Það lán getum við þá notað til að borga upp Icesave-lánið, einsog við höfum rétt til hvenær sem vera skal.

Ef við skyldum nú ekki fá svona lán – ja, kynni þá ein af ástæðunum að vera sú að vextirnir séu kannski ekki eins háir og okkur Collins finnst?

Samkvæmt ofantöldum fréttum virðist ekkert nýtt að öðru leyti í álitsgerðum lögfræðistofanna ensku. Nema það sé nýtt fyrir einhverjum að þar er annað talið illmögulegt en að samþykkja samninginn. Stofan Mishcon de Reya býðst að vísu til að taka að sér málsókn af Íslands hálfu – án þess þó að nefna hugsanlega þóknun. Þann kost höfum við núna rætt í tæpa sjö mánuði samfellt, en jafnvel Sigmundur Davíð er hættur við. Og nú er mál sannarlega að linni.

Hvað kostuðu annars þessar álitsgerðir sem Sjálfstæðis- og FramsóknarHreyfingin pöntuðu  frá ensku lögfræðistofunum Ashurst og Mishcon de Reya?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Mörður, sástu þessa setningu í skýrslu Mischon De Reya…..

    „As can be seen from our advice above, the present Icesave Agreement is
    neither clear nor fair.“

    Væri ekki eðlilegt að fórna þessari Ríkisstjórn fyrir Ísland og þannig eiga möguleika að semja um nýjan Icesave samning með lægri vöxtum sem sparað gætu okkur og næstu kynslóð 150-300milljarða? Eða er ESB inngangan dýrmætari hja ykkar Flokki

  • Af hverju að borga 40 milljarða í vexti árlega næstu árin, bara til að geta svo endurfjármagnað lánið eftir nokkur ár? Væri ekki nær að senda almennilega samninga menn út, ekki Svabba Gests og Svindlriða að semja af sér? Semja strax um betri vexti. Hvert ár sem tikkar á þessum vöxtum þýðir nokkra milljarða, kannski tugi milljarða á ári. Af hverju að fresta á morgun því sem hægt er að gera í dag?

    Þessi ríkisstjórn virðist hafa það að sínu móttói að ryðja vandamálunum á undan sér og gera nákvæmlega ekki neitt.

    hvernig væri nú Mörður að skjótast niður á pöbb, styrkja sig á einum gráum, fara svo með félögunum niður í Þjóðleikhúskjallara og leggja á ráðin um eins og eina uppreisn í viðbót? Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

    Gleðileg skattajól.

  • Það er með ólíkindum hvað þessi vesæla ríkisstjórn hefur haldið illa á þessu máli frá upphafi til enda. Frá upphafi einn feluleikur og orðið að draga allt undan teppinu. Ég get ekki betur séð en alla vegana annað álitið sé þannig að þessi samningur sé afleitur með öllu og stórhættulegt fyrir þjóðina að taka þessar drápsklyfjar á sig á þessum kjörum.
    Ég held að þeir þingmenn sem samþykkja munu þennan samning og ef hann verður að lögum á þá muni sagan dæma þá illa fyrir þessi stóru mistök.
    Eg veit að þið ESB sinnarnir munuð allir greða atkvæði með þessum samningi og hefðuð helst viljað gera það strax. Fyrir ykkur helgar tilgangurinn einn meðalið og það er að koma okkur undir ESB stórríkið sem fyrst.
    Hvar er nú allt talið um lýðræði fólksins og að fólk eigi að fá að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslum.
    Verður kanski eins um ESB atkvæðagreiðsluna að þegar þjóðin hafnar ESB samningnum með afgerandi hætti að þá ætlar Samfylkingin að segja að þjóðaratkvæðagreiðslan sé ekki bindandi, eins og ykkur tókst að koma þessu fyrir.

    Mér fannst þú nú oft ágætur hér áður fyrr, en eftir að þú tókst ESB flensuna þá hefur þér hrakað í öllu og þú lepur allt upp sem gæti gagnast í því myrkraverki ykkar að koma þjóðinni með góðu eða illu inní ESB apparatið.

    Svei þér bara Mörður !

  • Sigurður #1

    Mörður gleymir einu, eða vill allavega ekki tala um það.

    Þetta er ekki venjulegt lán.

    Okkur er ætlað að bera allan vafa, og allan halla af öllum vafamálum.

    Það liggur hreint ekkert fyrir að okkur beri ða borga þetta yfir höfuð.

    En ríkisstjórnin vill borga þetta samt.

    Er sanngjarnt að Bretar fái ofan á allt annað miljarða í hreinann vaxtagróða, því þeim býðst hvergi í veröldinni svona ávöxtun á lánsfé sínu.

    Íslenska samninganefndin er ofan á allt annað að bjóða Bretum hærri ávöxtun á fénu en þeim býðst nokkursstaðar annarsstaðar???????’

    Ekki aðeins krefjast Bretar greiðslu skuldar, sem alls ekki liggur fyrir að við skuldum, heldur ætla þeir líka að græða nokkra umfram miljarða á vaxtatekjum.

    Þetta er staðreynd.

  • Eins og ævinlega fara menn fram í skjóli nafnleyndar hér á Eyjunni og segja fátt eitt annað en bull.
    Staðreyndirnar eru: Það voru íslendingar sem frömdu rán erlendis. Því var treyst að íslenskar eftirlitsstofnanir væru eitthvað annað en innantómar skeljar sem mannaðar væru bitlingum hagsmunagæsluflokkanna Íhalds- og Framsóknar. Svo var ekki.
    Þjóðin kaus þetta yfir sig í kosningum aftur og aftur og ber þannig ábyrgð á ósómanum. Þeir sem hæst hafa núna eru örugglega þeir sömu og völdu flokkana tvo hvað eftir annað.
    Foreldrar sitja uppi með ábyrgð á börnum sínum ef þau valda skaða: Íslensk þjóð situr uppi með skaðann af að hafa treyst Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, svona rétt eins og ýmsar aðrar þjóðir sitja uppi með skaðan af heimskupörum sinna leiðtoga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur