Þriðjudagur 29.12.2009 - 23:59 - 11 ummæli

Látnir auglýsa

Ætli ég sé einn um að þykja það óþægilegt þegar látnir menn gylla fyrir mér varning og þjónustu í auglýsingatímunum? Nú er flugeldasalan á fullu, og þá er endurflutt auglýsing sem Flosi Ólafsson las inn á fyrir löngu – nú eða kannski bara í fyrra – og maður hrekkur við: Hann Flosi, sem er alveg nýdáinn! Afhverju er hann látinn tala við mig um rakettur á gamlárskvöld? Á hann ekki bara skilið að fá að hvíla svolitla stund í friði? Nema heiðra hann fyrir það sem hann gerði best, sem varla voru þessar flugeldaauglýsingar fyrir salti í grautinn.

Svipuð tilfinning kom alltaf yfir mig við auglýsingar sem voru fluttar í mörg ár eftir að Helgi Skúlason dó – þegar sú blæbrigðaríka rödd hvatti mann einsog að handan til ýmissa hversdagslegra viðskipta.

Kannski er þetta vegna þess að báðir þessir leikarar töluðu til mín lifandi hvor með sínum hætti – og rödd tengslalauss manns mundu þá ekki fylgja nein ónot hvað sem hann væri nýdauður.

Nú má alveg halda því fram að leikur eða innálestur í auglýsingum sé hluti af æviverki leikara, og eigi þá að halda áfram að vera til einsog kvikmynd eða upptekið leikrit – enn eru til dæmis flutt útvarpsleikrit með öllum leikurum dánum, sem einmitt eru með þeim allra bestu, þar á meðal í flutningi Helga Skúlasonar og Flosa Ólafssonar. Og enginn hefur neitt á móti því að aðstandendur njóti verka hins fráfallna.

Samt er munur á auglýsingu og listaverki – og varðar markmið flutningsins, sem í tilviki auglýsingarinnar er oftast að hvetja almenning til að verja fé sínu auglýsandanum í hag. Þetta gerir vissulega gagn á markaði og getur vissulega verið gott fyrir neytendur. En viðskiptaeðli auglýsingarinnar – líka þeirra sem hjálpa björgunarsveitum við fjáröflun – er líklega það sem veldur ónotunum við Flosa og Helga í auglýsingum eftir andlát sitt. Röddin sem talar í auglýsingu er ekki bara góð rödd, þægileg, hvetjandi, glaðleg, hnyttileg, laðandi … heldur skapar hún persónuleg tengsl neytandans við hið auglýsta – er einskonar milligöngumaður áhorfanda eða hlustanda við heim auglýsingarinnar. Það er sargandi stílbrot þegar slíkur meðmælandi er óriftanlega dauður.

Kannski liggur ástæðan fyrir ónotunum ekki svona djúpt og er bara sú kennd að auglýsandinn sé að nota effektinn af athyglinni sem rödd látins manns hlýtur að vekja – reyna að græða peninga á nánum.

Vel má líka vera að mín ónot útaf þessu séu leifar annarra tíma, þegar línurnar voru skýrari – finnst manni núna? – milli raunveraldarinnar og sýndarheims auglýsinganna, og leikari í auglýsingu var bara að leika í auglýsingu en ekki að virkja velgengni á sviðinu eða skjánum til fjárhagslegs árangurs, einsog fyrir skömmu hefði verið sagt. Núna er einmitt algengast að hver rísandi stjarna nýti frægðina undireins til að efla fjárhaginn með auglýsingaleik eða -gerð, og sumar þeirra hafa reyndar verið með annan fótinn á auglýsingastofunum löngum stundum.

Svona skýrar línur eða skil hafa verið að hverfa síðustu ár og áratugi, milli listaverks og auglýsingar, einsog reyndar skilin milli auglýsinga og frétta og skemmtunar og auglýsinga og frétta og slúðurs og auglýsinga og umræðu og áróðurs.

Sumir segja sjálfsagt að sá samruni allur sé bara veröld ný og góð sem ekkert er við að gera – en á hinn bóginn var einmitt þetta líka sagt um allt það nýja og góða frá 2007. Okkur á ekki að vera sama.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Elísabet Brekkan

    ég er algerlega sammála þér Mörður með þessa raddmisnotkun nýlátinna manna. Jafnvel þó svo að einhverjir ættingjar njóti góðs af….bla það hlýtur að vera hægt að stunda þennan biussness með einhverri reisn með ósk um góða rest Elísabet Brekkan

  • Magnús Pálsson

    Leyfðu Flosa að lifa í verkum sínum. Það var fluttur þáttur í kvöld með gamanstefjum hans , m.a frá því fyrir 1970 sem en eiga við. Þar komu fram atriði og gagnrýni sem enn á við og hitta seinni tíma pólitíkusa fyrir. Ef til vill ert þú í þeim hópi? Vonum að ekkjan fái greitt fyrir flutninginn á þessu öllu. Það skemmir ekkert fyrir að mínu mati, þó Flosi auglýsi Landsbjörgu. Þjóðþrifastarfsemi, sem hann ákvað sjálfur að vinna fyrir.
    Farsælt komandi ár. (Trúir þú á álfasögur?)

  • Telemakkos

    Ég hélt að þú værir að skirfa um Andríkispiltana, sem eru „látnir auglýsa“ í Mogganum í dag gegn Icesave…

  • Vox Veritas

    …eða var það kannski í gær?

    Annars eru fleiri látnir leikarar „á ferli“ í aglýsingum, svo sem Rúrik Haraldsson og jafnvel Helgi Skúlason líka. Pétur heitinn Kristjánsson, söngvari, er einnig enn að birtast í auglýsingum.

  • Hallgerður Pétursdóttir

    Ég er þér mjög sammála eins og svo oft áður. Hugsa til fjöldskyldu þeirra sem kannski allt í einu heyra þetta.

  • Þú ert ekki einn á báti um þessa skoðun. Óviðfelldið.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Hjartanlega sammála þér – þetta stuðaði mig líka!

  • Bankasteikir

    Hörmungatímar.

  • Ólöf Snæhólm Baldursdóttir

    Sæll Mörður,

    við hér hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg veltum þessu líka fyrir okkur nú í aðdraganda flugeldasölu. Og eftir samráð við ekkju Flosa var ákveðið að nota þessar auglýsingar áfram, hún mátti ekki heyra minnst á annað. Veit ekki með skilgreiningar á verkum listamanna eða hvað sé list og ætla ekki út í hártoganir út af því hér.

    En ég get fullvissað þig um að aldrei kom upp sú hugsun hér innandyra að við myndum græða eitthvað á því að nota rödd látins manns. Þetta eru einfaldlega sömu auglýsingar og við höfum notað í áraraðir í góðri samvinnu við Flosa. Enda listilega lesið eins og hans var von og vísa.

    Og þetta er síður en svo einsdæmi eins og bent er á hér að ofan.

  • Endurance mills

    Þetta er tilboð frá Bretlandi, bjóðum við lán til allra hluta í heiminum, án Gar. mjög þægilega á lágu vextir 3%. Sækja um
    með okkur og meiri arðsemi með því að vinna með okkur. . umsóknir eru í boði á þeim tíma.! 3% Lán Tilboð (10.000 til 30 milljónir punda). Vinsamlega
    Hafðu samband …

  • Endurance mills

    Show romanization
    hans er fjármálaráðherra Lána Organization við að gefa út lán til allra sem þarfnast hjálpar. Ertu að leita að peningum til að borga reikningana? Viltu byrja eða stækkað fyrirtæki þitt? Eða þú þarft bara pening fyrir þörfum þínum, þá taka upp lán hér með mjög góðu vexti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur